04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5868 í B-deild Alþingistíðinda. (5231)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég kem upp í þessum umr., sem ég gat því miður ekki verið að öllu leyti viðstaddur, fyrst og fremst til að reyna að koma að því að við megum alls ekki fara að metast um hver á að standa fyrir eða koma þessu á. Aðalatriðið er að það sé hægt að koma því í framkvæmd. Ég skil till. þannig að fyrst og fremst sé verið að leggja áherslu á nauðsyn þess að gera sem flestum fötluðum mögulegt að komast í störf á vinnumarkaðinum. Það er almennt viðurkennt í dag að einmitt tölvan eða allt sem er í kringum tölvumeðferð nú er vettvangur sem margt fatlað fólk getur tileinkað sér með sérstakri þjálfun sem betur fer.

Það sem ég vil sérstaklega minna á hér er að rn. sem ég stýri hefur haft talsverð afskipti af einum þætti slíks máls. Fyrir frumkvæði Rauða krossins og Öryrkjabandalagsins hefur nokkurs konar skóli fyrir fatlaða starfað um 2–3 ára skeið og félmrn. hefur styrkt þá starfsemi eftir megni. Ég get sagt það hér að ég hefði aldrei getað látið mér detta í hug hve sú litla starfsemi hefur haft mikil áhrif og hve hún hefur getað komið mörgu fötluðu fólki til góða sem getur undir engum kringumstæðum eða a. m. k. flest af því sótt almenna skóla vegna sinnar fötlunar eða hvað það hefur náð gífurlega miklum árangri í gegnum þessi námskeið eða þennan vísi að skóla sem hefur að miklu leyti verið rekinn af áhugafólki og mikið sjálfboðastarf sem hefur verið lagt af mörkum. Þess vegna veit ég að einmitt svona starfsemi, ekki síst til þess að reyna að koma þessu fólki í störf, getur haft mjög jákvæð áhrif. Ég legg áherslu á að nauðsynlegt er að rn. menntamála og félagsmála vinni saman í þessu máli. Ekki skulum við hafa á móti því ef menntmrh. vill leggja áherslu á að menntmrn. komi inn í þessi mál. Það má ekki vera neinn metingur um þetta. Það er aðalatriðið að geta komið til móts við þetta fólk og stuðlað að því að starfsemi sem þessi geti farið fram.

Ég vildi, herra forseti, leggja áherslu á þetta. Ég vil ekki leggja stein í götu þess, en ég veit að þetta er þýðingarmikið mál. Þetta er ekki fyrirferðarmikið fjárhagslega, en góður vilji og áhugi fyrir málinu, að greiða fyrir þessu á réttan hátt, skilar miklu í þessu máli.