19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6941 í B-deild Alþingistíðinda. (6270)

210. mál, selveiðar við Ísland

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Mjög erum tregt tungu að hræra. Hér er komið annað af óskafrv. þessarar þjóðar og það hefur talsvert verið rætt og eftir því hefur þó nokkrum sinnum verið óskað að það yrði tekið til umræðu.

Ég ætla ekki að hafa langt mál að þessu sinni, en ég ætlaði að benda á nokkur atriði sem komu fram í fyrri hluta umr. sem fór nú fram fyrir talsvert löngu.

Fyrsta atriðið og kannske meginatriðið er að það er augljóslega mjög mikill ágreiningur um þetta mál. Þessi ágreiningur kemur t. d. fram milli núverandi landbrh. og núverandi sjútvrh. þar sem togast er á um fjöldamörg ákvæði þessa máls og hver vill hafa sinn skækilinn. Skv. fjöldamörgum lagaákvæðum heyra selamál að verulegu leyti undir landbrn. Skv. frv. sem hér liggur fyrir eru þessi mál hins vegar alfarið tekin undir sjútvrn. Það er hvorki í samráði við né að vilja núverandi landbrh., ef ég man rétt úr fyrri hluta umr.

Annað atriði, sem ég tel að bendi til sams konar ágreinings, er að sömu aðilar í fyrri ríkisstj. voru heldur ekki sammála um málið. Þetta mál er arfur frá fyrri ríkisstj. Það var samið af nefnd sem sett var á stofn í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, sem var landbrh. í þeirri ríkisstjórn, að hann átti ekki hlut að því að frv. var samið þá, enda virðist það hafa verið samið að tilhlutan þáverandi sjútvrh. sem er nú hæstv. forsrh. Þannig er augljóst mál að um þetta var ágreiningur í fyrri stjórn líka. Þannig er sem sagt augljóslega sami ágreiningur milli núverandi landbrh. og sjútvrh. og var á milli fyrrverandi landbrh. og sjútvrh., ráðh. þeirrar stjórnar sem eiginlega átti hlut að upprunalegri samningu málsins.

Í þriðja lagi kom fram á þessu þingi í ræðu hv. þm.

Pálma Jónssonar verulega mikil andstaða og mjög miklar athugasemdir við frv. sem hann gerði grein fyrir í löngu og yfirveguðu máli. Ég hvet menn til að kynna sér þá ræðu áður en þeir taka lokaafstöðu til afgreiðslu málsins út úr þinginu núna.

Þarna er sem sagt augljóslega um að ræða mál sem ekki hefur verið kappkostað að ná neinu samkomulagi um í málsmeðferð þó að allir séu hins vegar sammála um að mikið liggi við að niðurstaða fáist. Með tilliti til þessara dæma um ágreining, sem ég hef rakið, svo og afstöðu aðila eins og Búnaðarfélags og Náttúruverndarráðs finnst mér augljóst að ástæða sé til að taka málið upp að nýju og skoða það vel. Þetta mál er þess eðlis að það er verið að reyna að ná samkomulagi í mjög viðkvæmu deilumáli og þess vegna ríður á miklu að farið sé með löndum og að fullt samkomulag náist milli allra málsaðila. Það er frumskilyrði. Annars næst ekki það markmið, sem menn hafa hugsað sér með þessu selamáli, að koma eðlilegum og góðum skikk á veiðar og rannsóknir sela og að þar náist sæmilegur samhugur um og öllum þyki tekið tillit til sinna sjónarmiða.

Ég hef margítrekað, bæði á þessu þingi og á síðasta þingi, með fyrirspurnum og umræðum um þingsköp og fleira, að ástæða sé til að setja lög um rannsóknir og veiðar á sel og mér er mjög vel ljós sá vandi sem fiskvinnslan stendur frammi fyrir vegna hringorms. Það komu síðast fram upplýsingar um það í gær að menn töldu þann vanda stóran. Það er óumdeilt að hann er vandamál og að það eru gífurlegir fjármunir sem fara í súginn vegna ormatínslu og vegna lélegri nýtingar sem af þessu hlýst. Vegna þessara miklu hagsmuna, sem augljóslega eru í veði, er mér umhugað um að aðgerðir í þessum efnum séu markvissar, bæði til að nýta vel það fé sem nú er notað til rannsókna og veiða á sel og til að hefja megi vel grundaðar aðgerðir til fækkunar sela ef menn sjá það sem hið eina svar, og að það komi líka mjög verulegt framlag af hálfu ríkisvaldsins til að hægt sé að vinna að þessu.

Ég tel mig alls ekki neinn selverndunarmann. Ég vil að selur sé veiddur og að hann sé nytjaður. Af honum er hægt að hafa margvísleg not eins og menn hafa bent á. Ef í ljós kemur að hægt sé að hafa áhrif á hringormatíðni með því að fækka selnum og bæta þannig afkomu fiskvinnslu tel ég að slíkum aðgerðum eigi að beita. Hins vegar vil ég benda þm. og þeim sem um þetta mál þurfa að fjalla á mjög verulegar athugasemdir sem ég held að menn verði að gefa gaum. Það eru athugasemdir sem komu fram í bæklingi sem heitir „Selir og hringormar“. Þar er bent efnislega á það sem kunnáttumenn telja talsverðar veilur í „rannsóknarpólitíkinni“ á bak við þetta mál. Ég held að menn geti ekki verið þekktir fyrir annað en að taka á þessu fullt mark. Þess vegna vil ég ítreka að það sé farið vel ofan í saumana á þessu og að menn búi þannig um hnútana að það leiði til þeirrar sáttar sem er óumflýjanleg.

Mér finnst ýmislegt varðandi vinnubrögð við þetta mál alls ekki nógu gott. Ég vek t. d. athygli á að ég hef skrifað bréf til hringormanefndar sem hefur aðsetur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Skúlagötu 4 í Reykjavík. Þar þakka ég athugasemdir sem mér bárust við ritið „Selorma og seli“. Ég óskaði í þessu bréfi eftir því að nefndin sendi mér eintök af rannsóknarskýrslum nefndarinnar og starfsfólks hennar og greinum og öðrum gögnum sem gætu varpað ljósi á störf hennar og það hvernig hún markar sína selafækkunarstefnu. Mér hefur ekkert svar borist við þessu bréfi. Mér hefur ekki borist nein afsögn. Þeir hafa ekki lýst því yfir að þessar upplýsingar liggi ekki á lausu. Þeir hafa einfaldlega alls ekki svarað þessu. Ég vildi nú beina því til hæstv. ráðh., sem ég held að hljóti að hafa yfir þessari nefnd að segja, hvort hann gæti ekki stuggað við henni og athugað hvaða upplýsingaskyldu hún telji sig eiga við alþm. hv. Alþingis.

Ég vildi einungis fylgja þessu máli úr hlaði eftir þá löngu hvíld sem það hefur hlotið með þessum almennu athugasemdum þar sem ég minni á þann augljósa og viðamikla ágreining sem er um málið af hálfu landbrh. og sjútvrh. í núverandi stjórn og af hálfu ráðh. sömu málaflokka í fyrrverandi stjórn. Ég bendi á efasemdir, ágreining og andstöðu við málið sem kom fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar og ef ég man rétt Stefáns Valgeirssonar. Ég minni enn á þá brtt. sem ég flutti við þetta mál þar sem ég hvatti til að öðruvísi nefnd væri skipuð. Hún væri raunverulega skipuð til ráðgjafar ráðh. í þessu máli. Sú till. mín er af sama toga, þ. e. ég legg mikla áherslu á að þannig sé unnið að málinu að um það megi nást sæmileg sátt.

Ég ætla ekki að tala lengur vegna þess að ég tel ástæðu til þess að Alþingi afgreiði þetta mál á þinglegan máta en ég tel að sú afgreiðsla ætti raunar að vera sú að málið verði tekið upp aftur af hálfu ríkisstj. til endurskoðunar og lagt fyrir aftur í haust til að eyða þeim ágreiningi sem augljóslega hefur komið upp við meðferð málsins.