22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5551 í B-deild Alþingistíðinda. (4790)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég stíg hér í pontuna til að leiðrétta misskilning og byrja þá kannske á þeim misskilningi hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Helga Seljan, að ég sé ekki eindreginn stuðningsmaður þessa frv. Það er ég. Ég tel sjálfsagt að þetta sé gert.

Rökin eru kannske þau, sem andstæðingar þessa máls sjálfir bera fram, að varan mundi lækka í verði, það yrðu hagstæðari innkaup gerð á þessari vöru, það mundi verða aukin samkeppni o. s. frv., að við mundum nota minni gjaldeyri til að kaupa inn sama magn vöru. Talað er um að varan verði aftur á móti of ódýr í útsölu. Þá þekki ég illa til allra fjmrh., fyrrv., núv. og tilvonandi, ef þeir mundu ekki reyna að rétta það af með því að auka sínar tekjur með aukinni skattlagningu. Ég held að við þurfum ekki að óttast að tóbaksvörur verði gefnar þrátt fyrir þetta. Ríkið fær sínar tekjur og kannske meiri eftir en áður.

Að því er varðar öll rökin og gagnrökin í þessu máli, þá liggur fyrir að öll þessi bréf, allar þessar ályktanir, sem hér hafa verið nefndar af hv. 3. þm. Norðurl. v. t. d., hafa ekki eingöngu verið send fjh.- og viðskn. Þau hafa verið send hverjum einasta þm. að því er ég best veit. Menn hafa haft þetta allt saman undir höndum um langt skeið.

Það er líka mesti misskilningur, og ég skil varla hvernig hann hefur getað komið upp, að af minni hálfu eða nefndarinnar hafi verið reynt að reka þetta mál áfram. Það er síður en svo. Það hafa allir verið kallaðir til viðræðna um þetta mál, sem óskað hefur verið eftir, og margsinnis spurt að því hvort menn væru ekki sammála um að kljúfa nefndina. Það var gert í algeru bróðerni, að hún var klofin, og allir nm. um það sammála að afgreiða málið til deildar og láta hana síðan taka sína ákvörðun. Það hefur ekki borið á óeðlilegum hraða eða verið beitt óeðlilegum vinnuaðferðum í einu eða neinu. Ég spurði t. d. hv. þm. Eið Guðnason að því, þegar við kvöddumst í gegnum síma á sunnudaginn, hvort hann óskaði eftir einhverri frestun á þessu má!i, - við töluðum um ýmis mál, útvarpsmál o. fl., — vegna þess að hann er erlendis. Hann sagði nei. Það væri alls ekki. Hann er andstæðingur frv. Hann vill vísa málinu til ríkisstj. Og hann sagði mér að ég þyrfti ekki sín vegna að biðja um neina frestun á þessu máli.

Ég held að þetta hafi fengið alveg fullkomlega eðlilega þinglega meðferð hingað til og fái hana núna í dag. Ég vísa öðru algerlega á bug og það hlýtur að vera byggt á einhverju misminni eða misskilningi hv. 3. þm. Norðurl. v. Því miður er hann ekki hér, en hann samþykkti það eins og allir aðrir að við hefðum þennan hátt á. Við kölluðum fyrir alla þá sem óskað var eftir að hafa til viðræðu. Við höfum allir fengið þessi bréf og lesið þau að sjálfsögðu, vissum um alla málavexti, rökin fram og til baka og við komum okkur saman um að þetta væri mál hvers og eins. Þetta er að vísu stjfrv. og væntanlega greiða stjórnarþm. atkv. með því, a. m. k. hygg ég að svo sé um minn flokk, það sé flokksmál þar. En að öðru leyti mundu menn náttúrlega greiða atkv. með eða móti eftir sinni samvisku.

Ég held að það verði hvorki meira né minna reykt eftir en áður. Það fer eftir ýmsu öðru. Menn vita að ég reyki. Mér finnst ágætt að reykja einstaka sinnum. Ég veit að þetta er eitthvað óhollt kannske, en það er nú svo margt óhollt og yfirleitt flest það sem er eitthvað gott. Það er yfirleitt líka talið óhollt. Ég verð að gera það upp við mína samvisku hvort ég held áfram að reykja eða ekki. Og ég held að það breytist ekki nokkurn skapaðan hlut hvort varan er flutt inn af Rolf Johansen eða ríkinu, Jóni Kjartanssyni. Ég held að mínar reykingavenjur breytist nákvæmlega ekkert við það og tel þetta mál þess vegna ekkert stórmál að þessu leyti til. En mér finnst bara ríkið ekkert eiga að vera að vasast í þessu. Það er hagstæðara fyrir okkar gjaldeyrissjóð og okkar þjóðarbú að það séu gerð skynsamleg innkaup á þessari vöru, sem aldrei verður í ríkisrekstri, og þess vegna er ég eindreginn stuðningsmaður málsins.