07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4939 í B-deild Alþingistíðinda. (4197)

451. mál, málefni Kísilmálmvinnslunnar

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hve miklu fé hefur verið varið til rekstrar skrifstofu Kísilmálmvinnslunnar hf. frá upphafi, þar með talinn kostnaður af viðræðum við hugsanlega erlenda meðeigendur?

2. Hver er núverandi starfsmannafjöldi Kísilmálmvinnslunnar hf.?

3. Hver er áætlaður rekstrarkostnaður Kísilmálmvinnslunnar hf. árið 1985?

Svar við 1. lið:

Starfsemi Kísilmálmvinnslunnar hf. hefur frá stofnun tekið mið af lögum nr. 70/1982 er samþykkt voru á Alþingi í maí 1982. Samkvæmt þeim var ríkisstjórninni heimilt að stofna hlutafélag er reisi og reki verksmiðju á Reyðarfirði til framleiðslu á kísilmálmi og hafi með höndum þá framleiðslu og skyldan atvinnurekstur. Um starfsemi félagsins segir svo í 3. gr. laganna:

„Í sambandi við hlutafélag samkvæmt 1. gr. er ríkisstjórninni heimilt að leggja fram allt að kr. 25 000 000 í hlutafé í félaginu á árinu 1983 og taka lán í því skyni.

Áður en ráðist verður í framkvæmdir við verksmiðjuna og hlutafé félagsins aukið skal stjórn félagsins gera eftirfarandi:

a. Undirbúa frekari hönnun verksmiðjunnar og leita tilboða í byggingu hennar og búnað.

b. Gera ítarlega áætlun um stofnkostnað og rekstrarkostnað, svo og nákvæma framkvæmda- og fjármögnunaráætlun, og gera aðrar þær athuganir er máli skipta.

e. Undirbúa samninga um orkukaup, tækniaðstoð og sölu afurða verksmiðjunnar eftir því sem þurfa þykir.

Stjórn félagsins skal gera skýrslu um starfsemi félagsins og athuganir og skal sú skýrsla lögð fyrir næsta Alþingi. Samþykki Alþingi niðurstöður skýrslunnar er ríkisstjórninni heimilt að leggja fram allt að kr. 200 000 000 í hlutafélag til viðbótar.“

Rétt er að fram komi að framangreindar upphæðir hlutafjár eru miðaðar við lánskjaravísitölu 1. mars 1982.

Í ársbyrjun 1983 sendi stjórn félagsins iðnaðarráðherra skýrslu um athuganir sem henni var falið að gera samkv. 3. gr. laganna. Var það niðurstaða stjórnarinnar að stefna bæri að gangsetningu verksmiðjunnar á tímabilinu 1986–1988 og miða bæri allan undirbúning við að fyrsti ofn verksmiðjunnar yrði gangsettur 1986.

Í febrúar 1983 lagði ríkisstjórnin fram þingsályktunartillögu þar sem lagt var til að Alþingi samþykkti skýrslu stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. Tillagan hlaut ekki afgreiðslu á þinginu. Í maí 1984 samþykkti Alþingi tillögu sama efnis og veitti ríkisstjórninni heimild til að taka ákvörðun um að reisa og reka kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð og leita samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild.

Í maí 1983 var gerður samningur við vestur-þýska fyrirtækið Mannesmann Demag sem tryggir verksmiðjunni allan helsta vél- og rafbúnað á hagstæðu verði og nauðsynlega tækniþekkingu til framleiðslu á kísilmálmi. Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis á niðurstöðum skýrslu stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. frá því í janúar 1983 og ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um aukningu hlutafjár félagsins.

Í mars 1984 var lokið forhönnun verksmiðjunnar. Stærð og gerð allra helstu bygginga verksmiðjunnar hefur verið ákveðin og þeim valinn staður á lóð verksmiðjunnar á Mjóeyri við Reyðarfjörð. Gerð, afkastageta og fyrirkomulag allra véla og,tækja verksmiðjunnar hafa einnig verið ákveðin. Á grundvelli forhönnunar og aðstæðna á byggingarstað hefur verið gerð stofnkostnaðaráætlun fyrir byggingu verksmiðjunnar.

Á árunum 1982–84 fóru fram á verksmiðjusvæði ýmsar athuganir og rannsóknir vegna væntanlegra mannvirkja, hafnargerðar og vatnsveitu. Í júlí 1983 hófust mengunarrannsóknir í nágrenni verksmiðjunnar og stóðu þær í eitt ár. Veðurfarsrannsóknir hófust í Október 1982 og stóðu þær í tvö ár. Hvorar tveggja framangreindra rannsókna voru framkvæmdar með tilliti til hugsanlegrar loftmengunar frá verksmiðjunni.

Frá stofnun félagsins hefur verið aflað ítarlegra upplýsinga um þróun markaðar og sölu á kísilmálmi og hefur í því sambandi verið leitað til og haft samband við fjölmarga aðila. Þá hefur verið unnið að því að tryggja verksmiðjunni hráefni af nauðsynlegum gæðum og fjölmörgum öðrum verkefnum er tengjast byggingu og rekstri verksmiðjunnar.

Skömmu eftir myndun núverandi ríkisstjórnar í maí 1983 ákvað iðnaðarráðherra, Sverrir Hermannsson, að eitt af verkefnum stóriðjunefndar yrði að leita eftir erlendum meðeigendum að Kísilmálmvinnslunni hf. Starfsemi félagsins hefur síðan mótast af þeirri ákvörðun. Hafa starfsmenn félagsins annars vegar viðhaldið þeim viðskiptasamböndum sem aflað hefur verið og fylgst með þróun markaðsmála og hins vegar starfað með fulltrúum stóriðjunefndar og stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. er haft hafa með höndum viðræður og samningaumleitanir við þá aðila er áhuga hafa sýnt á eignaraðild að fyrirhugaðri kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Hefur sú vinna, auk þátttöku í viðræðufundum og undirbúningi þeirra, verið meðal annars fólgin í því að kynna hinum erlendu aðilum ýmis tæknileg og fjárhagsleg atriði varðandi byggingu og rekstur verksmiðjunnar, gerð kynningarrita er varða rekstur verksmiðjunnar, úrvinnslu upplýsinga er fram hafa komið á fundunum og viðræðum við fulltrúa Landsvirkjunar um skilmála samnings um sölu raforku til verksmiðjunnar. Þá hafa allar áætlanir um byggingu og rekstur verksmiðjunnar nú nýverið verið endurskoðaðar með það markmið í huga að lækka stofnkostnað hennar og auka þannig arðsemi og bæta samkeppnisstöðu hennar.

Auk þess hefur Kísilmálmvinnslan hf. tekið að sér ákveðin verkefni fyrir stóriðjunefnd. Verði enn bið á því að framkvæmdir hefjist við byggingu verksmiðjunnar er til athugunar að fara í auknum mæli inn á þá braut að taka að sér ákveðin verkefni fyrir stóriðjunefnd eða aðra aðila er tengjast iðnaðarráðuneytinu og nýta þannig þá reynslu og þekkingu sem fjárfest hefur verið í hjá félaginu, meðan beðið er endanlegrar ákvörðunar um byggingu verksmiðjunnar.

Á árinu 1983 voru starfsmenn Kísilmálmvinnslunnar hf. fimm en þegar ljóst var í árslok 1983 að framkvæmdir hæfust ekki við byggingu verksmiðjunnar vorið 1984 var ákveðið að fækka starfsmönnum félagsins um tvo og létu þeir af störfum í apríl 1984.

Kostnaður við rekstur félagsins frá stofnun þess er eftirfarandi í krónum:

1982

1983

1984

Skrifstofa og almennur rekstur

1 665 000 :

6 105 000

4 508 000

Félagsstjórn

1 079 000

922 000

301 000

Hagkvæmnis- og markaðsathuganir

1 182 000

286 000

231 000

Rannsóknir á Reyðarfirði

627 000

1 948 0000

587 000

Aðkeypt vinna verkfræðistofa

2 291 000

12 970 000

3 910 000

Eignaraðildarviðræður

76 000

1 767 000

Samtals

6 943 000

22 307 000

11 304 000

Óinnkallað hlutafé í árslok 1984 var 11 000 000 kr.

Svar við 2. lið:

Núverandi starfsmenn Kísilmálmvinnslunnar hf. eru þrír, framkvæmdastjóri, verkfræðingur í fullu starfi og ritari í hlutastarfi.

Svar við 3. lið:

Áætlun um rekstur Kísilmálmvinnslunnar hf. árið 1985 gerir ráð fyrir því að rekstrargjöld félagsins verði alls 8 590 000 kr. og er þá ekki gert ráð fyrir neinum framkvæmdum á vegum félagsins. Skipting útgjalda er eftirfarandi:

Skrifstofa og almennur rekstur

kr.

4 780 000

Félagsstjórn

kr.

320 000

Markaðsathuganir

kr.

200 000

Rannsóknir á Reyðarfirði, lokagreiðslur

kr.

750 000

Aðkeypt vinna, verkfræðistofa

kr.

500 000

Eignaraðildarviðræður

kr.

2 040 000

Rekstrarkostnaður samtals

kr.

8 590 000