10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6120 í B-deild Alþingistíðinda. (5570)

528. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli og þeim sem tekið hafa undir efni þess. Það kom fram í framsöguræðu minni við 1. umr. að þarna væri um tímabundnar ráðstafanir að ræða sem ganga í áttina að því sem hlýtur að verða stefnt að. Þarna er aðeins um áfanga áð ræða.

Ég vil leggja áherslu á að ganga þarf þarna lengra og gera mál skýrari. Það er enginn ávinningur fyrir neinn að vera hvattur með slíkum framlögum til framkvæmda sem ekki eru nauðsynlegar því að vissulega fylgir því alltaf einhver kostnaður fyrir viðkomandi aðila og meira en lítill þó að þarna sé um mikilvægan stuðning að ræða. Vissulega má segja að það væri æskilegast fyrir bændastéttina að hún þyrfti alls ekki á neinum slíkum framlögum að halda. En ef grannt er skoðað eru þau ekki eingöngu í þágu bændastéttarinnar heldur þjóðfélagsins í heild. Við vitum að fjárfesting í landbúnaði skilar arði hægt, veltuhraði er hægur í landbúnaði miðað við það sem gerist í öllum öðrum atvinnuvegum. Þar af leiðandi verður fjármagnskostnaður þungur. Og þó að við þurfum að draga saman í bili a. m. k. hefðbundna búvöruframleiðslu þarf vitanlega áfram að framleiða mjólk og kindakjöt hér á landi og þá skiptir það miklu máli að á þá sem að því starfa séu ekki lagðar allt of þungar fjárfestingarbyrðar. Get ég tekið undir með hv. 2. þm. Austurl. að vissulega er þar hlutur frumbýlinga erfiðastur. En eftir því sem fjárfestingarkostnaðurinn verður hærri þarf stærri liður að koma inn í verðlagningu búvara til þess að standa undir þessum fjárfestingarkostnaði og það hækkar þá búvöruverðið í landinu. Það er þess vegna sem ávinningur er að því að reyna að lækka fjárfestingarkostnað, jafna milli einstaklinga og draga úr aðstöðumun. Þarna þarf því að huga vel að. En ég ítreka það, sem ég sagði við 1 . umr. málsins, að endurskoðun þarf að halda áfram og ég get tekið undir með þeim sem lagt hafa áherslu á að henni ljúki sem fyrst.