14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6613 í B-deild Alþingistíðinda. (5945)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að mæla í örstuttu máli fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 1242 og er um að þeim sem annast sölu á útfluttum landbúnaðarvörum sé ekki heimilt að taka meira í sölulaun en sem nemur 2% af söluverðmæti þeirra.

Eins og þetta hefur verið að undanförnu hafa þeir sem selja landbúnaðarvörur tekið söluprósentu sína af verðmæti vörunnar með útflutningsbótum. Mér finnst það brjóta í bága við almennt siðferði í þessum efnum og virka alls ekki hvetjandi af hálfu söluaðila til að ná sem hæstu söluverði erlendis. Það skiptir í raun og veru ekki nokkru máli fyrir þá hvaða verði þeir ná. Aðalatriðið fyrir þá verður að koma sem mestu af vörunni úr landi, jafnvel á sem lægstu verði. Um þetta vitna lýsingar íslenskra viðskiptamanna og ferðalanga sem hafa rekist á íslenskar landbúnaðarvörur á afsláttarprísum og útsöluprísum erlendis, verði sem er langt fyrir neðan verð á sambærilegum vörum í verslunum þar. Mér sýnist þetta raunar liggja í augum uppi og ástæðulaust vera að hafa um það mjög mörg orð. Það mundi verka mjög hvetjandi til að ná sem bestu verði v.eru sölulaunin einungis reiknuð af söluverðmæti en ekki því verðmæti sem varan tekur á sig með útflutningsbótum. Þess vegna ætla ég ekki að gera þetta að löngu máli.

Um þetta mál. þ. e. frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vildi ég hins vegar segja að það hlýtur að vera meira en lítið að í atvinnugrein sem þarf lagaform upp á fleiri tugi greina til þess eins að koma framleiðsluvörunni frá sér. Ég held að menn verði að skoða þessi mál mjög fljótlega aftur og frá öðrum sjónarhólum.

Eins og stendur blasir það við íslenskum ferðamönnum þegar þeir eru á ferð erlendis að verð landbúnaðarvara víðast hvar er verulega mikið lægra en hér. Það er erfiður sannleikur að kyngja að menn sitji jafnvel uppi með þá niðurstöðu að það skerði lífskjör þeirra að þurfa að kaupa afurðir íslensks landbúnaðar sé málinu velt fyrir sér út frá þessum forsendum. Það er augljóst m. a. af brtt. sem ég var að mæla fyrir áðan, að afar lítið hefur verið gert í málefnum íslensks landbúnaðar til að hvetja fólk til úrbóta, hvetja til meiri framleiðni, hvetja til meiri hagkvæmni í framleiðslunni allri. Mér er minnisstæð lýsing frænda míns, sem er bóndi austur á landi, þegar hann lýsti heimsóknunum frá ráðunautunum, eins og hann kallaði það nú gjarnan. Hann sagði: Eitt árið komu þeir og sögðu: Lítil bú, lítil bú. Nú eiga allir að hafa lítil bú. Annað árið, kannske tveimur árum seinna, komu þeir og sögðu: Stækka búin strákar, stækka búin. Eitt árið komu þeir og sögðu:

Blönduð bú, blönduð bú. Nú eiga allir að hafa blönduð bú. Það er augljóst að blönduð bú bera sig. Annað árið komu sömu ráðunautar og sögðu: Einbeitið ykkur að ákveðnum greinum landbúnaðarins, strákar. Annars fer þetta allt á hausinn. Eitt árið sagði hann að menn hefðu komið og sagt: Það borgar sig ekki lengur að safna neinum húsdýraáburði og ef þið getið mæli ég með að menn leiði bæjarlækinn í fjósið og skoli honum út. Árið eftir kom nákvæm skýrsla sem sagði að húsdýraáburðurinn væri hagkvæmasti áburður og besti sem landbúnaðurinn gæti fengið. Svona hefur verið sú leiðsögn og sú aðstoð sem menn hafa fengið til að reyna að ná aukinni hagkvæmni í sínum búnaði.

Það má líka spyrja hvernig þetta almenna umhverfi hafi verið þegar bóndi sem byrjaður er að slá grasið, sem hann sáði til eða bar á um vorið, veit ekki hvað áburðurinn kostaði fyrr en kannske undir haust, eins og stundum hefur komið fyrir. Svo slátrar hann lömbunum sínum um haustið og veit ekki fyrr en næsta vor eða næsta haust hvað hann fær mikið fyrir lömbin. Svo er það ýmsum höppum háð hvort hann færi girðingastyrki eða skurðastyrki eða nýræktarstyrki eða hvers konar styrki. Stundum fást þeir og stundum ekki. Hvernig er hægt að ætlast til að menn byggi upp hagkvæman rekstur við þessi skilyrði?

Þetta á við ýmislegt fleira, eins og við höfum lýst áður í umr. um nýsköpun í atvinnuháttum og við höfum líka talað um í sambandi við byggðastefnu. Þetta á svo sem við aðrar atvinnugreinar á landinu þar sem menn eru sífellt að reyna að hafa vit fyrir fólki. Menn eru að reyna að stýra bónda og búsmala út frá stórvirkum, alhæfðum stjórnvaldsaðgerðum í stað þess að hugsa sem svo, að ábyrgðin og frumkvæðið verði að koma frá einstaklingnum sjálfum. Það er bóndinn sem sér hvernig grær og það er bóndinn sem á að meta búið sitt, en afkoma þess á ekki að birtast honum í pósti mörgum mánuðum eftir að hann sáði og mörgum mánuðum eftir að hann slátraði. Hann á að hafa aðstöðu til að meta þetta nákvæmlega jafnóðum, eins og gerðar eru kröfur um í öllum venjulegum rekstri þar sem „tölvubyltingin“ hefur komið að gagni fyrir allan venjulegan rekstur í landinu. Menn geta á augnabliki framkallað allar upplýsingar um stöðu fyrirtækisins og séð hvernig gengur og hvert stefnir. Hvernig haldið þið að hægt sé að gera það í atvinnugrein sem er fjarstýrt úr Bændahöllinni á Melunum? Það er ekki nokkur leið.

Þetta eru þær almennu hugleiðingar sem ég vildi hafa um þetta ágæta mál. Það vill þannig til að á síðustu vikum þessa þings erum við að fjalla um stærstu mál þess og þau tengjast öll meira eða minna. Við höfum verið að tala um Byggðastofnun, við höfum verið að tala um nýsköpun í atvinnuháttum og nú erum við að tala um landbúnaðarmál. Mjög margt af því sem hefur verið sagt um Byggðastofnun, byggðastefnu, atvinnuhætti og atvinnulíf á við hérna.

Ég held að það sem menn eigi að spyrja um í sambandi við landbúnaðarmálin sé einfaldlega þetta: Hvað eiga að líða mörg ár þangað til við gerum þær kröfur til íslensks landbúnaðar að hann standist samkeppni við innfluttar landbúnaðarvörur? Þangað til það gerist munu menn sífellt spyrja: Hvernig getur á því staðið og er það réttlátt og er það verjandi að tiltekin landbúnaðarvara kosti 3–4 sinnum meira hérlendis en hún kostar erlendis? Það er eðlilegt að fólk taki mið af kostnaðinum erlendis vegna þess að við erum sífellt að miða lífskjör okkar við annað fólk og önnur lönd. Við gerum sömu kröfur til lífsins hér og gerðar eru annars staðar. Þá verðum við að leita skýringa á þessum hlutum. Ég held að þeim sem unna íslenskum landbúnaði og þeim sem vilja íslenskan landbúnað eigi að vera kappsmál að hann geti haft málsvörn sína á hverjum tíma sem besta, ef hann er spurður slíkra spurninga, og hann geti bent á að á hverjum tíma sé leitað hagkvæmni og það sé leitað nýrra leiða og það sé virkilegur þrýstingur á mönnum að framleiða vel og framleiða af hagkvæmni þannig að þeir geti staðið stoltir og með fullum sóma frammi fyrir hverjum sem er og sagt að þeir séu ekki á neinn hátt að ofbjóða fólki með verðlagningu á vöru sinni.