15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5285 í B-deild Alþingistíðinda. (4564)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlunin að þetta tæki allt of mikið af tíma hv. þd. Ég hef reyndar ekki á mínum þingmannsferli þjakað þessa þd. með utandagskrárumræðum svo að mér leyfist kannske einu sinni að gera það.

Ég spurði hæstv. forsrh. þriggja spurninga: hvort rétt væri eftir haft það sem nefnt væri í blöðunum og í fréttatilkynningum í gær, hvers vegna ríkisstj. væri komin að þessari niðurstöðu og hvað hún ætlaði þessu fólki að gera.

Hæstv. forsrh. svaraði að vísu tveimur fyrri spurningunum. Hann svaraði í raun og veru ekki því hvað ríkisstj. ætlaði þessu fólki að gera. Það er alveg greinilegt að ríkisstj. telur sig hafa gert nóg. Forsrh. var nokkuð bjartsýnn í upphafi sinnar ræðu þó að allnokkurrar svartsýni gætti þegar að endalokum hennar dró. Hann rakti þennan vanda fyrst að nokkru leyti til einhverra tiltekinna sveiflna í okkar efnahagslífi sem gengju yfir. Var á þeim orðum að skilja að þá rosalegu sveiflu sem varð 1982–1983 og þetta fólk er að kikna undir sem hér um ræðir, fólkið sem var byrjað að byggja kannske 1979–1980 í mjög góðri trú á nokkuð bjarta framtíð, þá sveiflu eða þann slaka á þetta fólk einfaldlega að bera sjálft, nema maður meti sem einhverjar aðgerðir það sem hæstv. forsrh. talaði um í sambandi við skuldbreytingar og viðbótarlán. Án þess að vilja efna til langra umræðna um það harðneita ég því að hér sé um einhverjar verulegar aðgerðir að ræða. Lánalengd í skuldbreytingaaðgerðunum er náttúrlega svo takmörkuð að það kemur ekki að nokkru haldi fyrir þetta fólk. Viðbótarlánin eru lítil og lág, þau eru að jafnaði kannske um eða innan við 2% af verðmæti þeirra eigna sem verið er að fjalla um hverju sinni, og skilyrði sem sett voru fyrir því í upphafi hvernig þetta væri afgreitt voru það óaðgengileg að fólk kinokaði sér við að leita aðstoðar. Fólk er sett í þá stöðu með því fyrirgreiðslufyrirkomulagi sem þarna er gert ráð fyrir, bara þá siðferðilegu stöðu, að þeir sem bera einhverja virðingu fyrir sjálfum sér neita að taka þátt í svona vitleysu.

Þá var komið að því sem yfirleitt ber helst á góma þegar menn tala um vandamál í þessu þjóðfélagi, viðskiptahalla og erlendum skuldum. Það má náttúrlega benda hæstv. forsrh. á það að viðskiptahalli skiptir húsnæðislaust fólk ekki nokkru sköpuðu máli. Það skiptir bara um land. Það er ekki hægt að nota þetta sem einhvers konar afsökun fyrir aðgerðarleysi á þessari stundu. Ríkisstj. sem ekki getur leyst þennan vanda getur ekki leyst nokkurn vanda og þar af leiðandi ber henni í raun og veru að fara frá.

Ríkisstj. stendur nú frammi fyrir hópi sem ekki getur leyst vanda sinn sjálfur, vanda sem hann á ekki sök á sjálfur. Forsrh. getur ekki afneitað ábyrgð sinni á þessum vanda. Erlendu skuldirnar, sem forsrh. benti á, eru ekki eins og hann segir „okkar skuldir“ og á þá við alla þjóðina. Auðvitað vitum við það að þjóðinni er gert að standa undir og greiða þessar skuldir. En þessar skuldir eru ekki skuldir þjóðarinnar í þeim skilningi að hún stofnar ekki til þeirra. Þetta eru skuldir ráðþrota stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna og forsrh. sem forustumaður í stjórnmálum um nokkuð langan tíma og aðili í stjórnum um nokkuð langan tíma ber miklu meiri ábyrgð á þessum vanda en þolendurnir sjálfir. Og vegna þess að stjórnarandstaðan gerir sér grein fyrir því að ríkisstj. ætlar sér ekki að gera neitt meira en hún hefur gert hingað til ótilknúin, þá lýsi ég enn og aftur hér yfir því, sem samþykki var á fundi stjórnarandstöðunnar í morgun með hópi áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum, að við munum gera allt — og þá meina ég allt — sem í okkar valdi stendur til þess að þetta fólk fái úrlausn sinna mála fyrir þinglok.

Ég sá það að hv. 3. þm. Vesturl. var ekki ýkja hrifinn af hugmyndum hv. 5. þm. Vesturl. um að fá hæstv. félmrh. heim aftur. Mér fannst ég sjá á svip hans að hann teldi að hann væri líklega betur geymdur í útlöndum en í sínu kjördæmi.