29.05.1985
Neðri deild: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5750 í B-deild Alþingistíðinda. (5071)

405. mál, tollskrá

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa svo mörg orð um þetta frv. sem hér er til umr., svo sjálfsagt sem það nú er. En það fjallar um breytingu á lögum nr. 120/1976, um tollskrá o. fl., með síðari breytingum.

Hér er lagt til að tollur á eftirtöldum vörum falli niður: öryggisbelti, barnavagnar og hlutar í þá og öryggissæti í ökutæki fyrir börn. Hér er verið að leggja til að aðflutningsgjöld verði felld niður af þessum vörum.

Það er löngu orðin ljós nauðsyn þess að tollskráin í heild verði endurskoðuð mjög ítarlega og hún samræmd þannig að um verði að ræða réttláta og skynsamlega álagningu þeirrar vöru sem flutt er til landsins. Nú, þegar útséð er um að af endurskoðun þessara laga verði að sinni að því er nýjustu fréttir herma, vegna þess að þá yrði tekjumissir ríkissjóðs svo mikill, er því meiri ástæða til að þetta frv. fái skjóta meðferð hér í þinginu þegar ekki er von til þess að þessi atriði hljóti leiðréttingu gegnum allsherjarendurskoðun tollskrár.

Hér er verið að gera tillögu um að auðvelda foreldrum að fara að þeim áróðri sem beitt hefur verið og nauðsynlegur er fyrir notkun öryggistækja í bíla til þess að koma í veg fyrir stórkostleg slys og örkuml barna. Þessi tæki eru svo dýr að það er nánast ómögulegt fyrir venjulegt fólk með venjulegar tekjur að fjárfesta í þeim þrátt fyrir það öryggi sem þau óneitanlega veita.

Þetta frv. miðar einnig að því að fella niður toll af barnavögnum. en tollur af þeim er nú 50% auk þess sem 24% vörugjald leggst á þá. Þar ofan á leggst svo söluskattur þannig að um er að ræða 100% hækkun frá innkaupsverði. Þetta er auðvitað alveg óviðunandi. Hér er stór útgjaldaliður foreldra sem nauðsynlegt og auðvelt er að fella á brott.

Það er alltaf verið að tala svo fjálglega um það að gera þurfi félagslegar aðstæður þannig úr garði að fólki sé gert það kleift og mögulegt og ekki hvað síst fýsilegt að eignast börn. Þetta er m. a. eitt af þeim atriðum sem eru þess valdandi ásamt fjölmörgum öðrum að það er ekki fýsileg tilhugsun að setja saman innkaupalista fyrir nýfætt barn. En þar vegur barnavagninn langsamlega mest. Hann er dýrastur af öllu dýru umleikis það að kaupa það sem til þarf þegar barn er væntanlegt í heiminn.

Ég aflaði mér upplýsinga um það í nokkrum verslunum sem selja slíkan útbúnað hvað slíkur kostagripur kostar. Ég reiknaði síðan út meðalverðið og verð að segja að mér hnykkti við útkomunni. Ef við tökum fyrstu útgjöld í sambandi við það að setja saman þennan innkaupalista sem ég minntist á áðan þá eru það lágmark 50 þús. kr. fyrir utan fatnað. Síðan tekur meira við þegar barnið stækkar, svo sem kerra. grind, stærra rúm, stærri sæng o. s. frv. Ég ætla nú að hlífa þd., þó að fáir séu viðstaddir, við nánari útlistun á verði á hverjum einstökum hlut fyrir sig, þeir sem áhuga hafa geta þá sérstaklega fengið þær upplýsingar hjá mér. En ég vil að sjálfsögðu geta þess að þar vegur barnavagninn þyngst, eða um 20 þúsund. Þessu getum við auðveldlega kippt í liðinn og lækkað þessi miklu útgjöld sem þar að auki vega ekki svo mikið í ríkissjóði, síst af öllu þegar á heildina er litið. En tollur og tollafgreiðslugjald og vörugjald af öllum þessum tollskrárnúmerum, sem ég hef talið til hér að framan, vega árið 1983 ekki nema rétt rúmlega 2 millj. kr.

Í upplýsingum, sem ég fékk frá fjmrn., er tekið til að álagning á bílbeltum og öryggissætum hafi verið frjáls undanfarin tvö ár, en samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofnunar mun láta nærri að meðalálagning á þessum vörum sé á bilinu 65–75%. Segir það sig því sjálft að það munar um það fyrir þann sem kaupir að leggja af þann 20% toll sem nú er á þessum vörum. Það þarf í sjálfu sér ekki að orðlengja meira um þetta frv. og legg ég því til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.