18.06.1985
Neðri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6795 í B-deild Alþingistíðinda. (6075)

423. mál, viðskiptabankar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég er fyllilega sammála því sjónarmiði sem fram kom hér hjá hv. þm. Ellert B. Schram um það að eðlilegast og réttast væri að um þetta væru óskráð lög sem menn fylgdu. Það hefur verið stefna Alþfl., og hann hefur hagað sér samkvæmt henni, að setja ekki alþm. í viðskiptabankana áratugum saman. Við höfum boðað þessa stefnu. Það hefur ekki borið árangur hjá öðrum flokkum og úr því að menn sameinast ekki um siðgæðishugmyndir af þessu tagi af fúsum og frjálsum vilja þá er náttúrlega eina ráðið að setja það í lög. Ég hefði að vísu kosið að orðalagið á tillögunni hefði verið svolítið öðruvísi, t. d. að alþm. væru ekki kjörgengir í bankaráð, frekar en að óheimilt sé að setja þá í þau. Engu að síður, með hliðsjón af því sem ég hef sagt um það að hin óskráðu lög hafa ekki náð fram að ganga, tel ég ekki annars kost en að setja þetta í lög og segi já.