18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6778 í B-deild Alþingistíðinda. (6048)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður né fara mörgum orðum um þær brtt. sem fluttar hafa verið af fulltrúum minni hl. fjh.- og viðskn. Ég vil þó taka fram um það efni, vegna till. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. og vegna þeirra ummæla sem hv. 4. landsk. þm. viðhafði af því tilefni, að fulltrúar Sjálfstfl. í bankamálanefnd lögðu til að ríkisbönkunum yrði breytt í hlutafélög. Um það varð ekki samstaða í nefndinni og. eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh., ekki meirihlutasamstaða á Alþingi. Það er hins vegar skoðun Sjálfstfl. að þetta væri eðlileg skipan. Það er ljóst að ríkisbankar verða ekki seldir í einu vettvangi en það væri frá mínum bæjardyrum séð æskilegt að gera þá að hlutafélögum. Um þetta hefur hins vegar ekki orðið samstaða. Það var að tillögu bankamálanefndar sem viðskrh. setti á fót sérstaka nefnd sérfróðra manna til þess að gera tillögur um uppstokkun og samruna í bankakerfinu. Meðan sú nefnd hefur ekki lokið störfum tel ég óþarft að gera frekari samþykktir í þessu efni, en ítreka eigi að síður stefnu Sjálfstfl. í þessu efni sem fram kom í bankamálanefndinni.

Varðandi tillöguna frá fjh.- og viðskn. á þskj. 1299, sem ég gerði grein fyrir hér í upphafi, vil ég taka fram að hún miðaði að því, eins og hún var fram sett, að gefa þeim aðilum sem nú eiga hlutafé í viðskiptabönkum fimm ára frest til þess að laga sig að ákvæðum 2. málsgr. 5. gr. þar sem tæmandi er upp talið hvaða aðilar geti verið hluthafar í bönkum. Það hefur hins vegar orðið að samkomulagi að finna lausn á þessu vandamáli með öðrum hætti og ég tók það fram í framsöguræðu fyrir áliti meiri hl. að hann væri fús til þess að stuðla að lausn á þessum vanda með öðrum hætti, ef hugmyndir kæmu fram þar um, og sú hefur orðið raunin með þeirri brtt. sem flutt er á þskj. 1330 af okkur hv. þm. Svavari Gestssyni og hann hefur þegar gert grein fyrir. Hún felur það í sér að efnisákvæði 2. mgr. 5. gr., þar sem upp eru taldir þeir aðilar sem gerst geta hluthafar, eru felld niður. Þar með eru engar hömlur á því að þeir aðilar, sem utan þessarar skilgreiningar falla en eiga hlutabréf í núverandi bönkum, geti haldið því áfram og geti aukið hlutafjáreign sína í þeim bönkum eða öðrum, eftir því sem þróun mála segir til um.

Í stað þessa hefur verið skotið inn ákvæði í núverandi 3. mgr. þar sem kveðið er á um að allt hlutaféð skuli vera í íslenskri eigu, en megintilgangur 3. mgr. var sá að tryggja það sjónarmið, sem hefur verið ríkjandi, að bankarnir skyldu vera í eigu íslenskra aðila. Þetta er einfaldlega tekið fram berum orðum í brtt. þeirri sem flutt er á þskj. 1330 og með því tryggt það sjónarmið og enn fremur hagsmunir þeirra aðila sem utan garðs féllu.

Ég ítreka það að meiri hl. fjh.- og viðskn. stendur að þessari till. á þskj. 1330 og um leið er dregin til baka till. meiri hl. á þskj. 1299.