01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það var ekki sérlega borubrattur hæstv. ráðh. sem sté hér í stólinn áðan og sagði nokkur orð um þá till. til þál. sem hér er til umr. Það læddist að mér sá grunur að hæstv. ráðh. hefði litið yfir dagblöðin í morgun og séð þar á forsíðum, ekki minna en tveggja dagblaða, fréttir sem þar eru aðaluppslátturinn hvor í sínu blaðinu og báðar tengjast með beinum hætti viðfangsefni þessarar till. Ég á hér við forsíður Dagblaðsins og Þjóðviljans.

Á forsíðu Þjóðviljans er vitnað í könnun sem Sjómannasamband Íslands lét gera á farmgjöldum skipa, annars vegar til og frá Íslandi og með samanburði við nálæg lönd. Þar kemur það í ljós, eins og hv. síðasti ræðumaður vitnaði til hér áðan, að flutningskostnaður frá landinu á afurðum sjávarútvegsins — í þessu tilfelli rækju — er þrefaldur borið saman við það sem gerist á sambærilegum vegalengdum í nálægum löndum. Þennan mikla mun, sem að mínu mati er með öllu ómögulegt að útskýra, fjallar þessi till. m.a. um. Það er einn af átta liðum þessarar till. að farið verði rækilega ofan í saumana á þessum mun, hann greindur og gerðar um það tillögur með hvaða hætti er hægt að draga úr því okri sem þarna á sér bersýnilega stað.

Forsíða Dagblaðsins fjallar hins vegar um uppboð á togaranum Óskari Magnússyni sem fara eigi fram núna eftir helgina. „Tvö frystihús hætta og 180 missa vinnuna“, segir þar með leyfi herra forseta. Síðan er vitnað í bæjarstjóra Akraness og hann staðfestir að þetta uppboð og atvinnumissir þar af leiðandi standi fyrir dyrum. Hann segir enn fremur, með leyfi forseta, bæjarstjórinn Ingimundur Sigurpálsson, að mikið hafi verið rætt um lausn á þessum vanda, bæði af hálfu hv. þm. kjördæmisins, bæjaryfirvalda, verkalýðsfélagsins og atvinnurekenda, en núna væri engin lausn í sjónmáli. Ég endurtek þetta, herra forseti, með leyfi: en núna væri engin lausn í sjónmáli í þessu máli. Þannig snýr þetta mál nú við bæjarstjóranum á Akranesi þar sem menn horfa fram á uppboð eins aðalatvinnutækis í byggðarlaginu og yfirvofandi atvinnuleysi 180 manna ef svo fer sem horfir.

Það er því von, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. hafi ekki verið ýkja borubrattur þegar hann kom hér upp og fjallaði um þessa till. Reyndar sagði hann í upphafi máls síns að hann ætlaði ekki, hæstv. ráðh., að dæma um þá málsmeðferð sem hér væri gerð tillaga um. En í lokin komst hæstv. ráðh. þó að þeirri niðurstöðu að till. væri óþörf.

Hvers vegna er till. óþörf að mati hæstv. ráðh.? Vegna þess, eins og hann rakti um fyrstu fimm liði till., að nú væri verið að gera þetta eða hitt, það hillti undir þetta eða hitt o.s.frv. Þannig hillir t.d. undir það, að mati hæstv. sjútvrh., að flutningskostnaður á sjávarafurðum okkar frá landinu lækki eitthvað. Og hæstv. ráðh. telur að það geri það vegna aukinna útboða. Nú er það svo að þær æsifregnir sem birtust í blöðum um mikla lækkun af völdum útboða eru að dómi kunnugra ekki nema rétt svo sem eins og lagfæring vegna þeirra gengisbreytinga sem orðið hafa og ef tekin eru þau tímabil sem velja má í þessu sambandi er sú lækkun sem varð af völdum útboðs og flutningum til Japan reyndar nokkurn veginn gengisbreytingin sem viðkomandi flutningsaðili fær sér til hagsbóta á sama tíma. Að mínu mati þarf því að gera eitthvað meira en aðeins að láta hilla undir það að flutningskostnaður lækki, ekki síst ef hann er nú allt að því þrefaldur héðan borið saman við nálæg lönd.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson, 5. þm. Norðurl. e., tók til máls í umr. um þessa till. s.l. þriðjudag hér í hv. Sþ. og komst nokkurn veginn efnislega að þeirri niðurstöðu að þeir útgerðaraðilar sem nú stæðu frammi fyrir miklum vanda með sín skip, ættu þar í miklum vanskilum, gætu að verulegu leyti sjálfum sér um kennt. Hann sagði, með leyfi herra forseta:

„En það hefur í raun og veru aldrei verið gerð tilraun til þess að líta á það að þeir sem reksturinn stunda verði að bera ábyrgð á þessum hlutum. Það eru þeir sjálfir sem hafa komið sér í þessi vandræði að miklu leyti.“

Ég hef undir höndum, herra forseti, upplýsingar um skip, ég ætla ekki að nafngreina það hér, en þetta skip tók á árinu 1981 lán í dollurum að upphæð 5 millj. þess gjaldmiðils. Þegar það lán var tekið var gengi Bandaríkjadollars 7,30 kr. Á sama tíma var gengi sterlingspunds 14,44 kr. Þessar 5 millj. dollara umreiknaðar í pund á því sama tímabili eru 2 millj. 529 þús. 957. Ef við lítum á þessa tvo gjaldmiðla í dag og athugum hvernig þetta lán hefur þróast á þessum þremur árum er gengi dollars á árinu 1984, þegar þessir útreikningar voru gerðir, 32,55 kr., en gengi pundsins 41,79 kr. Það þýðir að þetta 5 millj. dollara lán er núna 162 millj. 750 þús. ísl. kr., en sambærilegt lán í pundum er 105 millj. 737 þús. kr. Mismunurinn á þróun þessara tveggja gjaldmiðla umreiknaður í ísl. kr. á þessu þriggja ára tímabili er því 57 millj. kr. Það hefur þetta skip mátt bera. Hefði það tekið sitt 5 millj, dollara lán í pundum, sem þá hefði verið 2 millj. 529 þús. pund, og borgað af þeim síðan væri það núna 57 millj. kr. ríkara, — ef hægt er að nota það arðalag um þetta margblessaða skip. Reyndar vantar inn í þessa útreikninga að á öllu þessu tímabili hafa vextir af dollaralánum verið hærri en af lánum í pundum.

Svona hafa nú örlögin leikið útgerðarmenn sem á þessu ári tóku þetta lán og mér er spurn: Er það skoðun hæstv. sjútvrh. að þetta sé þeim rétt mátulegt, þeim mönnum sem þarna tóku lán, þeir verði sjálfir að bera ábyrgð á þeim duttlungum örlaganna að gengisþróun hefur verið á þennan veg, eða er með einhverri sanngirni hægt að segja að þessi þróun sé utan og ofan við það sem eðlilegt geti talist og það beri þá að lita á það sem verkefni samfélagsins að grípa inn í þegar málin taka þessa stefnu? — Það vill nú svo til að þessar 57 millj. kr. eru rúmlega öll vanskil af þessu skipi sem er eitt í hópi þeirra verst stöddu.

Ég tek undir orð hv. þm. Eiðs Guðnasonar í umr. um þessa till. á þriðjudaginn var þegar hann sagði að í raun og veru væri ekki við þá menn að sakast sem vildu gera út og höfðu kjark til að kaupa ný skip og var vísað á það að taka lán í þessum margnefnda gjaldmiðli og stóð reyndar í flestum tilfellum ekki annað til boða. Ég hef einnig vitneskju um það að í þeim örfáu tilfellum þar sem menn höfðu viðskipti sín í öðrum gjaldmiðlum var gjarnan farið fram á það við þá að þeir breyttu þeim lánum, að þeir færðu af öðrum gjaldmiðlum yfir í dollara. Ég get lagt fram upplýsingar því til staðfestingar ef þess er óskað. Þeir menn, sem af einhverjum þráa eða einhverjum öðrum ástæðum eða vegna þess að þeir voru meiri efnahagssérfræðingar þegar á reyndi en aðrir sem hafa nú mest höndlað með þessi mál þjóðarinnar, gerðu ekki það sem fyrir þá var lagt eða til var mælst, héldu sínum lánum í öðrum gjaldmiðlum, hafa sem sagt notið góðs af þessari þróun, en þeir eru því miður fáir.

Hæstv. forsrh. hefur í umr. á hv. Alþingi tekið undir það að ástæða væri til að fara ofan í saumana á ýmsum kostnaðarliðum útgerðar og fiskvinnslu í landinu og þar mætti, ef ég fer rétt með hans orð, án efa ná einhverjum árangri. Þetta hefur hann sagt í umr. á hv. Alþingi og hann hefur látið hafa efnislega hið sama eftir sér í fjölmiðlum. Þess vegna kom það mér nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar hæstv. sjútvrh. og flokksbróðir hans töldu þessa till. óþarfa og ástæðulaust að vinna svo að málunum. Ég er þeirrar skoðunar að þær ráðstafanir sem hann rakti hér og varða 1.–5. lið till. áður en hann þraut örendi og hann ákvað að rekja þetta ekki frekar, nái ákaflega skammt. Sjálfur viðurkenndi hann að vandi þeirra skipa sem verst væru stödd væri miklu, miklu meiri en svo að þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið dygðu til að leysa hann. Af sama toga tel ég að þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið í sambandi við olíuverð dugi skammt ef við ætlum okkur að ná niður þeim mikla mun sem sannanlega er á olíuverði til fiskiskipa hér og í nálægum löndum. Þá vék hæstv. sjútvrh. ekki að 6.–8. tölul., sem eru söluverðmæti afurða á erlendum mörkuðum, launakostnaður í veiðum og vinnslu og ríkisstyrkir í sjávarútvegi í nálægum löndum sem auðvitað hafa áhrif á afkomu þessa atvinnuvegs hér.

Seinni hluti till. er um sérstakar aðgerðir til lausnar þeim vanda sem þau skip eiga nú við að glíma sem eru undir hamrinum eða á leið undir hamarinn og eins og forsíður dagblaða í dag bera merki má ekki draga lengi að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er það till. okkar flm. að þeim hluta verksins verði hraðað og reynt að skila niðurstöðum hvað það varðar fyrir áramót.

Ég er sannfærður um það, eins og ég sagði reyndar í framsögu með þessari till., herra forseti, að það þættu góðar fréttir í mörgu byggðarlaginu, þar sem menn eru nú mjög uggandi um sinn hag, ef þær fréttir bærust héðan af hv. Alþingi að nefnd þm. væri að hefja störf til að greina þennan vanda sjávarútvegsins og til að gera tillögur til úrbóta. Því yrði fagnað. Ég er hins vegar ekki eins viss um að því verði fagnað ef það fréttist héðan af hv. þingi að þær ráðstafanir sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera eða hyggst gera eigi að duga einar sér. Það mætti í sjálfu sér fara rækilega yfir það lið fyrir lið hvað stjórnin hefur verið að gera og bera það saman við þann mikla vanda sem við er að glíma í þessum atvinnuvegi, en ég tel að það sé ekki tími til þess hér nema þá að taka í það miklum mun lengri tíma en ég tel vera við hæfi.