08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4967 í B-deild Alþingistíðinda. (4210)

363. mál, lagmetisiðnaður

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Áður en ég varð þm. teiknaði ég hús. Það er mjög skemmtilegt starf að teikna hús. Þó eru ákveðin vandamál því samfara og einn höfuðvandinn í þessu starfi eru viðskiptavinirnir. Viðskiptavinirnir gera ýmsar kröfur til manna sem selja þeim þjónustu og óþægilega mikill hluti af starfstímanum fer í að semja við þessa viðskiptavini og ná samningum við þá sem viðunandi eru fyrir báða aðila.

Frv. eins og það sem hér er verið að fjalla um bendir mér á ákveðna leið fyrir mig sem arkitekt og þá starfsstétt sem ég áður tilheyrði. Við tökum okkur einfaldlega saman, félagar þessarar starfsstéttar, og biðjum ríkisstj. um að semja fyrir okkur við þessa óþægilegu viðskiptavini. Að vísu breytast starfsaðstæður okkar nokkuð við þetta nýja fyrirkomulag þar sem yfirvöld eru þar með, er þau undirgangast þá skyldu að semja við okkar viðskiptavini, farin að taka ábyrgð á afkomu okkar, þ. e. arkitektanna. En skv. hefðinni, því að sölustofnun lagmetisins er ekkert einsdæmi í þessu þjóðfélagi, hlýtur ríkisstj. að hljóta yfirvöld að vera reiðubúin til þessa verks ef bornar eru fram þær einföldu og afskaplega skiljanlegu röksemdir að samningagerð við þessa viðskiptaaðila verði miklu flóknari og erfiðari þegar hver og einn er að semja fyrir sig en þegar ríkisstofnun semur skv. lögum í eitt skipti fyrir öll við alla viðskiptavini þessarar starfsstéttar.

Hér er ég að yfirfæra röksemdafærsluna fyrir þessum lögum yfir á verksvið og atvinnulíf á öðrum vettvangi eingöngu til að reyna að gera grein fyrir því hvers vegna ég fyrir mitt leyti er á móti löggjöf af þessu tagi, er á móti því að ríkisvald þurfi að skipta sér af hlutum sem þessum.

Menn hafa komið fram með þær athugasemdir og þær röksemdir fyrir þessu frv. að með þessu móti náist betri samningar við Rússana og austantjaldslöndin en ella. Það kann vel að vera, en samt sem áður getur enginn sannfært mig um að þessir samningar næðust ekki með þeim hætti að einhver einn aðili fyrir hönd þessara samtaka, án þess endilega að hann væri opinber starfsmaður skipaður með lögum, semdi fyrir þau. Eina krafan sem gerð er þar með er einfaldlega sú að aðilar í þessari framleiðslu komi sér saman, milli þeirra ríki samkomulag án þess að þeir séu beinlínis hnýttir saman með löggjöf, handjárnaðir saman. Fáránlegasta röksemdin í þessu er sú þegar það er borið á borð fyrir mann að handjárnun þessara samtaka verði til að þeirra eigin beiðni: Við strákarnir getum ekki komið okkur saman. Viltu því setja á okkur lög? Megum við fara í steininn? — Þess vegna get ég ekki annað en verið á móti þessari löggjöf og mun því styðja nál. hv. 6. landsk. þm.