07.06.1985
Neðri deild: 90. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6106 í B-deild Alþingistíðinda. (5556)

509. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það sem hér er flutt var flutt í Ed. og hefur verið samþykkt þar. Það fjallar um breytingu á tryggingu vaxtabréfa sem veðdeild Búnaðarbanka Íslands gefur út. Í gildandi lögum er um að ræða þessar tryggingar: veðskuldabréf sem veðdeildin fær frá lántakendum, varasjóð veðdeildarinnar og ábyrgð ríkissjóðs. Þriðja ákvæðinu er breytt úr ábyrgð ríkissjóðs í ábyrgð Búnaðarbankans. Er það sambærilegt við það sem gerist hjá veðdeildum annarra banka.

Þetta frv. er flutt sem samkomulagsfrv., samið og unnið af nefnd sem fjallaði um þessi mál og var undir forustu núverandi bankastjóra Búnaðarbankans Stefáns Pálssonar. Mér er enn fremur kunnugt um ábendingar frá bankastjórninni um aðrar breytingar í sambandi við lögin um veðdeildina. Það er ósk mín að sú nefnd sem fjallar um þessi mál skoði þær þannig að hægt væri að koma þeim breytingum fram við 2. umr. þessa máls sem ég á ekki von á að valdi neinum ágreiningi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.