13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6488 í B-deild Alþingistíðinda. (5894)

456. mál, Byggðastofnun

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég á skapnaðar-erindi við flm. á brtt. á þskj. 1254 og væri hæstv. forseta þakklátur ef ég mætti nema þá nefi, sérstaklega fyrri flm., hv. 2. þm. Norðurl. e. (Forseti: Þess verður freistað að finna þá hv. þm.) Ég sá honum bregða hér fyrir, þeim hv. þm., fyrir augnabliki. (Forseti: Þingverðir eru sem óðast að leita að þessum tveimur hv. þm.) Já, takk fyrir. Já, þar kemur fyrri flm., hv. 2. þm. Norðurl. e., og ég vildi fara örfáum orðum um brtt., sem hann er flm. að ásamt 3. þm. Reykv., að stjórn Byggðastofnunar skuli heimilt að ákveða að heimili og varnarþing stofnunarinnar verði á Akureyri.

Í fyrsta lagi er þessi till. óþingleg og þó er það ekki aðalatriði. Þeir sem vilja stunda vandleg þingstörf vega ekki í sama knérunn, enda þótt hér sé um verulegan áherslumun að tefla frá þeim till. að Byggðastofnun skyldi rísa á Akureyri.

Í öðru lagi er þessi till. óþörf með öllu. Vegna þess að við afgreiðslu á till. hv. þm. við 2. umr. málsins var því lýst yfir af tveimur ráðh., sínum úr hvorum stjórnarflokki, að ef stjórn stofnunarinnar tæki ákvörðun um að reisa Byggðastofnun á Akureyri skyldi ekki standa á þeim að vinna því máli brautargengi. Í lagafrv. eru engin ákvæði sem hindra slíka ákvörðun af hálfu stjórnar stofnunarinnar.

Í þriðja og alvarlegasta lagi er till. heimskuleg og sérstaklega hættuleg ef áhugi er fyrir hendi um að framkvæma þetta verk, sem ég að mínu leyti hef nokkurn áhuga á vegna valddreifingar sem í því felst, þótt ég hafi ekki gengið á bak þeirri samþykkt sem í ríkisstj. var gerð um innihald frv. Hún er heimskuleg og hættuleg að því leyti að fall þessarar till., sem fullkomin hætta er á að verði, mundi verða túlkað með þeim hætti að byndi hendur stofnunarinnar um að bregða á þetta ráð.

Þetta eru augljós rök og ég bið þess vegna að hv. flm. skoði hug sinn og kalli aftur þessa tillögugerð.