23.05.1985
Neðri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5637 í B-deild Alþingistíðinda. (4909)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Frsm. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. hv. félmn. um frv. til l. um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. En eins og fram hefur komið í nefndarálitum klofnaði nefndin í afstöðu til málsins. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að málinu verði vísað til ríkisstj., en minni hl., sem Guðmundur J. Guðmundsson skipar ásamt mér, leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Ég hlýt, herra forseti, að gera þessu máli nokkur skil hér þegar allar líkur benda til að þessu frv. verði vísað frá með þeim hætti sem meiri hl. leggur til þegar um er að ræða mál sem ekki einasta getur skipt sköpum um atvinnuöryggi fjölda launþega í landinu heldur og haft áhrif á atvinnuuppbygginguna, aukna framleiðni og hagvöxt og í reynd skipt sköpum um hve hratt við tökum tækninýjungar í þjónustu okkar.

Ég verð að segja að ég tel að það gæti mikillar skammsýni í afgreiðslu meiri hl. á þessu máli og að menn geri sér ekki nægjanlega grein fyrir afleiðingum þess að fresta því að koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun og starfsþjálfun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu. Að vísu hefur það margsinnis komið fram hjá stjórnvöldum, ekki síst hæstv. forsrh., að brýn nauðsyn sé á nýsköpun og aukinni tæknivæðingu í atvinnulífinu. Undir það skal vissulega tekið um leið og hjá því verður ekki komist að gagnrýna að minna hefur verið um það bæði í orði og verki að stjórnvöld hefðu af því umtalsverðar áhyggjur eða legðu fram tillögur eða úrbætur um það hvernig skapa ætti starfsmönnum skilyrði til þess að aðlagast tæknivæðingunni, einkum í þeim atvinnugreinum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingar. En það hlýtur þó að vera deginum ljósara að undirstaða tæknivæðingar í atvinnulífinu er að við höfum á að skipa starfsfólki sem vald hefur á tækninýjungum og sem hefur verið gert kleift með eftir- og endurmenntun að takast á við breytta atvinnuhætti samfara tækninýjungum.

Ég vil þó geta þess hér að mér fannst, þegar ég mælti fyrir þessu máli við 1. umr., að það kæmi fram verulegur skilningur hjá hæstv. félmrh. á nauðsyn þess að taka á þessu máli sem meiri hl. leggur nú til að vísað verði til ríkisstj. Taldi hæstv. félmrh. þetta mál um margt hið athyglisverðasta og sagði að hér væri um að ræða eitt mikilvægasta málið fyrir framþróun í þessu þjóðfélagi, ekki hvað síst í sambandi við atvinnumálið og framtíð þess. Tók hæstv. félmrh. reyndar svo sterkt til orða að hann sagði að um væri að ræða framtíðarmál þessarar þjóðar. Ég er honum sammála og tel að hér sé síst of fast að orði kveðið.

Hæstv. félmrh. vitnaði í skýrslu starfshóps sem hæstv. ráðh. hefur skipað sem hefur það verkefni að gera könnun sem ætlað er að leiða í ljós, eftir því sem unnt er, líkleg áhrif þeirrar nýju tækni, sem nú ryður sér til rúms, á mannaflaþróun á vinnumarkaði, framleiðni og samkeppni núverandi atvinnugreina, svo og stofnun og viðgang nýrra atvinnugreina. Hæstv. ráðh. vitnaði þar í skýrslu starfshópsins varðandi eftir- og endurmenntun. Bendir starfshópurinn á í skýrslu sinni að aðlögun vinnumarkaðarins að nýrri tækni komi misjafnlega niður á starfsgreinum og störfum. Þess vegna þurfi að tryggja starfsmönnum endurmenntun og þjálfun sem geri mönnum kleift að laga sig að tæknibreytingunni. Slíkum stuðningi þurfi að fylgja skilningur á aðlögunarvanda eldri starfshópa. Bendir starfshópurinn einnig á stöðu kvenna á vinnumarkaðinum í áfangaskýrslunni og telur að sérstök áhersla sé til að hyggja að stöðu þeirra. Þær gegna í ríkari mæli en karlar einhæfum störfum sem líklegri eru til að leggjast af eða breytast.

Hér kemur vissulega fram frá hæstv. ráðh. og í áliti þessa starfshóps skilningur á þessu máli, um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu, en með framlagningu þessa frv. er reynt að knýja á um að stjórnvöld taki á þessu máli og komi því til framkvæmda. En skilningur nægir ekki í þessu efni. Það ber vissulega að harma og vara við afleiðingum þess ef Alþingi lýkur enn einu sinni störfum án þess að á þessu máli sé tekið á raunhæfan hátt.

Nú skal ég vissulega ekki gera meiri hl. hv. félmn. upp þá skoðun að hann hafi ekki skilning á mikilvægi endurmenntunar. Ég verð þó að segja að í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál fannst mér ekki koma fram nein haldbær rök eða efnisleg gagnrýni á frv. og einstakar greinar þess sem hefðu átt að leiða til þeirrar niðurstöðu og afgreiðslu sem málið fékk í nefndinni. Ég tel að miklu fremur sé um að ræða að hversu brýn sem mál eru sem lögð eru fyrir Alþingi og hversu vandlega sem mál hafa verið unnin, þá eru stjórnarflokkarnir ekki eins reiðubúnir að skoða þau með jákvæðu hugarfari eða að þau fái sömu meðferð og umfjöllun í nefndum og að á þeim sé tekið af einhverri alvöru nema um sé að ræða stjfrv.

Þessi vinnubrögð eru vissulega gagnrýnisverð, ekki einasta vegna þess að alþm. ber að vinna hér að málum og undirbúa frv. og setningu löggjafar sem stuðla að framförum og betra mannlífi í þágu þjóðarheildarinnar en ekki að taka afstöðu til mála eftir því hvort það er stjórn eða stjórnarandstaða sem þau flytur, heldur og er þetta gagnrýnisvert vegna þess að þetta slævir vilja og áhuga þm. á að takast á við það meginverkefni sem þeim er ætlað, þ. e. að vinna að undirbúningi lagafrv. og setja landinu lög. Enda er það svo að á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að þm. sjálfir leggja sífellt minni vinnu í undirbúning frv. en þess í stað hefur þáltill. stórlega fjölgað. Það leiðir af sjálfu til þess að allur málatilbúnaður og undirbúningur lagasetningar er í höndum embættismannanna en ekki þm. sjálfra en helsta verkefni þm. virðist vera hér á löggjafarsamkomunni að leggja blessun sína yfir gjörðir embættismannanna.

Væri það vissulega verðugt rannsóknarefni að athuga hve mörg lög, sem hér eru afgreidd frá Alþingi, eru undirbúin og samin af framkvæmdavaldinu og embættismönnunum og hve mörg lög það eru sem koma frá þm. sem raunverulega eru til þess kjörnir. Aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds er auðvitað meiri í orði en verki þegar svo er málum háttað að framkvæmdavaldið og embættismennirnir, sem vinna eiga eftir þeim lögum sem Alþingi setur, semja sjálfir lögin og eru hinir eiginlegu lagasmiðir. Ég tel að alþm. ættu að athuga sinn gang þegar embættismannakerfið er orðið svo mótandi í allri lagasmíð sem kemur frá Alþingi eins og raun ber vitni.

Varðandi það frv. sem hér er til umræðu, þá fer væntanlega um það mál eins og mörg önnur að ekki kemur til lagasetningar í því máli fyrr en embættismannakerfið hefur tekið afstöðu til og mótað með hvaða hætti skuli koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun og starfsþjálfun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu.

Í sjálfu sér, herra forseti, sé ég ekki mikinn tilgang í því að hafa langa framsögu fyrir þessu ná1. þegar sýnt er hvert stefnir með þetta mál. Engu að síður er hér um svo stórt mál að ræða að ég tel það skyldu mína að eyða í það nokkrum orðum og vara við þeim afleiðingum sem það getur haft ef stjórnvöld og Alþingi taka ekki þegar á þessu máli.

Eins og fram kemur í nál. minni hl. fékk nefndin umsagnir átta aðila um þetta mál. Í umsögnum fjögurra þessara aðila var mælt með samþykkt frv. með örfáum brtt. Í sumum þessara fjögurra umsagna og í hinum umsögnunum kemur fram skilningur á mikilvægi málsins og í flestum þeirra lýst yfir stuðningi við meginmarkmið frv. Ég vil með örfáum orðum, herra forseti. drepa á nokkur atriði í þessum umsögnum.

Í umsögn Vinnuveitendasambandsins kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta: „Vinnuveitendasambandið telur að með frv. þessu sé hreyft mjög mikilvægu máli. Líklegt má telja að á komandi árum geri vinnumarkaðurinn almennt meiri kröfur til tækniþekkingar starfsmanna en nú gerist.“

Í umsögn Bandalags háskólamanna kemur fram að launamálaráð ríkisstarfsmanna innan BHM lýsir yfir fullum stuðningi við markmið frv. Leggja þeir til nokkrar breytingar á frv., m. a. þá að fulltrúi launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM fái fulltrúa í endurmenntunarráð.

Í umsögn Landssambands iðnaðarmanna kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Yfirlýst meginmarkmið lagafrv. er að koma á fót skipulagðri endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu og skapa mönnum skilyrði til að aðlagast tæknivæðingunni einkum í þeim atvinnugreinum þar sem tæknivæðingin stefnir atvinnuöryggi í hættu. Landssamband iðnaðarmanna hefur löngum bent á og ítrekað ályktað um það á iðnþingum að nauðsynlegt sé að efla starfsþjálfun og endurmenntun á sviði iðnaðar, einkum þar sem tækniþróun er ör. Samkeppnishæfni iðnaðarins og atvinnuveganna almennt byggist á því að fljótt og skipulega sé að þessum þætti staðið. Landssambandið lýsir því stuðningi við meginmarkmið frv.“

Síðar í umsögn Landssambands iðnaðarmanna kemur fram að æskilegt sé að einstaka atvinnuvegir og jafnvel einstaka greinar innan höfuðatvinnuveganna móti stefnuna í endurmenntunarmálum greinarinnar og tengist framkvæmdinni í sem ríkustum mæli frekar en að fara þá leið sem frv. gerir ráð fyrir.

Í umsögn Stjórnunarfélags Íslands kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Stjórnunarfélag Íslands er sammála þeirri röksemdafærslu sem færð er fyrir mikilvægi endurmenntunar eins og fram kemur í grg. frv. Þjóðfélagsþróun undanfarinna ára og þær breytingar, sem orðið hafa á milli atvinnugreina með tilliti til vinnuafls og nýrrar tækni og þeirra kerfisbreytinga sem því fylgja, kalla á umfangsmikla endurmenntun svo að starfsfólk geti aðlagað sig nýjum kröfum. Stjórnunarfélag Íslands telur þó að sú stefna, sem mörkuð er með frv., sé röng og að starf endurmenntunarráðs megi auðveldlega fela þeim aðilum sem nú starfa á þessu sviði og þá er ekki eingöngu átt við Stjórnunarfélag Íslands.“

Síðar í umsögn Stjórnunarfélagsins kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Sjónarmið Stjórnunarfélags Íslands er því í fáum orðum að hið opinbera eigi að öllu jöfnu ekki að skipta sér af framkvæmd endurmenntunarmála heldur eigi að örva og efla þá aðila sem nú þegar starfa á þessu sviði og e. t. v. samræma störf þeirra meira en gert er í dag með öflun og dreifingu upplýsinga.“

Ég vil benda á, herra forseti, vegna þessara síðustu orða í umsögn Stjórnunarfélags Íslands, að það er meginmarkmið þessa frv. að koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu. En á það bendir einmitt Stjórnunarfélagið að hið opinbera eigi e. t. v. að samræma störf þeirra aðila sem að þessum málum vinna meira en nú er gert.

Í umsögn Iðntæknistofnunar Íslands kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Stjórnin telur mjög nauðsynlegt að efla til muna endurmenntun vegna breyttra þarfa í atvinnulífinu. Stjórnin fagnar því að leggja eigi aukið fjármagn til slíkrar starfsemi og telur mikilvægt að endurmenntunarsjóður greiði hluta af launum starfsmanna, þegar þeir sækja námskeið. Stjórnin vill hins vegar vara við þeirri tillögu um samsetningu endurmenntunarráðs sem fram kemur í frv.

Stjórn Iðntæknistofnunar telur nauðsynlegt að ákvarðanir ráðsins verði byggðar á faglegum grundvelli og leggur til að Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eigi fulltrúa í endurmenntunarráði. Með því móti ætti að megi tryggja að ráðið taki mið af væntanlegri þróun hinna ýmsu atvinnugreina. Stjórnin bendir því til félmn. Nd. Alþingis að hún óski álits á frv. hjá hagsmunasamtökum atvinnulífsins.“

Til viðbótar þessu skal á það bent að 1ngjaldur Hannibalsson, forstjóri Iðntæknistofnunar, kom á fund félmn. og kom fram í hans máli að Iðntæknistofnun mælti með samþykkt frv. með þeim breytingum sem fram komu í umsögn Iðntæknistofnunar.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að Alþýðusambandið fagnar því að mál þetta skuli vera komið til umræðu á Alþingi og væntir þess að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem raktar eru í umsögninni og frv. verði þannig samþykkt sem lög frá Alþingi. Í þeim brtt. sem minni hl. flytur hefur minni h1. tekið að verulegu leyti tillit til þeirra athugasemda og brtt. sem fram komu í umsögn Alþýðusambands Íslands.

Umsagnir bárust einnig frá Kvenréttindafélagi Íslands og Jafnréttisráði sem ég tel ástæðu til að gera sérstaklega skil, einkum vegna þess að Jafnréttisráð og Kvenréttindafélag Íslands hafa sérstaklega látið þessi mál til sín taka, annars vegar Jafnréttisráð með ráðstefnu sem haldin var 17. febrúar 1984 sem það hélt ásamt Skýrslutæknifélagi Íslands um áhrif tæknibreytinga á atvinnulífið með tilliti til jafnréttis kynjanna og hins vegar Kvenréttindafélag Íslands sem hefur látið gera ítarlega úttekt á áhrifum tölvuvæðingar á vinnumarkaðinn og hefur niðurstaða þeirrar úttektar nú verið gefin út í sérstakri skýrslu.

Í umsögn Kvenréttindafélags Íslands um þetta frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórn KRFÍ fagnar framkomu þessa frv. sem mun, ef það verður að lögum, hafa mikil áhrif í þá átt að auka starfsmöguleika kvenna í framtíðinni. En eins og fram kemur í grg. með frv. er ástæða til að ætla að með tilkomu örtölvutækninnar muni fækka verulega hinum hefðbundnu kvennastörfum í atvinnulífinu. Sérstök ástæða er til að nefna ákvæði í 4. gr. frv. um greiðslu fullra námskeiðsgjalda úr endurmenntunarsjóði í þeim tilvikum að viðkomandi séu að koma á vinnumarkaðinn og séu ekki í stéttarfélögum, þar sem þetta mun gefa fjölmörgum konum jafnt sem körlum tækifæri til þess að tileinka sér nýja tækni sem annars hefðu ekki til þess fjárhagslegt bolmagn.

Þá telur stjórnin að forsenda þess að lögin nái markmiði sínu sé að tryggja endurmenntunarsjóði nægi lega fjárveitingu ár hvert, enda, eins og segir í grg., er endurmenntun starfsfólks ein veigamesta forsenda þess að hægt sé að nýta sér nýjar tæknibreytingar til aukinnar framleiðni, hagvaxtar og bættra lífskjara hér á landi. Stjórn KRFÍ mælir með því að frv. verði samþykkt.“

Í umsögn Jafnréttisráðs segir svo, með leyfi forseta: „Jafnréttisráð hefur tekið áhrif tæknivæðingar og endurmenntunarmála til umfjöllunar, einkum með tilliti til þeirra áhrifa sem þróunin hefur á störf og stöðu kynja í atvinnulífinu. Jafnréttisráð boðaði til ráðstefnu ásamt Skýrslutæknifélagi Íslands um áhrif tæknivæðingar á vinnumarkaðinn með sérstöku tilliti til jafnréttis kynjanna þann 17. febr. s. l. Ráðstefnuna sóttu um 70 manns og 12 erindi voru þar haldin. Umræður manna voru miklar og áhugi manna ótvíræður.“

Í grg. með frv. á bls. 9 er vitnað í upplýsingar sem komu fram á ráðstefnunni. Í tilefni ráðstefnunnar samþykkti Jafnréttisráð eftirfarandi:

„1. Á undanförnum árum hafa miklar framfarir orðið á sviði sjálfvirkni og tölvunotkunar. Sú tæknibylting hefur valdið og á eftir að valda miklum breytingum á vinnumarkaðinum hér á landi sem annars staðar. Breytingunum má skipta í þrjá þætti:

1. Störf breytast. 2. Störf leggjast niður. 3. Ný störf verða til.

Þetta veldur röskun á vinnumarkaðinum sem kemur í fyrsta lagi fram í atvinnuleysi vegna horfinna starfa, í öðru lagi vinnuaflsskorti vegna nýrra sérhæfðra starfa. Með tímanum má þó gera ráð fyrir að jafnvægi skapist á ný, en e. t. v. má draga úr byrjunarörðugleikum. Þeir aðilar. sem eðli málsins skv. ættu e. t. v. að hafa frumkvæði í því, eru aðilar vinnumarkaðarms og stjórnvöld í landinu. Ófaglært fólk verður fyrst fyrir barðinu á atvinnuleysi þegar störf falla niður eða eru leyst af hólmi með sérhæfðum störfum. Konur er mikill meiri hluti þessa hóps og meiri hluti kvenna á vinnumarkaðinum er í hópi ófaglærðra. Íslenskur vinnumarkaður skiptist enn að miklu leyti í karla- og kvennastörf og eru kvennastörfin í þessu sambandi talin í meiri hættu. Má taka sem dæmi að tölvuvæðing og sérhæfing beinist nú ekki síst að skrifstofu- og viðskiptagreinum þar sem konur vinna almennu störfin að miklum meiri hluta og þau eru um leið stór hluti þeirra starfa sem konur vinna utan heimilis.

Jafnréttisráð telur frv. það sem hér um ræðir jákvætt framlag til þessara mála og löngu sé tímabært að koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu og skapa skilyrði til að aðlagast tækniframförum, eins og kveðið er á um í markmiðsgrein frv.

Verði frv. að lögum leggur Jafnréttisráð áherslu á að endurmenntunarráð verði skipað konum jafnt sem körlum. Æskilegt væri að Jafnréttisráð fengi að tilnefna fulltrúa í ráðið, t, d. annan þeirra sem félmrh. er ætlað að skipa skv. frv. Í ýmsum löndum hefur atvinnuöryggi kvenna reynst vera í meiri hættu en karla vegna tæknibreytinga.

Tilefni þess að Jafnréttisráð hóf að ræða þessi mál var atvinnumissir allmargra símavarða, kvenna, þar sem startsmenn og stéttarfélög þeirra höfðu ekki verið nægilega vel á verði. Svipað þessu getur gerst og bitnar bæði á körlum og konum á mörgum öðrum sviðum þar sem tæknibreytingar verða. Nauðsynlegt er því að gripið sé til fyrirbyggjandi aðgerða, m. a. eins og þeirra sem gert er ráð fyrir í frv. Því mælir Jafnréttisráð eindregið með því að frv. verði að lögum.“

Herra forseti. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna því með hvaða hætti Kvenréttindafélag Íslands og Jafnréttisráð hafa tekið á þessu máli, því það er deginum ljósara að það er ekki síst atvinnuöryggi kvenna sem er í hættu vegna tæknivæðingarinnar og það er ekki síst hagsmunamál kvenna að stjórnvöld grípi þegar til ráðstafana til að koma á skipulegri starfsþjálfun og endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Því ber að fagna frumkvæði Jafnréttisráðs og Kvenréttindafélagsins í þessu máli. Ekki síst er fengur í þeirri skýrslu sem fram hefur komið hjá Kvenréttindafélagi Íslands um tölvutæknina, sem glögglega sýnir hvert stefnir í þessu máli ef ekkert verður að gert.

Ég held að það sé því miður svo að á Íslandi hafi allt of lítil umræða farið fram um áhrif þeirrar róttæku breytingar sem rafeindatækni og tölvuvæðing munu hafa á vinnumarkaðinn, atvinnulíf og atvinnuhætti í landinu, hvaða möguleika hún muni opna og hvaða hættur hún muni hafa í för með sér ef ekki er á réttan hátt brugðist við í tíma. Af því sem ég hef kynnt mér þessi mál, þá tel ég umræður, rannsókn og könnun á áhrifum tæknivæðingarinnar mun lengra á veg komin á hinum Norðurlöndunum, enda er komið nokkuð gott lag þar á skipulag endurmenntunarmála og að verulegu leyti er þar farið inn á svipaðar brautir og lagt er til með þessu frv.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir að áhrif tölvuvæðingarinnar munu verða að mörg störf munu annaðhvort taka miklum breytingum eða úreldast og ný störf taka við. Á það hefur einnig verið bent að þótt tölvubyltingin skapi ný störf sem krefjast endurmenntunar leiðir hún einnig til aukinnar einhæfni og minni krafna og starfsþjálfunar í öðrum störfum sem er varhugavert, bæði vegna hættu á starfsleiða og út frá starfsöryggi og launakjörum. Margt bendir til þess að það sé ekki síst starfsöryggi kvenna sem muni vera í hættu vegna tækniþróunar og er það ekki síst í hinum mörgu hefðbundnu kvennastörfum vegna þess að störf þeirra og menntunarval er einhæfara og því viðkvæmara fyrir tölvuþróuninni. Eins hitt að ýmiss konar tækninám og tæknistörf, sem eru hagnýt í störfum sem viðkoma tölvuvæðingunni, höfða lítt til kvenna og fæstar sækja inn í slíkt nám eða störf.

Áhrifa tölvuvæðingar mun því einkum gæta í störfum þar sem konur eru fjölmennar svo sem í almennum skrifstofu- og þjónustustörfum og störfum ófaglærðra svo sem í iðnaði. Ég sé ástæðu til að benda hv. þm., sem ekki hafa kynnt sér grg. með þessu frv., á þær upplýsingar sem fram koma á bls. 9 í frv. Það eru upplýsingar sem fram komu á ráðstefnu sem haldin var á vegum Jafnréttisráðs um atvinnumál með tilliti til jafnréttis kynjanna. Á þeirri ráðstefnu kom fram í fyrsta lagi að 8% vöxtur sjálfvirkni á tíu ára tímabili mundi gera 20–25% skrifstofustarfa óþörf og að 5 milljónir af 17–18 milljónum skrifstofufólks í Vestur-Evrópu mundu þá missa vinnu sína. Áætlað er einnig að af 5–7 milljónum skrifstofustarfa í Vestur-Þýskalandi sé hægt að staðla 43% og gera 25–30% sjálfvirk.

Í þriðja lagi er bent á í grg. að frönsk skýrsla spáir 30% samdrætti í atvinnu hjá bönkum og tryggingarfélögum á tíu árum. Áætlað er að 82% af 349 þúsund vélriturum í Frakklandi mundu missa vinnu sína vegna tilkomu ritvinnslutækja. Í Bretlandi spá: sérfræðingar verkalýðssamtakanna um 20% atvinnuleysi á þessu sviði upp úr 1990 og í Danmörku er reiknað með að á næstu árum hverfi u. þ. b. 75 þúsund skrifstofustörf. Ég tel, herra forseti, að slíkar upplýsingar ættu að vera nægjanlegt tilefni til þess að stjórnvöld sæju ástæðu til að taka á þessu máli af festu og röggsemi og að gera þegar í stað skipulagðar og samræmdar áætlanir, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, til að tryggja atvinnuöryggi þess starfsfólks sem nú er í hættu sem er ekki síst í almennum skrifstofu- og þjónustustörfum og að verulegu leyti einnig í fiskvinnslunni. Ég bendi á í því sambandi að hæstv. forsrh. hefur einmitt mjög í sínu máli, þegar hann ræðir nýsköpun í atvinnulífinu og tæknivæðinguna, rætt um möguleika á tæknivæðingu í fiskvinnslunni. Hjá því verður ekki komist um leið að minna á að sjaldan ræðir hæstv. forsrh. um það með hvaða hætti eigi þá að tryggja atvinnuöryggi starfsfólks í fiskvinnslunni, ekki síst þess fjölda kvenna sem þar vinnur sem hefur kannske ekki menntun eða aðstöðu til að sækja inn í önnur störf.

Ég vil benda á upplýsingar sem fram komu í riti sem gefið var út á vegum OECD 1981 um áhrif tölvuvæðingar á störf kvenna. Þar er að finna grein þar sem rakin er skipting kynja í einstakar atvinnugreinar í Ástralíu. Þar kemur fram að 83% kvenna, sem gegna launuðum störfum, skiptast á 18 af 61 starfsgrein í landinu. Þessar 18 greinar kallast kvennastarfsgreinar. Í raun skiptast 50% kvenna á vinnumarkaði á einungis fimm starfsgreinar, þ. e. almenn skrifstofustörf, afgreiðslustörf, hraðritun og vélritun, heimilishjálp, eldamennsku, þjónustu- og kennslustörf. Einungis 12% kvenna eru í hefðbundnum karlastörfum.

Eitt af hlutverkum rannsóknarnefndar, sem sett var á laggirnar í Ástralíu, var að greina störf sem væru í hættu á næstu fimm árum vegna hagnýtingar nýrrar tækni. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ný tækni hefði meiri áhrif á störf í þjónustugreinum en iðnframleiðslu. Niðurstaðan varð sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna mætti áætla að ný tækni hefði áhrif innan starfsgreina þar sem 50% kvenna á vinnumarkaði vinna og 25% karla. Með tilliti til þessa mundu áhrif nýrrar tækni sérstaklega koma niður á konum.

Það þarf því engan að undra, herra forseti, þó að Kvenréttindafélagið og Jafnréttisráð hafi verulegar áhyggjur af þessari þróun og því að stjórnvöld taki ekki á þessu máli sem skyldi, það þarf engum hv. þm. að koma á óvart þó að ég eyði töluverðu af tíma þingsins í að ræða þetta mál.

Það er mikið rætt um launamisrétti kynjanna. En það er alveg ljóst að verði ekki tekið á þessu máli, ekki síst að konum í hefðbundnum kvennastarfsgreinum verði gefinn kostur á að aðlagast tæknivæðingunni, þá munu konur sigla inn í nýja tegund af launamisrétti ef þær verða undir í þeirri tækniþróun sem nú gengur yfir. Þeir karlmenn sem virðast ráða ferðinni í þessu máli verða að gera sér grein fyrir því að það nægir ekki að bjóða konum í láglaunastéttum, sem flestar hefðbundnar kvennastarfsgreinar eru, upp á tölvunámskeið sem kannske eru bara á kvöldin eða um helgar. Láglaunastéttirnar, ófaglærða fólkið, konurnar, verða að hafa möguleika til þess að sækja slík námskeið í vinnutíma, fá greidd laun meðan á endurmenntun stendur, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Það er að vísu ekki svo að engin tölvunámskeið séu í gangi og ekki sé boðið upp á einhverja endurmenntun. En flest þessara námskeiða henta ekki þörfum láglaunahópanna eða láglaunastéttanna þannig að þessir hópar hafi tækifæri til að sækja slík námskeið. Ég held nefnilega að reyndin sé sú að það séu fremur þeir betur settu, þeir hærra launuðu, þeir sem eru í stjórnunarstörfum, sem þessi námskeið eru sniðin fyrir. Grunlaust er mér ekki um að atvinnureksturinn borgi helst námskeiðsgjöld og greiði laun meðan á endurmenntunarnámi stendur til þeirra sem eru í betur settu störfunum í fyrirtækjunum, til stjórnenda og annarra slíkra. Sú stefna sem hér hefur verið rekin í endurmenntunarmálum er miklu fremur sniðin að þörfum slíkra hópa en ekki aðlöguð að þörfum ófaglærðu hópanna sem ekki síst þurfa á endurmenntun og starfsþjálfun að halda vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu.

Ég vil benda á í þessu sambandi að á árinu 1982 voru 64% allra ársverka í okkar framleiðsluskapandi atvinnugreinum, í fiskvinnslu, í landbúnaði, í sjávarútvegi, í höndum ófaglærðs fólks. Það er einmitt þetta fólk sem við eigum að gefa kost á og skapa skilyrði til að það geti aðlagast tæknivæðingunni með eðlilegum hætti vegna þess að það er ekki síst í þeim greinum sem þetta fólk stundar sem áhrifa tæknivæðingarinnar mun gæta og atvinnuöryggi þessa fólks er helst í hættu vegna tæknivæðingarinnar.

Ég bendi jafnframt á upplýsingar sem fram koma í greinargerð með þessu frv. um hvert stefnir í atvinnumálum og hvernig mannaflinn greinist á einstakar atvinnugreinar og hvaða menntun og þekking er nauðsynleg vegna breyttra atvinnuhátta. Á bls. 7 í frv. kemur fram hvernig hlutur upplýsingastarfsemi og þjónustu hefur aukist í ýmsum löndum á sama tíma og verulegur samdráttur verður í framleiðslugreinum, þó svo að framleiðsluverðmætin hafi aukist vegna framleiðniaukningar. Hlutur mannaflans á Íslandi í upplýsingamiðlun og þjónustustarfsemi er verulega minni en í ýmsum löndum sem þar eru upp talin á sama tíma og hlutur mannaflans í framleiðslugreinum á Íslandi er mun meiri en í þessum löndum sem eru Svíþjóð, Bretland, Vestur-Þýskaland, Frakkland, Japan og Bandaríkin. Þessar tölur, sem fram koma á bls. 6 og 7 í grg., sýna glöggt hvert stefnir og hlýtur að vera umhugsunarefni að störf hér á landi í framleiðslugreinum eru fleiri en hjá þessum þjóðum, en framleiðni, hagvöxtur og lífskjör mun verri hér á landi en í þessum löndum og Ísland láglaunasvæði miðað við flest þessara landa. Þessar tölur sýna okkur ljóslega að Íslendingar eru orðnir verulega á eftir öðrum þjóðum í að tileinka sér nýja tækni.

Þau lönd sem nefnd eru í grg. frv. eru mun lengra komin en Ísland í allri tæknivæðingu og ljóst er að bætt lífskjör í þeim löndum hafa ekki byggst á auknum tækifærum í framleiðslugreinum, í Bandaríkjunum t. a. m. þar sem lífskjör eru einna best, þar sem lægst hlutfall vinnuaflsins er við framleiðslustörf.

Ég nefndi hér áðan að 64% allra ársverka í okkar framleiðsluskapandi atvinnugreinum væru í höndum ófaglærðs fólks: Það er ekki síst atvinnuöryggi þessa fólks sem er í hættu vegna tæknivæðingarinnar. Spurningin er: Hvað ætla stjórnvöld að aðhafast til að tryggja atvinnuöryggi þessa fólks, til þess að tryggja að það geti með eðlilegum hætti aðlagast tæknivæðingunni? En ég fullyrði að það verður ekki gert nema eftir svipuðum leiðum og þetta frv. gerir ráð fyrir að þetta fólk fái möguleika og tækifæri til að fá starfsþjálfun og endurmenntun í vinnutíma og það fái greidd laun fyrir meðan á endurmenntunarnámi stendur.

Ég nefndi hér áðan að það væru sérstaklega störf í hefðbundnu kvennastarfsgreinunum sem væru viðkvæm fyrir þeim róttæku breytingum á vinnu sem verða vegna tölvuvæðingarinnar. Aldraðir og fatlaðir, sem ekki treysta sér eða eru í stakk búnir til að aðlagast tæknivæðingunni, geta einnig orðið hart úti skv. þessari þróun. Ef ekki er brugðist við rétt munu erfiðleikar kvenna, sem sækja á vinnumarkaðinn á nýjan leik eftir barnauppeldi og heimilisstörf, einnig stóraukast. Sérstaklega ber að huga að ráðstöfunum fyrir eldri konur, sem litla menntun hafa, í ýmsum þjónustu- og framleiðslugreinum.

Auk þess má benda á að atvinnuleysi ungs fólks fer vaxandi, sérstaklega í Vestur-Evrópu, og er það einkum hjá stúlkum. Ástæðan fyrir því er einkum talin sú að ráðningum í hefðbundin kvennastörf fari stöðugt fækkandi vegna aukinnar tölvuvæðingar. Í þessu felst dulbúin hætta sem vert er að vera á verði fyrir. Ástæðan er yfirleitt sú að fólki er ekki sagt upp vegna tölvuvæðingar í fyrirtækjum heldur er sú leið farin að ráða ekki aftur í þau störf sem losna. Þegar þessi háttur er hafður á er ástæða til að ætla að þeir sem að jafnréttismálum vinna verði sér þess síður meðvitaðir í tíma hve atvinnuleysi í hefðbundnum kvennastörfum fer vaxandi vegna tölvuvæðingar heldur en ef um væri að ræða uppsagnir í einhverjum mæli sem meira væru áberandi. Mín skoðun er sú að ef ekki er fylgst grannt með þessari þróun og brugðist við í tíma getum við staðið frammi fyrir fjöldaatvinnuleysi kvenna fyrr en varir sem erfiðara verður að ráða við en ef í tíma væri tekið á þessum málum.

Ég hef alltaf litið svo á að þörf væri sérstakra aðgerða af hálfu stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar að því er varðar þá hópa sem mest hætta er búin í atvinnulífinu vegna tölvuvæðingar, þ. e. konur í hefðbundnum kvennastörfum og fólk almennt í einhæfum framleiðslu- og þjónustustörfum svo og vegna aldraðra og fatlaðra. En er það svo að verkalýðshreyfingin telji nauðsynlegar séraðgerðir vegna þessara hópa? Til að svara þeirri spurningu vil ég vitna í athyglisvert erindi sem flutt var á ráðstefnu um atvinnumál kynjanna í Svíþjóð 1980. Í því erindi kemur fram að verkalýðshreyfingin setji ekki fram neinar sérkröfur eða úrræði vegna áhrifa tæknivæðingar á störf kvenna þrátt fyrir að mörg hefðbundin kvennastörf séu í sérstakri hættu vegna tæknivæðingar.

Til þess er vitnað að ekki hafi einu sinni heyrst neitt frá verkalýðshreyfingunni þegar mörg hefðbundin kvennastörf í Noregi hjá Televerkets Telefonformidling voru lögð niður vegna tæknivæðingar og það ekki þrátt fyrir að þessir vinnustaðir voru þýðingarmiklir á mörgum stöðum í Noregi þar sem lítil vinna var til staðar fyrir konur.

Fram kom á þessari ráðstefnu að þó að verkalýðshreyfingin gerði kröfu um meðákvörðunarrétt um að stýra tækniþróuninni og slíkt hefði verið fastsett í samningi milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda þá legði verkalýðshreyfingin höfuðáherslu á jafna þróun og samstöðu í þessu máli sem gildir fyrir alla og það mætir andspyrnu að vera með sérkröfur fyrir einstaka hópa. Ef þetta er niðurstaðan einnig hér á landi, sem ég að vísu veit ekki en óttast — a. m. k. hef ég ekki orðið vör við nemar sérkröfur frá íslensku verkalýðshreyfingunni vegna áhrifa og afleiðinga tækniþróunar á störf kvenna — þá er framtíðin ískyggilegri í þessum efnum en ég hélt. Ef þetta er rétt þá tel ég að konurnar sjálfar hljóti sérstaklega að gera kröfur um að skoðuð, rannsökuð og könnuð verði áhrif tæknivæðingar á hefðbundin kvennastörf svo og störf aldraðra og fatlaðra og gerðar skipulagðar áætlanir um úrbætur.

Margir hafa einnig af því áhyggjur að tölvuvæðingin muni festa í sessi hlutastörf kvenna á vinnumarkaðinum og hún muni einnig hafa þau áhrif að hún ýti konum í vaxandi mæli inn í heimilið á nýjan leik því að tölvuvæðingin muni bjóða upp á að hægt sé að vinna ýmis störf heima fyrir sem nú eru unnin á vinnumarkaðinum. Með þessu muni hefðbundin skipting kynjanna í atvinnulífinu og á heimilunum enn frekar festast í sessi og einangrun kvenna inni á heimilunum aukast. Áhrif þess hafa ekki mikið verið rædd á Íslandi og hef ég trú á að þessum málum hafi verið meiri gaumur gefinn á hinum Norðurlöndunum og öðrum löndum Vestur-Evrópu. Þessi hlið tölvuvæðingar er vissulega þáttur sem verður að fylgjast vel með hvernig þróast og verður að hafa áhrif á að þróunin verði jákvæð, bæði fyrir samfélagið og einstaklinginn.

Í bók sem sænsk kona, Monica Elling, hefur skrifað er fjallað einmitt um þennan þátt. Kemur fram að þó að heimavinna sé ekki algeng í Skandinavíu, þá fer hún hraðvaxandi í Englandi og Vestur-Þýskalandi. Í þessari bók kemur fram að í gildi eru í Vestur-Þýskalandi sérstök lög um störf heimavinnandi fólks, en þar er öll heimavinna sem tengist atvinnulífinu skráð. Bendir Monica Elling á að skv. opinberri skráningu árið 1981 hafi ca. 400 þúsund manns verið í launuðum heimavinnandi störfum í Vestur-Þýskalandi, þar af 90% konur. Bendir hún á að verkalýðshreyfingin í Englandi og Vestur-Þýskalandi hafi lítil afskipti haft af þessari þróun. Fram kemur að t. a. m. í Vestur-Þýskalandi finni þeir marga galla á að flytja störfin inn á heimilið. Má þar benda á að þeir telja að þá festist enn frekar í sessi hið hefðbundna kvennahlutverk og bendir verkalýðshreyfingin einnig á að erfitt sé að skipuleggja störf heimavinnandi faglega því þau skapi einangrun hjá fólki og heimavinnandi fólk fari varhluta af ýmsum félagslegum réttindum. Aftur á móti sjái atvinnurekendur og stjórnvöld á þessu marga kosti.

Það er bent á að þetta hafi í för með sér ýmsa hagræðingu fyrir atvinnureksturinn, svo sem minni reksturskostnað og sérstaklega nýtist starfskraftar heimavinnandi vel á tímabundnum annatímum í ýmsum atvinnurekstri því að þá þarf ekki að ráða starfsfólk. Fulltrúi Siemens í Vestur-Þýskalandi bendir á að skv. útreikningum hafi ákveðin verkefni, sem reiknuð voru út, verið 30% ódýrari fyrir fyrirtæki að láta vinna í heimavinnu en hjá fyrirtækinu sjálfu.

Í stórum dráttum er niðurstaða Monicu Elling eftir að hafa kynnt sér þessi mál í Svíþjóð, Englandi og Vestur-Þýskalandi eftirfarandi: Hún telur ávinninginn fyrir atvinnureksturinn augljósan en erfiðara sé að gera sér grein fyrir ávinningi þess fyrir starfsfólkið og spurningin sé hvers vegna fleiri og fleiri virðast sækja í heimavinnu. Ekki síst sé erfitt að átta sig á þessu þar sem margir missa í mörgum tilfellum ýmis félagsleg réttindi sem þeir áður höfðu. Heimavinna, sem gjarnan er kölluð á ensku „self-employment“, þýði í raun að engar kröfur er hægt að gera á atvinnurekendur að því er varðar orlof eða launatengd gjöld, sjúkradagpeninga eða lífeyrisréttindi og verði því heimavinnandi fólk að sjá um það sjálft. Monica Elling telur eina skýringuna á vaxandi heimavinnu að fólkið hafi ekkert val. Samkeppnin á vinnumarkaðinum verði stöðugt harðari og samfara brýnni vöntun á barnagæslu sé fólk þvingað í heimavinnu þó það óski sér þess ekki. Ljóst er af þessu sem öðru að samkeppnisfærni ófaglærðs fólks og ekki síst kvenna í hefðbundnum kvennastarfsgreinum er undir því komin að því bjóðist endurmenntun og starfsþjálfun til þess að það hafi möguleika á að nýta sér og aðlagast tækniþróuninni.

Ég held, herra forseti, að margt bendi til þess að ekki síst konur og ófaglært fólk geti orðið undir í tæknivæðingunni. Þeirri spurningu getur framtíðin ein svarað hvort konur séu nægilega vel vakandi fyrir þessari þróun og hvort þær sæki sér þá menntun og kunnáttu sem þarf til að tileinka sér tækniþróunina eða hvort konur muni verða undir í tæknibyltingunni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu. Forsenda þess að svo verði ekki er að farin verði sú leið sem hér er lögð til og konum verði gert kleift að aðlagast tæknivæðingunni með eðlilegum hætti. Sú afgreiðsla, sem frv. þetta virðist ætla að fá hér á hv. Alþingi, örvar ekki til bjartsýni. Mín skoðun er sú að þeir sem raunverulega vilja leggja sitt af mörkum til að jafnrétti kynjanna náist fram í atvinnulífinu verði í auknum mæli að beina kröftum sínum að þeim verkefnum að þrýsta á stjórnvöld, verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur að taka með raunhæfum hætti á þessum málum er snerta endurmenntun og starfsþjálfun vegna tæknivæðingarinnar.

Í ársriti Kvenréttindafélags Íslands, 19. júní 1984, er nokkuð fjallað um tæknibyltinguna og áhrif tölvuvæðingar á atvinnulífið og starfsöryggi launafólks. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í örfá orð í grein sem skrifuð er af Lilju Ólafsdóttur deildarstjóra. Hún segir:

„Bent er á að þó tölvutæknin hafi í för með sér nokkuð af nýjum störfum þar sem krafist er æðri menntunar leiðir hún jafnframt til minni krafna og starfsþjálfunar í ýmsum vanastörfum. Þannig myndaðist fámenn tæknimenntuð yfirstétt og fjölmenn stétt ómenntaðs verkalýðs.

Í þjónustugreinum gætir áhrifanna einna mest um þessar mundir og því er einnig spáð um nánustu framtíð. Um 51.9% vinnufærra Íslendinga stunduðu þjónustustörf af einhverju tagi árið 1980. Talið er að þessi grein hafi vegna gífurlegs vaxtarhraða á þessari öld tekið við nýju vinnuafli frá öðrum greinum og þess vegna hafi verið komið í veg fyrir atvinnuleysið að mestu.

Eitt aðaleinkenni vinnumarkaðarins í öllum iðnvæddum löndum er kyngreining starfa. Karlar og konur skiptast að mestu leyti í aðskilda hópa og samkeppni á milli þessara tveggja arma vinnumarkaðarins er oft mjög lítil. Oft er einnig talað um skiptingu vinnumarkaðarins í hálauna- og láglaunastörf. Það fer víst ekki fram hjá neinum í hvorum hópnum konur eru fjölmennari. Ef einhver er samt í vafa nægir að minna á nýjustu kannanir hérlendis sem sýna að laun kvenna á besta vinnualdri eru sambærileg við unglingsstráka og karla á ellilífeyrisaldri.

Því er haldið fast fram að það séu einmitt störfin sem falla undir láglaunaskilgreininguna sem fyrst verða fyrir áhrifum tölvuvæðingarinnar. Það er því fólkið sem vinnur þau störf sem fyrst og fremst missir vinnu sína og það hefur jafnframt minni möguleika á tilfærslu.“

Lilja Ólafsdóttir hélt líka erindi á ráðstefnu þeirri sem ég áður nefndi sem Jafnréttisráð boðaði til um áhrif tæknibreytingar á atvinnulífið með tilliti til jafnréttis kynjanna. Þar kom ýmislegt markvert fram sem erindi á í þessa umr. hér um þetta mál á hv. Alþingi, bæði í erindi Lilju Ólafsdóttur o. fl. sem þar töluðu. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna nokkuð í þær umræður. Í erindi Lilju Ólafsdóttur kemur m. a. fram:

„Breski ráðgjafinn Merit Hult, sem var á kvennaáratugsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1980, bendir á að á hinn bóginn geti afleiðingarnar a. m. k. í staðnandi efnahagskerfi orðið hærra atvinnuleysishlutfall þar sem lagðar verði niður heilu starfsgreinarnar án þess að aðrar nýjar verði til. Fram að þessu hafi nýja tæknin boðið upp á mjög fá ný störf og þar sem sjálfvirknin er nú að færast til þjónustugreinanna, sem hingað til hafa tekið við þeim sem misst hafa vinnu í framleiðslugreinum og við byrjendum, mun vinnumarkaðurinn ekki geta tekið við öllum þeim sem atvinnu leita.“

Á þessari ráðstefnu talaði einnig hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson og vil ég aðeins fá að vitna til hans orða með leyfi forseta, en hæstv. félmrh. sagði:

„Hins vegar vil ég ljúka máli mínu með því að vekja athygli á kjarna vandamálsins fyrir okkur Íslendinga. Hann er sá að mannaflinn á vinnumarkaðinum eykst um 30 þús. manns næstu 20 árin. Það er ljóst að nokkrar atvinnugreinar geta ekki af ýmsum ástæðum tekið á móti þessu vinnuafli, t. d. landbúnaður. Í öðrum má búast við að ný tækni leiði til fækkunar starfsfólks, t. d. í fiskvinnslu og sjávarútvegi. Skv. áliti sérfræðinga mun iðnaður ekki taka á móti jafnstórum hluta þessarar fjölgunar og áður var talið. Af þessu leiðir að þjónusta og hvers kyns þjónustuiðnaður og nýiðnaður verða þær starfsgreinar sem í síauknum mæli munu taka á móti fjölguninni á vinnumarkaðinum hér á landi og standa undir gjaldeyrisöfluninni. Í þessu sambandi koma til álita rannsóknir, sala tækniþekkingar, t. d. á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu, milliríkjaviðskipti, sala á þjónustu við ferðamenn o. fl.“

Hæstv. ráðh. heldur áfram og segir, með leyfi forseta:

„Vel menntað vinnuafl er undirstaða allra þessara starfa og flestir eru sammála um að hún er mikilvægust í þessu máli. Því ber að leggja höfuðáherslu á góða undirstöðumenntun, t. d. móðurmálskennslu, stærðfræði og ensku. Auk þess mikla og almenna tæknimenntun.“

Og síðar í erindi sínu segir hæstv. ráðh.:

„Þeir sem hyggjast innleiða nýja tækni í atvinnurekstur sinn verða að gera sér ljósar skyldur sínar við starfsmenn sína, gefa þeim hæfilegan aðlögunartíma og veita þeim tækifæri til starfsþjálfunar eða endurmenntunar ef þörf er á. Einnig þurfa stjórnvöld að endurskoða skipulag eftirmenntunar og endurmenntunar.“

Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð hjá hæstv. ráðh. og einmitt það sem lagt er til í þessu frv., sem nú er lagt til að verði vísað til ríkisstj., að stjórnvöld taki á þessu máli með skipulögðum hætti.

Fleira fróðlegt kom fram á þessari ráðstefnu og sé ég ástæðu, herra forseti, til þess að vitna nokkuð í orð Jakobs Sigurðssonar, forstöðumanns tölvudeildar Flugleiða, en hann ræddi um áhrif tæknibreytingar hjá einstökum fyrirtækjum. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Á næstu 10–20 árum mun þjóðfélagið breytast meira en nokkru sinni áður á jafnskömmum tíma. Þessar breytingar munu hafa áhrif á svo til öll störf, allt nám, skemmtan og reyndar flest það sem við þekkjum í dag. Orsök þessara breytinga eru þær byltingarkenndu framfarir sem átt hafa sér stað í tölvu-, sjónvarps- og fjarskiptatækni nú á undanförnum árum og þessi þróun mun halda áfram með síst minni hraða en verið hefur nú undanfarin ár.“

Síðar í erindi sínu segir Jakob Sigurðsson:

„Það sem valda mun mestri breytingu á öllum sviðum framleiðslu er hin ört vaxandi notkun á svokölluðum „robot“ eða vélmennum, en framleiðsla og þróun þessara tækja er nú þegar orðin veruleg og geysilegum fjárhæðum er varið til rannsókna á þessu sviði. Þessi vélmenni munu í vaxandi mæli verða búin því sem kalla mætti „gerviskynsemi“ og því verða fær um að leysa af hendi stöðugt flóknari verkefni. Af því leiðir að ekki er nema örskammur tími þar til þessi tæki verða fær um að leysa af hendi langflest af hinum hefðbundnu störfum. Enda er svo komið nú að farið er að tala um það sem á ensku er kallað „Factory Automation“ sem við getum nefnt „verksmiðjusjálfvirkni“ er byggist að langmestu leyti á þessari tækni og orsakar að ekki verður þörf fyrir nema lítinn hluta þess starfsfólks sem í dag vinnur þessi störf.“

Á þessari ráðstefnu, sem ég hef vitnað til, herra forseti, héldu einnig erindi fulltrúar frá heildarsamtökum launafólks, m. a. Hrafnhildur Sigurðardóttir skrifstofustjóri frá Sambandi bankamanna, sem hélt erindi sem nefnist „Staðan og stefnan í tæknivæðingarmálum hjá Sambandi bankamanna.“ Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í yfirliti sem Samband ísl. bankamanna hefur tekið saman um skiptingu bankastarfsmanna eftir kynjum kemur í ljós að árið 1929, sem er fyrsta árið sem yfirlitið nær til. voru konur aðeins um 18% af starfsliði bankanna. Þetta hlutfall helst með örlitlum breytileika frá ári til árs allt fram til ársins 1960, að konum fer mjög að fjölga í bönkum. Þannig voru konur orðnar 62% af starfsmönnum bankanna árið 1977, 64% árið 1981 og um síðustu áramót voru um 68% af starfsmönnum bankanna konur en um 32% karlar. Á fyrstu áratugum aldarinnar, þegar sjálfsagt þótti að karlkyns bankamenn gengju með harðkúluhatt, stífan flibba og úrfesti í vestinu, þótti líka sjálfsagt að þær fáu konur, sem innanborðs voru í bönkum, gegndu þar hinum virðingarminni hlutverkum, svo sem að sjá um að heitt væri á könnunni, ræsta bankann og þjónusta karlana með úrfestarnar.“ — (Gripið fram í: Þá var nú gaman að lifa.) — „Og hvernig liti dæmið út árið 1984? Næstum helmingur þeirra kvenna, sem starfa í bönkum, eru ungar konur á þrítugsaldri með litla menntun og í störfum sem greitt er fyrir skv. mið- og lægri flokkum launastigans. Meðallaun kvenna innan bankakerfisins eru 25–30% lægri en karlanna.“

Síðar segir Hrafnhildur í sínu erindi:

„Margt bendir til að tækniþróun í bankakerfinu muni í framtíðinni fyrst og fremst bitna á konum. Reynslan og ýmsar athuganir, t. d. hjá öðrum Norðurlandaþjóðum, benda til þess. Sums staðar á Norðurlöndum eykst stöðugt tilhneiging til þess að ráða starfsfólk í hlutastarf. Þetta er ekki eingöngu unnt að skýra með tilkomu nýrrar tækni heldur verður að heimfæra þetta á samfélagsþróunina í heild. Hin nýja tækni hefur hins vegar örugglega áhrif í þá átt að flýta þessari þróun. T. d. er mun auðveldara nú en áður að láta tvo starfsmenn skipta með sér gjaldkerastöðu og það verður enn auðveldara í framtíðinni. Kassinn er tengdur beint við aðaltölvubúnaðinn og milliuppgjör er því ekkert vandamál. Auk þess hefur það marga kosti í för með sér fyrir atvinnurekandann að ráða starfsfólk í hlutastarf. Starf sem tveir skipta með sér getur þróast upp í að verða óvinnandi fyrir einn ef sömu afköst eru höfð í huga. Þannig getur atvinnurekandi náð meiri afköstum með því að ráða tvo starfsmenn hálfan daginn hvorn heldur en ef hann réði einn allan daginn. Þar að auki nást enn meiri afköst þar sem starfsmenn í hlutastarfi taka sjaldan hádegishlé.“

Að lokum segir Hrafnhildur í sínu erindi:

„Fyrr á tímum voru það einkum hefðbundin karlastörf sem urðu fórnardýr nýrrar tækni, t. d. í landbúnaði og iðnaði. Nú er röðin komin að konum. Allt bendir til þess að mestir möguleikar á sjálfvirkni séu á sviði hefðbundinnar skrifstofuvinnu. Sú vinna er einkum unnin af skrifstofufólki og þá oft og tíðum í hlutastarfi. Hvað bankana áhrærir er meginástæðan fyrir því að störfin eru tæknivædd sú að þau krefjast ekki sérstakrar fagþekkingar. Og hverjir vinna þessi störf nú? Konur.

Samband danskra bankamanna hefur gert yfirlit yfir skiptingu starfa í hinum ýmsu störfum í danska bankakerfinu milli karla og kvenna. Í stöðum stjórnenda eru 88% karlar og 12% konur. Í þeim hópi, sem skipaður er af nemum, þ. e. byrjendum í bankastörfum og aðstoðarfólki, er skiptingin jöfn, en af hópum, sem skipaðir eru af aðstoðarmönnum á skrifstofu og fólki í hlutastarfi, er skiptingin annars vegar 82.2% konur og 17.7% karlar og hins vegar 98.5% konur og 1.5% karlar. Þessar tölur bera með sér að það eru einkum og sér í lagi konur sem eru í lægstu launaflokkunum og það eru þær sem sjálfvirknin bitnar á.“

Ég sé ástæðu til, herra forseti, að vitna einnig í orð Gylfa Kristinssonar fulltrúa í félmrn., en hann fjallaði einmitt um störf nefndar sem kannar áhrif tölvuvæðingar á atvinnulífið. Í erindi Gylfa Kristinssonar kemur fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og gengur eru fræðimenn sammála um sum atriði og ósammála um önnur. Þannig eru flestir sammála um það að hagnýting nýrrar tækni geti leitt til minnkandi atvinnu um skeið í hlutaðeigandi grein og að vandamálin á vinnumarkaðinum verði illleysanlegri ef notkunin er hindruð á einhvern hátt. Slíkt muni leiða til þess að viðkomandi land verður ekki samkeppnisfært á heimsmarkaðinum og það mun fyrr eða síðar leiða til atvinnuleysis.

Flestir virðast sammála því að menntun mannaflans hafi áhrif á það hvort og hvenær atvinnugreinar taki nýja tækni í þjónustu sína. Hún hafi einnig áhrif á samkeppnisaðstöðuna auk fleiri þátta, svo sem bætt stjórnun og fjárfesting, bætt samkeppnisaðstaða leiði til aukinnar þjóðarframleiðslu og þar með fjölgunar starfa.“

Síðar í erindi sínu segir Gylfi Kristinsson, með leyfi forseta: „Eina leiðin til að tryggja óbreytta lífsafkomu er að styrkja fjárhagsstöðu okkar, auka menntun og rannsóknir og stuðla að stöðugum tækniframförum.“ Lokaorð hans eru þessi, með leyfi forseta: „Leiðirnar, sem við höfum til að fást við þessi viðfangsefni, eru í aðalatriðum þær sömu og meira eða minna óháðar orsökunum, nefnilega í fyrsta lagi víðara samráð, í öðru lagi meiri fjárfesting í menntun og í þriðja lagi að breyta aukinni framleiðni í einum geira í aukna atvinnu í öðrum.“

Á þessari ráðstefnu voru einnig mættir fulltrúar allra stjórnmálaflokka og samtaka og var meginniðurstaða þeirra að leggja áherslu á endurmenntun og starfsþjálfun og vara við þeirri hættu sem störfum ófaglærðra og ekki síst hefðbundnum kvennastörfum væri búin ef því fólki væri ekki gefinn kostur á endurmenntun og starfsþjálfun til að aðlagast tölvuvæðingunni.

Ég sé sérstaka ástæðu til að vitna í orð fulltrúa Framsfl. og Sjálfstfl. á þessari ráðstefnu, ekki síst í ljósi þeirrar afgreiðslu sem þessir flokkar leggja til að þetta mál fái nú hér á hv. Alþingi. Helga Jónsdóttir, aðstoðarmaður forsrh., gerði á þessari ráðstefnu grein fyrir stefnu Framsfl. Hún benti á þáltill. framsóknarmanna sem samþykkt var á Alþingi, sem segir að sérstaklega skuli athuga hvernig vinnumarkaðurinn geti aðlagast tölvuvæðingunni án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu. Helga vitnar í sínu erindi í grg. með þáltill. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að mikilla og skjótra aðgerða er þörf ef þjóðfélagið á ekki að verða leiksoppur glundroðakenndrar og tilviljunarkenndrar uppbyggingar. Eitt frumskilyrði þess a~ rétt verði við brugðist er að almenningur fái glögga hugmynd um tæknina og hið nýja þjóðfélag sem hún mun leiða af sér. Almenn og víðsýn fræðsla um þessi mál virðist því meginnauðsyn.“

Aðstoðarmaður forsrh. vitnar einnig í kafla úr bók sem kom út á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf. Ber kaflinn yfirskriftina:„Hvers vegna að óttast örtölvutæknina?“ Þar kemur fram að svartsýnisspár um að tölvutækni hafi í för með sér — (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann hvort mikið sé eftir af ræðunni. Það var meiningin að ljúka fundi nú mjög fljótlega.) Það er nokkuð eftir já. (Forseti: Þá held ég að það séu naumast skilyrði til að halda þessu áfram. Kl. er sjö og þá var meiningin að — ) Á ég þá að fresta ræðu minni? (Forseti: Ég held að það sé hyggilegt að við höfum þann háttinn á vegna þess að það verður ekki framhald fundar hér í kvöld og þetta mál verður þá að bíða þar til síðar.)