14.05.1985
Neðri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5252 í B-deild Alþingistíðinda. (4542)

86. mál, áfengislög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hefur talað mikið, lengi og oft í þessu máli og reitt hátt til höggs. Hann hefur borið samþm. sína hér á hv. Alþingi þungum sökum. Hann segir, með leyfi forseta:

„Getur verið að mönnum sé það ekki ljóst að alls staðar þar sem sala fer fram á áfengi og tóbaki hafa söluaðilar þessara vörutegunda reynt með ýmsu móti að hafa áhrif á æðstu starfsmenn í viðkomandi ríkjum og borið á þá fé?“

Hv. þm. segir enn fremur: „ . . . og borið á þá fé til að breyta löggjöf eða að koma í veg fyrir að löggjöf verði samþykkt.“

Hv. þm. hefur í annan stað borið fréttamenn á Íslandi þeim sökum að þeir þiggi mútur. Hann segir orðrétt: „Stundum hvarflar að manni þegar menn sjá svona auglýsingar hvort það sem verið hefur nánast óþekkt í íslensku þjóðlífi til þessa, að ýmsir opinberir starfsmenn þægju mútur, eigi sér e. t. v. stað.“

Að því er varðar flm. þessa máls hefur hv. þm. þetta að segja: „Það skyldi þó ekki vera að einhver af þessum flm. hefði búið sig undir það að þiggja umboðslaun fyrir áfengt öl ef það verður selt hér á landi. Það skyldi þó ekki vera að búið væri að ganga frá samningum um slíka hluti.“

M. ö. o., úr þessum ræðustól hefur hv. þm. það til mála að leggja að fréttaflutningur af áfengismálum, hugsanlega af umr. um þetta mál hér á þingi, hafi orðið til þess að það hvarfli að honum að fréttamenn gangi fyrir mútum, borið sé fé ekki aðeins í dóma heldur til þess að fá að breyta löggjöf og á æðstu menn ríkisins sé borið fé. Þessu verða hæstv. ráðh. að fara að svara hvað úr hverju, hæstv. forsrh., hæstv. dómsmrh., hæstv. fjmrh. Og síðan þetta með flm. — skyldi ekki vera búið að ganga frá samningum um umboðin?

Nú hefur hv. þm. talað í þessu máli þrisvar sinnum, flutt um það þrjár ræður, reyndar í blóra við þingsköp, hæstv. forseti. En það er mér algerlega að meinalausu. Eftir að hafa borið þessar ásakanir hér fram hefur maðurinn talað aftur og hvað kemur á daginn? Hátt var reitt til höggs, hv. þm. En þm. hefur ekki í frammi neina burði, ekki nokkra hina minnstu, til þess að finna orðum sínum stað. Ég held m. ö. o. að það liggi alveg ljóst fyrir að niðurstaðan sé, eins og stundum hefur komið fyrir áður, að ef þessar ásakanir væru bornar fram af einhverjum öðrum en hv. 5. þm. Vestf. hlytu þær að skoðast sem mjög alvarlegar ásakanir. En úr því sem komið er, úr því að hv. þm. hefur hér staðið í ræðustól til þess að svara hv. 6. þm. Reykv. og reyna að finna orðum sínum stað, þá er niðurstaðan þessi: Hann finnur orðum sínum ekki stað. Þetta eru m. ö. o. ásakanir, áburður, dylgjur. og hann gerir enga tilraun til að finna orðum sínum stað. Fyrir fram var sagt: Ef þú ekki gerir það þá skaltu maður minni heita, og það er þá niðurstaðan.

Hv. þm. vitnaði í blaðaviðtal við þann sem hér stendur. Um það er það að segja að þær fullyrðingar, sem þar komu fram, snúast um eitt mál hér á landi. Eins og hv. alþm. er kunnugt um er óheimilt að auglýsa áfengi á Íslandi. Eins og hv. þm. er líka kunnugt um kveða lög svo á um að það er einokunarverslun ríkisins á áfengis- og tóbakssölu. Innflytjendum áfengis er ekki heimilt að auglýsa varning sinn og það skapar dálitið sérstaki ástand hvernig þeir eigi að koma honum á framfæri. Víðast hvar annars staðar eru auglýsingar fyrir opnum tjöldum. Hér eru auglýsingar ekki fyrir opnum tjöldum. Engu að síður er það venja í viðskiptum ef vara er föl að reyna að koma henni á framfæri, auglýsa hana. Það verður að gerast eftir duldum leiðum.

Að þessu vék ég í þessu viðtali við umrætt blað og ég vek athygli á því að þar stóðu þessi orð skrifuð og engin athugasemd var við það gerð svo að ég muni til. Ég skýldi mér ekki á bak við neina þinghelgi. Þetta var ósköp einfaldlega viðtal í blaði þar sem vakin er athygli á þessu. Það er hverjum og einum í lófa lagið af þeim sem flytja inn þessa vöru eða forsvarsmönnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að krefjast nánari sagna um þetta. Ég tek það fram að það mundi ekki vera auðvelt að leiða fram vitnin og fá þá, sem í þessum viðskiptum standa, til að staðfesta það með hvaða hætti varan er auglýst og henni er komið á framfæri. En á bak við þinghelgi skýldi ég mér ekki. Þessum aðilum er því í lófa lagið að koma á framfæri þessum athugasemdum á væntanlega sama vettvangi, þ. e. í fjölmiðlum landsins.

Þessi skrautsýning hv. þm. er m. ö. o. væntanlega búin. Það þýðir ekki að þýfga hann um svör eða biðja hann um frekari skýringar enda hefur hann væntanlega náð sínum tilgangi. En innlegg í þetta mál getur það ekki skoðast.

Mér finnst í umr. um þetta mál að það standi dálítið upp á andstæðinga málsins, þá sem mestar hafa áhyggjur af þessum breytingum sem hér er lagt til að gerðar verði á áfengislöggjöf, að hafa látið að sér kveða dálitið fyrr. Þeir lýsa þungum áhyggjum, þeir tala um líkur á aukinni áfengisneyslu. þeir tala um fyrirsjáanlegar hræðilegar afleiðingar ef þessi löggjöf verður samþykkt. Má ég spyrja: Eru þessir hv. þm. ánægðir með óbreytt ástand? Gera þeir sér ekki grein fyrir því hvernig ástandið er? Hvers vegna hafa þeir hv. þm. sem fara svo mörgum orðum um áfengisbölið — og enginn hér hefur dregið úr því að það er mikið — ekkert aðhafst?

Af því að helstu siðgæðispostularnir í þessu máli eru tvær helstu mannvitsbrekkur Framsfl., er ekki ástæða til að minna þá á, þessar mannvitsbrekkur og siðgæðispostula, að þessi mál eru undir stjórn æðstu manna Framsfl. hvort sem borið hefur verið á þá fé eða ekki? Hver er frammistaða hæstv. dómsmrh. í þessum málum? Um hvað eru hv. þm. að tala?

Ég þekki ekkert þjóðríki í veröldinni þar sem tekist hefur að útrýma áfengisbölinu. Ég þekki reyndar enga þjóð þar sem áfengisneysla í einu eða öðru formi er óþekki. Ég veit hins vegar dæmi um þjóðir og ríki þar sem gerð hefur verið tilraun til að kveða þetta böl niður með banni, með því að koma í veg fyrir með lögum að heimilt sé að framleiða, selja, dreifa, neyta áfengis. Ég þekki ekkert dæmi um það að þetta hafi tekist og í fersku minni Íslendinga er reynsla okkar sjálfra. Við reyndum þessa leið. Bandaríkjamenn reyndu þessa leið. Fleiri þjóðir hafa reynt það en ekki tekist. (Gripið fram í.) Nei. engan veginn, hvergi nærri.

Hvers vegna segi ég þetta? Það er vegna þess að allavega er tveggja kosta völ í þessu máli. Ég get vel skilið sjónarmið þeirra hv. þm. sem segja: Bölið er svo mikið, við getum ekki horft á það aðgerðarlaust. Beitum valdi laganna og valdi hæstv. dómsmrh. Bönnum þetta og göngum eftir því, framfylgjum því með afli löggæslu og snúum okkur að sjálfum okkur. Hver er helsta tekjulind þessa ríkis? Það er einokun. Það áskilur sér einkarétt á því að selja áfengi og önnur eiturefni, nefnilega tóbak sem að áliti sumra er kannske enn þá meira heilsuspillandi böl hér á landi. Þetta er einn helsti tekjustofn ríkisins.

Það er margt mannanna bölið og áfengisbölið er mikið, drykkjusýkin er mikil. Því er jafnvel haldið fram og vitnað í tæknavísindi að drykkjusýki á Íslandi sé meiri en í flestum öðrum löndum þó að áfengisneyslan sé hér hins vegar minni. Í hverju lýsir þessi drykkjusýki sér og þetta áfengisböl? Það er fjöldinn allur af einstaklingum sem neytir áfengis svo úr hófi fram að þeir spilla heilsu sinni líkamlegri og andlegri. Þetta er mikið böl hjá fjölda heimila. Þetta er böl fyrir eiginkonur, þetta er böl fyrir heimilisfeður, þetta er böl barna. Hvernig lýsir þetta ástand sér á Íslandi? Jú, menn segja: Í þessu ríki eins og öðrum er varið verulegum fjármunum til þess að reyna að ráða við afleiðingarnar eftir á þegar menn eru komnir vel á veg með að tortíma sjálfum sér og jafnvel sínum nánustu. Menn geta metið skaðann af þessu á ýmsan máta, reiknað hann í töpuðum vinnustundum og ef til væri einhver mælikvarði á það að reikna hann í glataðri lífshamingju þá væru menn búnir að reikna það þó að menn geti það ekki.

Þetta böl, hv. þm., er búið að vera lengi við lýði. Það hefur farið vaxandi og samt höfum við lög í landinu sem heimila ekki neyslu á bjór. Að því er varðar þá einstaklinga sem haldnir eru þeim sjúkdómi að neyta áfengis í slíku óhófi að það býr sjálfum þeim og þeirra nánustu voða, þá hefur enginn hörgull verið á tækifærum til þess að verða sér úti um þennan vímugjafa og var það ekki heldur á þeim árum þegar áfengi átti að heita að vera bannað hér á landi. Það er sameiginleg reynsla þjóða.

Hvað hafa svo hv. stjórnvöld með hæstv. dómsmrh. í broddi fylkingar, sem tala mest um bölið, gert til þess að draga úr því? Áfengisneysla hefur farið vaxandi. Hún er ekki lengur bundin við stéttir eins og hv. fyrrv. þm. Vilmundur heitinn Jónsson hafði af þungar áhyggjur í frægri grein sem þulin var úr þessum ræðustól eitthvert kvöldið. Vilmundur landlæknir hafði af því þungar áhyggjur að eftir að áfengisbanninu var aflétt mundu þau ótíðindi gerast, að það yrði ekki lengur bara yfirstéttin sem neytir áfengra drykkja á glöðum stundum. Nei, hann gerði ráð fyrir því að þannig færi að jafnvel verkamenn, almenningur í landinu, færi að neyta áfengis meira en verið hefði. Hann hafði af því þungar áhyggjur að þegar svo væri komið mundu jafnvel konur fara að neyta áfengis og þá væri nú stutt í blessuð börnin. Hvernig væri að hv. 5. þm. Vestf., sem talar mikið um bölið, hugleiddi hvernig áfengislöggjöf á Íslandi er framfylgt? Staðreyndirnar liggja nefnilega fyrir. Burtséð frá þessari löggjöf sem hér er til umr. fer neysla á áfengu öll hér á landi bráðum að nálgast þær þjóðir sem neyta þess í hvað minnstum mæli skv. svokölluðum opinberum tölum. Þið þekkið staðreyndirnar. Bjór er framleiddur hér á landi. Þið þekkið staðreyndirnar, bjór er fluttur inn. Hann er fluttur inn af farmönnum, flugmönnum. Hann er fluttur inn af ferðamönnum. Hér er búið að vera það ástand í mörg ár að innflutt voru efni til bruggunar öls og nákvæmar leiðbeiningar um það hvernig ætti að ljúka framleiðslunni til þess að þetta væri neysluhæfur drykkur. Bjór er bruggaður víða um land í heimahúsum og bjórneysla er mikil. Bjór er smyglað inn í landið í stórum stíl. Allt eru þetta opinberar staðreyndir. Síðan kemur það til að á veitingastöðum er farið að selja óáfengt öl og blanda út í það brennivíni.

Með leyfi að spyrja, hvað hefur verið aðhafst af hálfu þessara manna sem nú koma hver á fætur öðrum upp í ræðustól og setja á langar tölur um það sem allir vita og öllum er ljóst? Hvar eru þessir menn? Hvað hafa þeir verið að aðhafast? Hvar voru áhyggjurnar meðan þetta ástand var að skapast? Þeir gerðu ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Vita menn t. d. á hvaða aldri algengast er að ungir Íslendingar byrji neyslu áfengis? Ætli skólamenn með einhverja reynslu hafi einhverjar hugmyndir um það? Hvar hafa þessir menn verið? Hafa þeir nokkurn tíma sótt héraðsmót? Hafa þeir farið á böli í sveitum landsins? Hafa þeir komið á böli í verstöðvum landsins? Hafa þeir komið á böli hjá skólaæskunni hér í Reykjavík? Vita þeir hvernig áfengislöggjöfinni er framfylgt í félagsheimilum þar sem lög kveða á um að ekki megi hafa áfengi um hönd? Vita þeir hvernig skólayfirvöld framfylgja settum lögum og reglum um að óheimilt sé með öllu að neyta áfengra drykkja á samkomum á vegum skóla í opinberu húsnæði? Hvar hefur allt þetta stórmerkilega foreldraveldi og tyftunarmeistarar þessa þjóðfélags verið statt á undanförnum árum? (ÓÞÞ: Sumir hafa þegið sérstök umburðarbréf af þessu tilefni.) Já, skólamenn hafa fengið umburðarbréf, þeir hafa fengið bréf um að framfylgja þessu. En, herra fyrrverandi skólastjóri og jafnvel núverandi, hvernig er ástandið, hvernig er þessu framfylgt? Það þekki ég af eigin reynslu. Ég þekki hræsnina, yfirdrepsskapinn, tvískinnungsháttinn og ómerkilegheitin sem ríkja í þessum málum í framkvæmd. (Gripið fram í.)

Ef röksemdafærslan á að vera sú að samþykki þessa frv., sem er tilraun til að koma lögum yfir löglaust ástand, eigi að skipta algjörlega sköpum um það hvort þjóðin fari sér að voða vegna ofneyslu áfengis þá veit ég ekki hvar þessir menn hafa verið staddir. Eina rökrétta niðurstaðan af ykkar máli, hv. þm., er sú að þið nú seint og um síðir iðrist þess að þið hafið ekkert aðhafst í þessum málum og þið takið á ykkur rögg og flytjið hér frv. til laga um að banna þetta, um að taka upp áfengisbann. Þessu beini ég til mannvitsbrekknanna úr Framsfl.: Ef taka ætti mark á ykkar málflutningi hefðuð þið fyrir löngu síðan átt að vera búnir að flytja sérstaka vantrauststillögu á hæstv, dómsmrh. fyrir að hafa svikist um að framfylgja lögum. Þegar þið hafið gert það væri svolítið meira mark takandi á ræðum ykkar.

Ef menn ekki hafa trú á því að bann skili árangri, ef menn eru sammála því að óbreytt ástand, sem er mikil neysla áfengis í þessu þjóðfélagi — líka ungs fólks þrátt fyrir lagaákvæði um að það sé óheimilt — þá er aðeins eitt sem kemur til greina, það er að breyta lögum með þeim staðfasta ásetningi að framfylgja þeim. Meðan við ekki getum stöðvað neyslu áfengis með lögum getum við líka slegið því föstu að við munum ekki útrýma áfengisbölinu, við munum ekki koma í veg fyrir ofneyslu áfengis. Ef menn trúa því eru menn að loka augum fyrir staðreyndum margra alda sögu, ekki bara í þessu þjóðfélagi heldur í öllum þeim þjóðfélögum í kringum okkur sem við getum reynt að kynna okkur. Hlutirnir eru ekki svart-hvítir, þessi heimsmynd er ekki svart-hvít. Ef þið ekki treystið ykkur til að framfylgja banni þá er vandamálið þetta: Hvaða áfengisstefnu ætlið þið að hafa? Hvernig ætlið þið að framfylgja lögum?

Þið hafið ekkert gert í því að sjá til þess að óbreyttri löggjöf væri framfylgt. Það er alveg ljóst af því hvernig málflutningur ykkar er. Hann er ekki sannfærandi sem rök gegn því að breyta lögum, koma lögum yfir þetta ástand. Það skiptir engum sköpum til eða frá,~að því er varðar áfengisneyslu Íslendinga, hvort í hillum Áfengisverslunar ríkisins er hægt að finna við hliðina á öllu þessu sterka víni bjórflöskur.

Ég skil út af fyrir sig áhyggjur manna af því að þetta kynni að leiða til þess að það færi lækkandi sá aldur þegar unglingar byrja neyslu áfengis. Hann má þá lækka ansi mikið því að hann er orðinn ansi lágur. Það stafar m. a. af því að lögum er ekkert framfylgt að því er varðar það að koma í veg fyrir aðgang unglinga undir aldri að áfengum drykkjum. Hver sá sem heldur því fram gerir það gegn betri vitund því að enginn er svo þekkingarsnauður í íslensku þjóðfélagi að hann hafi ekki séð þetta fyrir augum sér.

Áhyggjur manna af því að ef bjórflöskur stæðu í hillum í útibúum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins mundi leiða til þess að Íslendingar yrðu óvinnufærir sakir ölvímu á vinnustöðum, þær finnst mér ekki trúverðugar. Ef menn á annað borð framfylgja reglum um það hverjum er heimilt að kaupa áfengi í Áfengis- og tóbaksverslunum ríkisins þá gildir auðvitað hið sama um sterka drykki og öl.

Að því er varðar frásagnir af öðrum þjóðum þá eru þær líka stórlega ýktar. Menn tala t. d. um hið mikla böl sem Þjóðverjar eiga við að búa vegna þess að þeir eru viðurkenndir sem mikil bjórdrykkjuþjóð og hafa verið það öldum saman. Hvað er það sem Þjóðverjar eru þekktastir fyrir meðal annarra þjóða Evrópu? Það er tvennt. Það er geysileg vinnusemi og geysilegur agi. (Fjmrh.: Það er löngu liðin tíð.) Það er ekki löngu liðin tíð, hæstv. fjmrh. Í annan stað má nefna að einkum og sér í lagi á s. l. hundrað árum hefur enginn vefengt það að þýskt handverk, þýsk nákvæmni og þýsk tækni hafa skarað fram úr. Síðan tölum við um frændur vora Dani og vini, hina miklu bjórþjóð. Hvað er það sem Danir hafa einkum og sér í lagi skarað fram úr í? Það er fyrst og fremst vandað og nákvæmt handverk.

M. ö. o. við skulum ekkert vera að ýkja þetta mál. Við skulum ekki ræða um þetta úr skotgröfum eins og heimsmyndin sé svört og hvít. Við skulum ekki tala um þetta mál eins og að það sem hér gerist, jafnvel þótt þetta frv. verði samþykkt, mundi skipta einhverjum sköpum í íslensku þjóðfélagi. Menn skyldu jafnvel ætla af tali þessara manna að þetta bjórfrv. væri aðalvandamálið og stærsta málið í íslensku þjóðfélagi. Þetta er satt að segja tiltölulega lítilfjörlegt mál og skiptir engum sköpum til eða frá. Ég get sagt það fyrir mína parta að þó að mér út af fyrir sig mundi leiðast það-einkum og sér í lagi í nafni Alþingis Íslendinga — að menn gætu ekki komist að niðurstöðu um að afgreiða það þá er þetta svo aftarlega á forgangslista mínum um þau mál sem sköpum skipta að ég mundi svo sem ekkert harma það og talar þó hér 1. flm. Þetta er ekkert hugsjónamál á hvern veg sem færi, jafnvel þótt þetta mál fengi ekki afgreiðslu, það væri svona rétt eftir öðru. Þetta skiptir m. ö. o. engum sköpum. Þetta er tiltölulega lítilfjörlegt mál.

Það væri hins vegar ástæða til að velta því fyrir sér hverjar eru hinar raunverulegu orsakir þessa mikla böls, drykkjusýkinnar, ekki bara í þessu þjóðfélagi heldur í öðrum þjóðfélögum þar sem hún leikur fólk sárast. Haldið þið, hv. þm., að það stafi bara af því að áfengi er til? Það var verið að gera hér skoðanakönnunum svo óljóst og óskilgreinanlegt efni eins og hamingjuna og Íslendingar voru að því spurðir hvort þeir væru hamingjusöm þjóð. Af því að Íslendingar eru dálitið gamansöm þjóð lugu þeir því upp á sig í svörunum að þeir væru hamingjusöm þjóð sem ætti í tímabundnum erfiðleikum, en þeir kynnu að bjargast. (Gripið fram í.) Nei, það er sumt sem þeir fara ekki með í flimtingum, hr. þm.

Ofneysla áfengis er böl. En hún á sér orsakir og skýringar sem verða ekki raktar nema menn fari eitthvað út fyrir þetta þrönga svið. Hvers vegna drekkja menn sér í brennivíni, hv. 5. þm. Vestf.? Það getur verið af mörgum ástæðum. Um þær ástæður hefur ekkert verið rætt hér. Það hefur svolítið að gera með t. d. það hvernig Íslendingar neyta áfengis, það hefur mikið með að gera hvernig þeir vinna. Þeir vinna mikið, þeir vinna langan vinnudag, það hvílir á þeim mikið vinnuálag mörgum hverjum. Þeir hafa nauman tíma til að gera sér dagamun og þeir gera það af því að þeir eru afkastamenn með sama hætti og þeir vinna. Ein orsök ofneyslu áfengis er vonleysi, ein er fátækt, örbirgð, kvíði, beygur, ótti, flótti frá veruleikanum.

Hvernig ætla menn að draga úr þessu áfengisböli? Með boðum og bönnum? Með lögum? Eða ætla menn einhvern tíma að fara að snúa sér að undirrót vandans? Hvað þarf að gera til að skapa hér fyrirmyndarþjóðfélag hamingjusamra manna sem kunna að gera sér dagamun á góðra vina fundi án þess að sú saklausa skemmtun snúist upp í martröð, vonleysi og böl? Er þetta ekki löggjafarsamkunda Íslendinga? Kannske það væri nær að löggjafarsamkunda Íslendinga sneri sér að alvarlegri málum?

Menn tala hér svolítið um heilsufræði. Ég er ekki sérfróður um heilsufræði en ég hef heyrt marga heilsufræði á undanförnum árum. Ég minni hv. þm. Framsfl. og aðrar mannvitsbrekkur úr þeim herbúðum á að á undanförnum árum hefur því verið haldið fram og stutt rökum læknavísinda að maður megi ekki Lengur borða feitt kjöt og það er varla að maður megi sefja smjörklípu á brauðsneið. Mjólk á að vera óholi, hvers kyns feitmeti, ég tala nú ekki um það að maður má varla setja hnoðaðan mör út á bútunginn sinn lengur. Ég var að lesa það í Morgunblaðinu að kynlíf væri bara stórhættulegt. Viljið þið ekki banna þetta líka? Viljið þið ekki setja lög? Af hverju eruð þið að krukka þetta í smáatriðin?

Ég gef ekki mikið fyrir þessa heilsufræði. Arseniksagan frá Djúpvík er ágæt að því er varðar bjórinn og hún er birt í framsöguræðu 1. flm. þessa máls hér í fyrra. Hún er út af fyrir sig dæmisaga um þessa umr. Þið munið söguna, það rak tvö kvartel á land skv. sögunni á Djúpvík norður á Ströndum. Þegar það spurðist að þetta væri hið hættulega eiturefni bjór fóru menn að rannsaka málið og tóku prufu. Tveir menn létust auðvitað samstundis. Þessar fréttir vöktu auðvitað mikinn ugg í brjóstum þjóðarinnar. Sérstaklega, ef ég man rétt skv. frásögn Nóbelsskáldsins, vakti þetta miklar áhyggjur hjá Kvennasambandinu sunnan Helkunduheiðar sem gerði ályktun í málinu, hamraði lát þessara manna og skoraði á stjórnvöld að bægja voða þessa hættulega eiturefnis frá ströndum þjóðarinnar. En ritstjóri Norðurhjarans vildi rannsaka málið — vonandi hefur ekki verið borið á hann fé, blessaðan karlinn. Niðurstaðan varð sú að þetta var því miður eftir allt saman hið hættulega eiturefni arsenik. Hann skeytaði Kvennasambandinu sunnan Helkunduheiðar og sagði: Þetta var arsenik sem mennirnir létust úr. Hann fékk skeyti samstundis til baka frá Kvennasambandinu þar sem stóð: Guði sé lof að það var bara arsenik.

Í þúsund ár hafa Evrópubúar neytt bjórs, öls. Það er eitthvert saklausasta efni þeirrar tegundar sem menn kenna við áfengi. Það getur vel verið að það megi hafa áhyggjur af vaxtarlaginu ef menn færu að neyta þess um of og sumum væri engin vanþörf á því að trimma það af sér. En það er staðreynd að í samanburði við sterka drykki, sem Íslendingar neyta margir hverjir í óhófi, er bjór vafalaust skaðaminnstur. Meðan hv. þm. treysta sér ekki til að kenna þjóðinni að neita sér um þetta eða meina henni það með lögum erum við hér að tala um afstæða hluti. Við erum að tala hér um að koma lögum yfir ástand sem öllum, að því er virðist, ber saman um að sé ekki gott, að hér séu stunduð lögbrot í stórum stíl. Þeir sem ekki treysta sér til að breyta því ástandi hafa litla jörð til að standa á þegar þeir gagnrýna þetta frv.

Menn eru sammála um að áfengisbölið sé mikið, menn eru sammála um það, að því er virðist, að þeir geti ekki útrýmt því með boðum og bönnum, lögum og valdbeitingu. Þá er spurningin þessi: Hvað ætla menn að gera annað? Er hægt að reka hér einhverja áfengisstefnu sem á sæmilega síviliseraðan máta gæti breytt neysluvenjum þjóðarinnar? Það gerist ekki snögglega. Það er hægt að gera, eins og menn segja, með fræðslu og aftur fræðslu um skaðlegar afleiðingar ofneyslu áfengis. Það er hægt að gera með aga og stjórnsemi í skólum landsins, það er hægt að gera með því að framfylgja þeim lögum og reglum sem þjóðfélagið hefur sett sér, það er hægt að gera með verðpólitík. En það verður aldrei gert með glórulausu ofstæki og aldrei gert með heimskulegum glósum um að menn skipti sér í tvo hópa, annars vegar þeir sem hafi raunverulegar áhyggjur af áfengisbölinu og hinir sem tali í alvöruleysi en geri sér ekki grein fyrir því.

Reyndar vil ég benda á að framlag hv. 5. þm. Vestf. Ólafs Þórðarsonar í þessu máli bendir til þess eindregið að hann sé að halda hér uppi málþófi um ómerkilega hluti. Hann rýkur hér upp með brigslyrðum sem hann getur ekki staðið við og er minni maður fyrir en forðast eins og heitan eldinn að ræða málið eins og maður af sæmilegri alvöru og sæmilegri þekkingu. Það veldur mér vonbrigðum, hv. þm., vegna þess að ég veit að þm. er greindur og gegn, íhugull og hefur haft margt fram að færa skynsamlegt hér úr þessum ræðustól þó að það hafi mistekist í þetta skiptið.