13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi nefnd, sem hér er nokkuð rætt um, var skipuð samkv. yfirlýsingu formanna flokkanna þegar kosningalögunum var breytt. Það var auðvitað ætlast til þess að það yrði unnið samkv. þessari yfirlýsingu. Nú kemur í ljós að einn nm. stjórnarflokkanna lýsir því yfir að þessi nefnd muni engu skila að gagni, hún sé ónýt með öllu. Þar með sé ég ekki betur en annar stjórnarflokkanna líti svo á að starfsemi þessarar nefndar sé markleysa. Ég tel það ákaflega alvarlega yfirlýsingu. Það er óhjákvæmilegt að þeir aðrir sem stóðu að þessari yfirlýsingu formanna flokkanna á sínum tíma íhugi þessi mál mjög vel í ljósi þess sem fram hefur komið hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni. Ef þessi nefnd ætlar ekki að skila neinu er ekki staðið við það sem lofað hafði verið og á að standa við.

Í öðru lagi, herra forseti, tók hæstv. forsrh. þannig til orða að hann hefði kallað nefndina saman og í rauninni kæmi nefndin honum ekki við eftir það. Þetta er nokkuð athyglisvert. Vill þá hæstv. forsrh. líta þannig á að þessi nefnd sé ekki á vegum ríkisstj.? Ef svo er hlýtur nefndin að vera á vegum Alþingis, þ.e. á ábyrgð hæstv. forseta Sþ. Ef þessi afstaða er rétt, sem út af fyrir sig getur verið, held ég að eðlilegt væri fyrir formenn flokkanna, sem stóðu að yfirlýsingunni á sínum tíma, að snúa sér að hæstv. forseta Sþ. og knýja á um að hann sjái til þess að nefnd þessi vinni eins og ætlast verður til að hún geri. Ég mun fyrir mitt leyti ræða þetta mál sérstaklega við forseta Sþ. eftir þær alvarlegu upplýsingar sem fram koma hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, sem svo að segja drap nefndina af hálfu Framsfl. áðan, og einnig eftir þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. og formanns Framsfl. að nefndin komi Framsfl. og forsrn. a.m.k. ekkert við.