10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6139 í B-deild Alþingistíðinda. (5605)

456. mál, Byggðastofnun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held næstum að ég hefji ræðu mína á síðustu orðum hv. síðasta ræðumanns, að að sinni ætla ég ekki að hafa um þetta mjög mörg orð. En ég vil þó eiga ofurlítinn orðastað við hæstv. forsrh. og ekki síður við formann fjh.- og viðskn., frsm. meiri hl., hv. þm. Pál Pétursson, en hann lét hér ákveðin ummæli falla sem ég hefði gjarnan vilja ræða nokkuð við hann. Er hægt að fá úr því skorið, herra forseti, hvort þessir tveir heiðursmenn eru einhvers staðar nálægir? (Forseti: Það er upplýst að aðalforseti er eins og útspýtt hundsskinn til þess að reyna að ná í þetta lið.) Ræðumaður sættir sig vel við það ef forseti ætlar að leggja svo mikið á sig til þess að verða við þessum óskum.

En það má annars segja efnislega um þetta frv. að það hefur sínar góðu og miður góðu hliðar. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að menn fjalli um Byggðastofnun. Ég er þeirrar skoðunar að slík stofnun hafi enn sem fyrr og e. t. v. ekki síður nú hlutverki að gegna. Það má e. t. v. deila um uppbyggingu hennar en verkefnið er svo sannarlega fyrir hendi. Um það verður naumast deilt, herra forseti.

Ég hygg að rétt væri að aðlaga þetta frv. meira en gert er þeim nýju sjónarmiðum sem nú eru helst uppi í byggðamálum, svo sem eins og að færa starf þetta meira út til einstakra landsvæða og tryggja það að Byggðastofnun sem slík sé vel uppbyggð og vel í stakk búin til þess að hafa sem nánast og best samstarf við þá aðila sem eru að sinna þessum málum á vettvangi, þ. e. í byggðunum þar sem verkefnin liggja. Það gefur auga leið að það er hið æskilegasta fyrirkomulag að þessum störfum sé sinnt þar eins mikið og kostur er. Ég held þó að á þessu stigi sé naumast rétt að gera því skóna að unnt sé að leggja niður eina miðju-byggðastofnun sem hafi ákveðnu samræmingar- og samstarfshlutverki að gegna. Ég er talsmaður þess að Byggðastofnun verði sett niður úti á landsbyggðinni.

Þessi mál hefur borið þannig að að í tengslum við þau frv. sem hæstv. ríkisstj. flytur um endurskoðun á starfsemi þeirri sem nú fer fram innan veggja Framkvæmdastofnunar ríkisins eru lögð hér fram ekki færri en þrjú frumvörp. Einhvers staðar hefur það verið orðað svo að Framkvæmdastofnun sé að auka kyn sitt með þessum hætti.

Ég lagði á það áherslu í umræðum um svonefnda þróunarstofnun að þessi tækifæri, sem hér gæfust til að sýna í verki viljann til að dreifa ríkisstofnunum og opinberum stofnunum um landið með öðrum hætti en verið hefur hingað til, yrðu ekki látin ónotuð. Enn er ég við það sama heygarðshorn, herra forseti, og það voru sérstaklega ákveðin orð, sem hæstv. forsrh. og hv. þm. Páll Pétursson létu falla í þessu samhengi, sem ég vildi gera hér að umtalsefni.

Hæstv. forsrh. mun hafa látið þau orð falla — reyndar bæði hér á hinu háa Alþingi og eins víðar þar sem hann hefur tekið til máls á undanförnum dögum — að sér væri það ekki mjög á móti skapi að Byggðastofnun væri staðsett á Akureyri, en um það er einmitt flutt brtt. við þetta frv. af tveimur hv. þm., Svavari Gestssyni og Halldóri Blöndal. Þá vil ég inna hæstv. forsrh. aðeins nánar eftir þessum vilja hans og eiga við hann orðaskipti um hann. Mér hefur nefnilega borist það til eyrna, herra forseti, að hæstv. forsrh. telji það óeðlilegt að binda slíkt með lagasetningu. Það sé æskilegt og fremur í verkahring stjórnar að ákveða hvar stofnunin hafi aðsetur.

Þessum málflutningi er ég ákaflega ósammála og tel það reyndar nokkuð mikinn barnaskap að bera það á borð fyrir hv. þm. og aðra sem horft hafa á þessi mál og sjá þau í ljósi reynslu liðinna ára því að þetta er ekki ný hugmynd, að reyna að færa stofnanir út um landið og stuðla þannig að jafnvægi í byggð landsins. Í ljósi reynslunnar, í ljósi þess hvernig það hefur gengið á undanförnum árum finnst mér það mikill barnaskapur að halda að hægt sé að skjóta sér á bak við það, sleppa þessu tækifæri úr greipum sér og segja: Við skulum láta væntanlega stjórn, hver sem hún verður, sjá um þetta.

Herra forseti. Slíkar viljayfirlýsingar eru algerlega marklausar og gagnslausar. Ég hef satt best að segja ekki nokkra von um það, ef þetta tækifæri gengur okkur úr greipum, að þetta verði að veruleika. Ég hef ekki minnstu ástæðu til að ætla að það gangi betur hér eftir en hingað til nema Alþingi taki af skarið einmitt nú þegar það hefur gott tækifæri til þess. Það er ekki fremur í verkahring nokkurs aðila en einmitt hv. Alþingis að móta stefnuna í þessum efnum. Þar verður að taka af skarið. Hér er stundin og hér er staðurinn til þess að gera það. Það vil ég segja við hæstv. forsrh.

En síðan á að standa að þessu með þeim hætti að gefa þessari stofnun í morgungjöf hálft hús á Rauðarárstíg í Reykjavík. Telja menn það líklegt að þessi nýja væntanlega stjórn láti það tilheyra sínum morgunverkum að pakka draslinu ofan í kassa og flytja það, búin að fá hálft hús að gjöf? Nei, það er hinn mesti barnaskapur, herra forseti. Ljós reynslunnar skin allt í þá veruna að af þessu verði ekki neitt og við stöndum í sömu sporum ef þessi tækifæri ganga okkur úr greipum.

Hér er á ferðinni hinn sígildi aumingjaskapur og andleg leti þeirra manna sem hvorki vilja, geta né nenna að gera þessa hluti upp við sig á þeim stað og á þeirri stundu sem tækifæri er til þess að gera það. Þeir menn sem gefast upp við fyrstu mótbárur í þessum efnum ná aldrei neinum árangri, það er alveg morgunljóst. Mér finnst þessir riddarar Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson og hæstv. forsrh., vera eins og litlir smalastrákar á ferð í þoku. Þeir sjá fram undan sér smáhraundrang og hann verður óðara að tröllkarli fyrir augunum á þeim og þeir renna á rassinn og til baka með öll sín áform og allar sínar skoðanir og þá er hinn góði vilji þeirra einskis nýtur.

Hv. þm. Páll Pétursson talaði hér um hótanir þegar athygli hans og annarra þm. var vakin á því að fylgst væri með þessu máli, það yrði fylgst með því hvaða afgreiðslu þessar tillögur, um að nota þetta tækifæri til að flytja stofnanir út úr höfuðborginni, fengju. Það eru engar hótanir, herra forseti, það er einungis raunsætt mat á þeim mikla áhuga almennings vítt og breitt í byggðum landsins sem er fyrir þessum málum. Það vil ég leyfa mér að fullyrða. Það eru heldur ekki hótanir þó að ég segi það við þessa hv. alþm. — og það þótt þeir séu fjarstaddir — að það verði erfið staða fyrir þá að koma með sinn góða vilja út um landið eftir fimm ár eða eftir tíu ár, ef þessi tækifæri verða látin ónotuð, og standa frammi fyrir því að nákvæmlega ekkert hafi gerst vegna þess að tækifæri gengu mönnum úr greipum. En það er mín bjargföst sannfæring — og því ættu allir að gera sér grein fyrir — að sú verður niðurstaða þessa máls ef ekki verður tekið af skarið um þetta hér á Alþingi.

Ég bið alla þm. hvaðan sem þeir koma af landinu, hvort sem þeir eru kjörnir til starfa af fólki af Norðurlandi eða í höfuðborginni, að hugsa um það augnablik og gera sér grein fyrir því að það er ekki á hverjum degi sem við hér á Alþingi erum með mál sem þessi í höndunum og stöndum frammi fyrir valkostunum, getum gert það upp við okkur hvort við viljum gera þetta eða ekki. Meinum við eitthvað með tali okkar um þetta eða ekki? Er byggðastefnan aðeins orðin tóm í hugum okkar? Eru valddreifing og jafnvægi í byggð landsins einungis hátíðaryrði til að nota í sunnudagsræðum eða viljum við nota tækifærin, sem við hér höfum, til að gera þessar hugmyndir að veruleika? Því verða menn að svara hér og nú og það gefst ekki betra tækifæri til þess að gera það.

Það er nöturlegt, herra forseti, þegar fjallað er um frv. til l. um nýja og sjálfstæða byggðastofnun sem á alveg sérstaklega að gegna því hlutverki og því hlutverki einu sem undir það fellur, að þá skuli menn standa frammi fyrir því og hlusta á ræðumenn eins og hv. þm. Pál Pétursson sem telja það alveg sjálfgefið og nánast óhjákvæmilegt að þessi stofnun verði í Reykjavík og hvergi annars staðar. Ein af þeim röksemdum, sem hann færði fram, var sú að þessi stofnun ætti að þjóna öllu landinu. Að heyra á endemi!

Ég hefði spurt þennan ágæta hv. þm., herra forseti, að því ef hann hefði verið hér nærstaddur, hvort hann á sínum fjölmörgu ferðum norður í Húnaþing, á sveitabæ sem heitir Höllustaðir, og til baka aftur frá þessum sama sveitabæ, Höllustöðum, og hingað til Alþingis hefði rekið sig á það að leiðin væri styttri í aðra áttina en í hina. Það er engu líkara, þegar menn bera svona lagað á borð fyrir hv. þm., en að þeir telji að það sé miklu styttra til Reykjavíkur alls staðar að heldur en öfugt. Þetta er nokkuð sérkennilegur málflutningur.

Ég rakti það í umræðum um svonefnt þróunarfélag, herra forseti, að tímarnir hafa mikið breyst hvað þetta varðar. Rök sem áttu rétt á sér fyrir 10–15 árum og mæltu gegn því að heppilegt og framkvæmanlegt væri að dreifa ríkisstofnunum um landið, eiga ekki lengur við, þau eru úrelt. Þar koma til bæði nýir tæknilegir möguleikar á því að miðla efni og boðskap milli manna og landshluta, svo og bættar samgöngur og ýmislegt fleira sem tína mætti til.

Ég hélt satt best að segja að það væri óþarfi, herra forseti, að halda slíkar ræður yfir hv. þm. og enn þá meiri óþarfi ætti það að vera að endurtaka þær. En mér virðist þó af ræðuhöldum ýmissa hv. þm. að ekki veiti af að stafa þetta fyrir þeim aftur lið fyrir lið. Ég rakti það t. d. hvernig hagað er áætlunarflugi til og frá Akureyri allan ársins hring til að menn hafi það þó á hreinu að sá staður er tiltölulega mjög vel í sveit settur hvað samgöngur varðar. Hann er með daglegar flugsamgöngur við flesta höfuðfjórðunga landsins. Staðir eins og Egilsstaðir og Ísafjörður eru í daglegum samgöngum við Akureyri, það eru ágætar samgöngur á landi til austurs og vesturs og um allt Norðurland og fjölmargar flugferðir á hverjum einasta degi milli höfuðstaðarins og Akureyrar. Hér er ég að nefna flugsamgöngurnar einar.

Síðan vita þeir hv. þm. og aðrir, sem eitthvað hafa kynnt sér nýjustu tækni í boðmiðlun efnis, örtölvutækni og myndbönd og aðra fjarskipta- og flutningstækni, hvílíkir gífurlegir möguleikar hafa opnast á allra síðustu árum hvað þetta varðar. Ég vil nefna eitt lítið dæmi sem er tilkoma póstfax-sendinganna hjá Pósti og síma. Það er allt í lagi að segja nokkur falleg orð um þá stofnun einu sinni, það er sennilega ekki of oft sem það er gert hér á hv. Alþingi. En sú þjónusta ein gerir t. d. þm. eins og mér kleift að senda á einni eða tveimur mínútum hverja vélritaða örk héðan úr Reykjavík og norður á Akureyri og þar birtist hún móttakandanum sem getur beðið eftir henni á pósthúsinu þar, gengið með hana t. a. m. ofan í næstu prentsmiðju og þar getur hún verið orðin að prentuðu máli í dagblaði eða bók eða bæklingi á örfáum mínútum. Þetta er til þess að nefna aðeins einn af þeim fjölmörgu nýju möguleikum sem völ er á í þessum efnum.

Það er því heldur hart að þurfa að hlusta á úrtölumenn og hugleysingja og aumingjahátt vaða upp í þm. þar sem reynt er að bera fyrir sig alls konar erfiðleika af þessu tagi sem eru meira og minna úr sögunni. Fyrir nú utan hugrekkið sem í þessu felst, að ætla að skjóta sér á bak við það að eðlilegra sé að stjórn eða hluthafafundur eða einhverjir slíkir aðilar taki ómakið af hv. Alþingi og taki ákvörðun í þessum efnum. Mér finnst það heldur lítilmannlegt að vísa vandanum þannig frá sér, að þora ekki að standa frammi fyrir því að hér er staðurinn og hér er stundin að taka þessa ákvörðun.

Herra forseti. Það er nú svo og svo að ræða þessi mál að engum hæstv. ráðh. viðstöddum og að formanni og frsm. meiri hl. nál. í þessu máli fjarstöddum einnig. Ég fer fram á það, vegna þess að það hefur ekki borið mikinn árangur að óska eftir því að þessir menn væru viðstaddir, að ég fái að fresta þessari umræðu þangað til úr þessu verði bætt. (Forseti: Það er rétt að upplýsa það að bæði hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson, þingflokksformaður þeirra framsóknarmanna, munu vera á fundi ásamt forsetum og þingflokksformönnum til að ræða um áframhald þinghalds. Ef hv. þm. treystir sér ekki til að halda máli sínu áfram án þess að þeir verði viðstaddir mun forseti að sjálfsögðu verða við því að hann fresti máli sínu. Enn eru þrír á mælendaskrá og það er spurning hvort einhver annar hv. þm., sem á mælendaskrá er, treystir sér til að tala án þess að þessir hv. þm. séu til staðar.)

Herra forseti. Þetta eru að vísu fullgildar ástæður sem liggja til fjarveru þessara ágætu manna og skal ég taka þær til greina. En ég vil þó segja að ég tel að þingið og þessi hv. þd. eigi að taka sér þann tíma sem þarf til að fjalla um þessi mál með eðlilegum hætti. Ég fer því fram á það að þessari umr. verði frestað eða ég fái a. m. k. að fresta ræðu minni þangað til úr þessu neyðarástandi, ráðherraskorti og stjórnarliðaskorti, hefur verið bætt. (Forseti: Forseti verður að sjálfsögðu við því að gefa hv. þm. kost á því að fresta ræðu sinni nú.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Nú vænkast hagur, þar sem þeir eru báðir mættir, hv. þm. Páll Pétursson sem yljar sér við ofninn og hæstv. forsrh. Ég ætla að eiga við þá ofurlítinn orðastað um þetta frv. til laga um Byggðastofnun, einkum og sér í lagi vegna þess að þessir tveir ágætu hv. þm. Framsfl. hafa gerst helstir úrtölumenn þess að þetta fyrirtæki verði flutt norður á Akureyri. En eins og kunnugt er hefur verið flutt brtt. um að sett verði inn í lögin um þessa stofnun, sem hér á að fara að samþykkja, að heimili hennar og varnarþing skuli vera þar.

Ég tel nú óhjákvæmilegt, herra forseti, að endurtaka nokkuð af því sem ég sagði hér áðan sökum fjarveru þessara hv. þm. Ég vil þá byrja á því að lýsa því að ég tek það engan veginn sem nein rök fyrir því að þessi stofnun þurfi endilega að vera staðsett í Reykjavík að hún eigi að þjóna öllu landinu. En mig rekur minni til þess að ummæli af þeim toga hafi fallið í ræðu hv. þm.

Páls Péturssonar þegar hann lýsti andstöðu sinni við brtt. þá sem ég hef hér þegar gert að umtalsefni.

Sömuleiðis hef ég heyrt það haft eftir hæstv. forsrh. — og sjálfsagt réttilega — að hann telji eðlilegra að væntanleg stjórn þessarar stofnunar taki um það ákvörðun hvar hún verði niður sett. Þetta finnst mér heldur léttvæg rök. Eðlilegast er að byrja á því að spyrja hæstv. forsrh. hvers vegna hann telji að væntanleg stjórn Byggðastofnunar eigi fremur að ráða þessu en löggjafarsamkoman. Ég vil þá fá einhver önnur og haldbærari svör en: Af því bara. Hvað mælir gegn því að hér á þessum stað verði ákveðið hvar þessi stofnun hafi heimili og varnarþing? Það þarf auðvitað ekki að segja hæstv. forsrh. það, sem sjálfsagt er lagafróður, að það er alsiða í lögum að taka af skarið, að kveða á um það við lagasetninguna hvar væntanlegt fyrirtæki, væntanleg stofnun, skuli eiga heima. Þannig er það t. d. í lögum um nokkrar opinberar stofnanir að þær skuli staðsettar í Reykjavík og stundum er það sett inn í lögin enn fremur að þeim skuli heimilt að setja á fót útibú einhvers staðar annars staðar á Íslandi. Er það eitthvað óeðlilegra að ákveða það í lögum að ein stofnun skuli búa á Akureyri en að ákveða að önnur skuli staðsett í Reykjavík? Mér þætti vænt um að hæstv. forsrh., þm. Vestf. og formaður Framsfl., svaraði þessu.

Ég rakti það hér áðan og reyndar einnig við 1. umr. þessa máls hversu nú væru breyttir tímar hvað það varðar að hafa samband manna á milli og landshlutanna á millum, að koma áleiðis boðum og miðla hvers kyns upplýsingum í krafti þeirrar nýju og fjölbreyttu tækni sem við höfum nú yfir að ráða. Einnig er vert að minnast þess og minna hv. þm. á það — skyldu þeir hafa gleymt því — að samgöngur hafa batnað og fara batnandi ár frá ári sem betur fer. Allt þetta styður það að þær röksemdir, sem úrtölumennirnir báru á borð hér á árum áður, séu nú úreltar og enn þá úreltari orðnar en þær voru þá.

Herra forseti. Mér finnst þessir hv. þm. og hæstv. ráðh. heldur litlir karlar og hugdeigir að treysta sér ekki til að taka af skarið og ákveða það, standi hugur þeirra á annað borð til þess, að þetta verði sett í lög þannig að ekki þurfi frekar um það að binda. Það er nefnilega sannfæring mín að takist það ekki hér og nú við afgreiðslu þessa máls að binda þannig um hnútana að ekki verði undan því flúið, þá verði ekkert af þessu og þá verði frómar og mærðarlegar samúðar- og viljayfirlýsingar harla gagnslitlar. Við getum þess vegna staðið í sömu sporum eftir tíu ár, en þá munu menn auðvitað minnast þess að þetta.ágæta tækifæri gekk mönnum úr greipum.

Hv. þm. Páll Pétursson talaði hér um hótanir þegar einn ágætur ræðumaður hélt því fram að eftir þessu máli yrði tekið, menn mundu fylgjast með því víða um landið hvernig atkvæði féllu þegar þessi brtt. yrði tekin til afgreiðslu. Ég vil segja það við hv. þm. Pál Pétursson að þetta eru ekki hótanir, þetta er einungis raunsætt mat á þeim mikla áhuga sem er víða í landinu á að ná fram sanngjarnri leiðréttingu á því ófremdarástandi sem er og verður ef ekki verður undinn bráður bugur að því að breyta hér til.

Það er svo, herra forseti, eins og þegar hefur verið bent á, sérstaklega nöturlegt ef þessi stofnun, Byggðastofnun, sérstök og sjálfstæð stofnun um byggðamál, verður að sæta þeim dauðadómi sinna eigin verkefna að hún komi sjálfri sér ekki upp fyrir Elliðaár. Það finnst mér heldur slæmur dómur um stöðu þessara mála.

Mér hefur einnig borist það til eyrna, herra forseti, í gegnum fjölmiðla að hæstv. forsrh. hafi vitnað til mótmæla sem honum hafi borist frá Vestfjörðum við því að Byggðastofnun verði staðsett á Akureyri. Ég vil þá minna á á móti að við það hafa einnig borist stuðningsyfirlýsingar úr öðrum landshlutum. Ég vil segja það við hæstv. forsrh. og hvern þann Vestfirðing annan sem mótmælir því að þessi stofnun verði staðsett t. d. á Akureyri að landsbyggðin nær aldrei langt fram í þessum efnum ef menn halda áfram að troða skóinn niður hver af öðrum með þessu móti. Hitt væri öllu nær og vænlegra til árangurs að menn sameinuðust um að láta á það reyna í eitt skipti hvort hugur fylgir máli hjá þeim mönnum sem eru með munninn fullan í ræðuhöldum á sunnudögum um það að þeir vilji jafnvægi í byggð landsins, þeir vilji dreifa opinberum stofnunum o. s. frv. Hér er staðurinn og hér er stundin til að sýna það í verki að menn meini eitthvað með þessu tali.

Fram hjá því komast menn ekki, ekki heldur með því að vísa til þess að stjórnir þessara stofnana geti ákveðið að þær séu einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík. Það er mikið rétt en það er sannfæring mín að þær muni ekki gera það nema um það verði búið í lögum. Ég sé í anda æviráðna starfsmenn í opinberri stofnun, sem búnir eru að koma sér notalega fyrir, taka um það ákvörðun, þegar rétt nýverið er búið að gefa þeim hálft hús hér í Reykjavík, að pakka nú öllu draslinu niður í töskur og fara norður á Akureyri. Finnst hv. þm. Páli Péturssyni það mjög sennilegt að sú verði raunin á? Finnst hæstv. forsrh., sem hefur lýst yfir velvilja sínum, það sennilegt að sú verði raunin á? Ég hlýt að spyrja að þessu því að ég held að reynsla liðinna ára bendi þvert á móti til hins gagnstæða.

Ég hafði nokkuð stór orð uppi um það, herra forseti, að það væri sígildur aumingjaháttur í þessum efnum sem birtist mönnum bak við það að vilja flýja í það að einhver stjórn gæti síðar meir, ef henni sýndist svo, tekið þessa ákvörðun og leyst hv. alþm. og hæstv. ráðh. af hólmi þannig að þeir þyrftu ekki að standa frammi fyrir því hér. Það fer auðvitað hvergi betur á því en einmitt hér á Alþingi að menn brjóti ísinn í þessum efnum og sýni að þetta sé hægt.

Mér finnst þeir hv. þm. Páll Pétursson og hæstv. forsrh. vera ósköp líkir litlum smalastrákum sem ferðast í þoku — ég ætla að endurtaka þessa lýsingu vegna bóndans hv. þm. Páls Péturssonar sem hér situr — og sjá fram undan sér í móskunni svolitla hraunnibbu sem allt í einu verður að ógurlegum tröllkarli fyrir augunum á þeim og þeir renna auðvitað á rassinn og hlaupa heim skælandi: Mamma, ég sá tröll í þokunni. Þetta er ekki hægt. Þeir menn sem gefast alltaf upp fyrir fyrstu mótbárunum sem verða á vegi þeirra, fyrir fyrstu hraunnibbunni sem þeir sjá í þokunni, komast aldrei langt. Þeir ná aldrei mörgum kindum af fjalli, hv. þm. Páll Pétursson.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, herra forseti. að hér er tækifæri, bæði í þessu frv. og við þær brtt. sem hér hafa verið fluttar, einnig í frv. til laga um þróunarfélag og brtt. sem þar hafa verið fluttar, til þess að láta reyna á vilja manna í þessum efnum. Hér er verið að byggja upp að hluta til nýja stofnun og nýja starfsemi og þau tækifæri koma ekki á hverjum degi. Það hlýtur því að verða eftir því tekið hvernig viðleitni manna reiðir af í þessum efnum.

Það er engin hótun, hv. þm. Páll Pétursson, þó að ég lýsi því sem minni skoðun að það verði erfitt fyrir menn eins og hv. þm. að fara út um landið eftir fimm eða átta ár og segja: Já, þetta er slæmt ástand í byggðamálum, þetta er erfitt allt saman. Reykjavíkurvaldið er fyrir hendi og það væri æskilegt að geta flutt einhverjar stofnanir út á land. Það verður erfitt fyrir hann að segja þetta ef hann lætur þetta tækifæri sér úr greipum ganga, treystir á einhverja stjórn sem hann veit ekki hver verður en sem síðan mundi kannske ekki gera neitt. Eftir stæði það að tækifærið fór forgörðum.

Herra forseti. Ég vek nú svona rækilega athygli á þessu fyrir hv. þm. Páli Péturssyni og þeim öðrum sem hér hafa gerst úrtölumenn til þess að það megi e. t. v. renna upp fyrir þeim að þeir eru á sinn hátt að taka hér býsna stóra ákvörðun. Þetta er ekki flokkspólitísk ákvörðun því að Framsfl. á engan einkarétt á byggðastefnu eða öðrum slíkum málum, en þetta er tvímælalaust byggðapólitísk ákvörðun, fram hjá því verður ekki vikist.

Ég vil svo taka undir það að það væri hægt að laga þetta frv. til og er náttúrlega óskynsamlegt að reyna ekki að gera það úr því að það er hér á ferðinni á annað borð og nógur er tíminn eins og allir vita, sumarið og haustið fram undan. Æskilegt væri að kveða nánar á um það hvernig þessi nýja stofnun á að starfa með þeim aðilum á vettvangi sem eru að sinna þessum málum og eiga að sinna þessum málum. Það er heldur óskynsamlegt að gera sér ekki grein fyrir þeirri þróun og þeirri viðleitni sem er í þessum málum m. a. úti í landshlutunum og þeim vilja heimamanna að taka þessi mál í meira mæli í sínar hendur. Ég tel að það ætti að setja inn ákvæði eins og flutt er reyndar brtt. um hér við þetta frv.

Ég vil svo ítreka það að það er jafnlangt frá Akureyri til Reykjavíkur eins og frá Reykjavík til Akureyrar. Og það er jafnlangt frá Reykjavík norður í Höllustaði eins og frá Höllustöðum til Reykjavíkur. (Gripið fram í: Ég hef tekið eftir því.) Það er ánægjulegt að hv. þm. hefur á öllum sínum ferðum komist að þessari gáfulegu niðurstöðu, hún er örugglega rétt hjá honum. Þess vegna er það ekkert erfiðara að hafa samskiptin að norðan og suður en að sunnan og norður. Ég hef rakið það tvisvar þegar fyrir þessari hv. þd. hversu ágætar samgöngur Akureyri býr nú við í lofti, á landi og legi fyrir utan alla þessa dásamlegu tækni sem getur sent kort og myndir og vélrituð blöð á milli landshluta á örfáum sekúndum. Allt þetta mælir með því að röksemdir úrtölumannanna eigi nú ekki lengur við. Ég tel reyndar að þær hafi aldrei átt við. Menn eru því að verja hér mál sitt með rökum sem eiga ekki við.

Það er tímaskekkja að halda því fram í dag að eðlileg samskipti stofnana geti ekki farið fram þó þær séu sín í hverjum landshlutanum. Það er jafnréttismál, ekki bara byggðarlaganna heldur og jafnréttismál þess fólks sem byggir hinar dreifðu byggðir, að eitthvað af þeirri sameiginlegu þjónustu sem borguð er með sköttum allra landsmanna komi út um landið. Þess vegna lít ég á þetta, herra forseti, og ég leyni því ekki neitt, sem mikið prófmál. Ég er alls ekki viss um að annað slíkt tækifæri eða önnur slík komi upp í hendurnar á okkur á allra næstu árum. Þess vegna fyndist mér það harður og vondur dómur á þá viðleitni að snúa við þeirri óheillaþróun, sem alveg sérstaklega hefur vaðið uppi í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., ef menn heykjast nú á þessu máli. Ég á nefnilega ekki von á því að aðrir verði frekar til þess en þó einmitt Alþingi að reyna að spyrna við fótum og snúa þessu við. Ég hef miklu minni tiltrú á æviráðnum starfsmönnum sem eru búnir að koma sér þægilega fyrir hér í íbúðarhúsum á Reykjavíkursvæðinu, hafa fest hér rætur. Ég skil vel þeirra aðstæður. Það ættu aðrir að gera og gera sér grein fyrir því að það er miklu ólíklegra að þeir verði til þess að breyta hér eitthvað um en við hv. þm. eða það vil ég a. m. k. vona.

Þegar um nýja starfsemi er að ræða, eins og t. d. væntanlegt þróunarfélag, þá er ekki við þessa erfiðleika að glíma, þ. e. að verið sé að reyna að flytja stofnun sem þegar hefur fest sig niður. Þess vegna hélt ég að mönnum litist e. t. v. vænlegri sá kostur að taka þá stofnun og reisa hana á Akureyri og flutti hér um það brtt. En þá steig í pontu hæstv. forsrh. og taldi það miklu gáfulegra og miklu betra að flytja Byggðastofnun. Þá sagði ég við hæstv. forsrh.: Allt í lagi, við skulum ræða það mál. Ég er alveg til í það. Ef hæstv. forsrh., hæstv. ríkisstj., telur það betra og heppilegra hljótum við að skoða þann möguleika. Hér er nú komin fram brtt. um það og þess vegna hlýt ég nú að inna hæstv. forsrh. eftir því hvað lá á bak við orð hans hér á Alþingi á dögunum þegar hann taldi að frekar ætti að hafa Byggðastofnun norðan heiða en þróunarfélag. Hefur hans afstaða eitthvað breyst? Að síðustu vil ég fyrir fram biðja um dyggilegan röksemdaflutning ef hann ætlar enn og aftur að skjóta sér á bak við það að það sé á einhvern hátt eðlilegra að einhver stjórn, sem einhvern tíma verður sjálfsagt til yfir þessari stofnun, taki þessa ákvörðun. Hefur hann t. a. m. einhver stjórnskipunarleg rök fyrir því að það sé eðlilegra? Ég hefði gaman af að heyra þau. Ég minni enn á að það er alsiða að setja í lög einmitt þetta ákvæði hvar svona stofnun eða annað slíkt fyrirtæki skuli hafa heimili sitt og varnarþing.

Ef hæstv. forsrh. — og það skulu vera mín síðustu orð — er hræddur um að kjósendur hans á Vestfjörðum muni bregðast honum og ekki veita honum brautargengi ef hann hundsar þau mótmæli, sem mér skilst að hann hafi þegar fengið við því að þetta fyrirtæki rísi þar, vil ég heita honum stuðningi mínum öllum í því að leita þá að annarri stofnun eða öðru fyrirtæki sem við getum flutt til Vestfjarða. Ég skal vera vakandi og sofandi tilbúinn til þess með hæstv. forsrh. að leita að því og stuðla að framgangi þess. Ég teldi reyndar heppilegt að það þessara tveggja fyrirtækja sem ekki lendir norðan heiða, ef svo illa tekst til, færi þá í einhvern annan landsfjórðung. Ég er viss um að við getum fundið eitthvert þægilegt og notalegt fyrirtæki eða litla stofnun sem við getum flutt á Norðurl. v. Ég get kannske ekki lofað því að menn treystist til að setja það niður á Höllustöðum en einhvers staðar í nágrenninu, vona ég. Þá ætti hv. þm. Páll Pétursson að vera ánægður og ekki þurfa að vera hræddur við sína kjósendur.

Herra forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu lyktar. Fleiri munu eftir því taka en ég. Það eru engar hótanir þó að vakin sé á því athygli að einmitt í tengslum við ástandið í byggðamálum hefur umræða um þennan möguleika, þ. e. að sporna eitthvað við ójafnvæginu og óheillaþróuninni með því að færa til stofnanir og þjónustu hins opinbera, farið vaxandi, hún hefur vaknað upp á ný. Það er ofur eðlilegt. Hv. þm. Páll Pétursson hefur ekki hlustað mikið á umræðu manna úti á landi ef hann veit ekki af þessu, ef hann heldur að þetta séu einhverjar hótanir sem við höfum fundið upp hér, einhverjir vondir þm., til að hræða hann. Það er nú öðru nær.

Herra forseti. Ætli ég endi ekki mína ræðu eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson sem búinn var að flytja hér í fjórum hlutum, að ég held, ágæta ræðu um byggðamál. Henni hafði verið frestað nokkrum sinnum og hann sagði að lokum: Ætli ég hafi það meira að þessu sinni?