12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti, góðir áheyrendur. 39. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

„Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmönnum til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Þingdeildin getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Nú hafa verið lagðar fram hér á Alþingi þrjár till. til þál., tvær í Nd. og ein í Ed., þar sem þm. fara fram á skipun rannsóknarnefndar skv. þessari grein stjórnarskrárinnar til að rannsaka viðskipti Hafskips hf. og Útvegsbanka Íslands. Enn fremur hafa verið lagðar fram tvær beiðnir um skýrslur varðandi sama málefni, frv. til 1. um sjálfstætt bankaeftirlit og fsp. um útlán og eiginfjárstöðu ríkisbankanna. Enn fremur í dag stjfrv. til laga um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Öll þessi þingmál eru viðbrögð við því alvarlega máli sem verið hefur ofarlega á baugi undanfarnar vikur, máli Hafskips og Útvegsbankans, og miða þau öll að því að ná fram upplýsingum í þessu stærsta gjaldþrotamáli í sögu íslenska lýðveldisins.

Allt frá því að grunur fór að leika á því að ekki væri allt með felldu í rekstri Hafskips hefur staðið á fullnægjandi og réttum upplýsingum um málið. Þegar málinu var hreyft fyrr á þessu ári, bæði hér á þingi og eins af fréttamönnum, þótti stjórnvöldum engin ástæða til að bregðast við. Borið var við bankaleynd, sagt að allt væri í lagi og engin ástæða til að hafa áhyggjur. Einum og hálfum mánuði seinna er það viðurkennt af stjórn Hafskips að geigvænlegt tap er á rekstri fyrirtækisins og nú er svo komið að þetta 27 ára gamla fyrirtæki er gjaldþrota. En ekki nóg með það. Annar stærsti ríkisbankinn, Útvegsbankinn, hefur tapað 2/3 af eigin fé, því fé sem hann fer með fyrir almenning, hundruðum milljóna króna og óvíst er hve mikið það fé er.

Íslenska þjóð munar um það mikla fé sem tapast hefur nú á tímum þrenginga þegar margt fólk vinnur myrkranna á milli til að halda húsnæði sínu og sjá sér og sínum farborða, á tímum þegar fjárlögin eru hrein dægurtónlist og halli ríkissjóðs meira en tveir og hálfur milljarður á þessu ári. Þó munar hana e.t.v. ekki síður og þegar á allt er litið trúlega miklu meir um að geta treyst þeim fulltrúum sem hún velur. Hinn almenni kjósandi verður að geta treyst þeim sem hann kýs til að fara með umboð sitt, en hann verður engu að síður að geta treyst dómgreind þeirra ef þeir flytja það umboð áfram og framselja það eins og tíðkast hefur um val á þeim sem stjórna í bönkum. Það er mikið álitamál hvort alþm. eiga yfirleitt að koma nálægt slíku. Kvennalistinn hefur ekki álitið það vera rétt og hefur því ekki átt aðild að bankaráðum. Af öllum þeim málavöxtum sem kunnir eru virðast þeir fulltrúar fólksins sem fara með fjármuni þess hafa annaðhvort gersamlega sofnað á verðinum eða verið stórlega blekktir. Bankastjórar eru þjónar fólksins, ekki herrar. Þeir eru þarna til að gæta peninga fólksins, gæta þess að fé þess sé ekki misfarið, en þeir láta oft eins og þeir eigi þessa peninga sjálfir. Það finnst a.m.k. þeim sem þurfa að biðja um lán. Nei, þeir eru starfsmenn fólksins sem gæta fjár alveg eins og fóstrur eru starfskonur sem gæta barna. Munurinn er þá sá að fóstrur gæta fjöreggja og fá ótrúlega lítið fyrir, en bankastjórar gæta bara fjármuna en geta komist upp í áttföld laun fóstra.

Sá trúnaðarbrestur sem orðið hefur vegna þessa máls er að mínu mati alvarlegur og ein af mörgum ástæðum þess að nauðsynlegt er að upplýsa þetta mál og það þarf að upplýsa þannig að fólk finni og viti að engu hefur verið leynt. Það er ekki bara að réttlætiskennd fólks sé misboðið þegar sögur berast um að með almannafé hafi verið misfarið, jafnvel sóað í óhóf fáeinna einstaklinga. Það vekur líka reiði. Það vatt sér að mér kona, sem ég þekki ekki, í búð um daginn og hún hvíslaði að mér eitthvað á þessa leið. „Ég er búin að ala upp sex börn og er orðin sjötug og ég hef engin lífeyrisréttindi. Mitt starf er einskis metið. Þið verðið að tala meira um þessar heimavinnandi. Sumir kaupa sér hús fyrir tug milljóna og gera þau upp fyrir annan tug milljóna, en það var selt ofan af syni mínum þó hann skuldaði ekki nema 25 þúsund.“ Svo hvíslaði hún: „Það er erfitt að vera reið 70 ára gömul kona.“

Afleiðingar þessara málaloka eru fleiri. 2-300 manns sem störfuðu hjá fyrirtækinu missa vinnu sína og erfiðlega hefur gengið að útvega þeim aðra vinnu. Þessir starfsmenn eiga flestir fjölskyldur þannig að erfiðleikar blasa við um 12-1300 einstaklingum. Starfsmannafélag Hafskips boðaði á sinn fund þm. Reykjavíkur og borgarfulltrúa í nóvemberlok til að tjá þeim vandræði sín og það sem var mest áberandi á þeim fundi, þegar frá voru talin vandræði starfsfólksins, var alger skortur á upplýsingum um raunverulega stöðu mála. Starfsmannafélagið hefur síðan sent Alþingi beiðni um að skipuð verði rannsóknarnefnd um málið.

Allar tilraunir til að knýja fram upplýsingar um málið hér á þinginu hafa brotnað á fyrirslætti um bankaleynd. Síðan hefur orðið hröð framvinda og línur skýrst nokkuð hvað varðar stöðu Hafskips og Útvegsbankans, en jafnframt hefur komið í ljós að málið er ekki einungis yfirgripsmeira en í fyrstu virtist heldur spinnast af því grundvallarspurningar um siðgæði, siðgæði í viðskiptum, siðgæði í stjórnmálum, í reynd siðgæði þess þjóðfélags sem við byggjum.

Menn horfa til þess að stærsti stjórnmálaflokkur landsins er óþægilega tengdur þessu máli. Persónur og leikendur eru flestir úr honum og menn spyrja þess vegna líka: Hvernig stendur á því? Eru viðskiptahagsmunir svo tengdir pólitískum hagsmunum? Geta völd og áhrif tryggt svo fyrirgreiðslu að til óheilinda leiði? Hefur slíkt átt sér stað í þessu máli? Það hlýtur að vera keppikefli og varða við hagsmuni Sjálfstfl. og allra þeirra einstaklinga sem þessu máli tengjast að það verði upplýst, upplýst á þann hátt að Alþingi og almenningur sætti sig við.

Ég tel víst að allir séu sammála um það, bæði hér á Alþingi og utan þess, að rannsókn málsins þurfi að fara fram og það sem fyrst. Hins vegar greinir menn á um hvernig beri að standa að slíkri rannsókn og þá sérstaklega hverjir eigi að rannsaka málið.

till. til þál., sem hér er til umræðu og ég er meðflutningsmaður að, fer fram á að rannsóknanefnd sjö þm. taki að sér að rannsaka viðskipti Hafskips og Útvegsbanka Íslands, svo og samningatilboð um yfirtöku eigna Hafskips hf., þ.e. Íslenska skipafélagsins. Þá tilhögun tel ég vera heppilegri og mun líklegri til að koma í veg fyrir tortryggni um að verið sé að leyna einhverju eða hylma yfir heldur en þá tillögu ríkisstjórnarinnar að skipa þriggja manna nefnd. Þó tel ég að ekki sé heppilegt að fundir nefndarinnar fari fram í heyranda hljóði, eins og tilgreint er í báðum tillögum þm. Alþb. Ekki vegna þess að ég vilji að leynd hvíli yfir neinu í þessu máli heldur vegna þess að ég hygg að það sé reyndar óraunsætt og það verði erfitt fyrir marga þá er nefndin þarf að ræða við að veita henni þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru og byggjast á trúnaði ef fundir eru haldnir í heyranda hljóði. Það kemur þó ekki í veg fyrir að fullar upplýsingar fáist um málið sem síðan verði lagðar fram. Ég legg áherslu á að þessi tillaga sniðgengur ekki upplýsingaöflun frá sérfræðingum, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir virtist halda í sinni ræðu, og það er einnig tekið fram í þessari tillögu að aflétta skuli bankaleynd vegna þessarar rannsóknar.

Hlutverk alþm. er m.a. að gæta hagsmuna kjósenda sinna. Til þess þurfa alþm. að halda verði sínum og vöku til að taka eftir því sem miður fer og rannsaka málavexti þeirra mála sem þeir fjalla um. Það er almennt starf þeirra. Ég tel þá því vel til þess fallna að skipa slíka nefnd. Alþm. eru þó ekki dómarar og því tel ég mikilvægt að menn leggi ekki fyrir fram dóma á einstaklinga í þessu máli, því eins og segir í lögum landsins er hver saklaus þar til hann er sekur fundinn, og á bak við allar þessar tölur, sem varða þetta mál, er fólk.

Það er líka mikilvægt í umræðum um þessi mál að sá ekki óverðskuldaðri tortryggni sem eyðileggur meira en hún uppsker. Hins vegar vek ég athygli á að víða erlendis, þegar hinn minnsti grunur beinist að einstaklingum í opinberum stöðum, er álitið að þeim einstaklingum beri að víkja alveg án tillits til þess hvort þeir síðar eru fundnir sekir eða saklausir. Það er ekki síst gert til þess að varðveita virðingu þess embættis sem menn gegna þannig að enginn minnsti blettur falli á það eða vafi.

Í þessu máli á ekki fyrst og fremst að leita að sökudólgum, hengja bjöllur á ketti. Það þarf að lýsa inn í þetta mál svo að ferill þess verði kunnur öllum þannig að menn geti af honum lært og forðast að endurtaka.

Sumir tala um spillingu fjórflokkanna sem undirrót margra þjóðfélagsmeina, en því má ekki gleyma að við búum í kunningjaþjóðfélagi sem að vísu býður upp á marga kosti en líka marga galla. Enn fremur, samtrygging þeirra sem stjórna getur líka byggst á fleiru en pólitík. Hún getur svei mér þá byggst á kynferði. Hvað skyldu margar konur sitja í stjórnum, nefndum og ráðum ríkisins?

Um leið og þetta mál verður upplýst ættum við jafnframt að verða nokkru nær um ýmsa innviði í peninga- og efnahagsmálum þessa litla þjóðfélags sem við búum í og er ekki vanþörf á því. Hin gráu svæði milli þess sem er siðlaust eða ólöglegt og þess sem er flekklaust og löglegt eru sífellt að verða breiðari og mörkin óljósari. Það sýnir t.d. okurmálið sem nýlega var á döfinni. Okkur er nauðsyn að finna skýrari mörk á milli og skilgreina fyrir okkur sjálf hvaða samskiptareglur þykja sæmandi í því þjóðfélagi þar sem við viljum búa.

Þetta mál hefur knúið á um nauðsyn þess að endurskipuleggja bankamálin í landinu. Nýlega var afhent skýrsla frá nefnd sem skipuð var til að bæta skipulag og rekstur viðskiptabanka þar sem tillögur eru gerðar um fækkun banka og sameiningu útibúa. Vonandi er að tillögur þeirrar nefndar komist sem fyrst í framkvæmd því þær eru löngu orðnar tímabærar. Sú þensla sem orðið hefur í bankakerfinu er óviðunandi, sá fjáraustur sem farið hefur í nýjar bankabyggingar óþolandi þegar hugsað er til þess að þær eru í raun byggðar fyrir fé sem almenningur leggur til án þess að því fylgi endilega bætt þjónusta við almenning né heldur að almenningur sé spurður hvort hann vilji fleiri bankahús.

Það er von mín að rannsókn þessa máls, svo alvarlegt sem það er, megi leiða til þess að spurt verði nærgöngulla spurninga um þau markmið, það verðmætamat og þá forgangsröðun sem ráðið hefur í þjóðfélaginu og elur af sér slík slys sem þetta, að rannsókn þess megi leiða okkur nær því samfélagi sem Kvennalistinn vinnur að, samfélagi sem hefur það verðmætamat sem setur mannleg gildi og félagslega samábyrgð í öndvegi.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.