28.05.1985
Efri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5693 í B-deild Alþingistíðinda. (4966)

382. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Hæstv. forseti. Ég hef kynnt mér álitsgerð minni hl. iðnn. í máli þessu. Ég minni á það að gefnu tilefni að frumvarpsflutningur þessi er í samræmi við stjórnarsáttmála núv. ríkisstj og þótt hann kunni nú að vera óheilagt plagg í ýmissa augum skyldi maður þó halda að einstaka maður leiddi hugann að margsamþykktum stefnuskrám Sjálfstfl. þegar þetta mál ber á góma.

En ég legg megináherslu á að sú breyting sem hér er lögð til er fyrst og fremst að færa ábyrgð til stjórnenda. Þessi breyting er ekki eðlisbreyting á fyrirtækinu að því leyti að hún verður áfram í yfirgnæfandi eigu ríkisins. Menn eru sammála um það að einokunarfyrirtæki eða fyrirtæki með slíka einokunaraðstöðu verði áfram í eigu ríkisins. Það væri ekki hollt að hún kæmist í hendur óprúttinna viðskiptajöfra, ef svo má að orði komast.

Með þessari breytingu er verið að gera tvennt: Að koma á, ef þess er kostur, atvinnulýðræði sem ég vissi ekki betur til en stjórnmálaflokkar nútímans hefðu lagt mjög mikla áherslu á þar sem fyrirtækin eru opnuð og starfsmönnunum gefinn kostur á því að eignast hlut í fyrirtækinu og öðrum sem kunna að vilja leggja því lið. En fyrst og seinast er verið að færa ábyrgð á hendur stjórnenda fyrirtækisins, færa ábyrgðina nær þeim sem hana eiga að bera og sem gerst eiga að vita um hag og hagsmuni og velferð fyrirtækisins. En hvernig hefur þetta verið? Þegar þetta mál væntanlega færi til Nd., gefst kostur á að hlýða þar líka á umsagnir þeirra sem hafa eigin reynslu að mæla.

Hv. 4. þm. Vesturl. var hér fyrir skemmstu að mæla fyrir minnihlutaáliti sem lagði til að þetta yrði fellt. Hann kann líka úr flokki að tala því að hann hefur setið í stjórn þessa fyrirtækis. Það kemur manni á óvart að þeir menn, sem eru tilbúnir til þess að þiggja svo ábyrgðarmikla stöðu sem þessa úr hendi Alþingis sem bitling, skuli færast undan því að taka ábyrgð sem einhverju nemur á rekstri fyrirtækisins, vexti þess og viðgangi vegna þess að undir núverandi skilyrðum er ábyrgðin eingöngu að nafninu til. Og það hefur enda reyndar aldrei verið eftir henni gengið.

Mig undrar sannarlega á því að flokkar, sem hafa gert það að stefnuskrármarkmiði sínu að auka atvinnulýðræði í landinu, skuli ekki sjá að hér er verið að opna leið til þess. Ég endurtek: Það er tvennt sem þetta felur í sér. Annað er það að gefa verkafólki kost á því að auka atvinnulýðræði með því að eignast hlut í fyrirtækinu og ábyrgð stjórnendanna.

Maður skyldi halda að þeir, sem slá um sig með því að mínar tillögugerðir séu tímaskekkja, hefðu kynnt sér að það eru liðnir áratugir síðan hinir harðmúruðu ríkisrekstrarmenn í Svíþjóð tóku upp á að breyta rekstrarformi ríkisfyrirtækja í hlutafélög. Hvers vegna? Vegna þess að þau eru miklu auðveldari viðfangs og eiga betur við til samræmis við annan rekstur í þjóðfélaginu. Þau eru ekki eins þung í vöfum, það tekur ekki nálægt því eins langan tíma að koma fram endurbótunum, að koma fram hagsmunamálunum, og það gerist í ríkiskerfinu.

Hvaða reynslu ætli Sementsverksmiðja ríkisins hafi af ríkisrekstri hins opinbera? Það mætti áreiðanlega flytja langt mál um það hvernig menn hafa gengið frá Heródesi til Pílatusar, hvernig hið staðnaða embættismannakerfi hefur löngum og löngum dregið lappirnar og orðið hindrun í vegi eðlilegrar starfsemi þessa fyrirtækis. Ég vík kannske að því síðar.

Það vill svo til að ég er nákunnugur rekstri þessarar verksmiðju og alveg sér í lagi á því tímabili þegar menn tóku til höndum við að reisa það við úr þeim rústum sem fyrirtækið var í á árunum. Það voru ungir framkvæmdastjórar sem þar tóku til höndum. En ég, sem stjórnaði peningamálum til að greiða fram úr þeirri flækju, varð lítt eða ekki var við þá sem ella skyldu hafa axlað byrðarnar, sjálfa stjórn verksmiðjunnar.

Svíar hafa fyrir margt löngu tekið upp á þessari breytingu. Fyrir utan það að auka atvinnulýðræði með því að gefa fólkinu sjálfu, starfsfólkinu, kost á að kynnast starfsemi félagsins og fyrirtækisins, þá var ein aðalmeining þeirra að verkalýðsfélögin og samtökin gætu átt kost á að kaupa hlutafé í félögunum, ekki til þess að fara að ráða þeim aðra stjórn og aðra vísu, heldur til þess að kynnast innviðum fyrirtækjanna. Þetta var m. a. gert með orkufyrirtækin sjálf í Svíþjóð.

Þegar ég fyrst kynntist þessu árið 1960 rak ég upp skjáina. Ég undraðist þessa aðferð, þar sem verkalýðssamtök, eins og Samband verslunar- og skrifstofufólks í Svíþjóð, áttu stóra hluti í vatnsaflsstöð. En skýringarnar voru einfaldar. Þetta var til þess gert að þeir ættu kost á því að kynnast innviðunum sjálfum vegna þess að þá fyrst ættu forkólfar verkalýðssamtaka að vera í færum um að móta heilbrigða. skynsamlega stefnu fyrir fyrirtækin og launþegana hvoru tveggja ef þeim gefst kostur á að taka þátt í slíkum rekstri. Þetta eru þær undirstöður sem því valda að hér er þetta frv. borið fram.

Menn eru á eitt sáttir um að hlutafélagalöggjöfin sé hið fullkomnasta form á félagarekstri og fyrirtækjarekstri. Ég held að menn deili ekki um það. Alþingi, hygg ég, fékkst við þessa lagasmíð í nærfelli áratug, endurskoðun hlutafjárlaganna, og það var ekki kastað höndunum til þess. Hver var breytingin m. a. að því er lýtur að skilagreinum fyrir fyrirtækið? Með hvaða hætti er því háttað hjá ríkisreknum fyrirtækjum, alríkisreknum fyrirtækjum? Það er auðvitað enginn aðalfundur haldinn. Það eru gefnir út reikningar sem eru einskorðaðir með einum hætti við það sem tíðkast hjá ríkisbókhaldinu, ekki nýtísku bókhaldi sem á að gefa fyrirtækinu frá degi til dags að kalla nauðsynlegar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins. Það eru engar nýjar hugmyndir sem koma fram á aðalfundum, engar ábendingar, engin gagnrýni. Stjórnendur eru aldrei kallaðir til. Þeir eru kosnir daufdumbri kosningu á fjögurra ára fresti á hinu háa Alþingi og sitja meðvitundarlitlir í næstu fjögur ár.

Að menn skuli ekki vera hærra á hrygginn reistir en svo að þeir frábiðja sér að taka meiri ábyrgð á fyrirtæki sem menn skyldu halda að þeir hefðu áhuga á að gengi vel og væri skynsamlega rekið, það finnst mér ekki mannboruleg frammistaða. Þeir hefðu átt að fagna því að fá tækifæri til þess að færa ábyrgðina nær sér, að geta sem raunverulegir ráðamenn tekið beinan þátt í rekstri og starfsemi fyrirtækisins. En því er ekki að heilsa vegna þess að þeir tveir hv. þm. sem sæti eiga í stjórn verksmiðjunnar virðast hafa báðir tveir tekið afstöðu gegn þessu og færast undan ábyrgðinni.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að fara nákvæmlega í þær athugasemdir sem hér eru birtar og eru álitsgerð fjögurra stjórnarmanna úr Sementsverksmiðjunni. Að vísu hafði hv. þm. Friðjón Þórðarson skrifað undir þetta með fyrirvara. Hér segir frá í fyrstu athugasemd frá þessum hinum fjórum stjórnarmönnum, með leyfi virðulegs forseta:

„Við teljum að sú breyting á eignarformi verksmiðjunnar, sem frv. gerir ráð fyrir, þurfi annaðhvort að byggjast á einhverjum vandkvæðum, sem komið hafa upp í rekstrinum á liðnum árum, eða að skilmerkileg rök séu fyrir því að breyting verksmiðjunnar í hlutafélag gefi betri rekstrargrundvöll.

Hvoru tveggja hef ég minnst á hér, drepið á og rakið og fært rök fram fyrir. Það voru stórfelld vandkvæði í rekstri þessarar verksmiðju um langt árabil. Hvernig brá þáv. stjórn verksmiðjunnar við þegar stjórnvöld höguðu sér með þeim hætti að fyrirtækið var á hliðinni og lá við gjaldþroti? Hvar heyrðust þeirra athugasemdir? Hvar var þeirra ábyrgð þá? Ætli það kynni ekki að bera til að þeir tímar gætu runnið aftur að stjórnvöld tækju til slíkra vandræðaráða að falsa vísitölu, að leyfa ekki fyrirtækjunum að selja vöru sína eins og þan þurfa til þess að geta borið sig. Hvernig er komið fyrir Áburðarverksmiðju ríkisins sem einu sinni var hlutafélag en svo upp á því tekið, sem aldrei skyldi verið hafa, að breyta því í alríkisrekið fyrirtæki? Hvernig er komið högum Áburðarverksmiðju ríkisins og bænda sem við hana þurfa að búa? Menn ættu að kynna sér það. Rekin með bullandi halla frá upphafi að kalla má og amerísk dollaralán slegin á ári hverju til þess að jafna hallann.

Fyrirtæki, sem starfað hefur í 27 eða 28 ár. er á barmi gjaldþrots og væri gjaldþrota ef ríkið stæði ekki á bak við skuldbindingar þess með öllum sínum eigum og þarf að selja áburð sinn við því verði að bændur landsins eru í engu færir um að kaupa hann. Ætli það hefði ekki hagað öðruvísi til ef stjórn, sem bar raunverulega ábyrgð á rekstrinum, hefði verið þarna og haldið um stjórnvölinn? Ætli það kynni ekki að vera að það hefði öðruvísi hagað til? Menn ekki eingöngu frestuðu því til morguns sem þurfti að gera í dag í öllum fyrirtækjum, heldur frestuðu því árum og áratugum saman. Ég hlýt að spyrja að því — hæstv. landbrh. er því miður fjarri: Ætla menn að horfa á áframhaldandi rekstur hjá Áburðarverksmiðju ríkisins með þeim hætti sem dæmin sanna að kalla frá upphafi? Þetta er einn þátturinn í gjaldþrotastefnunni sem fylgt hefur verið og gjaldþrotaástæðum okkar eins og menn þekkja erlenda skuldastöðu okkar.

Það eru engin andmæli eða andrök gegn þessari breytingu þótt nú séu betri tímar hjá Sementsverksmiðju ríkisins en lengst af. Hvernig og af hvaða orsökum er það? Það hefur ekki verið haldið áfram gjaldþrotastefnunni í eins harkalegum mæli og meðan vísitölufölsunin á sér stað, það er rétt. En hv. 4. þm. Vesturl. mætti gjarnan upplýsa okkur um frumástæður þess og orsök að undir þetta fyrirtæki var skotið stoðum á næstliðnum árum. Mér er kunnugt um málið vegna þess að ég átti að heita forstjóri fyrir Framkvæmdasjóð ríkisins um árabil. Það var sá sjóður sem tók þessa verksmiðju greiðsluþrota og á hliðinni upp á arma sína og leysti vandamál hennar. En enginn hafði verið kallaður til ábyrgðar fyrir hversu málum skilaði þar fram og það fann enginn til sín við það nema framkvæmdastjórar þeir nýju sem að henni voru ráðnir. Hafði þó Svavar heitinn Pálsson mjög barist um á hæl og hnakka að rétta hlutina við frá því sem áður var en fékk ekki nægjanlegu framgengt og fékk lítinn sem engan stuðning af þeirri stjórn sem átti að heita í fyrirtækinu.

Þessar breytingar, sem hér hafa átt sér stað varðandi kolakyndingu, ryðhreinsitæki og kísilryk, eru góðar upplýsingar en þær hnekkja ekki þessum rökum sem ég hef hér fært fram um breytingu á yfirstjórn verksmiðjunnar. Skuldastaðan var hörmuleg. Fyrirtækið var greiðsluþrota. Það hefur raknað mjög úr og er vonandi að það haldist. Þetta fyrirtæki hefur alla burði og aðstöðu til þess að verða fyrirmyndarfyrirtæki sem getur borgað skatta sína til þjóðfélagsins. En það er líka rétt að við breytinguna yfir í hlutafélag mundi skattskylda þess aukast töluvert vegna aukaskatta. Og ætli þeim veiti af sem við ættu að taka. Það er ekkert annað eðlilegt en að þessi fyrirtæki í ríkiseign borgi alveg til jafns við aðra skatta af rekstri sínum.

Hér segir í fyrsta lagi, með leyfi virðulegs forseta: „Vita allir sem vilja vita að Sementsverksmiðja ríkisins þarf ekki á neinu björgunarliði að halda til að tryggja góðan rekstur.“ Hvað ætli hefði verið sagt ef svona setning hefði verið sett saman af stjórnarmanni fyrir eins og tíu árum síðan? Menn hefðu haldið lengi um magann af hlátri eða ofboðið slík fullyrðing því að Sementsverksmiðja ríkisins þurfti á mjög sterku björgunarliði að halda. Það björgunarlið birtist í Framkvæmdasjóði ríkisins. Það eru ýmsir hér inni sem áreiðanlega minnast stórkostlegrar fjármagnsfyrirgreiðslu við þetta fyrirtæki árum saman og stærstu fyrirgreiðslu sem Framkvæmdasjóður veitti af því að menn höfðu trú á hinum nýju framkvæmdastjórum sem að málum komu og vildu greiða þeirra veg, aldrei neitt málskot til neins eða neinna frá þeirri stjórn sem raunverulega hefði átt að hafa forystuna og axla ábyrgðina.

Hér segir svo í framhaldi: „Henni“ — sementsverksmiðjunni — „nægja heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir.“ En til þess að hún haldi heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum þarf hin raunverulega stjórn verksmiðjunnar að axla meiri ábyrgð, standa fastar í ístöðunum og láta ekki yfir sig ganga eins og hún gerði árum saman, hafandi það fyrir framan sig að engu máli skipti, ríkið yrði að borga brúsann hvort sem var, gerandi aldrei skil á neinu gagnvart neinum og aldrei beðnir um það.

Hér segir svo, með leyfi virðulegs forseta, en svo að ég stytti nú tilvitnanir mínar í þennan lestur: „Frv. þetta raskar stöðu starfsmanna sem ekki er hægt að ætlast til að þeir séu ánægðir með. Fram hjá þessu atriði verður ekki gengið," segir í ályktun fjögurra stjórnarmanna. Þeir láta svo sem þeir hafi ekki séð frv. og þá breytingu sem gerð var við til leiðréttingar og hefur verið flutt af meiri hl. iðnn. Ég veit ekki hvaða tilgangi slíkur málflutningur þjónar en það hljóta að vera mögur rök sem hrekja menn til þess að grípa til slíkra óyndisúrræða vegna þess að 3. gr. frv. felur í sér að það verði lögbundin full réttindi þessara starfsmanna og það verði ekki við þeim réttindum hruggað í einu né neinu og tekin af tvímæli með þeirri viðaukatill. sem flutt hefur verið að beiðni iðnrn. við þessa grein til þess að taka af tvímæli. Ef mönnum hefði verið alvara í hug, þá hefði ég ekkert haft á móti því og mig minnir fastlega og ég fullyrði að ég hafi getið þess ef menn væru sérstaklega andstæðir ákvæðunum um skipan stjórnarinnar. þá hefðu menn átt að bregða á það ráð að koma með till. til breytinga í því efni.

Það ætlar enginn að fara að beita neinum ólýðræðislegum vinnubrögðum. Það sem beðið er um er að menn axli ábyrgð og standi skil á þeim verkum sem mönnum eru falin, engum smáábyrgðarverkefnum eins og að stjórna Sementsverksmiðju ríkisins, sem er eitt stærsta fyrirtæki þessa lands. Ég veit ekki hvað ætti að taka til viðmiðunar í stærri þjóðlöndum. Ég efast um að General Motors séu eins stórt fyrirtæki að tiltölu í Bandaríkjunum og Sementsverksmiðjan á Íslandi ef við jöfnum saman fjármálakerfum þessara þjóðlanda.

Það er rétt, ég hef vegna þeirrar framvindu mála á betri veg hjá Sementsverksmiðju ríkisins ekkert sparað lof um þá sem fyrir þeim breytingum hafa staðið. Þetta hef ég tekið fram. Gagnrýni mín er meira almenn, eðlis. Þó að ég taki nú — af því að hún er í umræðu — Sementsverksmiðjuna sem dæmi er ég að beina spjótum mínum gegn þessu fyrirkomulagi og stjórnarháttum sem viðgangast í ríkisreknu fyrirtækjunum. Af þeim ástæðum, sem við blasa og mér voru kunnugar frá fyrstu hendi, hef ég gefið þessari þróun mála gott orð og þarf ekkert að taka af því. En þetta breytir ekki neinu í afstöðu minni til þeirra breytinga sem hér eru lagðar til því að þar er verið að skjóta stjórnarstoðum sérstaklega og ábyrgðarstoðum undir þetta fyrirtæki upp á framtíð alveg öfugt við það sem hér segir, að verið sé að ,,stofna fyrirtæki í tvísýnu sem þjóðinni hefur reynst vel í tæp 30 ár.“

Mikið þjóðþrifafyrirtæki en hryggilega rekið lengst af. Hér er, eins og ég segi, alveg öfugt að málafylgjunni og röksemdafærslunni staðið. Það er ekki tímaskekkja að auka atvinnulýðræði í fyrirtækjum. Það er þvert á móti ný stefna, ung stefna, sem þjóðmálaflokkar hafa tekið upp og verkalýðshreyfingin leggur mikla áherslu á sem von er til. Það er ekki tímaskekkja að menn takist á herðar þá ábyrgð sem þeim ella er lögð á herðar þótt hún sé ekki svo í framkvæmdinni. Og að færa valdið nær þeim sem best og gerst þekkja til hlutanna er áreiðanlega ekki tímaskekkja, heldur rétt stefna.

Virðulegur forseti. Ég hef farið kannske fullmörgum orðum um þetta mál. En mér er það afar hugleikið því að nú reynir á hvort menn yfirleitt vilja víkjast undir þessa aðferð sem ég hef sannfærst um, af þeim ástæðum sem ég hef hér fram talið, að er rétt stefna. Þess vegna er mér auðvitað mikið í mun að hún nái fram að ganga því að fleiri fara á eftir.

Ég féllst á, vegna beiðni samstarfsflokksins, Framsfl., að hinkra með framlagningu frv. um breytingu á ríkisprentsmiðjunni Gutenberg. Ég gerði það aðallega með tilliti til þess að þetta fyrirtæki starfar einvörðungu fyrir stjórnarráðið og Alþingi og í raun og veru ætti Alþingi að manna sig upp og kaupa þessa prentsmiðju því að svo mikið á Alþingi undir að hún starfi vel. En ég hef látið taka saman fyrir mig álitsgerð af óvilhöllum aðila um þetta fyrirtæki og öll rök, sem þar eru tínd fram, hníga að því að þetta sé rétt stefna.

Það var lengst af svo að þar var engin stjórn. Þegar menn tala nú um, hv. 4. þm. Vesturl.. að menn skuli vara sig á að beita ólýðræðislegum vinnubrögðum eins og þeim að iðnrh. ætlar sér skv. frv. þessu að skipa meiri hl. stjórnarinnar skulu menn hafa í huga að fyrirrennari minn mótaði þá stefnu að skipa einhendis menn t. a. m. í stjórn Orkustofnunar. Ég tók þetta eftir honum varðandi ríkisprentsmiðjuna Gutenberg og setti henni þriggja manna stjórn. Ég get ekki alveg svarað því hvort þetta stenst alveg stjórnskipulega, en þetta framkvæmdi ég og mundi þá bregða á það ráð að kalla á þá nefnd til að starfa að málefnum ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg ef á þyrfti að halda, en menn hafa ekki fett fingur út í þessa aðgerð.

En það er ýmislegt fróðlegt sem kemur fram. þ. e. um skilagrein alla og um stjórnun á fyrirtækjunum sem er undirstöðuatriðið. En það er líka rétt, þessi fyrirtæki yrðu að borga meiri skatta. Ég get nefnt sem dæmi og til fróðleiks að árið 1984 voru aðstöðugjald. kirkjugarðsgjald og iðnlánasjóðsgjald hjá Gutenberg samtals 466 685 kr. En hefði hér verið um hlutafélag í eigu ríkisins að tefla hefði þetta breyst þannig að gjöld hennar vegna eignarskatta hefðu hækkað um 331 751 kr.

Ég segi: Hvers vegna eiga fyrirtæki. sem sitja nú svo vel að verkefnum eins og ríkisprentsmiðjan Gutenberg sem hefur sem mest að vinna og í fullum höndum að vinna fyrir Stjórnarráð Íslands og Alþingi, ekki að standa skil á sköttum og skyldum eins og önnur fyrirtæki í þjóðfélaginu? Ég hélt að vegna samanburðar og alls annars hlyti það að vera eðlilegt að velja fyrirtækjum í þjóðfélaginu sem líkast form, annað tveggja eins og við höfum gert á hinum frjálsa markaði einstaklinga og félagshyggju, samvinnufélagsfyrirkomulagið, sameignarfélagsfyrirkomulagið, hlutafélagafyrirkomulagið, en ekki að hafa þessa sérstöðu sem hefur því miður ekki reynst vel eins og ríkisfyrirtæki hafa fram að þessu verið upp byggð.

Ég ítreka, virðulegi forseti, mikinn áhuga minn á að mál þetta nái farsællega í höfn. Ég er sannfærður um að þegar menn líta á þetta af rósemi hugans og þær skýringar eru gefnar, bæði gagnvart starfsmönnum og öðrum sem láta sig þessi mál varða, þá muni menn komast að raun um að hér er mál í framfaraátt.