28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5714 í B-deild Alþingistíðinda. (4993)

342. mál, verslunaratvinna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég er fegin því að heyra að hv. 3. þm. Reykv. ætlar. ef tillögur um annað falla, að standa að því að samþykkja frv. með þeirri breytingu sem gerð var á því í Ed. Ég stend upp út af þeim orðum hv. þm. að ekki hefði verið flutt frv. um höfundarrétt í sambandi við myndbönd. Það er nú einmitt það sem var gert og var frv. samþykkt sem lög fyrir ári. Það er m. a. til að auðvelda framkvæmd þeirra laga sem við stöndum andspænis þessu frv. núna og til þess að flýta fyrir þeirri framkvæmd. Það er orðið mjög aðkallandi að samþykkja frv. eins og það sem við höfum nú í höndum. Það var vissulega rætt á sínum tíma í ríkisstj. hver ætti að flytja slíkt frv. eða með hvaða hætti það gerðist á eðlilegastan veg. Þessi varð niðurstaðan. Ég hygg að það greiði mjög fyrir framkvæmd nýju laganna um höfundarrétt að þetta frv. sé samþykki. Sama má segja um lögin um bann við ofbeldiskvikmyndum sem hæstv. núv. forseti Nd. beitti sér fyrir í sinni menntamálaráðherratíð, en það féll í minn hlut að ganga frá reglugerð á grundvelli þeirra laga. Um þetta gildir líka það að samþykkt þessa frv. sem við erum nú að fjalla um er nauðsynleg forsenda fyrir skilvirkri framkvæmd þeirra laga og reglugerða. Þess vegna vil ég hvetja til þess að hv. þm. samþykki þessa breytingu svo langt sem hún nær því að þetta mál er aðkallandi.