20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6984 í B-deild Alþingistíðinda. (6345)

60. mál, þjónusta vegna tannréttinga

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. 10. landsk. þm. skrifaði ég undir þetta nál. með fyrirvara. Þeir sjúkdómar sem hér um ræðir eru sjúkdómar sem yfirleitt má rekja til skorts á fyrirbyggjandi aðgerðum við tannhirðu og eftirliti með vexti og þroska tanna. Ég lét það koma fram í nefndinni og vil að það komi fram hér líka að ég tel að þeim fjármunum sem þarna um ræðir, hvort sem um er að ræða þann kostnað sem greiddur er vegna ferða sjúklinga eða kostnað vegna þeirrar fjárfestingar sem hér er í raun og veru verið að benda á að fara skuli út í frekar en þessar kostnaðargreiðslur, þessum peningum sé hugsanlega enn betur varið í fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma megi í veg fyrir að leggja þurfi í þennan kostnað.