14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6662 í B-deild Alþingistíðinda. (5989)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði þegar ég mælti í dag fyrir frv. um Byggðastofnun var ákveðið að leysa núverandi Framkvæmdastofnun ríkisins upp, m. a. í þeim tilgangi að leggja meiri áherslu en gert er í gildandi lögum á aðstoð við þróun nýrra atvinnugreina. Í lögum um Framkvæmdastofnun er heimild til þess að styrkja slíkt og að sjálfsögðu að lána til slíks en segja má að það hafi verið þar eins konar aukaatriði.

Þetta frv. er flutt til þess að setja á fót félag sem örvi nýsköpun í atvinnulífi. Gert er ráð fyrir því jafnframt að einkaaðilar geti gerst hlutahafar í þessu félagi. Við undirbúning málsins var töluvert um það rætt hvort réttara væri að setja á fót sjóð eða félag eins og það sem hér er lagt til að heimilað verði að setja á fót. Í þeim löndum sem lagt hafa mikla áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu hafa báðar leiðir verið farnar. Í Skotlandi er t. d. öflugur sjóður, Scottish Development Agency, sem vinnur þar að því að hvetja til stofnunar fyrirtækja á ýmsum sviðum atvinnulífs. En annars staðar hafa félög sem þessi, stundum nefnd áhættufélög, verið sett á fót. Síðari leiðin var hér valin í þeirri von að aðrir aðilar en hið opinbera kysu að gerast þátttakendur í slíku hlutafélagi og legðu því til fjármagn.

Skv. frv. er ríkinu heimilað að gangast fyrir stofnun slíks hlutafélags. Ákveðið er að hlutafé félagsins skuli vera 200 millj. kr. og hefur þegar verið ákveðið með fjárlögum að ríkið leggi fram á þessu ári 50 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ríkissjóður leggi a. m. k. fram aðrar 50 millj. kr. á næsta ári en 100 millj. kr. verði til ráðstöfunar fyrir þá aðila aðra sem kjósa að gerast hluthafar í félaginu.

Jafnframt er gert ráð fyrir heimild til ríkissjóðs til að lána þeim aðilum, sem vilja gerast hluthafar, helming af hlutafjárframlagi sínu til fjögurra ára og eins og tekið er fram í greininni skal það gert með fullum tryggingum og vöxtum, þ. e. með venjulegum vöxtum, eins og þar er sagt.

Einnig er heimild fyrir ríkissjóð til að ábyrgjast fjármagn til félagsins, samtals að upphæð 500 millj. kr. og það er að sjálfsögðu lánsfé sem ríkissjóður bakábyrgist sem félagið getur þá ráðstafað til þeirrar nýsköpunar í atvinnulífinu sem það kýs að stuðla að.

Eins og kemur fram í grg. með frv. eða athugasemdum er gert ráð fyrir því að félagið stuðli að nýsköpun í atvinnulífinu á ýmsan máta:

1. Með því að láta gera og fjármagna eða taka þátt í gerð og fjármögnun hagkvæmnisathugana og forkannana.

2. Með því að eiga frumkvæði að og/eða taka þátt í stofnun, endurskipulagningu og sameiningu fyrirtækja.

3. Með því að kaupa hlutabréf og/eða skuldabréf atvinnufyrirtækja.

4. Með því að útvega eða veita áhættulán eða ábyrgðir vegna stofnunar, rekstrar og þróunar fyrirtækja.

5. Með því að taka þátt í og/eða styrkja hagnýtar rannsóknir á nýjungum í atvinnulífi og tilraunir með þær og aðstoða við öflun og sölu á réttindum til hagnýtingar þeirra.

6. Með því að hafa frumkvæði að samvinnu innlendra og erlendra fyrirtækja í markaðsmálum, vöruþróun og á tæknisviði.

7. Með því að taka lán til eigin þarfa og til endurlána. Hér er ekkert sagt um að þetta fyrirtæki skuli leggja áherslu á eitt svið fremur en annað, enda er því ætlað að vinna að slíkri nýsköpun hvar sem hún er líkleg til að bera árangur. Ég vil leggja áherslu á að að sjálfsögðu á það ekki síður við hinar eldri atvinnugreinar en nýjar og raunar er ekki ólíklegt að ná megi mestum árangri skjótast með því að stuðla að nýsköpun í þeim atvinnugreinum sem þegar eiga djúpar rætur í íslensku atvinnulífi, t. d. með því að stuðla að stofnun fyrirtækja sem vinna að tæknivæðingu í sjávarútvegi. Trú mín er sú að þótt íslenskur sjávarútvegur sé nokkuð tæknivæddur þá sé þar enn mjög mikið að vinna. Ég er ekki einn um þá skoðun. Margir telja að stórlega megi auka framleiðni í íslenskri fiskvinnslu. Reyndar sá ég mér til undrunar fyrir tveimur dögum skýrslu þar sem fullyrt er að íslensk fiskvinnslufyrirtæki séu a. m. k. einu stigi á eftir dönskum að þessu leyti. Skal ég ekkert um það fullyrða. Einnig hef ég heyrt íslenska fiskvinnslumenn fullyrða að unnt væri að auka svo tæknivæðingu í fiskvinnslu að fækka mætti þar starfsliði um þriðjung og hækka laun að sama skapi. Ekki skal ég heldur um það fullyrða. En ég efast ekki um að með nýjustu rafeindatækni og rafeindavísindum er hægt að gera þar stóra hluti.

Í landbúnaði er út af fyrir sig þegar hafin nýsköpun með nýjum búgreinum og varið til þess verulegu fjármagni, samtals um 200 millj. kr. á þessu ári. Ber þar refaræktina hæst. Hygg ég að í lok þessa árs verði búið að veita um 200 leyfi fyrir nýjum refabúum.

En okkur Íslendingum er einnig brýn nauðsyn að hasla okkur völl á sviðum þar sem framleiðni á hverja einingu, bæði vinnu og fjármagns, er sem allra mest. Og sem betur fer er slík þróun hafin. Hér hafa verið sett á fót rafeindafyrirtæki er hafa náð undraverðum árangri þrátt fyrir erfiðar aðstæður að ýmsu leyti. Má nefna fyrirtæki eins og Pólinn á Ísafirði sem er talið með þeim fremstu jafnvel í heimi á sviði tæknivæðingar og rafeindaþróunar fyrir fiskvinnslu.

Við þurfum einnig að hasla okkur völl á ýmsum sviðum tölvuiðnaðar og hugbúnaðar eða m. ö. o. því sem gjarnan er nefnt hátækni. Þar eru vitanlega ýmsir erfiðleikar í vegi. Íslenskur markaður er ákaflega lítill og því þurfa fyrirtæki á þessu sviði í flestum tilfellum að leita skjótt á erlendan markað með sína framleiðslu. Það er þá helst þar sem atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn stendur að baki að íslensk fyrirtæki geta þróað sína framleiðslu á innlendum vettvangi.

En þótt ég sé vissulega þeirrar skoðunar að sjávarútvegur og fiskvinnsla muni um langan aldur verða meginstoðir íslensks atvinnulífs, þá hygg ég að okkur sé brýn nauðsyn að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og við hljótum að hasla okkur völl á slíkum hátæknisviðum. Þessi svið eru mörg áhættusöm. Athuganir erlendis hafa leitt í ljós að af hverjum tíu hugmyndum sem fæðast um slíka framleiðslu eigi aðeins þrjú að meðaltali líklega lífdaga og jafnvel aðeins eitt af þeim tíu sem í upphafi eru hugleidd í slíku skyni. Þessu fylgir að sjálfsögðu veruleg áhætta þótt hún sé mismunandi eftir því hvar á þróunarstiginu fyrirtækin lognast út af. En engu að síður er gífurlega mikill ávinningur að þeim fyrirtækjum sem á fót komast og eru þau nú vaxtarbroddur hagþróunar á Vesturlöndum og reyndar miklu víðar, ekki síst í Japan sem er leiðandi að þessu leyti.

Ég átti þess nýlega kost að sitja mjög fróðlega ráðstefnu um slíkan hátækniiðnað og nýsköpun í atvinnulífinu. Þar voru færð fram mjög sannfærandi rök fyrir því að það sé slíkur hátækniiðnaður sem að baki mikils hagvaxtar í þessum löndum stendur. T. d. var upplýst að í Japan hefur hagþróun á fjórum árum numið 25%, í Bandaríkjunum 15%, en í Evrópulöndunum aðeins 8% og hér á landi hefur hún reyndar engin verið á þessu tímabili vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Öll rök voru fyrir því færð, eins og ég sagði áðan, að allt hafi þetta byggst á ýmsum slíkum iðnaði sem að mörgu leyti var svar við orkukreppunni upp úr 1973 og hefur síðan þróast langtum hraðar en menn óraði þá fyrir.

Það er til mikils að vinna að skapa grundvöll fyrir slíkar atvinnugreinar hér ég til þess er þetta frv. flutt. Sumir munu segja að átakið sé ekki stórt. Ég viðurkenni að það mætti vera stærra. En þó er hér gert ráð fyrir að ráðstafa 100 millj. kr. af ríkisfé sem hlutafé og einnig ábyrgðum af hálfu ríkisins að upphæð 500 millj. kr. Það er í raun æðimikið fjármagn í þessu landi sem er fátækt að fjármagni og þarf því miður að sækja það mest á erlenda fjármagnsmarkaði.

Virðulegur forseti. Um þessa nýsköpun í atvinnulífi mætti hafa mörg orð en ég kýs að stytta mál mitt. Ég held að hér sé mjög góður grundvöllur fyrir slíka nýsköpun. Það sýna þau fjölmörgu smáu fyrirtæki sem hafa verið sett á fót. Það sýnir viðleitni fjölmargra einstaklinga sem vinna að slíkum greinum, ekki aðeins í fyrirtækjum í tengslum við sjávarútveginn, sem ég hef nefnt, heldur einnig á sviði hugbúnaðar og er jafnvel hafinn útflutningur þó í smáum stíl sé. Að mínu mati á ríkisvaldið að skapa hinn nauðsynlegasta grundvöll, taka þátt í áhættunni á meðan þessi fyrirtæki eru að komast yfir byrjunarerfiðleikana, draga sig síðan út úr slíkum fyrirtækjum og velta fjármagninu áfram í önnur fyrirtæki.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.