06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

81. mál, búseturéttaríbúðir

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðh. svör hans kemst ég ekki hjá að átelja að ekki er staðið við gefnar yfirlýsingar ráðh. í svo veigamiklum málaflokki.

Þann 14. og 16. maí s.l. sagði hæstv. ráðh. að stefnt yrði að því að slíkt mál yrði lagt fram í byrjun næsta þings. Nefndin hefur haft bráðum tæpt hálft ár til starfa og enn liggja ekki fyrir svör um starfslok hjá henni. Hæstv. ráðh. vísaði á bug þeim fullyrðingum úr fjölmiðlum og frá þm. að hrossakaup ættu sér stað í þessu máli. Ég kann enga skýringu á slíkum drætti á störfum nefndarinnar, ef kærleikurinn á stjórnarheimilinu er slíkur sem ráðh. vill af láta, aðra en þá að enn sé slíkur ágreiningur milli stjórnarflokkanna í þessu máli að hann reynist óleysanlegur. Vegna þess að þetta mál er út af fyrir sig tiltölulega einfalt til afgreiðslu og tæknilega ekki flókið. Spurningin er hér sem oft áður um pólitískan vilja.

Ég verð að segja fyrir mig að mér ógnar að horfa upp á ástandið í húsnæðismálum Íslendinga. Hvernig blasir það við? Annars vegar horfum við á látlausar og linnulausar lúxus-villu-byggingar. Hvernig eru þær fjármagnaðar? Þær eru fjármagnaðar oft á tíðum og byggðar af fólki sem athugun á skattframtölum leiðir í ljós að hefur slík vinnukonuútsvör að ekki er ætlandi að það hafi neinar tekjur til þess arna. Hvernig er það í reynd fjármagnað? Það er fjármagnað úr gjaldþrota opinberum sjóðum. Því að ef byggingarstarfsemin er almennt fyrst og fremst fólgin í villubyggingum, þá er hér raunverulega um að ræða niðurgreiðslur í stórum stíl frá efnalitlu fólki og leigjendum til þeirra sem villurnar byggja, því að þeir sem byggja fá auðvitað lán úr opinberum sjóðum og geta dregið vexti frá sínum sköttum. Það kemur því ekki á óvart, sem fram kom í upplýsingum hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að hér væri raunverulega um að ræða niðurgreiðslur á tekjuskattsstofni upp á 1.2 milljarða.

Hversu lengi ætlar hæstv. félmrh., sem hefur gefið mörg og fögur loforð um úrlausn í húsnæðismálum, að horfa upp á það að á sama tíma og þörfin er brýnust fyrir litlar íbúðir í fjölbýli er því takmarkaða fjármagni sem hér er til ráðstöfunar fyrst og fremst varið til að byggja villur yfir fámenna forréttindahópa? Hvers konar þjóðfélag er þetta eiginlega?

Það er fyrst og fremst eitt sem þarf að taka afstöðu til í „Búseta-málinu“. Það er þetta: Hvernig viljum við hafa hið félagslega kerfi ef við viljum hafa það á annað borð? Það eru ákveðnir sambúðarerfiðleikar þegar um er að ræða þrjú kerfi: 1. almennt húsnæðislánakerfi, 2. séreignarkerfi í formi verkamannabústaða en með betri kjörum og 3. leigumarkað, sem á undanförnum árum hefur náttúrlega verið frumskógarmarkaður, þar sem eignalítið fólk sætir afarkostum og okurkjörum.

Búseturéttarkerfið hefur ákveðna kosti umfram verkamannabústaðakerfið. Í fyrsta lagi er á það að líta að það fólk sem nú er á götunni getur ekki leitað til verkamannabústaðakerfisins vegna þess að þar er ekkert til nema biðlistar. Í öðru lagi vegna þess að þar er ekki verið að byggja neinar nýjar íbúðir. Í þriðja lagi vegna þess að það er engin fjármögnun.

Í öðru lagi eru í verkamannabústaðakerfinu sett ákvæði um tekjumörk umsækjenda. Menn verða m.ö.o. að sanna fátækt sína.

Í þriðja lagi: Það fólk sem nær þessum rétti verður þá að komast inn á biðlista. Og í raun og veru gengur það þannig fyrir sig að það verður að þekkja verkalýðsforingja eða beita pólitískum kunningjatengslum í kunningjaþjóðfélaginu til þess að eiga von.

Verulegir fjármunir í verkamannabústaðakerfinu fara í endursölu og endurfjármögnun. Inn í verkamannabústaðakerfið koma íbúðir með niðurgreiddum kjörum en að lokum fara þær út úr því á markaðskjörum. Þetta er óeðlilegt. Út frá sjónarmiði ríkisins og fjármögnunarþarfa er búseturéttarfyrirkomulagið hagkvæmara kerfi vegna þess að þar fer ekki fram nein endursala, það er ekkert fé bundið í því, um enga kaupskyldu að ræða eða endurfjármögnun. En því hefur verið haldið fram af sjálfstæðismönnum að meðan Búseti setji ekki reglur inn í sín félagslög um það að meðlimir þurfi að sanna fátækt sína, en þeir hafa sem kunnugt er þá reglu að það verður dregið um íbúðir, þá falli þeir ekki undir þetta kerfi, þ.e. hið félagslega kerfi. Og úr þeim deilum virðist seint ætla að fást skorið.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að húsnæðisstefna hæstv. ríkisstj. og stefna fyrrv. ríkisstj. í húsnæðismálum sé raunverulega engin stefna. Hafi hún einhver verið þá er hún fjárhagslega gjaldþrota, eins og kemur rækilega fram ekki bara af mínum ummælum eða svörum ráðh., heldur í umfjöllun forustumanna Búseta um málið, t.d. í umræddri grein eftir Jón Rúnar Sveinsson, þar sem hann segir að fjármagnsskortur húsnæðiskerfisins sé það sem allt strandar á. Það höfum við Alþfl.-menn reyndar margsinnis sagt og flutt tillögur um að bæta þar úr. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins að lokum segja: Það þarf að endurskoða þessi lánsréttindi. Í raun og veru er spurning hvort ekki ætti að taka upp þá stefnu að lánað verði miðað við hóflega íbúðarstærð til allra og þá almennileg lán sem raunverulega eru viðráðanleg Í öðru lagi verði lögð áhersla á uppbyggingu félagslegs kerfis í formi búsetuíbúða. Og í þriðja lagi farin sú leið að sefja skilyrði fyrir lánveitingu G-lána til kaupa á eldri íbúðum með þeim hætti að þannig takist að þrúkka niður útborgunarverð með verðtryggðum eftirstöðvum, en það er eina leiðin til að nýta hið eldra húsnæði almennilega og gera það viðráðanlegt fyrir ungt fólk.