06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

95. mál, skattsvik

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á Alþingi í maí s.l. voru samþykktar tvær þáltill. er snerta aðgerðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir skattsvik, í fyrsta lagi till. í sex liðum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum og í öðru lagi ályktun Alþingis um skipan starfshóps sem gera á úttekt á umfangi skattsvika. Þess er óskað með þessari fsp.hæstv. fjmrh. geri Alþingi grein fyrir framkvæmd þessara ályktana sem ríkisstj. var falin tafarlaus framkvæmd á.

Óskað er eftir að hæstv. fjmrh. geri Alþingi grein fyrir framkvæmd hvers verkefnis fyrir sig í þáltill. um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Í fyrsta lagi: Hefur, eins og fram kemur í till., í auknum mæli verið beitt sjálfvirkum sektarákvæðum og hækkuðum sektum? Hafa verið undirbúnar nauðsynlegar breytingar á bókhaldslögum nr. 51/1968 og reglugerðum þar að lútandi, svo og lögum nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt með síðari breytingum auk framtalsreglna, sem tryggi ítarlegri og samræmdari sundurliðun á reikningsliðum fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri með skýrari og fjölþættari upplýsingum en nú er fyrir skattayfirvöld? Hefur endurskoðun á frádráttarliðum farið fram af tekjum, svo sem endurskoðun risnukostnaðar, bifreiðafríðinda og launamat? Hefur verið gerð gagnger endurskoðun á fyrirkomulagi söluskattskerfisins með það að markmiði að koma á skilvirkara eftirliti með innheimtu söluskatts? Hefur heimild í 17. gr. laga um söluskatt til að fylgjast með fjármagnsinnstreymi fyrirtækja verið notuð þar sem því verður við komið og athugun á því hvort hægt sé að hafa betri skil á söluskatti með því að fækka undanþágum og lækka þar með söluskatt? Hvað hefur verið gert til að auka hagræðingu og tölvuvæðingu við upplýsingaöflun og úrvinnslu skattframtala og fylgiskjala? Hefur fjölgun átt sér stað á sérhæfðu starfsliði við embætti skattrannsóknarstjóra svo og hjá skattstjórum? Er á fjárl. fyrir árið 1985 gert ráð fyrir auknu fjármagni til skatteftirlits og rannsókna skattsvika þannig að unnt sé að hrinda áformum þáltill. í framkvæmd? Má vænta þess að ítarleg rannsókn verði gerð á fleiri skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri en í þáltill. er gert ráð fyrir, að hægt sé árlega að taka til ítarlegrar skoðunar a.m.k. 10% framtala fyrirtækja í atvinnurekstri?

Þeir liðir sem ég hef hér lesið upp koma allir fram í þeirri þáltill. sem samþykkt var um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum á Alþingi 3. maí 1984. Í annan stað er spurt: Hefur starfshópur sá sem gera átti úttekt á umfangi skattsvika, sbr. þál. um það efni frá 3. maí s.l., verið skipaður?