07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki haft mikla aðstöðu til að kynna mér það mál sem hér liggur fyrir til umr. Það hafa ekki miklar umr. orðið um það á opinberum vettvangi. En nú fer málið til nefndar og þar gefst kostur á að fá ýmsar þær upplýsingar um málið sem þörf er á og hef ég þá að þessu sinni engu við það að bæta sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði hér áðan um þetta mál.

Ég vil hins vegar segja það almennt um aðild ríkisins að atvinnurekstri að í þeim efnum hefur Alþb. ekki tileinkað sér nein kreddusjónarmið. Það er ekki haldið neinni kreddu af því tagi að ef um ríkisfyrirtæki sé að ræða þá beri endilega að selja það. Við erum heldur ekki haldnir þeirri kreddu að ef um einhvern rekstur sé að ræða eigi hann endilega að vera í höndum ríkisins. Við teljum að aðstæður verði að ráða því hvaða kostur er valinn og hvaða eignarhald er haft á fyrirtækjum. Oft getur verið bráðnauðsynlegt og óhjákvæmilegt að ríkið sé aðili að atvinnurekstri. Oft hefur ríkið haft frumkvæði í atvinnumálum sem enginn annar hefði haft. Oft hefur ríkið lyft grettistökum í atvinnumálum og ætti enginn að harma það.

En svo eru aftur önnur tilvik þar sem segja má að ekki sé endilega nein sérstök nauðsyn að ríkið sé aðili atvinnurekstrar. Ef góð tilboð berast frá t.d. starfsmönnum fyrirtækis um það að yfirtaka rekstur fyrirtækisins og engin önnur sérstök rök mæla gegn því eða kjör eru ekki talin óeðlileg á einn eða annan hátt ellegar byggðasjónarmið koma þar ekki við sögu, þá er sjálfsagt að athuga það með jákvæðu hugarfari hvort slíki sé eðlilegt. Ég vil ekki fullyrða á þessu stigi málsins hvort um það er að ræða í þessu tilviki. Ég veit það að ríkið var búið að leggja í verulegan kostnað í sambandi við þetta fyrirtæki á árinu 1983, m.a. var ríkið nýlega búið að kaupa húsnæði Landssmiðjunnar og búið að leggja drög að nýsmíði húss yfir starfsemina, byggingu sem átti að vera talsvert vegleg og tengjast væntanlegri skipaverkstöð í Reykjavík. Þar var búið að leggja í verulega fjárfestingu. Mér er satt að segja ekki alveg ljóst hvað um þá fjárfestingu verður eða þá fjármuni sem ríkið hefur þar í lagt. En allt verður þetta nánar skoðað í nefnd og að sjálfsögðu verður það gert með jákvæðu hugarfari.

En þegar svo aftur talið berst að steinullarverksmiðju á Sauðárkróki, þá get ég ekki orða bundist vegna þess sem hér var sagt um það mál áðan. Alþingi hefur falið ríkisstj. að reisa steinullarverksmiðju og veitt henni heimild til fjáröflunar í því skyni, á fjárlögum hefur verið fjármagn sem notað hefur verið til þess að borga inn hlutafé til verksmiðjunnar og lán hafa verið útveguð. Verksmiðjan er nú, ef svo mætti segja, hálfbyggð og ætti að geta hafið rekstur innan tíðar. Án þess að fjölyrða mikið frekar um þetta mál vil ég bara segja það eitt að ég er sannfærður um að þetta er eitt af efnilegri fyrirtækjum sem nú er verið að reisa hér á landi og ég er sannfærður um að það á eftir að spara landsmönnum verulega mikinn gjaldeyri. Og ég er sannfærður um að það frumkvæði og sú forusta, sem ríkisvaldið hefur haft í sambandi við byggingu þessa fyrirtækis, var heilbrigð og sjálfsögð og á eftir að skila þjóðinni arði.