31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. 1. flm. þessarar till. um skipan rannsóknarnefndar til að rannsaka afskipti ráðherra af rekstri ólöglegra útvarpsstöðva hefur gert ítarlega grein fyrir tilgangi flm. með till. þessari og hef ég því ekki ástæðu til þess að fara jafnítarlega í efni málsins eftir að gerð hefur verið svo ágæt grein fyrir málinu.

Í frásögnum fjölmiðla af þessum málatilbúnaði hefur verið sagt að hér væri á ferðinni rannsóknarnefnd sem beint væri gegn rekstri hinna ólöglegu útvarpsstöðva og hún eigi að rannsaka lagalega hlið þeirra mála. Þetta er á miklum misskilningi byggt. Það er ekki aðalefni þessarar till. að rannsaka lögbrot tiltekinna útvarpsstöðva sem settar voru á stofn hér fyrir fáum vikum. Dómskerfið kom til skjalanna í þeim málum. Rekstur stöðvanna var stöðvaður og rannsókn var gerð á rekstri þeirra og síðan kemur það væntanlega í hlut dómstólanna að fjalla um þau mál.

Þessi till. fjallar ekki heldur um það hvort leyfilegt eigi að vera að setja upp aðrar útvarpsstöðvar en þá einu sem nú er leyfileg. Þessi till. snýst sem sagt alls ekki um það hvort svokallað frjálst útvarp eigi rétt á sér eða ekki. Það er allt önnur hlið málsins sem þessi till. fjallar um. Þessi till. fjallar fyrst og fremst um sérkennilega hlutdeild Sjálfstfl. og forustumanna hans að rekstri þessara útvarpsstöðva. Till. fjallar um þá sérkennilegu sögu sem nýlega gerðist þegar stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstfl., undir forustu nýkjörins formanns, Þorsteins Pálssonar, tók lögin í sínar hendur í nokkra daga. Þessi till. fjallar sem sagt um nokkuð fáheyrðan atburð í íslenskri sögu. Þetta er sagan um það þegar sett var upp sjóræningjastöð í húsi Sjálfstfl. á ábyrgð forustumanna flokksins ásamt stöð sem rekin var af einu af stærri dagblöðum landsins. Þetta er sagan um það þegar fulltrúar Sjálfstfl. í útvarpsráði gerðu það sem þeir gátu til þess að koma í veg fyrir á sama tíma að útvarpið tæki aftur upp starfsemi sína, að aftur heyrðist í útvarpinu. Og þetta er sagan um það þegar ráðh. sama flokks reyndu á sama tíma með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi að koma í veg fyrir að lögum væri haldið uppi í landinu. Þetta er sagan um það þegar hæstv. menntmrh. þjóðarinnar, æðsti yfirmaður Ríkisútvarpsins, lýsti því opinberlega yfir að ástæðulaust væri að gera neitt í málum þessara ólöglegu stöðva fyrr en verkfalli lyki. Þetta er sem sagt sagan um það þegar Sjálfstfl. og forustumenn hans reyndu að tryggja að þessar sjóræningjastöðvar, sem voru sérstaklega á ábyrgð og undir forsjá forustumanna flokksins, kæmu í staðinn fyrir sameiginlegt útvarp allra landsmanna.

Meginstaðreyndir þessa máls liggja nokkuð ljóst fyrir. Það liggur fyrir að ólögleg útvarpsstöð var rekin í húsi Sjálfstfl. og það dregur enginn í efa að það hafi verið gert með vitund og vilja forustumanna flokksins, þar á meðal vitund og vilja ráðh. flokksins og formanns hans. Það liggur líka fyrir að einn af þm. flokksins, hv. þm. Ellert Schram, bar sérstaka ábyrgð á stöð sem rekin var á vegum dagblaðsins DV. Það liggur líka fyrir og er viðurkennt af hæstv. fjmrh. að hann hafi hindrað löggæslumenn í starfi og gert það sem í hans valdi stóð til þess að koma í veg fyrir að lögbrotin væru stöðvuð.

Ég ítreka að það er ekki aðalatriði þessa máls hvort menn litu þessi lögbrot allir eins alvarlegum augum eða ekki. Það er ekki kjarni málsins hvort menn telja að leyfa ætti svokallaðan frjálsan útvarpsrekstur. Það er ekkert atriði í málinu, ekki í því máli sem hér er verið að ræða. Það eru lögbrotin sem slík, ótvíræð lögbrot, sem eru auðvitað aðalatriði og aðild alþm. og forustumanna Sjálfstfl. að þessum lögbrotum sem skiptir hér mestu máli.

Eins og ég gat um áðan er þáttur hæstv. menntmrh. mjög sérstæður og er nauðsynlegt að festa í þingtíðindum hvað um þátt þess ráðh. var sagt í Ríkisútvarpinu. Föstudaginn 13. okt. 1984 las fréttamaður útvarpsins svohljóðandi pistil, sem ég ætla að flytja hér, með leyfi forseta:

„Fréttastofan hafði samband við Þórð Björnsson ríkissaksóknara í dag, sem sagði að sér hefði borist kæra í gær,“ þ.e. frá útvarpsstjóra, „málið væri í athugun og reynt yrði að vanda til þeirrar athugunar. Annað kvaðst ríkissaksóknari ekki geta sagt að svo stöddu.

Fréttastofan hafði einnig samband við Jón Helgason dómsmrh. Hann sagðist hafa fengið upplýsingar um að samgrn. hefði fengið skýrslu um málið og sér hefði verið tjáð að útvarpsstjóri hefði kært þetta til ríkissaksóknara. Sjálfsagt mundi Landssíminn halda áfram athugun á þeirri hlið sem að honum sneri.

Einnig hafði fréttastofan samband við Matthías Bjarnason samgrh. Hann sagði að Landssíminn annaðist öll fagleg mál fyrir Ríkisútvarpið, en að öðru leyti heyrði það ekki undir samgrn. Matthías Bjarnason sagðist ekki ætla að ganga fram fyrir skjöldu í þessu máli nema menntmrn. færi fram á það. Þá yrði það gert.

Fréttastofan hafði í kvöld samband við Ragnhildi Helgadóttur menntmrh. Hún sagði að það væri svo margt aðhafst ólögmætt þessa dagana að það yrði að skoða það í heild þegar verkfallinu lyki.“

Þessi saga er með því ótrúlegasta sem gerst hefur í íslenskri pólitík um margra áratuga skeið. Þegar þjóðin öll hefur orðið vitni að lögbrotum sem framin eru daglega og samgrh. er spurður álits á því hvað hann vilji gera í málinu, þá lýsir hann því yfir að hann ætli ekkert að gera nema menntmrn. fari fram á það og vísar sem sagt málinu frá sér til samráðh. síns úr Sjálfstfl., hæstv. menntmrh. Hæstv. menntmrh. segir upp í opið geðið á allri þjóðinni... (Menntmrh.: Þá var búið að kæra málið.) Þá er búið að kæra málið. En hæstv. menntmrh. segir upp í opið geðið á allri þjóðinni að það sé ekki ástæða til þess að aðhafast neitt sérstaklega í þessu máli fyrr en verkfallinu lyki, þá væri kannske eðlilegt að skoða það nánar. Þetta er það sem felst í þeim orðum sem hæstv. ráðh. sagði. (Gripið fram í.) Ég held að ég þurfi ekki að endurtaka þau orð sem höfð voru eftir hæstv. ráðh. Þau fela þessa meiningu alveg augljóslega í sér og þarf held ég býsna snjalla tungu til að flækja þau orð á annan veg því að meiningin kemur býsna skýrt fram.

En á sama tíma og þetta var að gerast urðu miklar umræður um það hvort ekki væri nauðsynlegt að opna Ríkisútvarpið að nýju með einum eða öðrum hætti og þá er kannske komið að ótrúlegasta þætti þessa máls vegna þess að rekstur hinna ólöglegu útvarpsstöðva hafði einmitt verið rökstuddur með því að þjóðin þyrfti á fréttaflutningi að halda. En þegar kemur að umræðum í útvarpsráði um það hvort ekki eigi að verða við þeim tilmælum, sem fram höfðu komið, að daglegar fréttir séu fluttar tvisvar sinnum á dag til þess að tryggja öllum landsmönnum aðgang að daglegu fréttaefni til að tryggja öryggi í landinu, þá bregður svo við að fulltrúar Sjálfstfl. í útvarpsráði eru þessu ekki samþykkir. Og hverjir voru fulltrúar Sjálfstfl. í útvarpsráði? Þar var enginn annar á ferðinni en aðstoðarmaður menntmrh., Inga Jóna Þórðardóttir, og raunar annar af forustumönnum Sjálfstfl., Markús Örn Antonsson. Það liggur fyrir skv. heimildum um umræður í útvarpsráði, þar sem þessi mál voru rædd, að fulltrúar Sjálfstfl. þvældust mjög greinilega fyrir því að ákvörðun yrði tekin um að opna útvarpið að nýju. Þau lýstu sig beinlínis andvíg því að það yrði gert, greiddu í öllu falli ekki fyrir málinu og greiddu ekki atkv. með því að fréttir yrðu fluttar. Það er sérstök ástæða til þess að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort það hafi kannske verið að ráðum menntmrh. að aðstoðarmaður hans tók þessa afstöðu í útvarpsráði og hvort ekki sé greinilega nokkurt samhengi á milli þessara þriggja meginstaðreynda málsins, í fyrsta lagi þess að Sjálfstfl. stóð fyrir rekstri sjóræningjastöðvar í húsi sínu, í öðru lagi að ráðherrar urðu seinir til að halda uppi lögum í landinu og menntmrh. lýsti því beinlínis yfir að hann teldi ekki sérstaka ástæðu til að grípa í taumana og svo þessarar þriðju staðreyndar að aðstoðarmaður menntmrh. og annar fulltrúi Sjálfstfl. í ráðinu, Markús Örn Antonsson, reyndu hvað þeir gátu að koma í veg fyrir að útvarpið yrði opnað á nýjan leik. — Þess má svo geta í sviga að hæstv. menntmrh. átti þess kost að verðlauna fulltrúa Sjálfstfl. í útvarpsráði, Markús Örn Antonsson, fyrir framgöngu hans í þessu máli, er hann reyndi að koma í veg fyrir að útvarpið yrði opnað á nýjan leik, með því að veita honum útvarpsstjórastöðuna sjálfa fáeinum dögum síðar.

Í þessu máli hafa hin furðulegustu rök komið fram. Við höfum hlýtt á fulltrúa Sjálfstfl. bera fram þau rök að útvarpið hafi brugðist skyldum sínum, útvarpið hafi skyldum að gegna gagnvart þjóðinni, eins og enginn mun neita, en útvarpið hafi brugðist þeim skyldum sínum og þá hafi verið réttlætanlegt fyrir hvern og einn í þjóðfélaginu að fremja það lögbrot að setja upp ólöglegar útvarpsstöðvar. Ég verð nú að segja að fólk sem leyfir sér að standa upp hér á Alþingi og hafa uppi málflutning af þessu tagi er svo sannarlega illa hæft til þess að gegna skyldum sínum í ráðherraembætti - eða hvað á að segja um aðrar þær stofnanir ríkisins sem hafa einkarétt í störfum sínum? Við skulum taka t.d. þá ágætu stofnun, sem ég veit að allir telja ekki mjög ágæta, en ég er út af fyrir sig ekki svarnastur andstæðingur við, þ.e. Áfengisverslun ríkisins, sem heyrir undir fjmrh. Þegar starfsmenn Áfengisverslunarinnar gera verkfall má vissulega með nokkrum rétti segja að Áfengisverslunin bregðist þeirri skyldu sinni að sjá þjóðinni fyrir áfengi. (Gripið fram í: Neyðarástand.) Þá skapast neyðarástand hjá mörgum, ekki öllum. Ég veit að það eru ekki allir hv. þm. sem telja að slíkt sé neyðarástand. En þá skapast neyðarástand vafalaust að dómi sumra. Og er þá ekki neyðarrétturinn nærtækastur? Er ekki með sömu rökum hægt að halda því fram að hver og einn hafi þá rétt til þess að setja upp sína áfengisverslun, flytja inn áfengi frá útlöndum, úr því að Áfengisverslunin bregst þeirri skyldu sinni að sjá um að sá innflutningur eigi sér stað og annast síðan dreifinguna til neytenda? Nákvæmlega sama má auðvitað segja um Póst- og símamálastofnunina. Má ekki segja að sú stofnun, sem hefur einkarétt á dreifingu pósts hér á landi, bregðist skyldum sínum og hver og einn hafi þá út frá neyðarréttarsjónarmiði heimild til þess að hefja póstdreifingu?

Í sambandi við þennan ömurlega málflutning, sem ýmsir hæstv. ráðherrar hafa leyft sér að hafa uppi gerðum sínum til stuðnings, mætti líka spyrja: Hvernig verður með starfsmenn hugsanlegs frjáls útvarps? Eiga þeir ekki að hafa verkfallsrétt? Er ekki hugsanlegt að verkfall yrði gert í þessum stöðvum, sem ætlunin er að koma upp, eða er það hugsunin að starfsmenn þessara stöðva geti engan verkfallsrétt haft þannig að ekki geti orðið verkfall hjá þessum stöðvum?

Ég vil að endingu segja um þetta mál, því að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það frekar en búið er að gera hér af 1. flm. málsins, að handhöfum framkvæmdavaldsins sem sitja í ríkisstj. er sérstaklega trúað til þess af Alþingi að gæta laga og réttar í þjóðfélaginu og það er því mjög alvarlegt, með því alvarlegasta sem getur komið fyrir í einu þjóðfélagi, þegar handhafar þess réttar, ráðherrarnir sjálfir, gegna ekki þeirri frumskyldu sinni, að ég tali nú ekki um þegar þeir svo leyfa sér að koma fram fyrir almenningssjónir og hvetja til lögbrota eins og var í þessu tilviki. Ég tel því að till., sem flutt hefur verið um rannsókn þessara mála, sé mjög nauðsynleg.

Ég hjó eftir því áðan að hv. þm. Tómas Árnason taldi þessa till. ekki eðlilega og komst svo að orði undir lok sinnar ræðu að eðlilegast væri að láta dómstólana rannsaka mál af þessu tagi. Það er greinilegt að hv. þm. hefur ekki kynnt sér mikið efni þessara till. því að ég veit að ef hann gerði það mundi hann sem lögfræðingur vita að lögum skv. er ekki hægt að fela dómstólunum að rannsaka mál af því tagi sem hér er um að ræða. Það er ekki dómstólanna að rannsaka embættisathafnir ráðherra. Embættisathafnir ráðherra, þegar grunur leikur á um lögbrot, eru skv. stjórnarskrá landsins og lögum rannsakaðar af sérstökum rannsóknarnefndum skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Komist Alþingi síðan að þeirri niðurstöðu, eftir að rannsóknarnefnd hefur skilað áliti, eftir að hún hefur rannsakað málið, að ráðherrar séu tvímælalaust sekir um lögbrot eða um refsivert athæfi, þá er það Alþingis að ákveða endanlega hvort um frekari málarekstur verður að ræða og þá getur Alþingi hugsanlega valið þann kostinn að vísa málinu til dómstóla. En þá eru það ekki hinir almennu dómstólar sem fjalla um málið, heldur landsdómur. Sem sagt: hér hafa flm. valið þá einu löglegu leið sem fær er til þess að þetta mál fái eðlilegan gang og verði rannsakað með löglegum hætti.