20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7026 í B-deild Alþingistíðinda. (6415)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skora nú á forseta að halda þannig á fundarstjórninni að það verði rætt um þingsköp hið fyrsta þannig að menn geti komist að þeim verkum sem liggja fyrir Nd. Það hefur verið rætt að undanförnu um brýna nauðsyn þess að ljúka þinginu næstu sólarhringa og þegar hv. þm. bregðast við með þeim hætti eins og hv. þm. Halldór Blöndal gerði hér áðan er það staðfesting á nauðsyn þess að þm. þurfa að fara að komast í frí eftir þau miklu störf sem hafa verið lögð á þm. að undanförnu.

Hitt, sem hæstv. félmrh. vék að áðan, er innra mál stjórnarflokkanna sem mér kemur ekki við að öðru leyti en því að það má benda á að það sem snýr að almenningi, að Framsfl. hefur verið beygður í húsnæðissamvinnufélagamálinu þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar hæstv. félmrh. í þeim efnum, er ekkert nýtt, en það liggur nú fyrir í staðfestum þskj., bæði prentuðum og prentuðum upp.