21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5459 í B-deild Alþingistíðinda. (4708)

450. mál, lán opinberra lánasjóða

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svar. Það kemur fram í svari hans að viðskrn. fer ekki með málefni einstakra lánasjóða. Það er mér kunnugt um, enda hef ég í samræmi við það borið fram sérstaka fsp. til sjútvrh. t. d. um málefni Fiskveiðasjóðs. Hins vegar tel ég að fsp. sem þessi eigi engu að síður erindi til viðskrh. þar sem það mundi vera í hans verkahring að hafa — eigum við að segja almennt siðgæðiseftirlit með fjármála- og peningastarfsemi í landinu. Ég held að það sé full ástæða til að spyrja spurninga sem þessara af ástæðum sem ég vék reyndar að í inngangi. Það hefur augljóslega orðið mjög mikið misgengi milli verðlags á flestum fasteignum í landinu á undanförnum misserum, fasteignum sem vafalaust eru lagðar til grundvallar fyrir verðtryggingum, og hins vegar lána. Lán hafa hækkað eins og við vitum af ýmsum ástæðum. Þau hafa hækkað stórkostlega vegna gengisbreytinga. Þau hafa hækkað vegna þess að lánskjaravísitala hefur hækkað meira en launakjör, sem aftur ráða eftirspurn t. d. eftir fasteignum, þannig að það hefur orðið vart verulegs misgengis. Líklega hafa lán, sem veitt eru húsnæðismarkaðinum, hækkað verulega miklu meira en verðgildi þeirra eigna sem notaðar eru til veðsetningar á markaðsverði.

Án þess að ég sé með nokkrar aðdróttanir um að misferli eigi sér stað í þessum efnum held ég að það hljóti að vera verðugt verkefni stjórnvalda að huga að því hvernig tryggingum lána, allt frá húsnæðislánum til fjölda annarra lána, er komið vegna þess að hér er í flestum tilfellum um að ræða fjármagn sem stjórnvöld gæta í umboði skattborgara og skv. lögum á á hverjum tíma að gæta trygginga þeirra sem best.