03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5820 í B-deild Alþingistíðinda. (5179)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það er mikill ágreiningur um þessar mundir í landinu út af málum sem við líklega gætum kallað „byggðastefnu“. Það takast á fylkingar. Fólk á landsbyggðinni er óánægt. Það segir: Við stöndum undir framleiðslunni, við sköpum þau verðmæti sem hér eru sköpuð, en síðan berum við ekkert úr býtum. Um leið og eitthvað bjátar á, eins og nú hefur gert, erum það við sem verðum fyrir barðinu á því. — Fólk á landsbyggðinni er óánægt. Það er ekki óánægt vegna eignarhalds húseignar á Rauðarárstíg, það er alls ekki óánægt vegna þess að það séu fyrirhugaðar einhverjar tilfærslur á skrifstofum inni í Framkvæmdastofnun og það er ekki óánægt vegna þess að það eigi að fara að breyta þar nafnspjöldum á hurðum. Málið er að þetta frv. kemur hvergi nærri kjarna málsins. Kjarni málsins er ekki skipulag Byggðastofnunar eða Framkvæmdastofnunar eða hvaða byggðakontór sem um er að ræða. Málið snýst ekkert um það. Fólkið er ekki óánægt vegna þess. Fólkið er óánægt vegna þess að það hefur verið svipt sjálfræði. Það er mergur málsins. Og merkin sjáum við hvert sem við fórum og hvert sem við lítum. Fólk hefur nú svo að þúsundum skiptir tekið sig saman í samtök sem nefnast Jafnrétti milli landshluta. Það krefst umfangsmikilla breytinga á stjórnkerfi landsins og það er ekki að einangra þær breytingar við Rauðarárstíg 25. Það er talað um gjörbyltingu á stjórnkerfi Íslands. Þetta fólk ætlar að hittast um næstu helgi í Mývatnssveit og þeir sem ekki trúa þessum orðum ættu að fara þangað. Þeir ættu að spyrja fólkið sem þar verður hvað því finnist um Byggðastofnun. Það mundi segja: Byggða-hvað Þetta sama sjónarmið kom fram á fundi í fjh.­ og viðskn. þar sem mættir voru framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna. Þeir sögðu: Þið megið hafa þetta frv. eins og þið viljið. Þeir fóru að vísu fram á að ekki yrðu felldar niður greiðslur sem fram að þessum tíma hefðu verið til landshlutasamtakanna og hefðu verið grundvallaðar á ákvæðum í lögunum um Framkvæmdastofnun. Þeir fóru fram á að þessar greiðslur héldust. En að öðru leyti, sögðu þeir, skiptir okkur engu máli hvernig frv. þið skrifið hérna á byggðakontórunum. — Það var önnur sönnunin um það að þetta frv. er algerlega einskis virði. Þetta fjallar nefnilega um aukaatriði. Þetta fjallar um tiltekt. Þetta fjallar um skipulag á Byggðastofnun eða Framkvæmdastofnun eða hvaða nöfnum sem við viljum nefna þetta og kemur ekkert nærri lífi fólksins í landinu. Það sem skiptir máli, og það kom fram hjá framkvæmdastjórum landshlutasamtakanna, eru stjórnarfarsleg atriði. Hvert er t. d. frumkvæði og hver er réttur heimafólks til eigin ákvarðana Hvaða möguleika hefur það á að marka eigin stefnu í þessum málaflokkum. Hvaða möguleika hefur það á því að sjá sjálfu sér forræði en taka ekki við póstsendingum úr Reykjavík. Um það snýst þetta mál.

Það er alveg sama hvort við köllum þessa stofnun Framkvæmdastofnun eða Byggðastofnun eða hvaða nafn sem við veljum þessu. Þessi kontór mun alltaf bera öll hin dæmigerðu einkenni miðstýringarinnar sem er fjarlæg verkefnunum, sem drepur fjölbreytileika. drepur frumkvæði og drepur tilraunastarfsemi. Þetta mun hafa á sér einkenni seinagangsins þannig. Það er næstum haft í flimtingum í þeim héruðum úti á landi sem hafa lent í því að gerðar eru byggðaáætlanir fyrir þau. Menn hafa sagt að á endanum snúist byggðaáætlanir í áætlanir um endurreisn og að lokum í áætlanir um uppgröft svæðanna vegna þess að seinagangurinn sé slíkur að þetta hætti að verða viðfangsefni Framkvæmdastofnunar eða byggðakontórsins og eigi kannske frekar heima hjá Þjóðminjasafni. Það hlýtur að fara svona þegar menn reyna á þennan hátt að hafa forsjá og taka fram í fyrir fólki sem er statt á vettvangi og getur séð fótum sínum forráð, veit hvernig verkefnin eru, veit hvernig á að vinna þau og hefur til þess unnið að fá að sinna því.

Þessir stjórnarhættir verða ævinlega þunglamalegir. Við höfum um það ótal dæmi. Það sem fólk fer nú fram á er að fá opna og lifandi umræðu um hvernig eigi að breyta stjórnkerfinu, hvort sem við köllum það fylkisstjórnir eða héraðsstjórnir, hvort sem við erum að tala um að styrkja starfsaðstöðu og vald og frumkvæði landshlutasamtaka. Menn hafa á þessu ólíkar skoðanir, en allir eru sammála um að við vinnum þessu máli ekki verulegar hagsbætur fyrr en við færum stjórntaumana heim í héruðin til fólksins og gerum því sjálfu kleift að ráða miklu meiru um sína hagi en nú er hægt. Ég held að slík umræða sé brýnasta viðfangsefni í íslenskum stjórnmálum í dag, þ. e. umræðan um hvernig við breytum þessu kerfi þannig að það opnist til valddreifingar og lýðræðis og verkefni séu unnin á heimavelli af fólki sem hefur til þess þekkingu frá fyrstu hendi. stendur nálægt verkefnunum og veit best hvernig þeim er hagað.

Bandalag jafnaðarmanna hefur flutt nokkur þingmál sem snúa að þessu efni. Við höfum flutt till. til þál. um fylkisstjórnir þar sem við gerum ráð fyrir að kjörnar séu heimastjórnir. Við höfum flutt till. til þál. um þróunarstofur landshlutanna þar sem við leggjum áherslu á hinn ríka frumkvæðisrétt heimamanna og að þróunarstofur hafi forgöngu um mótun byggðastefnu og þar verði uppsprettan að hugmyndum, þar verði uppsprettan að framkvæmdum. Síðan má halda um það bókhald í Reykjavík. Við höfum gert ráð fyrir að sú starfsemi, sem nú fer fram í Framkvæmdastofnun og væntanlega fer fram í nýrri Byggðastofnun, verði í deild undir umsjón félmrn. Það verði kannske einkum og sér í lagi gagnasöfnunar- og gagnaúrvinnsludeild. Þangað geti menn af þróunarstofum landshlutanna leitað um upplýsingar, leitað um ráðgjöf o. þ. h. En grundvallaratriði er að frumkvæðið og vinnan fari fram úti í héruðum.

Við höfum enn fremur gefið tóninn um það sem við höldum að hljóti að verða viðfangsefni þessara aðgerða í atvinnumálum. Við teljum að það muni gerast með eflingu smáfyrirtækjarekstrar. Við teljum að það sé kominn tími til að menn hætti á þessu stóriðjufylleríi sem hefur þjáð íslenska embættis- og stjórnmálamenn allt of lengi. Menn virðast kunna því best. Menn virðast ekki sjá annað verðugt verkefni en að borða morgunmat í Montreal og helst vilja þeir síðan borða kvöldverðinn í Timbuktu eða einhvers staðar þar sem einhver auðhringurinn hefur einhverja verksmiðju. Menn eiga að snúa sér heim og huga að hugviti og möguleikum á heimaslóð og menn eiga að vinna það eftir leiðsögn og leiðbeiningum þeirra sem hugmyndirnar hafa og aðstæðurnar þekkja.

Þetta er í grófum dráttum sá rammi sem við teljum að menn eigi að ræða og við skulum svo mála út í hann smáatriðin síðar. Við verðum að leggja um það almenna stefnu og við verðum að taka almenna afstöðu til þess hér á þingi hvernig meginlínur í þessu stjórnkerfi eiga að liggja vegna þess að við heyrum á hverjum einasta degi skilaboðin utan að okkur. Þau koma eins og ég segi frá þeim þúsundum sem skrifa sig á lista hjá samtökunum um jafnrétti milli landshluta. Við fáum þessi skilaboð frá framkvæmdastjórum landshlutasamtakanna sem koma á fund fjh.- og viðskn., eins og ég sagði áðan, og segja: Strákar mínir, þetta skiptir engu máli. Þið geti haft þessi frumvörp eins og þið viljið. Vandinn er alls ekki leystur með þessari frumvarpssmíð ykkar. Þetta er nú hinn beiski sannleikur þessa máls.

Ég hef skilað nál. og það er svohljóðandi. með leyfi forseta:

„Þetta frv. er dæmigert fyrir fílabeinsturna íslenska stjórnkerfisins. Þegar fólk um allt land krefst sjálfsvirðingar og sjálfsstjórnar setjast stjórnmála- og embættismenn niður og búa til frv. um að færa til skrifborð og nafnspjöld á Rauðarárstíg 25 í Reykjavík.

Grundvallaratriðið í þessu máli er að tryggja sjálfræði fólksins um eigin hagi. Ef fólk fær að njóta þess sem það aflar og ef svæði og héruð verða sjálfstæð um uppbyggingu atvinnulífs þarf engar aumingjabætur frá byggðakontórum í Reykjavík. Í stað bóta- og styrkjastefnu þarf að gera fólki, fyrirtækjum og héruðum kleift að standa á eigin fótum og tryggja þannig eðlilegan vöxt og viðgang landsbyggðarinnar.

Þetta frv. um Byggðastofnun er ónýtt því að í því er hvergi tekið á þessum atriðum. Um allt land krefst fólk, svo þúsundum skiptir, grundvallarbreytinga á stjórnkerfinu, breytinga sem færa því rétt til sjálfsákvörðunar.

Bandalag jafnaðarmanna hefur flutt till. til þál. um fylkisstjórnir og þróunarstofur landshlutanna. Þar er mörkuð sú stefna valddreifingar og lýðræðis sem óumflýjanlegt er að taka. Þar er gert ráð fyrir almennum kosningum til héraðsstjórna og einnig fyrir frumkvæði heimamanna um mótun atvinnustefnu sinnar og lífshátta.

Nú steðjar hætta að byggðum landsins vegna þess að fólk hefur glatað völdum í hendur sjóðsstjóra og stjórnmálamanna. Ef fólkið fær þessi völd ekki aftur innan skamms verða byggðir landsins ekki verkefni Byggðastofnunar heldur Þjóðminjasafns áður en yfir lýkur.

Undirritaður leggur því til að frv. verði fellt.“