28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5721 í B-deild Alþingistíðinda. (5002)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um ágæti og nauðsyn þessa frv. og þeirra laga sem af því leiðir ef að lögum verður og ég tel líka rétta þá ábendingu. sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að þrjú ár séu heldur skammur gildistími og það sé ástæða til að lengja hann til fjögurra ára.

En meginerindi mitt í ræðustól var hins vegar að lýsa stuðningi við þá brtt. sem Guðmundur Einarsson hefur hér flutt. Hana tel ég mjög skynsamlega og hún yrði til þess að auka þann trúnað sem nauðsynlegur er við geymslu á tölvutækum upplýsingum. Við vitum að það er mikil hætta á að slíkar upplýsingar séu misnotaðar. Guðmundur Einarsson gerir hér tillögu um aðferð sem mér sýnist að muni geta skilað verulegum árangri í þeim efnum að tryggja frekar en ella að persónuhagir manna fari ekki á dreif og verði ekki misnotaðir. Þess vegna lýsi ég fyllsta stuðningi við þessa till. sem ég tel að sé fyllilega í anda frv. og geri það sterkara og betra.