08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4973 í B-deild Alþingistíðinda. (4217)

292. mál, tollskrá

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það mun rétt vera að ég hafi kvatt mér hljóðs um þetta mál á fundi Ed. fyrir skemmstu, en nú er þó liðinn svo langur tími síðan að ég var búinn að gleyma því. Það er minni þörf fyrir mig að fjölyrða um frv. þar sem ég hef gert ráð fyrir því að frv. okkar Alþb.-manna um hliðstætt efni komi til umræðu á fundi deildarinnar í dag, en segja má að meginefni þess frv. falli í sama farveg og efni þessa frv.

Efni frv. sem hér er til umr. er í sem skemmstu máli það að fella alfarið niður tollfríðindi þau sem ráðh. hafa notið samkv. tollalögum. Ég þarf tæpast að taka það fram, miðað við málflutning minn í þessum efnum fyrr og síðar, að ég er alfarið samþykkur þessu frv. Ég vil líka láta það koma hér fram að meðan ég var í fjmrn. var þessu ákvæði tollalaga aldrei beitt og aldrei veitt heimild til niðurfellingar tolla samkv. því.

Nú hefur það gerst í þessu máli að hæstv. fjmrh. hefur gefið út reglugerð þar sem gert er ráð fyrir að tollaívilnanir þessar falli niður, en tekið sé upp það skipulag, sem þó hefur stundum áður verið og var í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar og stjórnar Gunnars Thoroddsens, að menn eigi kost á að velja milli þess að fá bíl í eigu ríkisins annars vegar og hins vegar að reka eigin bíl, en fá þá einungis reksturinn og afskriftir hans greidd af ríkinu. Ég tel að útgáfa þessarar reglugerðar sé framfaraspor og fagna því að þetta skuli hafa verið ákveðið. En ég vil láta það koma skýrt fram, og það var þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs á sínum tíma þegar frv. þetta var til umr., að eftir sem áður er full ástæða til að afnema þetta ákvæði úr lögum. Það er í lögum og þrátt fyrir útgáfu reglugerðar um þessi mál heldur það áfram að vera í lögum. Það þarf ekki annað en að nýr ráðh. gefi út nýja reglugerð og þá er þessi heimild vakin upp á nýjan leik.

Ég hef heyrt því fleygt sem andmælum gegn þessu frv. að hæstv. fjmrh. hyggist leggja fram frv. um tollskrá og þar verði þetta heimildarákvæði endanlega afnumið og það er vissulega ágætt. En þetta frv. um tollskrá er ekki enn fram komið og raunar alveg óvíst hvort það hlýtur afgreiðslu í ríkisstj. og hjá stjórnarflokkunum og á Alþingi á þessu vori. Með hliðsjón af þessu er ég því eindregið hlynntur að það frv. sem hér er nú til umr. verði samþykkt.

En eins og ég hef þegar tekið fram höfum við Alþb.menn flutt frv. sem felur í sér þetta atriði einnig, en raunar tvö önnur atriði þannig að það er öllu víðtækara en þetta frv. Það lýtur sem sagt einnig að fríðindum bankastjóranna og gerir raunar grundvallarbreytingu á kjarasamningamálum þeirra. Það er þó ekki ástæða til að ræða það fyrr en það verður hér á dagskrá. En ég vildi láta það koma skýrt fram að ég er hlynntur þessu frv., tel mjög þarft að það sé samþykkt hér og raunar óhjákvæmilegt ef við eigum að losna við þessa lagaheimild að fullu og öllu.