22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í kvöld er rætt um stefnu. Ég ætla að byrja á því að hyggja aðeins að málefnum framtíðarinnar. Hún hefur verið þó nokkuð til umr. hér í kvöld og það er ekki seinna vænna því að hún er raunar þegar hafin.

Á síðasta þingi flutti Bandalag jafnaðarmanna ótal tillögur um eflingu atvinnulífs. Í fjárlagaumr. á síðasta þingi, þ.e. fyrir ári, lögðum við til við endurskipulagningu ríkiskerfis eflingu lánasjóða atvinnulífsins og mikla aukningu fjármagns til rannsókna og nýsköpunar. Þetta var áður en ríkisstj. hafði uppgötvað framtíðina og þetta voru fyrstu tillögur þessa kjörtímabils sem vörðuðu stefnumörkun um atvinnuhætti og atvinnulíf á næstu árum, áratugum og fram á næstu öld. Þar að auki lagði BJ til að vald yrði fært til landshluta frá Reykjavík með því að setja upp þróunarstofu landshlutanna sem hefði að leiðarljósi sjálfsforræði, frumkvæði og ábyrgð heimamanna. Á þennan hátt töldum við og teljum að tryggð sé best nýting fjármuna og að byggð haldist á eðlilegan hátt.

Bandalag jafnaðarmanna lagði til enn meira um mótun framtíðarinnar. Við lögðum fram þáltill. um stuðning við stofnun smáfyrirtækja, um eflingu upplýsingakerfis í byggingariðnaði og um kynningu á líftækni. Síðastnefnda till. var raunar samþykkt og er vonandi að þar eflist verulega áhugi á þessari mikilvægu atvinnugrein framtíðarinnar. Hugmyndir úr hinum þingmálunum birtast á ýmsan hátt í tillögusmíð ríkisstj. sem við sjáum bæði í sumar á óskalista þeirra forsrh. beggja og nú í stefnuræðu hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar.

En enn þá miðar hægt. Forsrh. sagði sjálfur í kvöld að við Íslendingar hefðum óneitanlega dregist aftur úr í atvinnuháttum. Það er harður dómur yfir ríkisstjórnum síðasta áratugar. Það er harður dómur hæstv. forsrh. yfir eigin verkum því að hann átti sjálfur sæti í þessum stjórnum.

En hvers vegna hefur málefnum framtíðarinnar miðað svo hægt? Hvers vegna getur fjórflokkakerfið einungis talað um nýsköpun en ekki fundið henni farveg? Vegna þess m.a. að hagsmunir flokkakerfisins rekast á við hagsmuni fólksins. Í hvert skipti sem einhverju á að breyta með hagsmuni þjóðarinnar fyrir augum er stigið ofan á rófuna á einhverjum flokkseigandanum, hagsmunum hans er ógnað og ekkert verður úr framkvæmdum. Flokkarnir eru úr tengslum við fólkið. Það sést best á því að þegar fylgi þeirra fellur dettur þeim það eitt í hug að skipta um formenn. Sjálfstfl. gerði það í fyrra, og hvað hefur það gagnað honum? Og nú leitar Alþfl. sömu ráða. Skotgrafahernaður flokkakerfisins er orðinn okkur býsna dýr. Flokkshagsmunirnir eru orsök offjárfestingar í sjávarútvegi, ringulreiðar í málefnum landbúnaðarins og milljarðataps á orkusölu til ÍSALs undanfarin ár, svo að einungis örfá dæmi séu nefnd. Þetta kerfi hefur reynst algerlega ófært um að bjarga okkur. Það hefur fengið sinn reynslutíma og hann er orðinn þjóðinni býsna dýrkeyptur.

Þegar Bandalag jafnaðarmanna hóf göngu sína hér í þessum stól í beinni útsendingu fyrir tveimur árum var lýst þeirri ætlan þess að brjóta múra þessa lokaða, staðnaða og nöturlega flokkaveldis. Verkið er hafið.

Það hriktir í kerfinu. Sjálfstfl. engist sundur og saman, forustulaus, sundurlaus og stefnulaus. Þar sem áður var talað um að stétt stæði með stétt standa nú stéttirnar andspænis hvor annarri og andúðin er augljós. Flokkurinn sakar BJ í leiðara í Morgunblaðinu um að hafa stolið stefnumálum sínum. Hvaða stefnumálum? Hefur Sjálfstfl. stutt frjálsa samninga? Nei. Hefur hann minnkað sjóðasukkið? Nei. Geta flokkar helgað sér stefnumál með því að skrifa þau í fundagerðarbækur sínar, en vinna aldrei að framkvæmd þeirra og birta þau aldrei almenningi? Nei.

Alþb. engist í sárri kvöl vegna flóttans yfir á Kvennalistann. Framsfl. er orðinn einangraður sérvitringahópur, og það verður sífellt augljósara að hann er aðeins fræðslu- og áróðursdeild sambandsauðhringsins. Og Alþfl., minnsti kerfisflokkurinn, er búinn að setja gamla vínið sitt á nýjan belg og vill hlaupa til að styðja og styrkja flokksmúra fjórflokkakerfisins sem loksins eru farnir að riða.

BJ hafnar hvers konar sameiningarbónorðum. Við ættum að halda áfram því verki sem hófst fyrir réttum tveimur árum. Við ætlum ekki að gefast upp með sameiningu við einhvern kerfisflokkanna fjögurra. Verkið er hafið og við stefnum að því að ljúka því. En hvernig stendur á því að hjá þjóð sem er ein sú duglegasta í heimi og sannarlega í hópi ríkustu þjóða í heimi er fjöldi fólks orðinn fórnarlömb fátæktar? Aflafénu hefur augljóslega verið illa varið. Það er nauðsynlegt að gera þær breytingar á stjórnsýslunni að þekking, reynsla og ábyrgð sitji þar í fyrirrúmi. Við viljum afnema þann sið að menn taki toppstöður í stjórnkerfinu að launum fyrir stjórnmálavafstur. Sá hugsunarháttur virðist ríkja að menn í pólitík hafi það ósköp „trist“, en fái síðan bitling og öðlist þar með á himninum sæluvist. Í þetta himnaríki stjórnkerfisins á að velja eftir hæfileikum en ekki pólitískri fortíð. En hverjir gæta lyklanna að Gullna hliðinu? Er það fólkið? Nei. Lyklarnir eru hluti af sameign flokkakerfisins og þar hleypir hver inn sínum manni. Við munum dæmin frá liðnum árum. Tryggingastofnunin og Brunabótafélagið. Í sumar var það bankastjórastaða Útvegsbankans og bráðlega ætla r einhver að smokra sér inn í seðlabankann. Við munum setja strangar leiðbeiningar til að koma í veg fyrir að opinberir hagsmunir og einkahagsmunir rekist á í stjórnkerfinu.

Ólafur Jóhannesson sagði í einni ritsmíð sinni að auðsætt væri hve mikilsvert það væri að hlutlæg sjónarmið réðu gerðum stjórnvalda svo að almenningur gæti treyst réttsýni þeirra. Hann sagði einnig að ef stjórnvöld ættu sérstakra eða persónulegra og verulegra hagsmuna að gæta varðandi ákvörðun um eitthvert málefni mætti að jafnaði gera ráð fyrir nokkurri víðsýni vitandi eða óafvitandi af þess hálfu. Þarna lýsir fræðimaðurinn nauðsyninni á því að ekki falli minnsti skuggi vantrausts á opinbera stjórnsýslu og að hætta sé á hlutdrægni ef hagsmunir rekist á.

Í löndunum í kringum okkur eru víða gefnar út nákvæmar leiðbeiningar til allra starfsmanna stjórnsýslunnar um þessi efni. Allir þekkja hörku bandaríska þingsins og eftirgangssemi um einkahagi stjórnmála- og embættismanna. Í Kanada hafa gilt nákvæmar reglur um hvað starfsfólk stjórnkerfisins megi og megi ekki, að ráðherrunum meðtöldum. Nýlegt dæmi er frá Bretlandi þar sem einn æðsti yfirmaður Scotland Yard varpaði nýlega fram þeirri spurningu hvort aðild að Frímúrarareglunni gæti farið saman við skyldur lögregluþjóns við lögreglu og almenning. Hann tók skýrt fram að þessar aths. ætti ekki að skoða sem gagnrýni á sjálfa regluna, en taldi aðild að henni vinna gegn því að lögreglumaður gæti talist óhlutdrægur. Yfirmaðurinn ráðlagði lögreglumönnum að sleppa aðild að reglunni en njóta í staðinn óskoraðs trausts almennings, svo að notuð séu orð hans sjálfs. Í leiðara eins Lundúnablaðanna sagði um málið, með leyfi forseta:

„Lögreglumaður getur auðvitað verið frímúrari og samtímis gætt þess að hafa ekki áhrif á vinnu hans. En það er óumflýjanlegt að á því leiki alltaf viss vafi t.d. ef lögreglumaður sem er frímúrari þarf að rannsaka mál manns sem er grunaður um afbrot og er félagi hans úr reglunni.“

Síðar í leiðaranum segir:

„Óhlutdrægni lögreglunnar þarf að vera hafin yfir allan grun. Hvort sá grunur er á rökum reistur eða ekki skiptir því miður engu máli.“

Þessi dæmi lýsa vel þeim almennu sjónarmiðum að það sé ekki nóg að stjórnkerfið starfi innan ramma laganna, heldur megi aldrei leika minnsti vafi á að menn starfi innan ramma laganna.

Nú þegar almannavaldið gerist stöðugt umsvifameira og ýmiss konar stjórnarathafnir verða þar af leiðandi mikilvægari er fyllsta ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að setja reglur og leiðbeiningar eins og rætt hefur verið um hér að framan. Við ættum t.d. að spyrja okkur hvort ekki sé ástæða til þess að gera a.m.k. jafnmiklar kröfur til yfirmanna dómskerfisins á Íslandi og Bretar gera til götulögreglumanna sinna.

Hér hef ég lýst dæmum um nauðsynlegar og eðlilegar umbætur á stjórnkerfi. Áður lýsti ég nokkrum tillagna okkar um uppbyggingu atvinnulífs í framtíðinni. Við skulum huga vel að framtíðinni. Þó að við höfum verið heldur kærulaus um hana er alveg víst og öruggt að börnin okkar munu þurfa á henni að halda.