12.06.1985
Neðri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6409 í B-deild Alþingistíðinda. (5805)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu mikilvægt málefni, þar sem er nýsköpun í atvinnulífi, komið til 2. umr. í fyrri deild. Ég hef ekki rætt þetta mál hér áður í þinginu en þar sem ég hef áhuga á atvinnumálum og hef lengi haft sé ég ástæðu til að taka þetta mál til nokkurrar umræðu af minni hálfu og inna hæstv. forsrh. m. a. eftir vissum þáttum sem snerta þetta mál.

Það hefur verið bent á það með réttu að hér eru þrjú þingmál á dagskránni, sem tengjast nokkuð saman, a. m. k. hvað undirbúning snertir af hálfu hæstv. ríkisstj., þar sem er frv. um Byggðastofnun, frv. um Framkvæmdasjóð Íslands og þetta frv. sem hér er til umr. um nýsköpun í atvinnulífi.

Auk þess hefur ríkisstj. lagt fram frv. um endurskipulagningu á sjóðum atvinnuveganna sem segja má að tengist nokkuð þessum mátum.

Ég veiti því athygli að þessi mál, sem komu fram 23. apríl s. l. hér í þinginu, hafa verið undirbúin af hálfu ríkisstj. af sérstakri þingnefnd, sem hefur unnið að þeim öllum, að mér virðist, sömu aðilar, nefnd sem hæstv. ríkisstj. skipaði þann 24. okt. 1984 til að hafa yfirumsjón, eins og það er kallað í grg. eða athugasemdum við þetta lagafrv., með undirbúningi tillagna og gerð nauðsynlegra lagafrumvarpa um nýsköpun í atvinnulífi og uppstokkun sjóðakerfis. Í þessari nefnd áttu sæti Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, formaður, Friðrik Sophusson alþm., Stefán Guðmundsson alþm. og Valur Valsson bankastjóri. Með nefndinni störfuðu, að því er greint er frá í athugasemdum með frv., þeir Baldur Guðlaugsson lögmaður, Eiríkur Tómasson lögmaður og Gunnlaugur Sigmundsson deildarstjóri og síðar framkvæmdastjóri, en hann var ritari nefndarinnar. Hins vegar munu hinir fyrrtöldu fjórir hafa haft yfirumsjón með undirbúningi tillagna eins og hér er greint frá.

Nú hefur það komið fram að formaður nefndarinnar sem hefur undirbúið öll þessi frv., var mjög störfum hlaðinn og mikilvirkur í störfum fyrir ríkisstj. á s. l. ári og reyndar lengur þar sem hann á sæti í sérstakri viðræðunefnd um stóriðju, sem skipuð var í júnímánuði 1983 til þess m. a. að hafa með höndum samningaumleitanir við stórfyrirtækið eða auðhringinn Alusuisse, og mun enn þá vera bundinn í þeim störfum þar sem þeim samningaumleitunum er hvergi nærri lokið af hálfu ríkisstj. þótt ríkisstj. hafi séð ástæðu til þess að marka þar ákveðinn áfanga með samkomulagi þann 5. nóvember s. l. sem staðfest var hér á Alþingi í nóvemberlok s. l. vetur.

En hv. verkfræðingur og formaður fyrir þessu nefndarstarfi og undirbúningi þessara frv. á einnig sæti í svokallaðri stóriðjunefnd ríkisstj., sem hefur staðið fyrir mjög umfangsmikilli leit á vegum hæstv. iðnrh. að hugsanlegum samstarfsaðilum Íslendinga í uppbyggingu á orkufrekum iðnaði samkvæmt stefnumörkun — ég held ég verði að segja ríkisstj. þó að sumt í þeim störfum virðist stangast allverulega á við flokkssamþykktir Framsfl. eins og ég man þær hér gerðar fyrir nokkrum árum á landsfundum flokksins eða aðalfundum Framsfl. En það er nú ekki mál sem snertir það sem hér er til umræðu sérstaklega, heldur hitt að hv. formaður nefndarinnar, Guðmundur G. Þórarinsson, hefur einnig verið í sérstakri undirnefnd vegna leitar að erlendum samstarfsaðilum til þátttöku í kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði samkvæmt sérstöku boði hæstv. iðnrh. Í þeim hópi eiga sæti auk tilkvaddra fulltrúa úr stóriðjunefnd og tveggja fulltrúa, að ég hygg, úr stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. en annars hefur stjórn hennar ekki að þessu máli komið sérstaklega. Þar hefur sem sagt Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur verið að störfum.

Það hefur verið upplýst hér á Alþingi nýlega að þeir sem hafa verið í vinnu hjá hæstv. iðnrh. að nefndum verkefnum á undanförnum tveimur árum hafa fengið nokkra umbun síns erfiðis. Þannig liggur það fyrir að Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur hefur hlotið þóknun sem nemur á sjöunda hundrað þúsunda kr. á árinu 1984 fyrir störf á vegum samninganefndar um stóriðju og stóriðjunefndar. Þetta svarar til nálægt 55 þús. kr. á mánuði sem hann hefur fengið í þóknun og hæstv. forsrh. lét það út ganga í fjölmiðlum, ég held að það hafi verið í DV, að hann hefði tekið þetta mál sérstaklega fyrir á ríkisstjórnarfundi og gert athugasemdir við þessar greiðslur til starfsmanna þessarar nefndar, þ. á m. til Jóhannesar Nordal seðlabankastjóra og hv. þm. Gunnars G. Schram sem á sæti í annarri þessara nefnda á vegum hæstv. iðnrh. Ég hef ekki heyrt fara neinum sögum af því hvað síðan hefur gerst í þessu máli sem hæstv. forsrh. gerði athugasemdir við á ríkisstjórnarfundi að hæstv. iðnrh. fjarverandi. Mér þykir vænt um að hæstv. iðnrh. er hér við umræðuna og ég vildi biðja hæstv. forseta að koma þeim boðum til hæstv. iðnrh. að ég óska eftir viðveru hans hér vegna tiltekinna atriða sem ég ætla að víkja hér að síðar í minni ræðu.

Já, virðulegur forseti, ég held áfram máli mínu í trausti þess að hæstv. iðnrh. komi hér í þingsal. Það hefur sem sagt ekki komið fram hvaða lyktir hafa orðið innan ríkisstj. í sambandi við þetta mál en hæstv. forsrh. greindi frá því að hann teldi nauðsynlegt að reglur yrðu samræmdar um greiðslur vegna starfa í nefndum á vegum ríkisins. Nú vill svo til að sami maður og þarna var að verki og fékk greiðslur sem hér hafa verið nefndar, milli 600 og 700 þús. kr. á síðasta ári, hefur einnig verið formaður í nefnd á vegum hæstv. forsrh. við undirbúning þessara þriggja eða fjögurra lagafrv. sem ég nefndi hér, því að ég hygg að hann hafi einnig komið að samningu frv. til laga um sjóðina. Og nú vil ég inna hæstv. forsrh. eftir því hvernig hafi verið háttað þóknun og greiðslum til þeirra vösku manna sem stóðu að samningu þessara frv. (Forseti: Ég verð aðeins að trufla hv. ræðumann. En hæstv. iðnrh. mun ekki vera lengur í húsinu.)

Virðulegur forseti, það þykir mér leitt að heyra. Hann hefur horfið allskjótlega á braut að því er virðist. Væri ekki hugsanlegt að það yrði athugað hvort hæstv. iðnrh. gæti ekki verið hér viðstaddur þessa umr., hann fékk hér ágætiseinkunn. (Forsrh.: Ef' það er nóg, þá skal ég bera hæstv. iðnrh. skilaboð.) Já, hæstv. forsrh. Það er vel boðið út af fyrir sig. En hitt teldi ég nú æskilegt að hæstv. iðnrh. gæti verið hér viðstaddur vegna þess að ég á ýmis erindi við hann. (Forseti: Forseti mun gera sitt til þess að hæstv. iðnrh. fái þessi boð. Trúlega er hann á leið heim til sín. ) Ég þakka fyrir það.

En ég ítreka sem sagt það sem ég var að óska eftir áðan af hálfu hæstv. forsrh., að hann vegna þessa máls og þeirra athugasemda sem hann hefur sérstaklega gert við málsmeðferð og greiðslur af hálfu iðnrn., á ábyrgð iðnrh., greini frá hvernig hagað hafi verið þóknun og greiðslum til þeirra manna sem unnu það mikla starf sem ég trúi að liggi að baki samningu þessara frv. Þá á ég þar bæði við þóknun samkvæmt úrskurði þóknunarnefndar, að svo miklu leyti sem hann er fallinn, svo og greiðslur sem inntar hafa verið af hendi eða reikningar liggja fyrir um. Mér finnst eðlilegt að eftir þessu sé leitað hér í ljósi þess sem nýlega hefur verið til umræðu um þessi efni og svo vill til að hér eru sumpart sömu menn að störfum sem hafa verið í stórum verkum fyrir ríkisstj.

Ég á ekki von á því að það sé neitt óeðlilegt sem liggur fyrir í þessum efnum. Ég spyr eingöngu vegna þess að hæstv. forsrh. sá ástæðu til þess að gera athugasemdir við greiðslur og þóknanir á vegum hæstv. iðnrh. fyrir nefndir og störf sem þar voru unnin.

Ég ætla þá að víkja að því frv. sem hér liggur fyrir og segja það fyrst að mér þykir leitt hversu seint þetta frv. er fram komið eins og önnur þau frv. sem varða skyld efni, þ. e. Framkvæmdastofnun ríkisins, þar sem ríkisstj. var eins árs og 11 mánaða nokkurn veginn nákvæmlega þegar þessi mál voru lögð hér fram í þinginu þann 23. apríl s. l. Það var uppi haft af hálfu ríkisstj. fljótlega eftir að hún tók við völdum að hún ætlaði sér mikinn hlut í sambandi við atvinnulíf í landinu. Inn í stjórnarsáttmálann, það er að segja upphaflegan stjórnarsáttmála ríkisstj. eða stefnuyfirlýsingu frá 26. maí 1983, voru tekin upp ýmis ákvæði sem snertu atvinnuvegina en sem hins vegar hafa í mjög litlum mæli komið til framkvæmda enn sem komið er.

Það sem er þó lakara og meira áhyggjuefni en það að ekki hefur tekist að koma áfram hugmyndum um öfluga nýsköpun í atvinnulífi, nýjungum, er það hvernig fjarað hefur undan þeim atvinnurekstri mörgum hverjum sem fyrir er í landinu. Á ég þar alveg sérstaklega við frumvinnslugreinarnar, undirstöðugreinarnar í okkar atvinnulífi, því að það segir sig sjálft að möguleiki þess atvinnulífs sem fyrir er í landinu til þróunar og nýsköpunar er mun minni þegar rekstrarafkoman er með þeim hætti sem raun ber vitni og tölur liggja fyrir um úr þjóðhagsyfirlitum og ársreikningum margra fyrirtækja á þessu tímabili.

Þar hefur ekki gengið eftir margt af því sem sett var á blað í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Til dæmis segir þar, með leyfi forseta, varðandi sjávarútveginn og það er sett á blað 26. maí 1983:

„Ráðstafanir verða gerðar án tafar til þess að mæta rekstrarvanda sjávarútvegsins. Jafnframt verður gerð ítarleg athugun á því hvað gera má til þess að auka hagkvæmni í útgerð og vinnslu.“

Hvernig skyldi hafa verið staðið við það ákvæði sem hér um ræðir? Hvernig ætli hafi verið staðið að þeim ráðstöfunum til að mæta rekstrarvanda sjávarútvegsins sem ríkisstj. einsetti sér í upphafi? Ég ræddi það nokkuð þegar ég talaði hér um frv. til laga um Byggðastofnun og ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér í umræðu um þetta frv. En ég held að öllum geti borið saman um það, sem þekkja til aðstæðna í sjávarútvegi nú, að þar hefur ekki verið mikið aflögu til þess að fyrirtækin gætu stundað þróunarstarfsemi og lagt til fjármagn og kraft í nýsköpun í þessum undirstöðuatvinnuvegi landsmanna.

Það er þó svo að skjótastrar uppskeru ætti að mega vænta einmitt úr þeim greinum sem fyrir eru í landinu, með margháttuðum endurbótum á rekstri og með því að bæta gæði og með því að leggja út í nýjar greinar í úrvinnslu. En þarna hefur verið staðið að verki með þeim hætti að sjávarútvegurinn, veiðar og vinnsla, hefur verið mjög lítt aflögufær á þessu tímabili svo ekki sé meira sagt.

Við heyrðum það í svonefndum eldhúsdagsumræðum í gærkveldi í Sþ., sem útvarpað var, að það eru jafnvel uppi áhyggjur hjá valdamönnum í stjórnarflokkunum út af þessu ástandi. Þeir eru loksins farnir að rumska yfir því ástandi sem ríkir í undirstöðuatvinnuvegi landsmanna. Það endurómaði m. a. í ræðu formanns Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteins Pálssonar, að það er farið að örla á því að hann átti sig á því hvernig ástatt er í sjávarútveginum. Hann sá ástæðu til þess að víkja að því nokkrum orðum í ræðu hér í gærkveldi. Það er raunar undrunarefni að það skuli vera eftir að ríkisstj. hefur haldið upp á tveggja ára afmæli sitt að formaður stærri stjórnarflokksins, hvað þingstyrk snertir. skuli loks vera farinn að átta sig á því hvernig ástatt er í undirstöðuatvinnuvegi landsmanna.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. sagði m. a. um landbúnað: „Nýjar búgreinar, svo sem loðdýrarækt, fiskeldi o. fl. verði efldar og stærri hluti fjárveitinga til landbúnaðar renni til þeirra.“

Ég verð að segja það að eins og ég þekki til þessara mála, þá hefur ekki verið haldið á málefnum þessara svokölluðu nýju búgreina með þeim hætti sem æskilegt hefði verið. Það á bæði við um loðdýraræktina og fiskeldið sem þarna eru nefnd sérstaklega. Skipulag varðandi uppbyggingu loðdýraeldis hefur verið mjög í brotum og alveg vantað stefnumótun af hálfu ríkisstj. um það hvernig standa ætti að uppbyggingu á þessum væntanlega vaxtarbroddi sem m. a. á að koma í staðinn fyrir hefðbundnar greinar í sveitum landsins. Það liggur fyrir að allsendis ónóg fjármagnsfyrirgreiðsla er veitt þeim bændum sem leggja vilja út í loðdýraræki og því hefur mun minna gerst á þessu sviði en þörf hefði verið á. Ég held að þessi mál séu enn í reynd í hinum mesta ólestri og allsendis ófullnægjandi hvað varðar fjármögnun, fjármögnunarmöguleika til handa þeim sem vísað er á þessar nýju búgreinar í dreifbýlinu.

Varðandi fiskeldið er þó staðan í rauninni miklu alvarlegri og enn lakari en að því er snertir loðdýraræktina. Það hefur komið fram hér ítrekað við umræðu í þinginu, sem enn stendur yfir, að innan ríkisstj. hefur ríkt mjög ógæfusamleg togstreita í sambandi við skipulag fiskeldismála. Það hefur verið togast á um það hvaða rn. ætti að sinna þessum málum og svo undarlega ber við að það eru tveir hæstv. ráðherrar úr sama flokki, Framsfl., sem þar hafa verið í reipdrætti, hæstv. landbrh. og hæstv. sjútvrh. Svo rammt hefur kveðið að þessari togstreitu þeirra í milli um undirbúning löggjafar og skipulag grundvallarþátta í sambandi við fiskeldi að hæstv. forsrh. sá sig loks nú undir vorið tilknúinn til þess að reyna að höggva á hnútinn og skipa sérstaka nefnd, nýja nefnd til þess að hefja það starf, sem hefði þurft að vera komið í gang fyrir löngu síðan og m. a. var hvatt til af minni hálfu og fleiri þm. sem fluttu á árinu 1983 sérstaka þáltill. í Sþ. um átak í fiskeldi og fiskirækt, einnig varðandi rannsóknir og fjármögnun, skipulagða fjármögnun til fiskeldismála.

Ég vil inna hæstv. forsrh. eftir því hverjir eiga sæti í þeirri nefnd sem þeir tveir nefndir hæstv. ráðherrar boðuðu að forsrh. væri að skipa í aprílmánuði s. l. Ég inni hæstv. forsrh. eftir því hverjir eiga sæti í nefndinni og hvenær þess sé að vænta að þessi nefnd, sem á að marka opinbera stefnu í fiskeldismálum sem ekki er seinna vænna að gert verði, skili áliti.

Það er veruleg hætta á því, vegna þess hversu dregist hefur úr hömlu að taka á þessum málum, að ýmislegt af þeim fjárfestingum sem lagðar hafa verið til fyrirtækja í fiskeldi hér á landi að undanförnu skili sér ekki með þeim hætti sem ella hefði getað orðið. Ég vil ekki hafa uppi neinar sérstakar svartsýnisspár í þeim efnum. Það eru nokkur fyrirtæki á byrjunarstigi sem komin eru af stað með fiskeldi, en það er álit ýmissa þeirra sem vel eiga að þekkja til í þessum málum að þarna sé tekin veruleg áhætta, svo að ekki sé meira sagt.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá maí 1983 sagði einnig um landbúnaðinn, með leyfi forseta:

„Með þessum og öðrum nauðsynlegum ráðstöfunum verði unnið gegn byggðaröskun og hagur bændastéttarinnar tryggður.“

Þetta er lokagreinin um landbúnaðinn í stefnuyfirlýsingunni við myndun ríkisstj. Og það er eðlilegt að spurt sé nú þegar ríkisstj. hefur haldið upp á tveggja ára afmæli sitt: Hvernig hefur verið staðið við þetta fyrirheit um að vinna gegn byggðaröskun og tryggja hag bændastéttarinnar? Það er nærtækast að spyrja bændur sjálfa og forsvarsmenn þeirra. Þeir hafa raunar margir hverjir greint frá sínu mati á stöðu og horfum í landbúnaði í hefðbundnum búgreinum og ályktað um þá hluti og þær ályktanir bera ekki vott um það að þróunin hafi gengið í þá átt sem fyrirheit ríkisstj.. í upphafi vöktu vonir um.

Um byggðaröskunina hef ég rætt sérstaklega í tengslum við frv. um Byggðastofnun. Þar var Íslandsmet slegið á síðasta ári í fólksflutningum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, á annað þúsund manns. Landsbyggðin tapaði nettó á annað þúsund manns og það er í fyrsta sinn síðan 1961 að yfirlit liggur fyrir um slíka fólksflutninga að þessi tala hefur farið yfir 1000 manns.

Vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur ekki enn komið hér til fundar ætla ég ekki sérstaklega að gera í bili að umræðuefni þætti sem snerta iðnaðarmálefnin og hvernig þar hefur til tekist og hvernig horfur eru í sambandi við nýsköpunarþrótt þess iðnaðar sem fyrir er í landinu og uppbyggingu þeirra greina sem gert var ráð fyrir við upphaf stjórnarsamstarfsins að yrðu verulegur vaxtarbroddur í sambandi við iðnþróun í landinu á starfstíma ríkisstj. En ég vænti þess að hæstv. ráðh. komi hér í þingsal áður en ég lýk máli mínu svo að ég geti beint til hans fsp. um þau efni, því að það er sannarlega full ástæða til þess að fá ýmislegt fram um stöðu mála sem snerta iðnaðinn og þar á meðal stóriðjuna sem hæstv. ráðh. hefur þegar kostað allmiklu til, erfiði, fyrirhöfn og fjármunum, til þess að reyna að koma fótum undir með þeim hætti sem hann telur vænlegast.

Hér er í frv. því sem til umræðu er um nýsköpun í atvinnulífinu gert ráð fyrir því að ríkisvaldið gerist forgönguaðili til þess að örva slíka nýsköpun. Með frv. er leitað heimilda til þess að ríkið leggi verulegt fjármagn fram í þessu skyni, eitt eða með öðrum, því að frv. gerir ráð fyrir því að ríkið hugsanlega sitji uppi sem eini hluthafi í því hlutafélagi sem frv. gerir ráð fyrir að sett verði á laggirnar. Að vísu er gert ráð fyrir því skv. frv. að allverulega verði í það lagt að fá einkaaðila, innlenda og raunar einnig erlenda, til samvinnu um málefni þessa fyrirtækis, en bjartsýnin í þeim efnum er ekki meiri en svo að meiri hl. fjh.- og viðskn., sem fjallað hefur um frv., hefur flutt sérstakar brtt. við upphaflegt frv. vegna hugsanlegra takmarkana á hluthöfum. Það er því ekki mikil bjartsýni sem kemur fram hjá þeim stjórnarliðum sem fjallað hafa um frv. í nefnd að þessu leyti. Ég ætla hins vegar ekki að hafa uppi neinar sérstakar hrakspár um það að takast megi að laða til þátttöku með ríkinu ýmsa þá aðila sem gert er ráð fyrir skv. frv. að komi til samstarfs um stofnun þess hlutafélags sem hér er um að ræða.

En hér eru verulegar upphæðir á ferðinni, a. m. k. 500 millj. kr., 200 millj. að lágmarki sem hlutafé félagsins og auk þess 300 millj. hið minnsta til ráðstöfunar fyrir þetta hlutafélag og jafnvel gert ráð fyrir því að ríkið eitt reiði það fé af höndum með beinum hætti, eða sem lán til þeirra aðila sem kæmu til samstarfs og þátttöku í þessu félagi.

Það er vissulega mjög margt óljóst og flest óljóst sem snertir þetta mál. Það er sáralítið vikið að því hvaða hugmyndir eru á kreiki hjá hæstv. ríkisstj. og aðilum á hennar vegum varðandi einstakar greinar eða áhersluþætti í nýsköpun í atvinnulífinu þó að vissulega sé vikið í nokkrum tölusettum liðum í grg. að tilgangi félagsins og hvað félaginu sé heimilt að gera í sambandi við sína starfsemi.

Eitt af því sem þar er tekið fram er að taka þátt í og styrkja hagnýtar rannsóknir á nýjungum í atvinnulífi og tilraunir með þær og aðstoða við öflun og sölu á réttindum til hagnýtingar þeirra. Þetta er mjög eðlilegt að hugsa sér til þess að lagt sé í slíkar rannsóknir og slíkan undirbúning, því að það skiptir vissulega miklu að þar sé vandað til. Og það er einmitt eitt af því sem illa hefur til tekist hjá ríkisstj. til þessa, að stuðla að rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem tengist atvinnulífinu í landinu. Þar hefur verið dregið úr í sambandi við fjárveitingar frá áður markaðri stefnu á undanförnum tveimur árum og enn hefur lítið sprottið af þeim loforðum sem fram komu á síðasta vetri um viðbótarfjármagn að upphæð 50 millj. kr. til tiltekinna verkefna í rannsóknar- og þróunarstarfi.

Þetta kom mjög skýrt fram á aðalfundi Rannsóknaráðs ríkisins sem haldinn var 8. og 9. febrúar s. l. Þar komu einmitt fram mjög margar gagnlegar ábendingar varðandi þennan grundvallarþátt, þ. e. rannsóknar- og þróunarstarfsemina tengda atvinnulífinu og raunar grundvallarrannsóknir einnig. Þar fluttu ýmsir mætir menn erindi, m. a. framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, sem vék sérstaklega að þeim þætti sem hér um ræðir og vakti athygli á því m. a. að mjög hefur skort á það að fyrirtækin sjálf í landinu legðu fram fjármagn til rannsóknar- og þróunarstarfsemi og nýsköpunarvinnu á sínum vegum, m. a. í samanburði við það sem gerist í nágrannatöndum okkar.

Það liggur fyrir að Ísland er þarna langt á eftir því sem gerist á öðrum Norðurlöndum og ríkið hefur á undanförnum árum orðið að axla verulega meiri byrðar hlutfallslega í fjármögnun slíkrar starfsemi heldur en gerist í grannlöndum okkar. Þetta er eitt af því sem þarf að breytast því að það liggur líka fyrir að hin dreifðu fyrirtæki víða á landinu hafa ekki hagnýtt sér niðurstöður þeirrar rannsóknarstarfsemi sem fram hefur farið í stofnunum hins opinbera í þeim mæli sem áreiðanlega hefði verið kleift. Ástæðan er trúlega að nokkru leyti sú, að þau hafa ekki tekið stefnu á slíka vinnu á sínum vegum og því ekki haft augun opin sem skyldi fyrir þeim möguleikum til hagnýtingar á niðurstöðum rannsókna í rannsóknarstofnunum atvinnuveganna sem þar liggja fyrir og eru sumar búnar að liggja fyrir um býsna langt skeið án þess að aðilar hafi komið fram til þess að hagnýta sér slíkar niðurstöður.

Það liggur líka fyrir í sambandi við þennan undirstöðuþátt, rannsóknar- og þróunarstarfsemina, að hér er fjármunum einkum varið í frumvinnslugreinar, og gildir það um liðinn tíma, í fiskveiðar, við skulum segja atriði tengd úfgerð, í landbúnað og í orkuvinnslu. Hins vegar er mjög lágu hlutfalli varið til rannsóknar- og þróunarstarfsemi á þágu úrvinnslu, í þágu almenns iðnaðar, byggingariðnaðar og fiskiðnaðar. Ég held að það sé öllum ljóst sem líta á þessi mál að það eru ekki réttar áherslur sem hér eru á ferðinni. Það hefði þurft að leggja mun ríkari áherslu á rannsóknarstarfsemi í úrvinnslugreinunum. Og það er vissulega reynt af hálfu m. a. Rannsóknaráðs ríkisins að hvetja fyrirtæki til þess að leggja þar meira af mörkum af sinni hálfu.

Ég hef hins vegar bent á það þegar í mínu máli að það er ekki mikil von til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi hafi bolmagn eða þrótt til þess að hefja þar það nýsköpunarstarf sem þyrfti í fyrirtækjunum, leggja þar til hliðar fjármagn og vinnu á vegum forustumanna fyrirtækjanna, sem margir hverjir sjá ekki út úr augum vegna rekstrarerfiðleika, fjármagnsskorts og skuldauppsöfnunar, sem eru afleiðingar af efnahagsstefnu ríkisstj. í að minnsta kosti mjög mörgum tilvikum.

Það liggur þannig fyrir og var upplýst á nefndum aðalfundi Rannsóknaráðs að til fiskiðnaðar var á árinu 1981 aðeins varið 3.5% af fjármagni sem til ráðstöfunar var í rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Hvað segja menn um áherslur af þessu tagi? Hitt liggur á sama tíma fyrir að möguleikar einmitt til nýjunga í sjávarútveginum, í úrvinnslu úr hráefnum úr sjó; eru mjög miklir. Fram á það hefur verið sýnt af aðilum sem tekið hafa á þessum mátum. Mun ég geta um dæmi þar að lútandi, sem ástæða er til að vekja athygli þingheims á, þar sem er starfsemi á vegum fyrirtækisins Lýsis hf. sem gæti verið hvatning fyrir önnur fyrirtæki að auka verulega áherslu í sambandi við rannsóknar- og þróunarstarf.

Framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs benti á marga fleiri þætti í sínu máli. Ég vil, með leyfi forseta, leyfa mér að vitna hér aðeins í framsögu hans á þessum aðalfundi Rannsóknaráðs. Þar sagði dr. Vilhjálmur Lúðvíksson m. a.:

„Annað atriði í starfsháttum okkar og rannsóknarkerfi sem er áhyggjuefni eru vandkvæðin á því að móta og framkvæma stefnu til lengri tíma.

Fyrir tveim árum kynnti Rannsóknaráð ríkisins langtímaáætlun fyrir rannsóknir í þágu atvinnuveganna og lagði þar til að rannsóknarstarfsemin yrði efld með hliðsjón af þjóðhagslegum markmiðum og þeim aðstæðum sem blasa við í megingreinum atvinnulífsins og skilgreindar voru í athugunum á vegum ráðsins. Í heildina var gert ráð fyrir 5% aukningu á umsvifum rannsóknarstarfseminnar milli ára á tímabilinu en hins vegar töluverðum mun á vexti einstakra stofnana með sérstaka áherslu á rannsóknir í þágu úrvinnslugreina.

Rannsóknaráð lagði langtímaáætlun þessa fyrir stjórnvöld með ályktun þar sem í meginatriðum er hvatt til þess að:

Mótuð verði starfsskilyrði fyrir atvinnuvegina sem hvetji til nýjunga og umbóta í atvinnulífinu. Rannsóknastofnanir afli eigin tekna í auknum mæli með verkefnum sem viðskiptavinir greiði fyrir. Rannsóknastofnanir fái aukið sjálfstæði og ábyrgð í rekstrarlegum efnum, m. a. við ráðningu starfsliðs.

Aukið verði framlag til sjóða sem styrkja rannsóknir, vöru- og aðferðaþróun á vegum fyrirtækja og stofnana. Jafnframt vakti ráðið athygli á því að knýjandi nauðsyn væri að leggja grundvöll að nýjum vaxtarsviðum fyrir atvinnu- og efnahagsframfarir og aðlaga eldri atvinnugreinar breyttum skilyrðum.

Áætlun þessari var vel tekið af ríkisstj. og lagði hún till. til þál. fyrir Alþingi sem hlaut einróma samþykki vorið 1983. Þar er ályktað að áætlun Rannsóknaráðs skuli lögð til grundvallar langtímastefnu í rannsókna- og þróunarstarsemi. Eftir þessari áætlun hafa rannsóknastofnanir atvinnuveganna í megindráttum farið í tillögugerð sinni og starfsáætlunum undanfarin þrjú ár. En því miður hefur þróunin í reynd nánast orðið gagnstæð við það sem áætlunin gerði ráð fyrir að því er varðar heildarumsvif rannsóknarstarfseminnar í þágu atvinnuveganna.“ Ég vek athygli á þessum ummælum sérstaklega: „Því miður hefur þróunin í reynd nánast orðið gagnstæð við það sem áætlunin gerði ráð fyrir að því er varðar heildarumsvif rannsóknarstarfseminnar í þágu atvinnuveganna.“

Og í framhaldi af þessu segir dr. Vilhjálmur: „Gagnstætt tillögum Rannsóknaráðs um að rannsóknarstarfseminni yrði veittur aukinn stuðningur þótt samdráttur yrði á næstunni í þjóðarbúskapnum hefur rannsóknarstarfsemin verið sett undir sömu takmarkanir og önnur starfsemi á vegum ríkisins og hin almenna stefna fjárlagagerðarinnar á því tímabili um að engir nýir menn skuli ráðnir og engin ný verkefni tekin upp hefur sagt til sín. Að vísu er ekki um eins mikinn raunverulegan samdrátt að ræða eins og myndin sýnir (sem hann vitnaði þar til og sýndi) þar sem raungildi launa hefur dregist verulega saman og laun eru stór þáttur í heildarkostnaði rannsóknastofnananna. Í besta tilfelli hefur starfsemi þó staðið í stað.“

Þetta eru ummæli framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs, byggð á tölulegum upplýsingum, þar sem fram kemur að í mörgum tilvikum hafi rannsóknar- og þróunarstarfsemi dregist saman, þrátt fyrir einróma samþykkt, að ég hygg, hér á Alþingi um hið gagnstæða á árinu 1983. Það er full ástæða til að rifja þetta upp hér þegar ríkisstj. loks er að mynda sig til þess að gera átak til að renna stoðum undir nýsköpun í atvinnulífi landsmanna.

Í framhaldi af þessu segir dr. Vilhjálmur í sínu innleggi á aðalfundi Rannsóknaráðs í febrúar s. 1.: „Þó að þannig hafi fremur dregið mátt úr rannsóknarstarfseminni um skeið er mikið talað um nauðsyn nýsköpunar í atvinnuvegunum og nefndar háar tölur um fjármagn sem eigi að fara til þeirra hluta. Því miður er það svo að þau atvinnutækifæri sem menn tala mest um, t. d. á sviði líftækni og fiskeldis, eru að miklu leyti enn þá óundirbyggð að því er rannsóknir varðar og hafa þegar orðið af því stórfelld skakkaföll. Ég óttast,“ segir hann enn fremur, „að á næsta leiti sé alda fjárfestinga í fiskeldi sem að miklu leyti verði byggð á sandi. Því þeir þættir sem arðsamt matfiskeldi þarf að byggjast á hér á landi eru enn að miklu leyti órannsakaðir og hvergi hefur enn þá verið sýnt fram á hvernig reka eigi fiskeldi í heild, frá klaki til markaðar, þannig að rekstraröryggi verði tryggt. Sú stýring á vaxtarferli laxins með aðstoð jarðhita sem hér er reiknað með er flókið og mjög vandasamt mál. Svipuðu máli gegnir um líftæknina. Rannsóknir á því sviði eru nú rétt að byrja þó mikið sé um hana talað.

Nýlega var lögð fyrir fjárveitinganefnd samhæfð áætlun fjögurra rannsóknastofnana um átak á þessu sviði sem kosta mundi 16.5 millj. kr. á þessu ári og væri fyrsta alvöruskrefið í þessu efni. Þessi samstarfsáætlun er merkilegt nýmæli í starfsháttum íslenskra stofnana en beiðnum var þó ekki sinnt við afgreiðslu fjárlaga, en vísað á það fjármagn sem ætlað er að fari til nýsköpunar í atvinnulífi og á að afla að fenginni heimild í lánsfjárlögum.“

Ég læt hér nægja þessa tilvitnun úr erindi dr. Vilhjálms Lúðvíkssonar þó að fleira sé í hans máli sem fyllsta ástæða væri til að víkja að í tengslum við það frv. sem hér er til umræðu og e. t. v. kem ég því á framfæri síðar. En ég vil inna hæstv. forsrh. eftir einu þegar nú loks hillir undir það að frv. til lánsfjárlaga verði að lögum. Við höfum, stjórnarandstæðingar, reynt að greiða fyrir því að svo mætti verða, m. a. í sambandi við 2. umr. málsins í hv. Nd., og ég vænti þess að ekki líði á löngu þangað til ríkisstj. loks kemur þessu máli í höfn sem varðar svo miklu fyrir margháttaða starfsemi í landinu. Þar á meðal eru margnefndar og marglofaðar 50 millj. kr. til þess að bæta úr þeirri öfugþróun að nokkru sem orðið hefur í fjárveitingu til rannsóknar- og þróunarstarfsemi á valdaskeiði þessarar ríkisstj.

Ég inni hæstv. forsrh. eftir því í hvaða þætti hefur verið ákveðið að verja nefndu fjármagni, af þessum umræddu 50 millj. kr. Ég hygg að afstaða hafi verið tekin til þess máls, að fengnum tillögum Rannsóknaráðs ríkisins og menntmrn. sem fer með mátefni þess, og væri æskilegt að fá það upplýst einmitt í tengslum við umræður um þetta frv.

Ég minntist hér á það áðan að á fundi Rannsóknaráðs 7. des. s. l. hafi komið fram ýmis gagnmerk atriði um möguleikana á nýsköpun í sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem tekið væri á þessum málum af framsýni, atorku og dugnaði. Á fundinum flutti erindi m. a. Steinar Berg, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Lýsis hf. Í þessu erindi sýndi hann fram á það í mjög skilmerkilegu máli með sterkum líkum hvernig unnt er að margfalda einingarverð og hvað afrakstur snertir verðmæti hráefnis sem á land er dregið og sem nú aflast með því að hagnýta með skipulögðum hætti þá þekkingu sem fyrir er í landinu. Ég sé ástæðu til þess að nefna hér þau dæmi sem Steinar Berg rakti í þessum efnum, aðeins sem sýnishorn af þeim stórfelldu möguleikum sem liggja fyrir í okkar hefðbundnu atvinnugreinum ef þar er beitt nýtískulegum vinnubrögðum og lagðar réttar áherslur. Þannig greindi Steinar Berg frá því í fyrsta lagi varðandi fiskimjöl að fiskimjöl er nú selt á 365 dollara pr. tonn hér á landi, en með því að framleiða gæðamjöl úr sama hráefni til notkunar í fiskafóður mætti fá 500 dollara á tonn.

Í öðru lagi tók hann þorskalýsi sem dæmi. Auka má framleiðsluverðmæti úr hverju tonni af lýsi sem hér segir: Óunnið lýsi. Fyrir það fást 600 dollarar á tonn. Fullunnið lýsi í tunnum gæfi 1028 dollara á tonn. 220 gramma neytendapakkningar skiluðu úr sama hráefnismagni 3425 dollurum á tonn og lýsisfernur, sem ég hygg reyndar að hv. þm. hafi gefist kostur á að bragða á, fengið sendar hér í pósthólf sín, úrvinnsla á umræddu lýsismagni mundi margfalda verðmætið frá óunnu lýsi á 600 dollara tonnið í 18820 dollara á tonn. Og svonefnt EPA DHA-fitusýruþykkni gæfi hvorki meira né minna, ef framleitt væri og seldist á þeim forsendum sem forstjórinn lagði þarna fyrir, en 160 þús. dollara á tonn.

Í þriðja lagi tók Steinar Berg dæmi af fitudregnu fiskimjöli sem hann kallar svo. Úr 160 tonnum af fiskimjöli, sem seldist á 420 dollara tonnið, má framleiða fitudregið fiskimjöl, sem selst á 2200 dollara tonnið, og vítamíntöflur fyrir gæludýr, hunda og ketti, sem seljast á 2500 dollara tonnið. Hvort tveggja mætti fá úr þessu. Úr 160 tonnum af fiskimjöli, sem seljast á 67200 dollara, má þannig fá söluverðmæti sem nemur 10 millj. dollara. Framleiðslukostnaður yrði um 1 millj. en söluverðmæti um 10 millj. dollara.

Í fjórða lagi nefndi hann þangvökvann. Hann greindi frá því að sameiginleg athugun Lýsis hf. og Þörungavinnslunnar hf. hafi leitt í ljós að úr einu tonni af þörungamjöli, sem selst á 240 dollara, má framleiða þangvökva sem selst á 5916 dollara tonnið.

Og í fimmta og síðasta lagi tók hann dæmi af nýtingu beinhákarlslifrar og greindi frá því að úr 400 beinhákörlum má fá 252 tonn af hákarlalýsi að verðmæti 327 þús. dollarar, en með því að vinna úr því squalene, sem svo er kallað, er verðmætið 763500 dollarar.

Steinar Berg taldi þessi dæmi, sem öll eru úr sama fyrirtæki, sanna það að af nógu væri að taka í sambandi við úrvinnslu sjávarafurða. Þekking væri fyrir hendi á mörgum sviðum, en fyrst og fremst skorti frumkvæði fyrirtækja til að nýta þá þekkingu sem til er á rannsóknastofnunum hins opinbera og taldi hann að markaðsaukningu þróaðra neytendavara hefði ekki verið sinnt sem skyldi á erlendum vettvangi. Frá þessu er greint í fundargerðum frá þessum fundi þannig að ég tel að hér sé að öllu leyti rétt hermt og tekin meginatriði úr erindi sem raunar er aðgengilegt fyrir þá sem vilja kynna sér þessi efni betur.

Það var mjög athyglisvert í sambandi við umræðu sem varð um mál forstjórans að menn spurðu: Hvað veldur því að einmitt þetta fyrirtæki hefur gert athuganir og lagt verulegt fjármagn af mörkum, óvenjulega mikið fjármagn af mörkum til þess að kanna slíka nýja möguleika í úrvinnslu úr sjávarfangi? Og það var upplýst að ein ástæðan væri sú að starfsmenn og forustumenn í þessu fyrirtæki hafa starfað á fyrri stigum hjá hinu opinbera, í opinberum stofnunum og gerðu sér ljóst að þar væri að finna undirbúningsvinnu sem fyrirtæki ættu aðgang að og unnt væri að hagnýta. Og það hefur sem sagt þetta fyrirtæki gert. Þess er óskandi að þau verði fleiri sem feta þar í fótsporin og vonandi gefur eitthvað af því fjármagni sem fyrirhugað er að ráðstafa í nýsköpun í atvinnulífinu orðið til þess einmitt að örva með þessum hætti fyrirtæki til að nýta þekkingu sem raunverulega liggur fyrir og rannsóknaniðurstöður sem aflað hefur verið eða byggja má á frekari framhaldsrannsóknir.

En Steinar Berg nefndi annað atriði í sínu máli sem ekki er síður ástæða til að vekja hér athygli á öðrum til uppörvunar. Hann benti á að það væri ekki nóg að verja fé til rannsókna og vöruþróunar, heldur þyrfti að fara fram öflug og skipuleg markaðsstarfsemi, því að án slíkrar starfsemi skilar fjármagn til rannsókna- og þróunarstarfsemi sér að sjálfsögðu aldrei. Hann benti á þá athyglisverðu staðreynd að um það bil 6000 manns ynnu við innflutningsverslun í landinu, um það bil 6000 manns eru bundnir við það að draga vörur inn í landið en aðeins um 254–300 manns við útflutningsstarfsemi. Og það er einmitt útflutningsstarfsemi sem hefur engan veginn verið sýndur sá sómi — það eru mín orð — sem skyldi á liðnum árum. Um það vitna m. a. rýrnandi framlög til ýmissa þátta útflutningsstarfseminnar af opinberri hálfu, þar á meðal til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins á undanförnum árum. Og ég minni einnig á þá fyrirstöðu og þann seinagang sem orðið hefur í sambandi við það að setja lög og reglur um útflutningslánasjóð og útflutningstryggingar. En þar erum við haltrandi langt á eftir því sem nauðsyn krefur og því sem gerist í nágrannalöndum okkar. Ég minni á það að hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson innti einmitt eftir því hér á yfirstandandi þingi hvernig mál stæðu í sambandi við þessi efni sem undirbúin hafa verið í tíð fyrri ríkisstj. og reidd voru fram skrifleg svör nú alveg nýlega sem ég hef raunar ekki haft aðstæður til að fara yfir til þess að draga af því dóma og ályktunarorð hér í mínu máli að þessu sinni. En þar var vakin athygli einmitt á einum þætti sem snertir útflutningsstarfsemina, atriði sem dregist hefur mjög úr hömlu að sett væri lagastoð undir og önnur stefnumótun af opinberri hálfu hefur ekki farið fram á grundvelli undirbúnings. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Virðulegi forseti. Ég verð víst að staðhæfa að ég á allmikið mál óflutt. (Forseti: Það er áformað að ljúka þessum fundi núna kl. hálfátta. Ég bið því hv. ræðumann að gera nú hlé á ræðu sinni. Hann tekur þá til við að flytja ræðu sína á næsta fundi.) Já, ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að verða við þeim óskum forseta og vænti þess að á þeim fundi gefist okkur kostur á að hlýða á hæstv. forsrh. einnig, ef tími leyfir, til þess að svara þeim fsp. sem ég hef þegar flutt og á eftir að bæta allnokkrum við í mínu máli.