13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5190 í B-deild Alþingistíðinda. (4481)

86. mál, áfengislög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef áður lýst afstöðu minni til þess frv. sem hér er til umr., gerði það við 1. umr. og lýsti mig þá andsnúinn þeirri tilhögun mála sem lögð er til í þessu frv. Ég hafði þá þegar eytt nokkrum tíma í að móta mér skoðun í málinu, hafði reyndar ekki mikla sannfæringu né heit á hvorugan veginn. En niðurstaða mín varð sú að ég gæti ekki staðið að því að samþykkja tilkomu áfengs öls á Íslandi með þeim hætti sem hér er lagður til. Síðan ég lýsti þessari skoðun minni við 1. umr. hefur sú skoðun mín styrkst að ég hafi tekið þar rétta afstöðu og ber margt til. Ég þarf ekki að endurtaka hér þau rök sem ég færði fram fyrir máli mínu við fyrri umr. en vil bæta örfáum orðum við m. a. í ljósi þeirrar umr. sem orðið hefur um þetta mál hér á hv. Alþingi.

Ég er þeirrar skoðunar og teldi það rétt og þarft að Alþingi Íslendinga ætti aðild að því að marka nýja áfengisstefnu sem drægi úr neyslu áfengra drykkja eða væri í öllu falli trúverðug gagnvart þeirri viðleitni að koma í veg fyrir að hún aukist á næstu árum. Því miður er það svo að í nálægum löndum og reyndar víðast hvar á hnettinum fer neysla áfengis eins og fleiri vímugjafa vaxandi. Ég lýsti því einnig að ég teldi æskilegt að beina neyslu áfengis inn á léttari drykki eða veikara form áfengis, þ. m. t. áfengt öl, ef þess væri kostur. Ætti ég, herra forseti, um það að velja að kjósa á milli þess að neysla á einhverju tilteknu alkóhólmagni færi fram í gegnum léttvín og öl fremur en í gegnum sterka, brennda drykki, þá er það að mínu mati auðvelt að kjósa þar á milli. Ég mundi telja að hinir léttari drykkir væru heppilegri. En því aðeins get ég staðið að breytingum á áfengisstefnu og áfengislögum á Íslandi að ég telji það trúverðugt að þær muni ekki leiða til heildaraukningar áfengisneyslu.

Hér í þessari umr. og í öllum málflutningi flm. þessa frv. hafa að mínu viti engin trúverðug rök komið fram til að rökstyðja þetta utan fullyrðingar einar sem auðvitað allir geta haft í frammi. Þvert á móti eru yfirgnæfandi líkur á því að breyting eins og sú sem hér er lögð til, muni leiða til aukningar heildarneyslunnar. Það sem öllu verra er að mínu mati er að uppi eru engir tilburðir í þá átt að koma þessari breytingu á með þeim hætti að um heildaraukningu á áfengisneyslu verði ekki að ræða.

Ég held að færar séu ýmsar leiðir til þess að koma breytingu sem þessari um kring og framkvæma jafnframt ráðstafanir sem gætu þýtt það að mönnum stæði þetta vel til boða, þetta margumtalaða frelsi við að velja sér tegund áfengis til neyslu, án þess að það þýddi neysluaukningu. Ég nefni verðstýringar- og styrkleikabreytingar í því sambandi. Það vekur nokkra furðu mína að flm. þessa frv. skuli standa þannig að málum að þeir skuli ekki hafa undirbyggt sinn málflutning betur hvað þetta varðar, t. d. kannað það með hvað hætti aðrar þjóðir hafa leitast við að ná fram þeim markmiðum sínum að hamla gegn áfengisneyslu með þessum hætti.

Ég óttast það, herra forseti, og það er sannfæring mín, að þessi breyting muni leiða til aukinnar áfengisneyslu. Áhrif aukinnar áfengisneyslu á þjóðlífið, á þjóðfélagið allt, á heimili, vinnustaði, umferð geta orðið mjög alvarleg.

Einn er sá þáttur þessa máls sem ég hef einnig saknað mjög úr þessari umr. Hann er sá mikli útgjaldaauki sem ég óttast að muni leiða af tilkomu ölsins og aukinni áfengisneyslu fyrir heilsugæslu og allt félagskerfið í landinu. Ég spurði hér við 1. umr. þessa frv.: Eru þeir, sem standa að því að samþykkja þessa breytingu, tilbúnir til að bregðast við þeirri miklu útgjaldaaukningu? Eru menn tilbúnir til að horfast í augu við það og bregðast við því að hundruð milljóna kr. þurfi e. t. v. að bætast við þau útgjöld sem þegar er varið til heilsugæslu og heilbrigðismála eingöngu í þeirri útgjaldaaukningu svo að ekki séu mæld þau áhrif sem þetta að líkindum hefur á atvinnulíf og heimili í formi vinnutaps, slysa og ýmissa annarra óæskilegra áhrifa sem öll hafa útgjöld í för með sér á einn eða annan hátt?

Engan mann hef ég heyrt reyna að gera sér einhverja grein fyrir því á heiðarlegan hátt hversu mikil þessi útgjaldaaukning gæti orðið ef neysla áfengs öls færi hér kannske á stuttum tíma í 60, 80 til 100 lítra á hvert mannsbarn eins og tölur sem eru þekktar frá nálægum löndum gefa vísbendingu um. En það er vitað að í ýmsum löndum nota menn viðmiðunartölur eins og þær að fyrir hverja eina krónu, sem í ríkiskassann kemur í formi álagningar á áfengið, hverfi tvær, þrjár til fjórar úr honum aftur í formi aukinna útgjalda.

Það er svo, herra forseti, að frelsi er mjög af hinu góða. En maðurinn, homo sapiens, er félagsvera og hefur fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu að það sé affarasælast að setja sér ákveðnar reglur til þess að firra vandræðum í samskiptum manna. Ég held að lög og ákvæði um áfengi og önnur fíkniefni séu einmitt slíkar reglur sem menn hafa fyrir lifandis löngu áttað sig á að er óhjákvæmilegt að hafa í samfélagi manna ef ekki á illa að fara.

Ég hef nokkra reynslu af því að búa meðal þjóða þar sem áfengt öl er drukkið, m. a. bjó ég um eins árs skeið í einu því landi sem einna hæsta hefur bjórneysluna allra þjóða. Ég kom sem ferðamaður í því landi og reyndar víðar inn á bjórkrár og sá þar þessa bjórmenningu sem svo er kölluð af ýmsum og mjög lofuð. En ég bjó einnig í litlu samfélagi þar sem ég þekkti nánast hvern kjaft og kom iðulega á þá félagsmiðstöð þess samfélags sem bjórkráin var og sá einnig skuggahliðarnar. Ég sá einnig andhverfu bjórmenningarinnar birtast í því að sömu einstaklingarnir eyddu megninu af tíma sínum og megninu af launum sínum við skenkinn á þeim stað.

Ég held að það sé mikill misskilningur, herra forseti, kannske einhver alvarlegasti misskilningurinn, að með áfengu öli flytjist inn í landið einhver bjórmenning. Slíkt gerist ekki á þann hátt. Ég held hins vegar að ókostirnir, sem felast í sjálfu ölinu og brestum mannlegs eðlis í samskiptum við það, komi inn með neyslunni samstundis. Ég hlýt því að vara mjög við því í öllu falli, hver sem örlög þessa frv. verða, að menn haldi að hér sé hægt að setja upp tugi jafnvel hundruð af ölstofum og að það skapi ekki upplausn í samfélagi eins og Íslandi sem ekkert hefur haft af slíku um áratuga skeið.

Ég vil að það komi fram hér, herra forseti, að lokum að ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að afgreiða þetta mál. Hv. alþm. hafa í allan vetur haft aðgang að miklum upplýsingum og eflaust kynnt sér þær allir samviskusamlega. Ég tel því virðingu Alþingis best borgið með því að afgreiða þetta mál og ekki sæmandi að láta það velkjast hér öllu lengur. Ég get því stutt virðulegan forseta í því að halda hér áfram fundi svo lengi sem þarf til að ljúka þessari umr. og öðrum sem til þarf.

Ég er alfarið á móti því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál á þessu stigi. Ég tel að Alþingi eigi að afgreiða það á hvern veginn sem það nú verður.

Ég legg til að þetta frv. verði fellt. Í framhaldi af því legg ég til og mun styðja það að bjórlíkhúsum þeim, sem upp hafa verið sett, verði lokað að lögum, að innflutningi á áfengu öll verði hætt í fríhöfninni og að innflutningi á ölgerðarefni til bruggunar hér innanlands verði sömuleiðis hætt. Ég tel að Alþingi eigi í raun og veru ekki nema tvær leiðir færar í þessu máli. Önnur er sú, sem ég hef hér lýst, að fella þetta frv. og annaðhvort framfylgja þegar settum lögum eða setja önnur sem draga þá hreina markalínu í þessu efni. Annaðhvort skal vera á Íslandi áfengt öl eða ekki að mínu mati, herra forseti.

En að lokum vegna þeirrar sannfæringar minnar að tilkoma áfengs öls með þeim hætti, sem hér er gerð till. um, muni leiða til aukinnar áfengisneyslu og aukinna vandamála sem af henni stafa mun ég greiða atkvæði gegn þessu frv., herra forseti.