18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6770 í B-deild Alþingistíðinda. (6045)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn., sem er undirritaður, um viðskiptabanka á þskj. 1313. Nál. hljóðar svo, með leyfi forseta: „2. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara saman með framkvæmdavaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Fornu flokkarnir á Alþingi hafa tileinkað sér þann undarlega skilning á þessari grein að löggjafarvaldið skuli kjósa stjórnir og ráð fyrirtækja framkvæmdavaldsins þótt þau heyri beint undir einstaka ráðherra skv. lögum. Þannig brýtur hagsmunagæslan grundvallarreglur stjórnskipunarinnar um aðgreiningu valdþáttanna. Hlutföll í kosningum til löggjafarsamkomunnar hafa verið teygð inn á umráðasvæði framkvæmdavaldsins, s. s. í stjórn sementsverksmiðju og kísilmálmverksmiðju og í bankaráð ríkisbanka. Með þessu lagi hefur það orðið hlutskipti banka- og lánastofnana hér á landi að verða leikvangur þingflokka og alþm., — sem þó eru kjörnir til að setja landsmönnum öllum lög.

Að mati 2. minni hl. á ríkisvaldið að hætta rekstri viðskiptabanka. Þess vegna flytur hann till. á þskj. 1311 um að ríkisbönkunum verði breytt í hlutafélög og hlutabréfin seld á almennum markaði. Einnig eru á þskj. tillögur um að þangað til gengið hefur verið frá þeirri breytingu skuli viðskrh. skipa bankaráð ríkisbankanna og að honum verði óheimilt að færa alþm. þann kaleik.

2. minni hl. styður frv. með brtt. á þskj. 1311.“ Fyrsta brtt. er við 3. gr. Lagt er til að 3. gr. hljóði svo: „Um heimili og varnarþing viðskiptabanka fer eftir

samþykktum þeirra. Viðskiptabanka er heimilt að starfrækja útibú vegna starfsemi sinnar þar sem bankaráð ákveður og að fullnægðum skilyrðum laga þessara.“

Breytingin sem lögð er til er sú að ekki sé sjálfsagt að heimili og varnarþing ríkisviðskiptabanka sé í Reykjavík. Það er að mati flm. alger óþarfi að binda það í lögum. Það hlýtur að mega verða ákvörðun bankaráðs jafnt um ríkisbankana eins og það er um aðra banka.

Við 9. gr. flyt ég einnig brtt. Hún er um að 2. mgr. hljóði svo:

„Viðskrh. skipar fimm menn í bankaráð ríkisviðskiptabanka til fjögurra ára í senn og jafnmargra til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi þessara manna.“

Það er kannske ástæða til þess að gera þetta ofurlítið að umtalsefni. Ég hef vikið að þessu máli á ýmsan hátt áður í ræðum hérna í vetur og hef gagnrýnt það að Atþingi, löggjafarvaldið, skuli kjósa stjórnir, ráð og nefndir til ýmissa starfa innan framkvæmdavaldsins. Ég tel að hlutföll sem fást í kosningum til löggjafarþings, þ. e. í alþingiskosningum, eigi ekki að framlengjast inn á hin ýmsu svið ríkisstarfseminnar, svo sem í stjórn sementsverksmiðju eða stjórn kísilmálmverksmiðju. Manni er spurn: Hvers vegna þarf að gæta einhverra flokkspólitískra sjónarmiða eða flokkspólitískra hagsmuna í stjórn einnar „fabrikku“ eins og sementsverksmiðju? Sementsverksmiðjustjórn á bara að reka sementsverksmiðju og hún þarf enga leiðsögn frá þingflokkum. Hún þarf alls ekki að vera skipuð frá þingflokkum. Hún þarf alls ekki að vera skipuð í einhverju sérstöku hlutfalli við það hvernig fólk velur þm. á Alþingi til þess að setja landinu lög. þetta er að mínum dómi algerlega fáránlegt, auk þess sem það að mínum dómi, eins og ég hef lýst áður, brýtur í bága við grundvallarreglu stjórnarfarsins um aðgreiningu valdþáttanna. Þess vegna hefur Alþingi ekkert með það að gera að kjósa fólk til starfa í þessum stjórnum. Þessi starfsemi er á ábyrgð og í umsjón framkvæmdavaldsins.

Að hverri ríkisstjórn stendur meiri hluti löggjafarsamkundunnar. Það er eðli þessa þingræðislega fyrirkomulags og við verðum að treysta ríkisstj. og ráðherrum til þess að fara með stjórn þessara fyrirtækja á viðunandi hátt. Ef iðnrh. er ekki treystandi til þess að fara með stjórn sementsverksmiðjunnar á hann ekkert erindi í stól iðnrh. Og ef viðskrh. er ekki treystandi til þess að fara með stjórn ríkisviðskiptabankanna og skipa þar menn í bankaráð á hann ekkert erindi í stól viðskrh. Málið er svo einfalt. Þetta er hlutverk framkvæmdavaldsins og þetta er á ábyrgð þess. Alþm. eiga síðan að hafa eftirlit með þessari starfsemi og sækja þar á, eftir því sem almenn landslög segja fyrir, en ekki með því að sitja inni á ríkisviðskiptabankaráðherrafundum.

Að auki tel ég að þetta fyrirkomulag sé skaðlegt. Ég held að með því að þingflokkarnir kjósa sína fulltrúa inn á þessar stofnanir komi þeir í veg fyrir eðlilegt eftirlit frá starfssystkinum sínum á Alþingi vegna þess að þeir sem þannig eru kosnir sem fulltrúar í bankaráð mynda skjaldborg og verjast utanaðkomandi eftirliti frekar en að þeir opni bankaráðin á eðlilegan hátt í upplýsingaskyni. Um þetta höfum við dæmi héðan í vetur því að það voru ekki bankaráðsmenn sem sögðu frá því hvaða reglur giltu um bílafríðindi og það voru ekki bankaráðsmenn sem sögðu frá ýmsu því sem upp um þá komst þá, heldur voru það utanaðkomandi aðilar. Skjaldborgin er m. ö. o. vondur fylgifiskur þessa fyrirkomulags.

Sama tel ég að gildi um það að á þennan hátt verður ekki til nein ábyrgð. Ábyrgðin eyðist. Menn axla saman ábyrgðina sem kallað er. Það er eins og einhver sagði í vetur, menn taka það sem illa gengur, taka axarsköftin og henda þeim aftur fyrir sig í staðinn fyrir að kalla þá sem ábyrgir eru til ábyrgðar á því sem miður fer á þennan hátt. Þess vegna tel ég að þessar þingflokkasendingar inn í bankaráðin séu vondar. Ég tel að ítök og völd stjórnmálaflokkanna eigi ekki erindi á þennan formlega hátt inn í bankaráðin. Það getur enginn að því gert þótt einhver bankaráðsmaður, sem viðskrh. mundi skipa á þennan hátt, hafi pólitískar skoðanir. Og það er óumflýjanlegt að sá sem viðskrh. mundi skipa með þessu fyrirkomulagi hefði einhverjar pólitískar skoðanir. En hann á ekki að vera formlegur fulltrúi eins þingflokks eða annars, það er lykilatriði. Þetta var um þessa grein.

Svo keyrir náttúrlega alveg um þverbak þegar þessir sömu þingflokkar fara að kjósa sjálfa sig í þessi sömu bankaráð, kjósa alþm. til þess að fara þangað inn. Þess vegna er 3. brtt. mín um það að á eftir 9. gr. komi ný grein er hljóði svo:

„Ráðherra er ekki heimilt að skipa alþm. í bankaráð ríkisviðskiptabankanna.“

Með því að þingflokkarnir kjósi alþm. beint inn í þessi bankaráð verða alþm. holdi klædd sú gerð sem ég lýsti hér áðan þar sem ég álít að þingflokkarnir eigi ekki að kjósa fulltrúa þarna inn. (ÓÞÞ: Við erum nú holdi klæddir fyrir.)

Maður getur spurt: Til hvers eru þessir alþm. þarna? Eru þeir til þess að gæta hagsmuna eigenda bankanna, sem eru þá væntanlega þjóðin í þessu tilfelli? Og menn geta spurt: Hvernig gekk það t. d. í olíumalarmálinu?

Hvað vel gættu þessir fulltrúar þjóðarinnar hagsmuna skattgreiðenda þar? Eitthvað las maður í blöðum nýlega um gjaldþrot sem Landsbankinn var að fást við hjá fyrirtæki sem heitir Tækniþjónustan. Á þennan hátt er hægt að rekja ýmis dæmi. Málið er það nefnilega að alþm. eiga að hafa eftirlit með þessum stofnunum héðan úr Alþingi en ekki að sitja sjálfir í bankaráðum. Alþm. eiga að hafa eftirlit með þeim sem eru kjörnir í þessi bankaráð frekar en að kjósa sig þangað sjálfir.

Oft og tíðum geta þessi mál tekið á sig virkilega undarlegar myndir. Ég held að undarlegust sé nú myndin frá árinu 1983 þegar alþm. var formaður bankaráðs Útvegsbankans og jafnframt stjórnarformaður eins stærsta viðskiptavinar bankans. Á ég þar við núv. fjmrh. Albert Guðmundsson, þáv. alþm., sem var formaður bankaráðs Útvegsbankans og stjórnarformaður Hafskips.

Segjum sem svo að illa hefði farið. Segjum sem svo að fyrirtækið Hafskip hefði lent í verulegum kröggum og menn hefðu þurft að fara að velta því fyrir sér hvort það væri borgunarmaður fyrir skuldum sínum. Hvar hefði alþm. Albert Guðmundsson átt að stilla sér upp þá? Var hann fulltrúi Hafskips? Hefði hann átt að gæta hagsmuna Hafskips? Átti hann að gæta hagsmuna Útvegsbankans? Eða átti hann að rækja sínar skyldur sem eftirlitsmaður hér frá Alþingi? Þetta eru vond dæmi um það hvernig svona rugl getur tekið á sig hinar verstu myndir. Og þrátt fyrir beina aðild alþm. að þessum peningastofnunum getur maður velt því fyrir sér hvernig eftirliti sé í raun og veru háttað með þessum hlutum og hversu öfluglega sé gætt hagsmuna eigendanna, skattgreiðendanna. Sú hugsun leitar á mann að það geti verið ótrúlega erfitt þegar leiðir skerast í hagsmunagæslunni eins og ég talaði um áðan.

Ég bar fram fsp. á Alþingi í vetur til hæstv. viðskrh. sem tengist þessu efni. Þar spurði ég hvort hann sæi ástæðu til að láta fara fram athugun á því hvernig veðum væri háttað fyrir skuldum við lánasjóði og íslenska ríkisbanka. Ég kem nú að því aftur. Þetta rifjaðist upp fyrir mér núna um daginn þegar ég sá ársskýrslu Hafskips sem hélt nýlega aðalfund sinn. Þá rekur maður sig einmitt á svona hluti. Ég held að það sé lærdómsríkt að drepa á þetta í þessari umræðu. Í þessari ársskýrslu er áritun endurskoðenda. Með leyfi forseta segir svo í þessari áritun:

„Framsetning skulda miðast við að afborganir fari fram á umsömdum gjalddögum. Komi til vanskila á umsömdum skuldum getur það leitt til gjaldfellingar þeirra og jafnframt haft veruleg áhrif á söluverð eigna félagsins.“

Þarna er endurskoðandinn að gefa til kynna, vægast sagt, að staðan sé erfið. Mér er sagt af kunnugum mönnum að það sé algert einsdæmi í ársreikningum fyrirtækis að endurskoðandi sjái sig knúinn til þess að setja inn svona yfirlýsingar. Síðar segir, með leyfi forseta:

„Það er álit mitt að ársreikningurinn sé gerður í samræmi við lög og félagssamþykktir og með þeim fyrirvara, sem leiðir af framangreindum atriðum, gefi hann glögga mynd af rekstri samstæðunnar á árinu 1984.

Sem sagt, endurskoðandinn setur í raun og veru fyrirvara um það að félagið standi undir skuldbindingum. Að lesnum þessum áritunum fer náttúrlega ekki hjá því að menn hugsi sem svo: Hvers vegna sér endurskoðandi ástæðu til þess að setja slík ummæli inn í ársskýrslu til hlutafjáreigenda í viðkomandi fyrirtæki? Það kemur líka í ljós, ef maður lítur t. d. á efnahagsreikning, að munur á veltufjármunum og skammtímaskuldum er neikvæður upp á einar 20 millj., en það gefur til kynna að fjármagnsstaða fyrirtækisins sé afar erfið eða fjármagnsrennslið mjög erfitt, svo að vægt sé til orða tekið.

Ef litið er á varanlega rekstrarfjármuni, þ. e. eignir sem hugsanlega stæðu undir einhverjum skuldum, ef maður tekur varanlega rekstrarfjármuni og erlendar langtímaskuldir, þá kemur í ljós að þar er neikvæður mismunur upp á 156 millj. Ef höfð er hliðsjón af því sem segir í áritun endurskoðandans, að sala á eignum félagsins mundi hugsanlega skila minni peningum en bókfært verð þeirra nemur skv. þessum ársreikningi, og svo nýlegum upplýsingum sem ég hef aflað mér um verðmæti skipastóls, þá er ekki ólíklegt að þarna sé kannske um að ræða 200 millj. Og 200 millj. eru næstum því hálft söluskattsstig, svo að notuð sé viðmiðun sem menn hafa nýlega notað hér í sambandi við fjáröflun til húsnæðislána. Þá er augljóst og það er fullkomin ástæða til þess að spyrja hvernig hagsmunir skattborgara séu varðir í þessum tilvikum í ríkisbönkunum vegna þess að við erum að tala um gífurlega mikla peninga.

Það er full ástæða til þess að draga lærdóm af þessu. Við eigum að spyrja hvernig hagsmuna skattborgaranna sé gætt, hvernig þeir séu tryggðir, ekki síst með tilliti til flokkspólitískra tengsla. Ef við rekjum þetta dæmi áfram ættum við að taka t. d. með í reikninginn að fjmrh. sjálfur var fundarstjóri á aðalfundi fyrirtækisins þar sem þessi erfiða staða var kynnt. Fjmrh. var fundarstjóri á aðalfundi þessa sama fyrirtækis við þessar aðstæður.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í ársskýrslu fyrirtækisins bar ég upp fsp. til hæstv. viðskrh. þann 11. júní s. l. Þar lýsti ég því að nokkru fyrr, í maí, hefði ég borið upp fsp. um það hvernig veðum væri háttað við opinbera lánasjóði og ríkisbanka og í svari ráðh. þá kom fram að ekki hefðu borist til rn. neinar athugasemdir um útlán ríkisbanka sem gætu verið tilefni til fyrirspurna bankaeftirlits um hag eða rekstur bankanna. Síðan lýsti ég þessum upplýsingum, sem ég hefði lesið í ársskýrslu þessa tiltekna fyrirtækis, og sagði svo, með leyfi forseta:

„Hér vakna því spurningar, ekki síst með hliðsjón af erfiðum rekstri fyrirtækisins í heild. Hér vakna því spurningar um aðild ríkisbanka, tryggingar fyrir lánum og áhættu ríkissjóðs og skattborgara. Með tilliti til þess er ráðh. spurður hvort hann sjái ástæðu til aðgerða opinberra aðila, svo sem bankaeftirlits, af þessu tilefni og hvort hann muni beita sér fyrir þeim.“

Þetta er lagt fram til ráðh. þann 11. júní. Væntanlega mun hann svara þessum spurningum hér á eftir. En ég vil leggja áherslu á að ég tel að umræða um þessa hluti eigi hér beint erindi, virkilega skírskotun. Við erum að fjalla um stærstu peningastofnanir landsins. Við erum að fjalla um stofnanir sem eru undir flokkspólitískri stjórn og við höfum vítin til að varast þau. Á ára- og áratugalöngum ferli er okkur fullkomlega kunnugt um fjöldamörg dæmi þar sem veð hafa ekki reynst næg. Við verðum að minnast þess á hverjum tíma að við erum að tala um peninga fólksins í landinu og þó að 200 millj. séu kannske ekki stór upphæð í veltu fyrirtækja eins og Hafskips eða Eimskips, sem veltir kannske einhvers staðar á bilinu frá hálfum milljarði upp í einn milljarð, þá erum við samt sem áður að tala um peninga sem í skattheimtu geta verið á bilinu 1/2–1 söluskattsstig. Og við munum hvað gekk á um daginn þegar þurfti að afla ámóta peninga.

Það er full ástæða til að gæta þessara peninga vel, ef við á annað borð eigum þá, eins og þjóðin á í hirslum í ríkisbönkunum. Þess vegna tel ég að það verði að fylgja mjög vel eftir opinberri aðgæslu með þessa hluti og menn eigi að bregðast hart og skjótt við þegar svona upplýsingar koma fram. Þetta minnir okkur að mínu mati á það ómögulega kerfi að banka- og lánastarfsemi í landinu lúti meira og minna flokkspólitískri stjórn. Og þetta er kannske ágætisformáli að því sem ég ætla þá að láta verða endinn á þessari ræðu þar sem ég ætla þá að gera grein fyrir 4. brtt. minni. Hún er um það að inn komi nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:

„Alþingi kýs fimm manna nefnd til þess að annast um að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélagabanka. Skal nefndin ganga frá samþykktum og ákveða hlutafé hvers banka miðað við eignir hans og viðskiptastöðu í samráði við bankaráð, bankaeftirlit og endurskoðendur hvers banka. Breyting ríkisviðskiptabanka í hlutafélagabanka skal eiga sér stað eigi síðar en 1. jan. 1987 og falla þá úr gildi sérákvæði laga um ríkisviðskiptabanka, eftir því sem við á.

Nefndin skal bjóða hlutabréf bankanna til sölu á frjálsum markaði þegar að loknum stofnfundum þeirra. Enginn einn hluthafi má kaupa meira en 5% hlutafjár.

Umboð nefndarinnar til sölu hlutabréfa fellur niður 31. des. 1987. Óseld hlutabréf skulu þá falin í vörslu viðkomandi banka og skulu bankaráð annast sölu þeirra.

Viðskrh. fer með atkvæði óseldra hlutabréfa á aðalfundi.“

Það þarf út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð um þetta nú eftir það sem ég hef sagt hér að framan. Ég held að það væri einhver mesta hreingerning sem hægt væri að gera í íslenskum stjórnmálum að taka banka- og lánastarfsemi þjóðarinnar þar út af fyrir sviga. Ég held að þessi gamli skikkur, að hafa þessar stofnanir undir beinni flokkspólitískri stjórn, hafi gert kannske allra hluta mest ógagn af þeim einstöku einkennum á íslensku samfélagi og íslensku stjórnkerfi sem við höfum fyrir augum í dag. Eins og ég hef sagt áður verðum við sífelli að leita skýringa á því að við bökum einhverja stærstu þjóðarköku í heimi, en þegar fólkið fær sneiðina sína situr það uppi með einhverja minnstu þjóðarkökusneið á Vesturlöndum. Og kannske er þetta ein skýringin. Kannske er ein af stóru skýringunum á því hvernig þetta mylst niður sú, að við glutrum þessu niður, töpum þessu t. d. í afleitu fyrirkomulagi í bankakerfinu vegna þess að þar eru milljónahundruðin fljót að fara ef áföllin verða stór.