28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5675 í B-deild Alþingistíðinda. (4950)

393. mál, niðurfelling söluskatts af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þáltill. þannig að það fari ekkert milli mála að við séum að tala um sama málið, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að fella nú þegar niður söluskatt af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins.“ Sem sagt: Alþingi á á miðju fjárlagaári að taka ákvörðun um að sveifla út úr ríkissjóði tekjum sem nema upp undir 50 millj. skv. grg. sem fylgir þáltill. Það er ekki nokkur leið að gera það á miðju fjárhagsári. Ef Alþingi vill taka um það ákvörðun við gerð næstu fjárlaga og telur sig hafa efni á því að sleppa þessum 50 millj., sem verða kannske eittvað meira á næsta ári, í söluskatti af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins eða öðrum auglýsingatekjum verður Alþingi að taka um það ákvörðun, en ég treysti mér ekki til að mæla með því sem fjmrh. að það verði gert á þessari stundu.