14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5201 í B-deild Alþingistíðinda. (4488)

389. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 2. þm. Austurl. vil ég segja þetta vegna fyrri liðar:

Í janúar 1984 fól ég Hagvangi hf. að gera úttekt á starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins og gera tillögur um breytingar á starfsemi stofnunarinnar ef ástæða væri til. Í apríl 1984 skilaði Hagvangur greinargerð fyrsta verkþáttar. Þar voru fram settar tvær meginleiðir í framtíðaruppbyggingu rafmagnseftirlits hér á landi, þ. e. að þáttur RER í öllu eftirliti verði aukinn eða að eftirlitið verði fært meira út til þeirra aðila sem þegar eru til staðar og eiga að geta sinnt því. Síðar á árinu 1984 skilaði Hagvangur frekari greinargerð og upplýsingum.

Í nóvember 1984 skipaði ég nefnd til þess að athuga hugmyndir um flutning raffangaprófana til Iðntæknistofnunar og sameiningu við aðrar prófanir á rafbúnaði. Ofangreind nefnd hóf strax störf og mun á næstu vikum skila áliti. Þá skipaði ég fyrir nokkru aðra nefnd til athugunar á raflagnaeftirlitsþætti Rafmagnseftirlitsins, en í reynd hefur starfsemi þess greinst í tvo meginþætti, raflagnaeftirlit og raffangaeftirlit. En þessir þættir eru á mörgum sviðum mjög samofnir. Er þess einnig að vænta að skilagrein þeirrar nefndar liggi fyrir innan tíðar. Það er keppt að ráðdeild og sparsemi í þessum efnum án þess að bitna megi á öryggi í raforkumálum.