12.11.1984
Neðri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

87. mál, land í þjóðareign

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hin þrítekna setning, sem verður hv. þm. Pálma Jónssyni tilefni til ræðuhalda hér, átti vitaskuld við þann dóm sem hér var um að ræða, en að öðru leyti getur verið ástæða til þess að ítreka fáein atriði.

Eins og fram kemur í grg. með frv. og ég tel að komið hafi fram í ræðu minni þá er hér um það að tefla að í tilteknu dæmi hefur Hæstiréttur úrskurðað að það sé í raun enginn eigandi að afréttum í því dæmi. Og það gerist með þeim hætti að eignarrétti heimamanna er alfarið synjað og meiri hlutinn telur að ríkið hafi ekki sannað sinn rétt, en jafnframt ljóst að Alþingi geti ákvarðað eignarrétt ríkisins með lögum og slík löggjöf yrði ekki metin sem eignarnám.

Þá vil ég á það benda að ekki er verið að alhæfa um alla afrétti í því frv. sem hér er flutt, heldur einungis eins og segir í 1. gr. frv.: „Þau landsvæði skulu teljast þjóðareign sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir,“ þ.e. þau landsvæði sem sama gildir um eins og þau afréttarsvæði sem hinn tilvitnaði hæstaréttardómur gekk um.

Hv. þm. Pálmi Jónsson taldi að mál þessi væru betur komin í höndum landbrn. Mér þykir sjálfsagt og eðlilegt að það sé íhugað hvort umsjón með nytjum landsins, þ.e. nytjun afréttanna til beitar o.þ.h. í þágu landbúnaðar skuli vera í höndum landbrn. sem fer með slík mál. Það á að vera regla hjá okkur að eignir ríkisins heyri undir fjmrn. og þess vegna er hér gert ráð fyrir því að fjmrn. annist framkvæmd þessara laga og hafi umsjón og eftirlit með þessum eignum. En ef það má verða einhverjum til hugarhægðar að nytjum í þágu landbúnaðar skuli fara um hendur landbrn. þá er sjálfsagt að taka það til íhugunar.

En varðandi eignarréttinn sjálfan þá er það tekið fram í 5. gr. frv. að fjmrn. skuli láta kanna eignarrétt á landinu og landgæðum utan heimalanda lögbýla svo að ekki þarf hv. þm. Pálmi Jónsson að hafa áhyggjur af bréfum vegna heimalanda lögbýla. Hann vitnaði hér til þess að það kynnu að vera glötuð einhver skjöl aftan úr forneskju. Ég hef enga trú á því að menn ætli sér að fara út í einhverjar hártoganir þess vegna. Ég bendi sem sagt á að í 5. gr. frv. er það tekið fram að hér sé um könnun á eignarrétti lands að ræða sem er utan heimalanda lögbýla. Það eru meira að segja sett rúm tímamörk á þetta verkefni. Samkvæmt sömu 5. gr. er stefnt að því að þessari könnun skuli vera að fullu lokið árið 1995.

Og í þriðja lagi, varðandi þetta mál, þá er það ekki ætlun okkar flm. frv. að fjmrn. skuli á neinn hátt taka sér dómsvald eða úrskurðarvald ef um ágreining er að ræða. Því að í þessari sömu 5. gr. segir: „Þar sem óvissa þykir ríkja um eignarrétt og land eða landgæði og kynnu hugsanlega að vera þjóðareign, sbr. 1. gr. laga þessara, skal leita úrskurðar dómstóla um eignarréttinn.“

Seinasti punkturinn í máli hv. ræðumanns Pálma Jónssonar var sá að með þessu móti fengju lögfræðingar mikið að starfa og að við hefðum öðru þarfara að sinna. Ég held að þetta sé býsna þarft starf fyrir lögfræðinga og langtum þarfara að þeir sinni þessu starfi, sem varðar þjóðina alla, heldur en fasteignaviðskiptum í þeim mæli sem þeir gera. Hér sé einmitt fundið starf fyrir lögfræðinga að því leyti sem til þess þarf að grípa.