07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4851 í B-deild Alþingistíðinda. (4123)

420. mál, fiskeldi

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það kann að hljóma undarlega að spyrjast hér fyrir á þingi um fyrirhugað frv. til laga um fiskeldi. En ástæðan er sú að það hefur margt verið boðað af þessari ágætu ríkisstj. en fátt hefur sýnt sig. Það er búið að boða alls konar frv. og frægustu dæmin eru náttúrlega þau frv. sem boðuð voru fyrir 18 mánuðum síðan og sáu loksins dagsins ljós fyrir um það bil 10 dögum. Það sem skiptir máli í þessu er að jafnvel þótt einungis sé búið að boða frv. og einhverjar tilteknar aðgerðir þá hafa þau áhrif. Þau hafa áhrif úti í þjóðfélaginu vegna þess að menn eru náttúrlega að reyna að spá í það í hvers konar skapi stjórnvöld séu hverju sinni þannig að þeir geti tekið þær ákvarðanir og gert þær ráðstafanir sem þeir telja sig þurfa í sínum atvinnurekstri. Þess vegna spyr ég um fyrirhugað frv. til laga um fiskeldi. Það hafa sem sé borist um það upplýsingar að landbrn. áformi að semja og leggja fram, og hafi raunar samið frv. til laga um fiskeldi.

Og þá fer ekki hjá því að það hríslist niður um bakið á manni ónotin vegna þess að þá spyr maður sig: Ætlar landbrn. nú að fara að búa til sams konar umgjörð um fiskeldi og því hefur tekist að búa til umgjörð um landbúnaðinn í þessu landi? Því hefur tekist að gera bændur að bónbjargamönnum. Einstakir bændur eru algjörlega áhrifalausir um eigin hag, þeir eiga allt undir því hvernig kjaftaklúbbarnir í Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagið reikna meðaltöl sín. Ég er hérna með frétt úr Morgunblaðinu frá 8. september 1980 af stéttarsambandsfundi. Þar segir, með leyfi forseta: „Skoraði fundurinn á landbrh. að beita sér fyrir lagasetningu sem stemmi stigu við slíkum verksmiðjurekstri í landinu og þar á meðal í fiskirækt.“ Það er verið að fjalla um stórvirkari aðferðir í landbúnaði.

Í annarri samþykkt fundarins er skorað á Alþingi, ríkisstjórn, Stéttarsambandið og Búnaðarfélagið að taka höndum saman um mótun markvissrar stefnu í fiskirækt og fiskeldi á sem breiðustum grunni sem tryggi hagsmuni bænda í þessari búgrein og verði þannig til að styrkja búsetu í dreifbýli. Þá verði þessari búgrein veittur sambærilegur stuðningur í leiðbeiningum og fjárframlögum og hefðbundnum greinum landbúnaðarins.

Þarna virðist sem sagt sá andi svífa yfir vötnunum 1980 að búa til sams konar ramma um fiskeldi eins og tekist hefur að búa til utan um landbúnað í landinu. Og þá setur hroll að manni. Það setur sérstakan hroll að manni vegna þess að það hefur sýnt sig að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélagið eru hið raunverulega landbrn. í þessu landi. Landbrn. sjálft er ekki annað en póstlúga eða í besta falli símaklefi sem tekur við fyrirskipunum frá þeim háu herrum. Við höfum ýmis dæmi um það hvernig staðið hefur verið að málum þar. Það hefur verið komið á þeim orðrómi að stórkostleg nýsköpun sé í gangi í landbúnaði og í það sé varið umtalsverðu opinberu fé. Hagfræðingur bænda sprengdi raunar þá loftbólu á ráðuneytafundi í vetur þar sem hann lýsti því yfir að í raun og veru hefði ekkert verið nýskapað í þessum greinum. Peningarnir sem verið er að verja í landbúnaði fara allir í gamla dótið. Þess vegna er ekki beinlínis björgulegt ef þetta sama landbrn., sem hefur staðið svona að brautryðjendastarfi í landbúnaði, ætlar að fara að taka að sér brautryðjendastarf í fiskeldi.

Nú virðist manni að landbrn. og jafnvel sjútvrn. hafi tekið eftir því að það eru stórir hlutir að gerast í fiskeldi í landinu, að þarna er villihestur á ferð utan girðingar og fer greitt. Menn grunar jafnvel að hann sé kannske á leiðinni í góða haga, að svo gæti farið að menn græddu meira að segja á fiskeldi. Og þá er náttúrlega um að gera að koma böndum á hann og koma honum inn í framsóknardilkinn til þess að hafa síðan í fullu tré við hann. Vegna þessara staðreynda tel ég nauðsynlegt að fá að vita hver markmið væntanlegs frv. um fiskeldi eru og hvert verði hlutverk landbrn. skv. því frv. Það er nauðsynlegt að vita um fyrirhugað hlutverk landbrn. í fiskeldi í landinu vegna þess að ég tel að landbrn. hafi reynst landbúnaðinum álíka vel og sláturhúsin reynast lömbunum á haustin. Ég held að það sé ekki björgulegt ef þetta rn. ætlar sér forgöngu í þessum málaflokki.