20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7045 í B-deild Alþingistíðinda. (6454)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem ég fékk hér áðan hjá honum. Vissulega gat enginn skilið það öðruvísi, sem hlustaði á hann gefa stórar yfirlýsingar um sameiningu banka skömmu eftir nýár, en að til stæði að koma því í framkvæmd í tengslum við bankalöggjöf á þessum vetri. En það hefur ekki orðið. Ég fagna því hins vegar að hann er ekki fallinn frá áformi sínu og vænti þess svo sannarlega að stjórnmálaflokkarnir á Alþingi taki höndum saman um að hrinda því álormi í framkvæmd.

En ég vildi leyfa mér að bæta hér fáeinum orðum við og skal þó reyna að vera eins stuttorður og ég get því að ég vil gjarnan reyna að hraða þingstörfum á þessu kvöldi. Vegna þess að hér er verið að ræða starfsemi viðskiptabankanna get ég ekki hjá því komist að vekja athygli alþm. á því að í dag hefur verið útbýtt svari viðskrh. við fsp. Guðrúnar Helgadóttur um mismunandi álagningu vaxta af innheimtum veðskuldabréfum. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir benti á það að bankar og sparisjóðir gerðu kröfu til viðskiptamanna um mismunandi vexti af veðskuldabréfum sem væru í innheimtu og gæti munað verulega miklu hvað einn banki léti greiðendur gjalda miðað við það sem væri hjá öðrum banka. Hún lagði því þessa fsp. fyrir viðskrh. og þar með líka þá spurningu hvort ágreiningur hefði orðið milli Seðlabanka Íslands og annarra banka um útdeilingu vaxta af veðskuldabréfum og þá hvort þeim ágreiningi hefði verið skotið til dómstóla.

Nú hefur viðskrh. svarað þessari fsp. Guðrúnar. Það kemur á daginn að hún hefur vakið hér athygli á mjög sérkennilegu máli vegna þess að það er ekki nóg með að bankarnir geri þetta. Ef maður á t. d. fimm veðskuldabréf og setur þrjú þeirra til innheimtu í einn banka og tvö í annan banka verður skuldarinn að greiða mismuninn á bréfunum og getur munað upphæðum sem nema tugum þúsunda á tiltölulega lágum upphæðum.

Það er ekki nóg með þetta heldur felst það í svari viðskrh. að þetta er með öllu ólögmætt og stríðir gegn þeim reglum sem Seðlabankinn hefur sett. Ég vil vekja athygli á þessu svari sem hefur verið dreift hér í dag og um leið nota tækifærið og spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort hann hljóti ekki að grípa til aðgerða í framhaldi af þessu svari sinu þannig að lántakendur nái rétti sínum.