28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5675 í B-deild Alþingistíðinda. (4952)

417. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum sem hér er endurflutt af þeim hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni og Birgi Ísleifi Gunnarssyni auk mín. Með leyfi hæstv. forseta er texti till. svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera sem fyrst ráðstafanir til þess að unnt verði að hefja móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum Evrópuþjóða hér á landi og undirbúa útsendingu slíks efnis með dreifikerfi íslenska sjónvarpsins.“

Það er orðin alkunna nú og mun betur þekki en fyrir ári að þegar eru hafnar sendingar á sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum í Evrópu sem unnt er að taka á móti hér á landi með sáralitlum tilkostnaði. Slíkar sendingar munu á næstu árum aukast mjög. Þess vegna er það álit flm. að það sé orðið tímabært að hyggja að því á hvern hátt við Íslendingar getum best notfært okkur þessa nýju tækni og þá miklu möguleika sem í henni felast.

Það er eðlilegt að ríkisstj. hafi forustu um stefnumótun og undirbúning aðgerða á þessu sviði, að svo miklu leyti sem atbeini ríkisstofnana er þar nauðsynlegur.

Fyrir Alþingi hefur legið í vetur frv. til nýrra útvarpslaga og þar er gert ráð fyrir að móttaka efnis frá gervihnöttum verði frjáls félögum sem einstaklingum. Örlög þess frv. eru ekki ráðin. Vonandi nær það fram að ganga í þeirri mynd sem alþm. almennt geta sætt sig við. Þessi till. fjallar ekki um það efni, heldur um þann þátt sem að Ríkisútvarpinu og að ríkinu snýr eins og fram kom í texta till. Það er m. ö. o. efni þessarar þáltill. að vekja athygli á þessari þróun sem hefur átt sér stað og felur í sér það sem kalla má gjörbyltingu í fjarskipta- og sjónvarpsmálum hvað Íslendinga varðar eins og aðrar þjóðir.

Það felst í þessu að flm. telja æskilegt að gerðar verði sem fyrst ráðstafanir til þess að unnt verði að hefja móttöku sjónvarpsefnis hér á landi þannig að um sem víðtækast val verði að ræða. Þar koma ýmsir kostir til greina, en athygli manna hefur fyrst og fremst beinst að tveimur fjarskiptahnöttum sem sjónvarpsefni er sent um. Báðir starfa þeir á vegum Póst- og símamálasamtaka Evrópu sem Landssími Íslands er aðili að.

Þessir fjarskiptahnettir eru nefndir ECS-1 og ECS-2. Sendingum frá þeim báðum er unnt að ná með tiltölulega litlum tilkostnaði hér á landi. Nú þegar eru sendar út um þessa hnetti sjónvarpsdagskrár frá Bretlandi, Vestur-Þýskalandi, Frakklandi, Svisslandi, Hollandi, Belgíu og Ítalíu. Unnt væri að taka á móti öllu þessu sjónvarpsefni hér á landi. Til þess þarf móttökustöð með u. þ. b. 4 metra loftneti í þvermál. Skv. upplýsingum Pósts og síma mun kostnaður við slíkt móttökuloftnet vera 1–2 millj. kr., þó sennilega nær 2 millj. kr. Að auki yrði nokkur kostnaður vegna fjarskiptasendinganna og þess dagskrárefnis sem á móti væri tekið, þ. e. höfundarkostnaður.

Þar sem þessir fjarskiptahnettir, er ég nefndi, eru frá Póst- og símamálasamtökum Evrópu yrði móttakan að sjálfsögðu að vera á hendi Pósts og síma hér á landi, en dreifa mætti dagskrám þessum, sem valdar yrðu, um dreifikerfi íslenska sjónvarpsins á þeim tíma sem dagskrá þess er ekki send út og einnig með kapalkerfum þar sem þau eru fyrir hendi.

Þess má geta í þessu sambandi að Norðmenn, Finnar, Frakkar, Svisslendingar og Vestur-Þjóðverjar taka við sendingum sjónvarpsefnis frá þessum fjarskiptahnöttum sem ég nefndi, m. a. sameiginlegri menningardagskrá sem Frakkar, Belgar og Svisslendingar standa að. Einnig er sent út að hluta til á ensku. Norðmenn taka t. d. á móti þeirri dagskrá og hefur hún fengið góðar undirtektir þar í landi. Þá eru nú sendar út tvær breskar sjónvarpsdagskrár frá ECS-1 sem nást vel hér á landi og sú þriðja er í undirbúningi. Það eru allt einkastöðvar sem að þessum bresku dagskrám standa. Vegna tungumálsins sýnast þetta m. a. vera áhugaverðir kostir.

Þetta er það sem hér er nærtækast og það sem þessi þáltill. raunverulega fjallar um er könnun varðandi framkvæmd í þessu efni. En í öðru lagi er ekki úr vegi að víkja að því að sjónvarpssendingar beint til notenda hefjast nú á næstunni án þess að nokkrar greiðslur komi fyrir. Hér er um annað kerfi og annað fyrirkomulag að ræða en það sem ég lýsti.

Sendingar á sjónvarpsefni frá þremur slíkum hnöttum munu hefjast á næstu mánuðum og allar þessar sendingar munu nást hér á landi. Til móttökunnar þurfa menn hins vegar allstór móttökuloftnet, allt frá 4 upp í 6 metra í þvermál. Fyrstu sendingarnar munu hefjast í september nú í haust um gervihnöttinn TV-Sat sem er eign vestur-þýska ríkisins. Er ráðgert að tveimur dagskrám verði sjónvarpað beint frá honum. Eins og ég sagði er hér um að ræða sjónvarpssendingar sem notendur munu taka á móti án nokkurs endurgjalds þar sem hér er um auglýsingasjónvarp að ræða.

Í nóvember í haust er ráðgert að sjónvarpssendingar hefjist frá hnetti sem mun verða í eigu franska ríkisins og nefndur er TDF-1. Þrjár rásir fyrir sjónvarpssendingar munu verða í þeim hnetti.

Í ágúst á næsta ári 1986 er síðan ráðgert að sendingar hefjist frá breska sjónvarpshnettinum Unisat, en sá hnöttur er í eigu ýmissa aðila á Bretlandi. Áform eru uppi um að sjónvarpa m. a. dagskrám BBC um þennan hnött, en það mun ekki fullákveðið.

Eins og ég hef þegar sagt, herra forseti, vildu flm. fyrst og fremst vekja athygli á þeim möguleikum sem fyrir hendi eru að hefja móttöku erlends sjónvarpsefnis hér á landi með litlum tilkostnaði. Þeir möguleikar munu mjög aukast á næstu misserum. Þess vegna er bæði sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að landsmenn geti nýtt þessa möguleika að því leyti sem atbeini stjórnvalda er þar nauðsynlegur. Þar festast augu manna vitanlega fyrst og fremst við Ríkisútvarpið og starfsemi þess og dreifingarkerfi þess. Með þessari þáltill. vilja flm. undirstrika hvílík bylting hefur átt sér stað síðustu misserin í þessum málum og benda á þá kosti sem okkur Íslendingum standa nú þegar til boða í þessum efnum.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að vitanlega þarf að líta á mál þetta allt í ljósi þess sem síðar mun gerast hér á Alþingi að því er varðar frv. til nýrra útvarpslaga. Það er fyrst og fremst að því er varðar frelsi til móttöku og útsendingar sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum. Hins vegar breytir það ekki þeirri staðreynd að Ríkisútvarpið hlýtur að fara í framtíðinni með mikið hlutverk. Það er í sjálfu sér mikið mál hvernig tekst til um val á erlendu sjónvarpsefni sem sent yrði út um dreifikerfi íslenska sjónvarpsins.