09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5083 í B-deild Alþingistíðinda. (4361)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hvert einasta atriði í því sem fram kom í umfjöllun okkar hér fyrr í kvöld um þetta frv. og um ástand húsnæðismála stendur óhaggað eftir ræðu hæstv. félmrh. Hvort sem hann vill nú þiggja það eða ekki á hann óskipta samúð mína, þó að samúð mín sé að vísu öllu meiri og reyndar miklu meiri með fórnarlömbum þessa kerfis. Staðreyndirnar í málinu eru þessar: Vegna þess að búið er að taka vísitölukerfi launa úr sambandi en lánskjaravísitalan heldur áfram að mala, vegna þess að hún mælir hækkun framleiðslukostnaðar með tvöföldu vægi, m. a. þegar ríkisstj. hækkar verð á brennivíni eða minnkar niðurgreiðslur, þá eru eftirstöðvar af lánum mannsins sem tók lánið 1982 að hækka. Vegna þess að ríkisstj. hefur hækkað raunvexti umfram verðbólgu óheyrilega, þá er búið að leggja á þetta fólk skattbyrði umfram launaþróun sem samsvarar 2.5 milljörðum króna. Þetta frv. er aðeins klór í bakkann, það viðurkenndi hæstv. ráðh. Hann er alltaf að tala um einhver önnur mál. Það er búið að lofa málum sem eiga að snerta aðra meðferð skattfrádráttar húsbyggjenda. Það gufaði upp í ríkisstj. Það er búið að lofa og hæstv. ráðh. er margsinnis búinn að lýsa því yfir að hann sé ósamþykkur vaxtastefnu sinnar eigin ríkisstj. Reyndar hafa þeir framsóknarráðherrar a. m. k. þrjár skoðanir í vaxtamálum, en það gerist ekki neitt. (Gripið fram í: Þetta er nú vegna vaxtastefnu kratanna.) Það eru ósannindi og það ætti hv. þm. að vita. Það er sitt hvað verðtrygging á sparifé, sem ekki er lengur deilt um hér í þessu þjóðfélagi nema af einstökum afdalamönnum sem ekkert skilja, eða sú ránskjaravísitala sem þessi ríkisstj. stendur fyrir. Og það er vitað mál og yfirlýst að hæstv. félmrh. segist vera á móti þessari vaxtastefnu. Hæstv. forsrh. segist hafa verið plataður til að fallast á þessa stefnu. En eftir stendur að það er þá einhver annar sem ræður ferðinni. Heitir hann kannske Jóhannes Nordal? Hver hefur kosið hann? Er það satt að hans heilagleiki hafi kallað ráðh. félagsmála á sinn fund niður í Seðlabanka til að segja honum að hann eigi ekki að fjalla um mál sem hann hafi ekki vit á? (Gripið fram í: Það var Gylfi sem kaus hann.) Það gildir einu hver kaus hann en það er kominn tími til að setja hann af. (Gripið fram í: Þú varst að spyrja að því áðan.) Nei. Kjarni málsins er þessi: Tveir og hálfur milljarður kr. sem búið er að leggja á þetta fólk umfram kaupgjaldsþróun. Hæstv. forsrh. segir að þetta séu mistök. Því miður er ekki hægt að taka þá fullyrðingu góða og gilda vegna þess að þetta eru ekki mistök, þetta er stjórnarstefnan sjálf. Það hefur legið hér á borðum þm. frv. frá Alþfl. síðan 1981 um að leysa þetta mál. Þessi vandi væri ekki til ef þetta frv. hefði verið samþykki, svo einfali er það. Og hvað ætlar hæstv. ráðh. að gera? Jú, hann er að boða hér að það eigi að borga til baka pínulítið brot. Það fást ekki nefndar tölur í því sambandi, það veit það enginn. En það hafa verið nefndar tölurnar 300 millj. upp í þennan reikning upp á 2.5 milljarða. Og vankantana á frv. höfum við tíundað.

Viðmiðunin er röng og þetta kemur ekki að gagni ef svo skyldi nú fara, sem er orðið óhjákvæmilegt, að launaþróun breytist. Þ. e. ef laun hækka þá eru þessar ráðstafanir fyrir bí. Öli loforðin, ég tala nú ekki um loforðin fyrir kosningar. Eftir stendur að aldrei hafa jafnfáir menn logið jafnmiklu að jafnmörgum á jafnskömmum tíma. Og það eru staðreyndir. Hvar er nú séreignastefna Sjálfstfl? Staðreyndin er sú að það er unga fólkið á Íslandi, sem er búið að úthýsa, sem getur ekki byggt. Það er sem sagt nákvæmlega það fólk sem er búið að úthýsa. Menn hafa verið að stæra sig af 80% íbúðareign á Íslandi. Hún er að koma niður í 65% vegna þess að aldurshópurinn undir þrítugu ræður ekki lengur við þetta verkefni. Maðurinn sem tók lánið 1982 gerði ráð fyrir því skv. ráðgjöf síns bankastjóra að afborganir og vextir tækju tveggja til þriggja mánaða laun. Hann stendur nú frammi fyrir því að það tekur ellefu mánaða laun. Svo segir hæstv. ráðh.: Efnahagsástandið, hafa menn ekki áttað sig á því hvað efnahagsástandið er slæmt og það er ekki hægt að gera jafnmikið í svona slæmu efnahagsástandi? — Jú, menn hafa heldur betur áttað sig á því. En bæði er að hæstv. ráðh. vill telja að efnahagsástandið sé nú bara orðið ansi gott, hann segist vera búinn að fá skýrslu um að hægt sé að útvega unglingum vinnu í sumar. Þurfti nú enga skýrslu til. Það er vitað mál að það vantar 1500 manns í fiskiðnað á Íslandi. Hvers vegna vantar 1500 manns í fiskiðnað á Íslandi? Það er vegna þess að þessi atvinnugrein, sem er undirstöðuatvinnugrein, gjaldeyrisöflunargrein þjóðarinnar, greiðir slík hungurlaun að fólk fæst ekki í þessa vinnu. Þarna er kannske eitthvert hraðþjálfaðasta fólk í landinu. Það liggja fyrir yfirlýsingar um að við töpum einum milljarði í útflutningsverðmætum á því að í sumarleyfistíma þessa fólks, þegar unglingarnir fylla frystihúsin, þá getum við ekki unnið þessa vöru í dýrustu pakkningar og töpum þar einum milljarði.

En efnahagsástandið á Íslandi, hvernig er það, hæstv. félmrh.? Það er nefnilega málið sem snertir spurninguna sem verið var að fjalla um. Hver er geta okkar til að standa undir þessu kerfi? Efnahagsástandið hér á Íslandi er þannig að við erum skuldugasta þjóð í heimi. Efnahagsástandið á Íslandi er þannig að tveir fiskar af hverjum fjórum fara í það að standa undir vöxtum og afborgunum af öllu lánasukkinu sem framsóknaráratugurinn hefur skilið eftir sig. Efnahagsástandið er þannig að það er 10 milljarða gat hjá hæstv. fjmrh. Það er 1 milljarður á fjárlögum í halla. Það er 3 milljarða nettóaukning á erlendum lánum, þar á meðal 400 millj. sem hæstv. ráðh. ætlar að taka í erlendum lánum í húsnæðismál sem er fjárhagslegt ábyrgðarleysi og heimska og ætti að banna með lögum. Það er 5–6 milljarða viðskiptahalli. Það er verið að fleyta þessu þjóðfélagi á því að auka enn þá innstreymi erlendra lána. Það er verið að hæla sér af því að við höldum uppi atvinnu. Hvernig höldum við henni uppi? Tölurnar sem hæstv. ráðh. nefndi um það að framlög hefðu verið stóraukin af hálfu ríkisins í húsnæðismálakerfið. eru þær réttar? Hæstv. ráðh. var að nefna tölur sem eru upp úr þeirri lánsfjáráætlun og þess vegna tillögum með lánsfjárlögum sem enn í dag er ekki búið að samþykkja en átti að fjalla um samhliða fjárlögum skv. lögum á síðastliðnu hausti. Þau lánsfjárlög fela í sér aukningu á erlendum lánum upp á 3 milljarða. þvert ofan í loforð ríkisstj. um að stöðva slíkt innstreymi af erlendu lánsfjármagni. Hvaðan koma peningarnir í húsnæðislánakerfið sem hæstv. ráðh. var að hæla sér af? Hvað geta húsbyggjendur byggt mikið fyrir þau lánsfjárloforð sem ekki er búið að samþykkja? Hæstv. ráðh. talaði sjálfur um skyldusparnaðarkerfið. Það er neikvætt annað árið í röð, um tæpar 100 millj. Og hv. þm. Steingrímur Sigfússon virðist ekki gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt það mál er.

Menn eru búnir að tala um þetta. Hvað ætlar hæstv. ráðh. að gera í því máli? Velta vöngum? Leggja fram tillögur í ríkisstj.? Skipa nefnd? Svo gerist ekki neitt. Allt það sem á að heita tekjustofnar húsnæðislánakerfisins er orðið að útgjaldaliðum, eins og hæstv. ráðh. er fullkunnugt um. Atvinnuleysistryggingasjóður á að leggja fram fé, það er núll annað árið í röð. Skyldusparnaður á að leggja fram fé, það er neikvætt upp á 100 millj. annað árið í röð. Og nú er svo komið að aðaltekjustofninn, hálfþvinguð skuldabréfakaup frí lífeyrissjóðunum, verða sennilega neikvæð í fyrsta sinn í ár. Það er að segja, það er búið að vísa lánasjóðunum svo lengi á lánamarkað. þeir eiga að taka lán til þess að standa við loforð til húsbyggjenda. Þessi lán eru kannske til 15 ára og eru á miklu hærri vöxtum en svo er lánað út. Þessi vaxtamunur, þessi lánstímamunur er búinn að eyðileggja fjárhag byggingarlánasjóðanna. Hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir geti staðið undir þessu í framtíðinni eru rangar.

Það er engin önnur lausn til í þessu máli en að stórauka framlög til húsnæðislánakerfisins af fjárlögum. Og þá spyr hæstv. ráðh., maðurinn sem hefur þvælst um landið til þess að segja þjóðinni hvað eigi að gera og það er rétt hjá ráðh., það hefur maðurinn gert. Hverjar eru hans tillögur? Ég tíundaði það í ræðu minni hér áðan. Það þarf 3.5 milljarða að lágmarki í beinum framlögum á fjárlögum ef hægt á að vera að standa við þau loforð sem hæstv. ráðh. er búinn að gefa þjóðinni en stendur ekki við. Hvaðan á að taka peninga, 3.5 milljarða? Ég tíundaði það. Í fyrsta lagi: Skila aftur launaskattinum sem þeir félagar Svavar og Ragnar tóku af húsnæðislánakerfinu í byrjun árs 1980 og er upphafið að ógæfuþróuninni. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði: Gjarnan hefði ég viljað sjá flokkinn minn taka til hendinni. Gjarnan. og í annan stað er ekki önnur lausn en að afla tekna inn í kerfið. — Þetta er alveg laukrétt hjá hv. þm., alveg laukrétt. Það er bara ástæða til að fagna því ef Alþb. gerir sér núna ljóst að þessi grundvallarákvörðun félags- og fjmrh. í síðustu ríkisstj. um að taka markaða tekjustofna lánakerfisins úr sambandi og nota þá í ríkissjóð, hún var röng. Hún hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að lánasjóðunum var vísað á dýran lánamarkað með þeim afleiðingum að byggingarsjóðirnir eru núna komnir á hausinn. Þeir skulda núna lífeyrissjóðunum einum, báðir tveir, 3.3 milljarða kr. Þess vegna er núna tekjustofninn, sem átti að vera núna orðinn neikvæður. Það er meira borgað út til baka af þessum dýru og óhagstæðu lánum heldur en kemur inn. M. ö. o., hæstv. félmrh. situr uppi með það, ef hann ætlar að standa við loforðin að óbreyttri efnahagsstefnu þessarar ríkisstj., að taka erlend lán. sem er auðvitað gersamlega útilokað mál. Við höfum sagt: Skilið þið aftur launaskattinum. hækkið þið hann um 1%. Þar er milljarður. Leggið þið eignarskattsauka á skattsvikinn verðbólgugróða braskaranna. Þar er milljarður. Það liggur fyrir hér till. á þessu þingi, hún fæst ekki einu sinni rædd. Takið þið hagnaðinn af Seðlabankanum, takið þið hluta af bundnu fé Seðlabankans, gerið þið það sem gera þarf. Stokkið þið síðan upp í ykkar vitlausu fjárpólitík. hættið þið að sólunda fé og eyða fé í tóma vitleysu, verjið þið því til gagnlegra hluta. M. ö. o., stokkið upp framsóknarpólitíkina, verjið þeim fjármunum sem þið nú eyðið í tóma vitleysu þannig að ekki þurfi að kalla á nýja eða aukna skattheimtu í því efni. Það er verið að tala um breytta fjármálapólitík. og það er laukrétt sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon segir, það er engin önnur leið fær í þessu efni úr því sem komið er.

Um efnahagsástandið er það að segja að það er efnahagspólitík núverandi ríkisstj. sem brennur núna á hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. getur ekki staðið við eitt einasta af sínum loforðum. nema hér verði tekin upp allt annars konar efnahags- og fjármálapólitík. Því miður. Það breytir engu um góðan vilja og fögur loforð. Reyndar er þessi loforðasúpa orðin einhver sú gengisfelldasta loforðasúpa sem nokkurn tíma hefur verið gefin í íslenskri pólitík. Og það er ábyrgðarhluti hæstv. ráðh. að tala og tala í fjölmiðlum og viðtölum, og skipa nefndir og segja að eitthvað sé á leiðinni, og svo kemur ekkert út úr þessu nema að aðeins er verið að reyna að klóra í bakkann. Þetta vandamál er orðið svo stórt að hér dugar ekkert annað en algjör uppstokkun á þeirri kolvitlausu fjármálapólitík sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur rekið.