14.12.1985
Neðri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

177. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur talað fyrir till. til þál. á þskj. 200. Það verður ekki skilið á annan veg, fyrst Alþýðubandalagsmenn fylkja sér svo margir á bak við þessa þáltill., en þeir telji að hér sé á ferðinni allt annað mál en 173. mál á þskj. 196 sem liggur fyrir deildinni. Það má segja að að vissu marki sé það rétt því að uppsetning öll á því máli sem hér er á dagskrá er svo langt frá því sem talað er um í máli á þskj. 196 að undrun hlýtur að vekja.

Ég vil geta þess að þegar til stóð að flytja 173. mál var hv. 10. landsk. þm. boðið að vera flm. og ekki annað vitað en hann ætlaði að þiggja það, en þeirri ákvörðun breytti hann svo allsnarlega.

Ég undirstrika að ég tel að þessar tillögur eigi ekki að afgreiða í samhengi heldur hvora um sig, sjálfstætt eins og flm. gerir ráð fyrir með þeirri ákvörðun að flytja ekki brtt. við fram komið mál heldur flytja sérstakt mál.

Ég mun þá víkja örlítið að innihaldi þeirrar þáltill. sem til umræðu er.

Það fyrsta sem vekur athygli er að inn í hinn almenna texta um rannsókn eru sett atriði sem beinlínis hljóta að koma fram við rannsóknina ef þau eru rétt, en geta ákaflega illa átt heima í till. sjálfri. Hér stendur t.d., með leyfi forseta: „Að rannsaka öll viðskipti Hafskips við innlend og erlend fyrirtæki“ og svo kemur: „í því skyni m.a. að sannreyna upplýsingar um að fjármunir hafi verið fluttir úr fyrirtækinu til annarra fyrirtækja í eigu stjórnenda Hafskips, kanna staðhæfingar um að blekkingum og fölsunum hafi verið beitt í bókhaldi Hafskips og kanna einnig öll atriði sem snerta viðskipti og reikningshald Hafskips.“

Hlýtur ekki spurningin fyrst og fremst að vera aðeins þessi: að rannsaka öll viðskipti Hafskips við innlend og erlend fyrirtæki? Hlýtur ekki að koma í ljós við þá rannsókn hvernig þeim viðskiptum hefur verið háttað? Það er mjög óeðlilegt að þannig sé að flutningi staðið að beinlínis sé verið að koma á framfæri sérstökum aðdróttunum án þess að þau rök sem fyrir þeim eru færð liggi svo ljós fyrir að nokkuð verði á greinargerð að græða í því sambandi annað en að menn viti ekki neitt með vissu. Er ekki hið hlutlausa orðalag að fara fram á að viðskiptin séu rannsökuð og er þá eitthvað sérstakt sem ekki á að rannsaka? Ég held nefnilega að það hljóti að vera þess virði að hugleiða hvað kemur til að þessi tillaga er flutt ef tilgangurinn er ekki fyrst og fremst sýndarmennska og auglýsingamennska þar sem fyrir þinginu liggur till. til þál. sem tekur fullkomlega á því máli sem mér skildist að ætti að upplýsa, viðskipti Hafskips og Útvegsbankans.

Till. sem flm. gerði grein fyrir hefur aftur á móti það innan síns tillöguramma að rannsaka einnig viðskipti annarra skuldugra stórfyrirtækja við ríkisbankana þrjá. Þar er talað um 10 við hvern ríkisbanka, alls 30 fyrirtæki. Það er bankaeftirlitið sem á að vísa á þessi fyrirtæki. Birta á skýrslur mánaðarlega og það á að vera búið að vinna verkið innan fjögurra mánaða. Hafa menn hugleitt í alvöru hvort gerlegt væri að ná þeim vinnuhraða ef eitthvert vit ætti að vera í vinnubrögðunum?

Ég tel að hafi flm. áhuga á að flytja till. þar sem ákveðið er að beita 39. gr. stjórnarskrárinnar í því skyni að gera á því úttekt hvort fyrirsjáanleg séu hjá ríkisbönkunum þremur mikil töp væri eðlilegt að það væri sjálfstæð till. Mér þætti ekki óeðlilegt að hún væri þá með því rými að það væri ekki fyrir fram ákveðið hvort það væru 10 fyrirtæki hjá einum bankanum og 10 hjá þeim næsta heldur yrði lagt til að bankaeftirlitið kæmi með lista yfir þau fyrirtæki sem það teldi að ríkisbankarnir væru í mestri hættu með.