20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7026 í B-deild Alþingistíðinda. (6417)

Um þingsköp

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa orð mín fá. Ég er mjög sáttur við túlkun virðulegs forseta áðan og vonast til að við þurfum ekki að deila lengur um þau efnisatriði málsins.

Til frekari skýringar, ef það mætti verða til að menn skildu hvað gerðist, vil ég taka það fram að starfsmenn Alþingis hafa tjáð mér eftir samtöl við starfsmenn Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg að ástæður þessarar misprentunar hafi verið þær að fleiri en ein útgáfa af téðu frv. hafi verið tilbúnar, settar inn í prentsmiðju, og fyrir smávægileg mistök, eins og þau að styðja á rangan takka, hafi öfug útgáfa komið fram í fyrra tilfellinu. Ég bendi mönnum á það, trúi þeir ekki þeim ásetningi flm. í báðum tilfellum að leggja fram frv. óbreytt eins og það kom frá nefnd hæstv. félmrh., að greinargerð okkar stjórnarandstöðuþm. hefst á því að við leggjum fram óbreytt frv. eins og það kom frá nefndinni.

Ég vil taka fram vegna orða hæstv. félmrh. áðan að í framsöguræðu minni óskaði ég eftir nærveru hans, mætti hún verða okkur í té látin, en það var upplýst að félmrh. væri ekki viðstaddur. Engu að síður sætti ég mig við að halda áfram máli mínu og ljúka umr.