20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls ræddi ég um efni þess allítarlega og hef ekki þar mörgu við að bæta. Fulltrúi Alþb. í hv. iðnn., Skúli Alexandersson, hefur líka gert glögga grein fyrir meginsjónarmiðum okkar Alþb.-manna og í mjög ítarlegu og vönduðu nál., sem hann hefur gefið út, er að finna mjög vel rökstudda greinargerð um þau efnisatriði sem við höfum sérstaklega fært hér fram því máli okkar til stuðnings að fella beri þennan samning.

Ég minnti á það þegar málið var hér til 1. umr. að það væru fyrst og fremst fjögur meginatriði sem væru því valdandi að við Alþb.-menn værum eindregið andvígir þessum samningi.

Í fyrsta lagi bentum við á að orkuverðið væri of lágt. Í grg. og nál. Skúla Alexanderssonar er mjög ítarlega farið út í að rökstyðja þessa fullyrðingu okkar og hygg ég að ekki sé annars staðar að finna í málsskjölum betri grg. um orkuverðið til ÍSALs, en einmitt í þessum skjölum sem hér hafa verið lögð á borð þm. Ég vil sérstaklega benda á að á bls. 12 er minnt á skipun starfshóps sem í áttu sæti sérfræðingar frá Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og Landsvirkjun og fjölluðu um þá spurningu hvert væri orkuverð til álvera í Evrópu og Norður-Ameríku. Niðurstaða þessarar nefndar, sem skipuð var sérfræðingum frá öllum helstu stofnunum íslenska lýðveldisins á þessu sviði, voru þær að raforkuverð til álvera á árinu 1981 væri frá 18.2 og upp í 20.6 mill í Norður-Ameríku og Evrópu á árinu 1981, en 22.6–25.6 mill á árinu 1984. Þetta ættu menn að hafa til hliðsjónar og í huga þegar menn eru að hlusta hér á fullyrðingar um að raforkuverðið til álvera í nálægum löndum sé annað og miklu minna en varð niðurstaða þess starfshóps, einróma niðurstaða. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að lágmarksverð á orku, sem seld væri Swiss Aluminium eða ÍSAL, ætti að vera 15–20 mill. Það er auðvitað langt frá því að þeim árangri hafi verið náð.

Eins og kunnugt er eru allar horfur á því að næstu 5 árin verði meðalverðið á orkunni til ÍSALs um 13.7 mill. Því er mjög veifað og m.a. af einum hv. þm. Gunnari G. Schram, í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið líklega í gær (GGS: Í dag.) eða í dag að grunnverðið teljist 15 mill. Það er alveg rétt að talað er um grunnverðið 15 mill, en það er auðvitað ekkert annað en blekking að því leyti að það eru allar horfur á því að meðalverðið verði miklu lægra. Þetta grunnverð er ekki það verð sem er líklegt að við fáum eða samningar í meginatriðum miða við. Það er ósköp einfaldlega grunnstærð sem þarna er valin, mitt á milli 12.5 og 18.5 milla, og hefur enga þýðingu hvað snertir raunverulegt verð á orku til álhringsins. Ég benti á það við 1. umr. málsins að raunverulegt verð á orku frá Landsvirkjun á árinu 1983 væri 20 mill á kwst., þ.e. 19.8 mill. Við heyrum það hins vegar frá talsmönnum þessa samnings að raunverulegt verð á orkunni frá Landsvirkjun sé 16 mill og það er sú tala sem glymur stöðugt í eyrum. En það er fróðlegt fyrir menn að átta sig á því hver er munurinn á þessum tveimur tölum. Lægri talan, 16 mill, er fengin með því að miða við fræðilega hámarksraforkusölu Landsvirkjunar alveg óháð því hvort virkjunin hefur yfirleitt selt slíkt orkumagn eða ekki. Það er miðað við það sem kallað er sölupunktur á árinu og sölupunkturinn er það sem væri fræðilega hugsanlegt að Landsvirkjun seldi á hverjum tíma. Það er hins vegar viðurkennd staðreynd að á undanförnum árum, það er auðvelt að sýna fram á það og sanna það, hefur raunveruleg raforkusala Landsvirkjunar úr eigin kerfi einungis numið 80% af sölupunkti þessa árs. Það er þessi munur sem gerir að verkum að í öðru tilvikinu kemur út talan 20 mill og í hinu tilvikinu kemur út 16 mill. Ég miðaði hér við raunverulega meðalsölu Landsvirkjunar á orku, en talsmenn þessa frv. og þar á meðal talsmenn Landsvirkjunar eru stöðugt að tala um þetta akademíska hugtak, sölupunkt á árinu, hámarksframleiðslu, afköst virkjunarinnar fræðilega séð.

Í þessu sambandi verður líka að hafa í huga, eins og ég benti á við 1. umr. málsins, að tölurnar sem nefndar eru í þessum samningi eru ekki raunverð til lengdar vegna alþjóðlegrar verðbólgu, vegna verðrýrnunar dollarans á komandi árum, en gera má ráð fyrir því að dollarinn rýrni að meðaltali um ekki minna en 5% á ári á komandi áratugum. Auðvitað getur enginn spáð neinu um það hver sú rýrnun verður, en kunnugir telja ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir a.m.k. 5% verðbólgu, raunar 5.6 eftir því sem haft er eftir þeim spám sem kenndar eru við Data Resources þar sem mjög hefur verið um þessi mál fjallað og mikið er miðað við. Þessi alþjóðlega rýrnun dollarans og þessi rýrnun alþjóðlegra mynta kemur til með að valda því að þessar tölur, 18.5 og 12.5, geta orðið algjörlega óraunhæfar tölur að tiltölulega skömmum tíma liðnum. Ég tala nú ekki um ef svo færi, sem margir spá, að dollarinn eigi eftir að rýrna verulega í verði miðað við aðrar myntir, það sé ekki einungis hin alþjóðlega þróun sem má gera ráð fyrir að feli í sér 5% rýrnun alþjóðlegra mynta burtséð frá innbyrðis gildi þeirra. Það gæti sem sagt gerst að til viðbótar kæmi veruleg rýrnun dollarans miðað við aðrar myntir. Sumir spá því að gera megi ráð fyrir allt að 18% rýrnun dollarans miðað við aðrar myntir á næstu fjórum árum. Þetta eitt breytir tölum samningsins og viðmiðunum mjög verulega og gegn hvorugu þessu erum við Íslendingar tryggðir því að samningurinn er algerlega óverðtryggður þrátt fyrir það þótt ráðgjafi Landsvirkjunar hafi lagt mjög þunga áherslu einmitt á það atriði að það yrði að verðtryggja tölur samningsins með einum eða öðrum hætti og þá væntanlega helst með því að miða við hugsanlega aukinn framleiðslukostnað Landsvirkjunar reiknað í einhverri alþjóðlegri mynt, væntanlega dollurum, þann aukna framleiðslukostnað sem hlýst af því að alþjóðlegar myntir og raunar allar myntir rýrna í verði. En það var ekki hlustað á þennan sérfræðing Landsvirkjunar. Þetta telja margir að sé kannske stærsti ágallinn á þessum samningi, að tölurnar í samningnum eru ekki verðtryggðar. Staðreyndin er sú að ekki er ósennilegt að tölur sem í dag heita 18.5 mill verði í raun orðnar 6 mill að tiltölulega fáum árum liðnum. Þær tölur sem heita hér 12.5 mill eru þá komnar niður í 4 mill ef sú þróun verður sem menn telja í dag líklegasta í alþjóðlegum gjaldmiðlum og ef ekki næst fram breyting á þessum samningi að fimm árum liðnum.

Þá er ég kominn að atriði nr. 2, sem við gagnrýndum mjög alvarlega strax við 1. umr. málsins, en það er að endurskoðunarákvæði samningsins eru ekki nægilega tryggð. Það er ljóst að endurskoðun samningsins á fyrst og fremst að byggjast á því hvort þörf er fyrir Landsvirkjun á raforkuverðshækkun vegna afkomu sinnar. Nú er það vitað að Landsvirkjun verður að haga verðlagningu á innlendri orku á þann veg að afkoma fyrirtækisins sé tryggð. Við Íslendingar höfum ekki efni á því að stefna þessu fyrirtæki í gjaldþrot vegna þess eins að við þurfum á röksemdum að halda gagnvart þessum erlenda auðhring. Við verðum auðvitað að hækka orkuverðið til innlendra nota í réttu hlutfalli við afkomu fyrirtækisins og þar af leiðandi er hætt við að eftir 5 ár og eftir 10 ár verði afkoma fyrirtækisins út af fyrir sig ekki svo slæm að það eitt út af fyrir sig réttlæti endurskoðun raforkusamningsins. Menn sjá sem sagt í hvers konar hnappheldu við Íslendingar erum settir. Við verðum að tryggja afkomu þessa fyrirtækis vegna þess að þetta er eitt af undirstöðufyrirtækjum íslenskra atvinnuvega og íslensks efnahagslífs, en vegna þess að við verðum að tryggja afkomu fyrirtækisins með hækkun á innlendu orkuverði glötum við möguleikum til þess að bera fram sterkar röksemdir sem gætu haft í för með sér hækkun raforkuverðsins til Alusuisse. Þetta er svo sannarlega þokkalegur vítahringur sem við höfum verið settir í.

Þriðja atriðið sem við höfum sérstaklega gagnrýnt er að álverinu verði veittur forgangsréttur að nýrri orku. Auðvitað er það algert einsdæmi að ríkisstj. lofist til þess með sérstökum bréfaskriftum að afhenda Alusuisse bréf þar sem tilgreind verði fyrirhuguð kjör og skilmálar varðandi raforku frá Landsvirkjun, án þess að nokkuð sé vitað um á hvaða verði við ætlum að selja orkuna eða hver útkoma verður á skattaviðskiptum þjóðarinnar við þetta fyrirtæki á komandi árum. Ég verð að ítreka hér þá kröfu sem sett er fram í nál. Skúla Alexanderssonar og krefjast þess að ríkisstj. sendi ekkert bréf af þessu tagi fyrr en hún hefur ráðfært sig við alla þingflokka og við Landsvirkjun, en mér hefur skilist að þetta mál hafi verið tekið fyrir í stjórn Landsvirkjunar og hún hafi fyrir sitt leyti hafnað því að senda Alusuisse slíkt bréf þar sem raforkuverð til stækkaðs álvers yrði gefið upp áður en frá samningum um stækkunina yrði gengið að öðru leyti.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh. hvað hann hafi í huga í þessu sambandi. Hvenær hefur hann hugsað sér að bréf af þessu tagi verði sent til Alusuisse? Og hvert á innihald þess að verða? Og hverja ætlar hann að hafa með í ráðum áður en hann skrifar þetta bréf? Verður Alþingi haft með í ráðum og verða allir þingflokkar hafði með í ráðum, eins og var í tíð fyrri stjórnar þegar iðnrh. kom úr Alþb. og taldi það sjálfsagt að allir þingflokkar, þar á meðal stjórnarandstöðuflokkar, þar á meðal fulltrúar Sjálfstfl., ættu sæti í samráðsnefnd um þessi mál? Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. iðnrh. gæti hugsað sér að breyta til um vinnubrögð í þessu efni og taka upp þau vinnubrögð, sem ein eru sæmandi, að hafa samráð við alla þingflokka.

Við Alþb.-menn erum að sjálfsögðu algerlega andvígir því að álverinu verði veittur forgangsréttur að nýrri orku. Við teljum að þetta fyrirtæki hafi yfirleitt ekki sýnt sig í því að vera slíkt snilldarfyrirtæki í garð okkar Íslendinga að það sé ástæða til þess að verðlauna það sérstaklega með því að gefa því forgangsrétt að nýrri orku hér á landi. En þar fyrir utan teljum við það lágmark, ef stjórnarflokkarnir ætla sér að semja við álverið í Straumsvík um stækkun þess eða við eiganda álversins, Swiss Aluminium, um 50% stækkun álframleiðslunnar og raforkusöluna þangað, að Alþingi verði haft með í ráðum og þar á meðal allir þingflokkar.

Að lokum vil ég nefna þá ósvinnu, sem felst í þessum samningi, að kröfum vegna skattauppgjörs er fórnað í eitt skipti fyrir öll fyrir eina slétta upphæð, 100 millj. kr., upphæð sem kemur svo aldrei til greiðslu hér vegna þess að ekki er gert annað við hana en strika hana út á bókhaldsreikningi Íslendinga og álhringsins. Þar kemur hún til lækkunar og mun aldrei koma í kassann hjá hæstv. fjmrh.

En kannske er ekki aðalatriði málsins að Íslendingar hafi orðið af nokkurri fjárupphæð vegna skattanna. Ég a.m.k. álít að það sé ekki meginatriðið, það séu aðrar hliðar málsins sem séu miklu alvarlegri og svívirðilegri. Hvers vegna gátu stjórnarflokkarnir ekki hugsað sér að fylgja þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnrh. hér á Alþingi á s.l. vori að láta málið ganga til dóms? Hæstv. iðnrh. lýsti því hér yfir að hann teldi alveg sjálfsagt mál að dómur gengi í þessu máli, það væri fráleitt að fá ekki dómsniðurstöðu. Nú hafa stjórnarliðar skipt um skoðun. Nú semur iðnrh. um að dómur fáist ekki þó að viðurkennt sé af öllum að mjög skammt sé í dómsniðurstöðu og menn væru mjög bjartsýnir um útkomuna. Öllum var ljóst að Swiss Aluminium pressaði heiftarlega á að þessi niðurstaða fengist. Hæstv. iðnrh. var hins vegar búinn að gefa yfirlýsingu um allt annað. Hann var búinn að gefa þá yfirlýsingu að sjálfsagt væri að fá dóm. Og hann gat staðið við hana, hann gat samið við Swiss Aluminium án þess að fara að gefa þetta eina atriði eftir. En hvers vegna gerði hann það? Hvers vegna féllust stjórnarliðar á að málið gengi ekki til dóms? Ég álít að ástæðan sé engin önnur en sú að þeir gátu ekki hugsað til þess að í ljós kæmi fyrir dómi að fyrrv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson hefði haft rétt fyrir sér, að það hefði verið ástæða til að rannsaka mál Swiss Aluminium, að það hefði verið ástæða til að senda Inga R. Helgason til Ástralíu, að það hefði verið ástæða til þess að hafa uppi þessi illindi í garð Swiss Aluminium eins og Morgunblaðið, málgagn þeirra sjálfstæðismanna, hefur svo oft nefnt þetta.

Það væri nefnilega býsna fróðlegt, ef maður leyfði sér að gefa sér tíma til þess að lesa upp ýmis ummæli sem féllu hér í umr. fyrir 3–4 árum þegar svonefnd „hækkun í hafi“ var hér á dagskrá. Ég minnist mjög merkilegra yfirlýsinga sjálfstæðismanna sem reyndu að gera gys að Hjörleifi Guttormssyni fyrir að sækja þetta mál. É.g minnist jafnvel yfirlýsinga frá nýkjörnum formanni Alþfl., Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem taldi þetta nú ekki merkilegt erindi sem Hjörleifur Guttormsson ætti við eigendur Swiss Aluminium. Allt þetta má rifja upp og vonandi verður það gert þegar mönnum gefst örlítið betra tóm til umr. um þetta mál en við höfum tekið okkur hér í Ed. Við höfum fallist á að afgreiða þetta mál með nokkrum hraði, gáfum fyrst og fremst nefndinni góðan tíma, en höfum ekki tekið mikinn tíma til þess að ræða málið hér í Ed. og við erum alveg ásáttir við að senda málið frá okkur til Nd. þegar í dag. Þess vegna ætlum við ekki að hafa hér í frammi mikinn upplestur á því sem menn sögðu um málsmeðferð Hjörleifs Guttormssonar á þessu máli sem leiddi til þess að þrír flokkar gerðu sérstaka tilraun til að koma Swiss Aluminium til bjargar hér á vormánuðum 1983, reyndu að taka málið úr höndum Hjörleifs Guttormssonar með sérstakri þáltill. vegna þess að hann hafði gerst svo djarfur að láta rannsaka mál Swiss Aluminium og þá „hækkun í hafi“ sem hafði þá verið sönnuð af sérfræðingum iðnrn.

Auðvitað er það hin pólitíska staðreynd í þessu máli að hæstv. iðnrh., hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. og Framsfl. kærðu sig ekki um að það kæmu fyrirsagnir í íslenskum blöðum um að Íslendingar hefðu unnið þetta mál fyrir gerðardóminum og það hefði verið sjálfsagt og eðlilegt að hafa uppi þá málsókn sem þeir eru sjálfir búnir að fara háðulegum orðum um allan þennan tíma.

Ég tel sérstaklega ánægjulegt að við meðferð málsins hér í Ed. hafa þrír þingflokkar komist að sameiginlegri niðurstöðu um að mæla gegn þessum samningi. Alþfl. bar vissulega ábyrgð á því að samningur þessi var gerður á sínum tíma og tók þátt í herferðinni gegn þáv. iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni vorið 1983, þegar þáltill. var flutt sem átti að taka málið úr höndum hans. En þm. Alþfl. hafa skoðað þetta mál á þeim grundvelli sem það liggur fyrir í dag fordómalaust og án tillits til þess hver er fyrri afstaða þeirra í þessu máli og þó að þeir séu ekki líklegir til að taka neitt aftur af því sem þeir þegar hafa sagt um málið fyrr á árum tel ég það lofsverða hreinskilni að þeir skuli taka skýra afstöðu gegn þessum samningi sem þeir sjá svo marga ágalla á. Fulltrúar Kvennalistans hafa líka tekið afstöðu til þessa máls á sama grundvelli og við Alþb.-menn. Það verður sannarlega tekið eftir því víðar en hér á Íslandi að stjórnarandstaðan að meginhluta til mælir gegn þessum samningi.

Um afstöðu Bandalags jafnaðarmanna ætla ég ekki að fara mörgum orðum. Þeir gagnrýna samninginn með ýmsum hætti, en komast samt að þeirri niðurstöðu að líklega sé nú rétt eftir atvikum að greiða honum atkvæði. Í raun og veru koma fram alveg sömu gagnrýnispunktar hjá talsmönnum Bandalags jafnaðarmanna og fram hafa komið hjá okkur Alþb.-mönnum. En hins vegar er það greinilegt að af pólitískum ástæðum telja fulltrúar Bandalags jafnaðarmanna ekki taktískt rétt fyrir sig að skipa sér við hlið okkar Alþb.manna í þessu máli. A.m.k. er það áberandi að í nál. þeirra er hvergi að finna neina efnislega gagnrýni á afstöðu okkar Alþb.-manna og röksemdir. Það er einungis sagt að Alþb. hafi notað sér þetta mál í pólitískum tilgangi og verið með pólitískt upphlaup, en það er ekki nánar skýrt. Ég geri ekki mikið með þá gagnrýni, en get svo sem vel skilið að flokkur sem á margan hátt miðar málflutning sinn fyrst og fremst við að ná atkvæðum frá Sjálfstfl. telur það ekki henta sínum hagsmunum að taka afstöðu sem er allt of langt í burtu frá afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli af ótta við að það verði eitthvað misskilið af þeim sem ekki hafa gert sér fulla grein fyrir röksemdum okkar Alþb.-manna í þessu máli.

Þeir eru margir, því miður, vegna þess að auðvitað vantar mikið á að okkur Alþb.-mönnum hafi tekist að koma sjónarmiðum okkar til fulls til almennings í landinu vegna þess hversu veikir við stöndum að vígi á fjölmiðlasviðinu.

Menn geta svo sem sagt að við Alþb.-menn höfum átt þess kost að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. En tökum bara sem dæmi: Hvað var mikið sagt frá afstöðu okkar Alþb.-manna og röksemdum í þessu gríðarlega flókna máli eftir 1. umr. þessa máls? Jú, við fengum eina og hálfa mínútu í sjónvarpi og útvarpi og áttum þar að koma á framfæri öllum okkar sjónarmiðum. Sama gilti raunar um aðra flokka. Þetta sýnir auðvitað hversu víðs fjarri það er að hægt sé að ætlast til þess að allur almenningur geri sér grein fyrir meginstaðreyndum svo flókins máls þegar umfjöllun í helstu fjölmiðlum okkar er ekki miklu meiri en þetta.

Hv. talsmenn þessa frv. hafa verið að leika sér að því að reikna út hvað það hafi kostað þjóðina mikið fé eða Landsvirkjun að samningur af þessu tagi skyldi ekki gerður fyrir fjórum árum. Ég spyr: Er ekki ruglið orðið ansi lágkúrulegt þegar menn leggjast svo lágt að stilla upp útreikningum af þessu tagi? Það liggur fyrir að það tók núv. ríkisstj. eitt og hálft ár að ná þessum samningi við Swiss Aluminium og það er vitað að yfirvofandi dómsniðurstaða í gerðardóminum milli Swiss Aluminium og Íslands rak mjög sterklega á eftir Swiss Aluminium að ganga til samninga. Málsóknin gegn Alusuisse var undirstaða þess að þeir fengust þó á endanum til að undirrita þennan samning. Auðvitað er það ekkert annað en rugl og fjarstæða að Swiss Aluminium hefði verið reiðubúið til að hækka raforkuverðið árið 1980, áður en að upplýsingarnar um hækkun í hafi lágu fyrir, enda minnist ég þess ekki að Swiss Aluminium hafi á nokkurn hátt gefið undir fótinn með það á þeim tíma eða nokkurn tíma á árunum eftir að endurskoðun samningsins fór fram 1975. Þetta er því bara rugl út í loftið sem ekki tekur að eyða orðum að. Satt best að segja væri miklu frekar að menn reyndu að reikna út hvað það hefur kostað þjóðina að ráðh. Sjálfstfl. undirrituðu álsamninginn á sínum tíma, árið 1966, með einhverju lægsta raforkuverði sem þá þekktist í heiminum, áttu auðvitað að knýja þá fram a.m.k. tvöfalt hærra verð, og hafa pressað þjóðina um mismuninn á þeim tíma sem liðinn er. Sá reikningur mundi sannarlega ekki vera fallegur, enda hef ég ekki séð talsmenn Sjálfstfl. gera tilraun til að koma honum á blað.

Auðvitað neitar því enginn að nokkurt fé fæst frá Swiss Aluminium með tilkomu þessa samnings. En við teljum að það séu aðrir ágallar sem vegi þarna meira og þyngra og þá fyrst og fremst að verðið er of lágt og verðið er ekki verðtryggt til frambúðar eins og þyrfti að vera.

En ég vildi segja að lokum, vegna þess að hæstv. iðnrh. státar mjög af því að mikið fé komi inn í landið með gerð þessa samnings: Skiptir ekki nokkru máli hvað við það fé verður gert? Ég vil vekja á því athygli að enginn einn þáttur veldur jafnmikilli mismunun í kjörum fólks hérlendis og ójafn húshitunarkostnaður. Um 30% þjóðarinnar greiða margfaldan kostnað fyrir hita frá rafveitum og dýrum hitaveitum miðað við það sem almennt gerist. Þessi þriðjungur þjóðarinnar greiðir tvöfalt til þrefalt meira fyrir hitun híbýla sinna en þau 60 % þjóðarinnar sem njóta ódýrra hitaveitna. Fyrrnefndi hópurinn, sá sem býr við löku kjörin, þarf að verja í húshitun að meðaltali sem svarar 8–12 vikna launum lágtekjufólks, miðað við tekjutryggingu í dagvinnu, en síðartaldi hópurinn þarf aðeins að verja í þessu skyni um fjögurra vikna launum. Þarna er hvað mest óréttlæti í okkar þjóðfélagi og þetta veit ég að hæstv. iðnrh. skilur allvel því að hann kemur úr kjördæmi þar sem þessa gætir mjög.

Því langar mig til að spyrja hann að því að endingu: Er ekki tími til kominn að þeir sem hafa orðið verst úti vegna gömlu Landsvirkjunarsamninganna og hafa orðið að borga þetta gífurlega háa orkuverð til húshitunar fái nú loksins að njóta sérstaklega þess að eitthvað kemur meira í kassann hjá Landsvirkjun? Ég skora á hæstv. iðnrh. að gefa hér yfirlýsingu um að þeir sem hita hús sín með dýrri raforku eða olíu verði sérstaklega látnir njóta þess á næstu vikum og mánuðum og árum að verðið frá Alusuisse hækkar eitthvað í kjölfar þessa samnings. Ég vil sem sagt spyrja hann að því hvort ekki megi treysta því að svo verði.