10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6209 í B-deild Alþingistíðinda. (5673)

86. mál, áfengislög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Á þskj. 1212 flyt ég brtt. við frv. ásamt hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni, Eiði Guðnasyni og Árna Johnsen. Þessi till. okkar er á þá leið að í staðinn fyrir sjö greinar frv. eins og þær birtast okkur eftir að Nd. hefur afgreitt málið frá sér komi ný grein sem verði 1. gr. Hún segir að ríkisstj. skuli á þessu ári láta fara fram atkvgr. meðal allra kosningabærra manna í landinu um hvort leyfa skuli innflutning og framleiðslu á áfengu öli sem hefur inni að halda vínanda á styrkleikabilinu 4%–5% að rúmmáli. Í till. er síðan gert ráð fyrir að atkvgr. snúist um þá tilhögun málsins sem Nd. samþykkti á sínum tíma.

Ég vil segja það um þetta mál að ég telst ekki í hópi þeirra sem telja að hér sé á ferðinni mikilvægasta mál þessa þings, mál sem sé meiri ástæða til að sjónvarpa frá eða segja frá í fréttum en nokkru öðru máli sem við erum að fjalla um nú. Ég tel að mörg önnur mikilvægari mál séu á ferðinni í þinginu um þessar mundir. Það er ekki þess vegna sem ég tek þátt í að flytja þessa till.

Ég er satt best að segja hvorki neitt sérlega áfjáður stuðningsmaður málsins né ákafur baráttumaður gegn því. Ég hef mína skoðun í þessu máli og hef lengi haft og ég get alveg sagt hana óhikað. Ég hef aldrei fundið nægileg rök fyrir því að meðhöndla áfengt öl á allt annan hátt en annað áfengi og þess vegna styð ég ósköp einfaldlega að þessi vökvi sé seldur með nákvæmlega sömu takmörkunum og aðrir áfengir vökvar sem eru á boðstólum. Hins vegar er mér alveg ljóst að hér er mikið hitamál á ferðinni. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er alveg ljóst að það er meiri áhugi fyrir þessu máli, bæði með og móti, en fyrir flestum öðrum málum sem eru í hinni almennu þjóðamálaumræðu. Þetta reynum við dag hvern, við alþm., því að það er stöðugt verið að spyrja okkur að því hvernig þessu máli líði hérna í þingsölum.

Staðreyndin er sú að afstaða fólks til þessa máls fer ekki eftir flokkum. Þm. voru ekki kjörnir á Alþingi eftir afstöðu sinni til þessa máls. Það er alveg ljóst og það þekki ég af viðræðum mínum við hv. þm. að ef gengið yrði til atkv. hér í Ed. í kvöld um úrslit þessa máls, mundu þau úrslit sennilega ráðast af einu eða tveimur atkv. Ég tel að úrslitin mundu að nokkru leyti ráðast af tilviljun og sú tilviljun réðist af því hverjir væru viðstaddir og hverjir væru fjarstaddir. Það er sem sagt ljóst að það er mjög tvísýnt um útkomuna í þessu máli.

Það vill svo til að fyrir því er gömul hefð að meiri háttar breytingar á áfengismálum eru lagðar undir dóm þjóðarinnar áður en þær eru frágengnar. Það er ekki opnuð svo útsala í neinu héraði landsins á áfengi að það mál sé ekki lagt undir dóm kjósenda. Hvers vegna ættum við þá hér á Alþingi að vera svo þröngsýnir að meina þjóðinni að útkljá þetta deiluefni í almennum sérstökum kosningum úr því að ljóst er að það er enginn afgerandi meiri hl. í þessu máli, að málin standa svo glöggt, sem raun ber vitni, að það er nánast tilviljun hver endirinn verður og úr því að staðreynd er að fyrir því er löng hefð að þjóðin fái að afgreiða stefnumótun af þessu tagi í almennum kosningum?

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst alveg óskiljanlegur sá áróður sem uppi er hafður í blöðum og af hálfu ýmissa þm. að menn séu að skjóta sér undan ábyrgð með því að vilja gefa þjóðinni kost á því að greiða atkv. um þetta mál í þjóðaratkvgr. Við höfum allir okkar skoðun á þessu máli og hún kemur fram í umræðum um þetta mál. Sennilega kemur í þessari deild fyrst til atkvgr. till. um að vísa málinu til ríkisstj. og það kemur fram afstaða okkar til þeirrar till. Ég tel að það sé mjög sérkennilegur hugsunarháttur, einræðiskenndur hugsunarháttur, að það sé eitthvað athugavert eða óeðlilegt við að málum sé skotið undir dóm þjóðarinnar og ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki slíkan þankagang.

Ég vil benda á að í stjórnarskrárnefndinni, sem starfað hefur nú um skeið og skilaði tillögum til Alþingis fyrir tveimur árum, urðu nm. frá öllum stjórnmálaflokkum sammála um að það ætti að taka upp þjóðaratkvgr. í miklu stærri stíl og miklu oftar en gert hefur verið og það ætti að veita minni hluta kjósenda rétt til að krefjast þjóðaratkvgr. um ákveðin mál. Menn voru líka á því að vel kæmi til greina að minni hl. þm. ætti hreinlega rétt á því að krefjast þjóðaratkvgr. um mál — og þegar fyrir liggur að fulltrúar allra stjórnmálaflokka eru þeirrar skoðunar að það eigi mikinn rétt á sér að skjóta málum undir dóm þjóðarinnar, hvers vegna skyldu menn þá telja óeðlilegt að máli sem margsinnis hefur í ýmsum myndum komið til þjóðaratkvæðis skuli nú vera skotið undir dóm þjóðarinnar?

Þess vegna segi ég að í máli eins og þessu, þar sem allir flokkar klofna, þar sem menn byggja ekki afstöðu sína á stefnumótun sem þeir gerðu grein fyrir í seinustu kosningum, þar sem mikill áhugi er meðal almennings á málinu og áreiðanlega mjög víðtækar óskir um að menn megi takast á um málið, er sjálfsagt og eðlilegt að við þeim óskum sé orðið og málið sé sett undir þjóðardóm.

Ég vil gera forseta vorum grein fyrir því að eðlilegra hefði verið að orða upphaf tillögunnar á þá leið að segja: Í stað 1.–7. gr. og ákvæðis til bráðabirgða komi svofelld grein sem verði 1. gr. Mér var bent á þetta rétt áður en ég fór í ræðustólinn og mun óska eftir því að till. verði borin upp með þeim hætti. Ég hygg að það sé eðlilegra að um sé að ræða 1. gr. í frv. frekar en að hún heiti ákvæði til bráðabirgða. (Forseti: Má ég biðja þig um að endurtaka þetta.) Já, till. mín er sú, og ég veit að meðflm. mínir að till. hafa ekki við þá formbreytingu að athuga, að orðalagið verði: Í stað 1.–7. gr. og ákvæðis til bráðabirgða komi svofelld grein sem verði 1. gr. Vegna þess að þetta ákvæði kemur alfarið í staðinn fyrir 1.–7. gr. og vegna þess að venjulega eru ákvæði til bráðabirgða ekki sett inn í lög nema sem viðbót við einhverjar greinar hygg ég, eftir að hafa fengið ábendingu um það, að eðlilegra sé að orða þetta þannig að um sérstaka grein sé að ræða sem verður 1. gr., það sé formlega réttara með þeim hætti.

Þetta er lítilfjörleg breyting og auðvitað engin efnisbreyting. Ef enginn mælir því á móti hygg ég að forseti hljóti að geta borið greinina upp með þessum hætti. Auðvitað er þó ekkert því til fyrirstöðu að dreifa þessu nýja orðalagi á meðal þm.

Ég vil leggja á það áherslu að tillgr. er bara ein. Þetta er ein samhangandi grein og því er ekki um það að ræða að farið verði að bera liðina a., b., c., d., e. og f. upp sérstaklega. Þeir eru hluti af þessari sömu till. Verði till. samþykkt fer frv. með þessum hætti til Nd., en verði till. felld kemur frv. til atkvæða og þá að sjálfsögðu allir þessir liðir, a., b., c., d., e. og f., og þá sem greinar í sjálfu frv., 1. 7. gr.

Þetta þykir mér réttara að komi hér skýrt fram af minni hálfu vegna þess að ég hef orðið var við að menn hafa misskilið till. hvað þetta snertir. Vissulega hefði komið til álita að bæta við 2. gr. Hún gæti hljóðað svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi“ og kæmi þá í staðinn fyrir það gildistökuákvæði sem fellt er út með þessari till. En eins og menn vita er ekki þörf á því að slík ákvæði séu ævinlega sett inn í frv. Ef það er ekki gert og frv. ekki samþykki með slíku ákvæði fer um gildistöku eftir almennum ákvæðum laga og mundi vera svo í þessu tilviki.

Virðulegi forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál sem er eins og ég hef áður getið um flutt af fjórum þm. Ed.