13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

1. mál, fjárlög 1986

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Að þessu sinni stöndum við frammi fyrir óvenju erfiðri stöðu við afgreiðslu fjárlaga. Ríkisstj. hefur sett sér það markmið að draga úr erlendum lántökum, minnka viðskiptahalla og afgreiða hallalaus fjárlög án nýrra skatta.

Frá því núverandi ríkisstj. tók við völdum hefur tekist að draga úr ríkisútgjöldum án nýrrar skattheimtu. Það hefur raunar tekist að lækka þá nokkuð. Við undirbúning þessara fjárlaga stóð til að hækka nokkuð neysluskatta en jafnframt að standa við fyrirheit um annan áfanga tekjuskattslækkunar. Við meðferð þeirra hefur nú verið fallið frá vörugjaldshækkun en einnig tekjuskattslækkuninni. Jafnframt hafa fjárlög verið skorin niður um á annan milljarð til viðbótar fyrri niðurskurði þannig að ekki verður undirbúningslaust skorið meira niður að sinni, a.m.k. ekki af framkvæmdaliðum.

Því miður verður að játa að tíminn er oftast illa nýttur frá því að fjárlögin eru afgreidd þar til kemur að undirbúningi þeirra næstu. Á þetta við hver sem hefur verið í ríkisstj. Þennan tíma á að nota betur til að finna sparnaðarleiðir og hagræði í rekstri. Hins vegar er oftast gripið til hnífsins á elleftu stundu og þá gjarnan skorið þar sem vel liggur við höggi. Hinn síminnkandi hluti framlaga til verklegra framkvæmda í fjárlögum verður þá gjarnan fyrir valinu. En það sem lengri aðdraganda þarf til breytinga fær að fljóta með áfram lítið breytt. Verulegur sparnaður verður ekki nema heilbrigðiskerfið og menntakerfið verði endurskoðað svo og allt rekstrardæmið. En þessir tveir málaflokkar taka til sín stærsta hluta fjárlaganna. Það hlýtur að vera hægt að ná fram ýmsum hagstæðum breytingum til lækkunar ríkisútgjalda en slíkt þarf auðvitað góðan undirbúning því hafa verður í huga þau markmið sem við höfum sett okkur og auðvitað kosta sitt.

Spyrja má: Er ekki lyfjanotkun hér á landi úr hófi fram? Er ekki kostnaður við sérfræðinga of hár miðað við þau laun sem láglaunafólki í heilbrigðisþjónustunni er boðið upp á? Er ekki hægt að minnka miðstýringuna í skóla- og menntakerfinu? Er ekki hægt að ná betri eða jafnvel jafngóðum árangri og heilmiklum sparnaði með valddreifingu? Er víst að Lánasjóður námsmanna sé rétt hugsaður í dag? Og í húsnæðiskerfinu, er ekki hægt að nota miklu betur fyrirliggandi lánsfé með breyttum reglum? Hafa hinar stórauknu fjárveitingar til húsnæðismálakerfisins skilað þeim árangri sem vænst var? Öllum þessum spurningum verður ekki svarað svo að vel sé nema með mikilli vinnu og góðum tíma.

Í umfjöllun um fjárlagafrv. er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á raunhæfum skammtímasjónarmiðum og langtímasjónarmiðum. Það hefnir sín að taka ekki fullt tillit til raunverulegs efnahagsástands og horfum þegar fjárlög eru afgreidd. Sveiflur og breytingar hjá okkur eru örar og tíðar og því verðum við oft að slá af kröfum en það þýðir ekki að við megum missa sjónir af langtímamarkmiðum. Of harkalegur niðurskurður gjalda til að ná endum saman getur búið til miklu stærra vandamál en hann leysir. En nauðsynlegt er að standa við þau fyrirheit að hækka ekki skatta eða álögur á atvinnuvegina og fólkið í landinu. Ef það reynist samt sem áður nauðsynlegt þá verður ríkisstj. að ná í peningana frá þeim sem eiga þá, ekki að blóðmjólka þreytta launþega eða íþyngja framleiðslunni meira en orðið er.

Spyrja má hvort hjá því verði komist að ætla fyrir útgjöldum í fjárlagafrv. vegna komandi kjarasamninga. Það ríður á að ná hagstæðum samningum um einhvers konar kaupmáttartryggingu sem stefnir að því að halda í við verðbólguna. Skattalækkunarleið gæti þar haft áhrif til góðs. Einnig sýnist óhjákvæmilegt að koma til móts við útflutningsatvinnuvegina með eitthvert fjármagn ef komast á hjá gengisfellingu eða stöðvun.

Þá vil ég láta koma fram þá skoðun mína að tiltölulega fáar milljónir til hækkunar á helstu framkvæmdaliðum, svo sem skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og höfnum, hefðu sætt menn betur við niðurstöðutölur fjárlaga án þess að skipt hefði sköpum í búskap ríkisins.

Um þessar mundir eru miklir erfiðleikar í atvinnuvegum okkar. Við höfum eytt of miklum tíma í mótun fiskveiðistefnunnar fyrir næstu tvö ár. Hjá því verður ekki komist enn um skeið að stjórna þeim málum með líkum hætti og verið hefur. En afkomumál sjávarútvegsins að öðru leyti hafa beðið. Þar er úr vöndu að ráða. Vissulega þrengir sú fastgengisstefna sem fylgt hefur verið meira að útflutningsatvinnuvegunum en þeir geta staðið undir til lengdar þegar verðbólga er svo mikil sem raun ber vitni. Gengisfelling er í sjálfu sér oft og tíðum uppgjöf og áhrif hennar fara fljótt út í verðlagið og kostnað hjá fyrirtækjum og almenningi. Skuldir hækka og fljótlega er staðið aftur í sömu sporum. En þyrfti ekki þess í stað að létta á fjármagnskostnaðinum með skuldbreytingum og lækkun vaxta, útflutningsgjalda o.fl. Lækkun vaxta og endurskoðun á grundvelli verðtryggingar er eitt brýnasta hagsmunamál atvinnuveganna og heimilanna í landinu. Áform fjmrh. og forsrh. um niðurfellingu verðtryggingar á skammtímalánum eru spor í rétta átt.

Í landbúnaði er glímt við erfiðleika vegna samdráttar, erfiðra markaða og minnkandi neyslu. Þótt eðlilegt sé við núverandi aðstæður að minnka útflutningsuppbætur í áföngum, eins og ákveðið hefur verið, má niðurgreiðslustig innanlands alls ekki lækka frá því sem nú er. Þvert á móti þyrfti það að hækka. Nú er í gangi útflutningsátak með íslenska lambakjötið. Það þarf fyllsta stuðning. Þá mundi öll kjötsala til Keflavíkurflugvallar greiða fyrir íslenskum landbúnaði ef hún kæmist á og það þarf að vera sem fyrst.

Gagnvart iðnaði hafa stjórnvaldsaðgerðir til verndunar íslenskri framleiðslu náð allt of skammt þannig að erlenda varan hefur í of miklum mæli vinning á markaðnum. Sérstaklega vantar að styðja við bakið á fyrirtækjunum í vöruþróun og markaðsöflun.

Herra forseti. Núv. ríkisstj. tókst í upphafi síns ferils á við mikinn vanda og náði árangri. Fólkið fylgdi henni og tók á sig byrðar í von um betri tíð. Því miður hallaði undan fæti á haustmánuðum 1984. Þótt við höfum nú um stund gengið skref til baka í verðbólgubaráttunni þá er enn hægt að hefja merkið á loft. Til þess er ætlast af fólkinu í landinu að ríkisstj. stjórni.

Aðalatriðið fyrir ríkisstj. og stuðningsmenn hennar er að ná að nýju góðu sambandi við þjóðina. Það tekst ekki nema taka á sig rögg. Það þarf að eyða ágreiningi í samstarfinu en magna hann ekki eins og stöðugt er verið að. Hætta að skemmta skrattanum. En það þarf líka að láta verkin tala betur.