20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7049 í B-deild Alþingistíðinda. (6462)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Eins og hérna hefur margoft komið fram er hér um þríburamál að ræða, þrjú mál náskyld þar sem móðurstofnunin, Framkvæmdastofnun ríkisins, er lögð niður en þrjár dótturstofnanir verða til og taka við hlutverki og heimildum gömlu stofnunarinnar. Ein af þessum dótturstofnunum er hinn gamli Framkvæmdasjóður sem rekja má allt aftur til Framkvæmdabankans gamla. En nú eiga það að verða örlög hans að ganga niður í vasa forsrh. og eru það æði ömurleg örlög. Þessi sjóður hefur verið undir lýðræðislegri þingkjörinni stjórn í bráðum 20 ár. Ég hef gert grein fyrir því þegar að við Alþb.-menn teljum þessar breytingar til hins verra af ýmsum ástæðum og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau rök en minni á að við gerum þá till. að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.