16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

145. mál, stjórn fiskveiða

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Enn er 16. desember, en það er ekki nema klukkutími til næsta dags. Hér er verið að leggja fram til umræðu frv. um fiskveiðistjórnun til næstu tveggja ára. Ætlast er til þess að 1. umr. þessa frv., þeirri umræðu sem nú fer fram, ljúki á skikkanlegum tíma þannig að ekki verði lagt allt of mikið á þm. í vökum í nótt og svo að hv. sjútvn. taki til starfa í fyrramálið og yfirfari og vinni frv. núna á næstu tveim dögum eða svo.

Ég held að átt hafi sér stað ansi mikil mistök með því að þetta mál skuli ekki vera fyrr á ferðinni þannig að bæði hv. deild og hv. sjútvn. gætu haft lengri tíma til að skoða það. Við stöndum frammi fyrir því að við höfum ekki nema þessa ákveðnu daga til Þorláksmessu til að koma þessu verki frá. Varla förum við að gera mikið á aðfangadag. Eins og hv. 6. landsk. þm. sagði hér áðan hefur verið sagt um okkur í útvarpi að við afgreiddum mál eins og flök á færibandi. Á það ekki síst við um mál eins og þetta að slík vinnubrögð séu höfð í frammi.

Mál þetta var afgreitt frá Nd. í byrjun þingfundar þar í dag. Afgreiðsla málsins fór á þann veg að það mun hafa verið samþykkt með 24:9 atkvæðum. Í þeim hópi sem samþykkti það voru tveir menn úr mínum flokki, tveir á móti og tveir sátu hjá. Yfir þessari afgreiðslu var ég mjög óánægður. Lítið hafði verið rætt um þessi mál í mínum þingflokki og það kom ansi flatt upp á mig að flokkurinn væri nú allt í einu búinn að taka allt að því þá afstöðu að styðja þetta frv. eins og leit reyndar út fyrir við 2. umr. Það liggur því fyrir að þetta er ekki í einu eða neinu mál Alþb. og ég er hér fyrst og fremst að flytja mína skoðun en ekki Alþb.

Í beinum tengslum við þessa afgreiðslu Alþb. á þessu máli hef ég óskað þess við þingflokkinn að ég yrði losaður við störf mín í iðnn. hv. Ed. Vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta að annar flokksmaður minn fái að taka sæti mitt í þeirri nefnd.

Það er búin að vera mikil umræða um kvótafrumvarpið, eins og hæstv. ráðh. sagði. Fjallað hefur verið um það frá því um mitt sumar og má segja að vissu leyti, eins og hæstv. ráðh. sagði, að undirbúningur þess hafi verið mjög opinn. Hann var það opinn að varla hefur önnur umræða um sjávarútvegsmál verið í gangi þrátt fyrir að staða sjávarútvegs, bæði veiða og vinnslu, er, eins og hæstv. ráðh. lýsti áðan, mjög slæm. Kannske eru flestir sammála um fiskveiðistjórnunina í hjarta sínu. Það eru allir sammála um, eins og hæstv. ráðh. sagði, að stjórna þurfi fiskveiðum við Íslandsstrendur. Það er aðeins deilt um leiðir. En því hefur verið komið þannig fyrir að varla er hægt að ræða um aðra þætti sjávarútvegsins en þennan þátt. Það er byrjað á útliðnu sumri að ferðast um landið og ræða um sjávarútvegsmál að nafninu til. Fyrst og fremst er rætt um kvóta og aftur um kvóta, en það er ekki rætt um stöðu sjávarútvegsins almennt eins og hún blasir við og eins og hún er.

Það er eins og þessi umræða um fiskveiðistjórnunina hafi verið aðferð til að breiða yfir það ástand sem er í sjávarútveginum. Það er jafnvel sagt um leið, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, að ef þessi leið, sem ráðherrann boðar, verði ekki samþykkt verði erfiðleikarnir enn þá meiri og erfiðleikarnir væru enn þá meiri, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, ef þessi leið hefði ekki verið valin. Hefðum við ekki stjórnað svona væru erfiðleikarnir enn þá meiri.

Geta erfiðleikarnir í raun og veru verið miklu meiri en þeir eru í íslenskum sjávarútvegi í dag? Fyrir nokkrum dögum gengu fulltrúar fiskvinnslunnar á fund hæstv. ráðh. og tilkynntu honum að staða vinnslunnar væri þannig að þar væri 8-9% halli. Er hægt að hugsa sér stöðuna verri en það? Ég veit ekki hvaða skipulag hefði þurft að vera hér til að þetta gæti verið verra. Er ekki þessi staða okkur ábending um að við höfum valið ranga stefnu, ranga fiskveiðistjórnun? Er það ekki frekar á þann veginn?

Sú umræða, sem átt hefur sér stað í haust, hefur yfir sér sérstakt yfirbragð. Hæstv. ráðh. ferðast um landið og auglýsir fundi um stöðu sjávarútvegsins og fiskveiðistjórnunina. En hann er ekki einn á ferð. Með honum er næstum undantekningarlaust einhver fiskifræðingur frá Hafrannsóknastofnuninni og það er reynt að setja eitthvert vísindayfirbragð á þessar messur sem haldnar eru vítt og breitt um landið. Ég geri ráð fyrir að þessir vísindamenn sem fylgja ráðherranum eftir séu meðmælendur hans, þeir séu að túlka sömu skoðun og hæstv. ráðh. Vitaskuld er það ekki. Vísindamennirnir eru í fylgd með ráðherra. Það væri æskilegt að ráðherra upplýsti hver það er sem óskar eftir því að þeir séu í þessum ferðum. Er það hæstv. ráðh. sjálfur eða er það Hafrannsóknastofnun sem gerir það?

Vísindamennirnir skýra frá staðreyndum á hverjum fundi og hafa yfirleitt gert það með sóma, en annaðhvort á undan eða eftir er messa flutt um að það þurfi nauðsynlega að halda þessari stefnu við sem við höfum búið við s.l. tvö ár. Almenningur í landinu gerir því ráð fyrir því út frá þessum auglýsingum og fundarboðum að þarna sé verið að framkvæma vísindalega stefnu, þetta sé í beinum tengslum, vísindi Hafrannsóknastofnunar og hin pólitíska stefna ráðherra. En þessu er á allt annan veg farið. Ákveðin stefna um hvernig skuli stjórna fiskveiðinni og þær upplýsingar sem vísindamennirnir gefa um stöðu fiskstofna eru ekki í neinum tengslum.

Það væri fróðlegt að komast að því líka hjá hæstv. ráðh. hvort ferðir vísindamanna með honum um landið væru að ósk hans sjálfs. Hverjir borga þetta? Er þetta tekið af fjárframlagi Hafrannsóknastofnunar eða er það ráðherra sjálfur sem greiðir þennan kostnað? Verður Hafrannsóknastofnun að borga þennan vísindastyrk á stefnur ráðherrans eða er það ráðuneytið og af hvaða peningum er það þá tekið?

Mikið hefur verið um það talað að ekki væri um annað að gera en að samþykkja þessa fiskveiðistjórnun vegna þess að hagsmunasamtök sjávarúrvegsins hefðu - sumir segja öll eða næstum öll - samþykkt þetta. Meira að segja heyrði ég menn gera grein fyrir atkvæði sínu í hæstv. Nd. út frá þessu, vegna þess að hagsmunasamtök sjávarútvegsins stæðu að þessari stefnu ráðherrans væri ekki um annað að gera en að samþykkja þessa fiskveiðistjórnun.

Hver skyldi nú vera raunin á um hagsmunasamtök sjávarúrvegsins? Jú, við höfum heyrt að þing Landsambands ísl. útvegsmanna, LÍÚ, hafi samþykkt þetta með miklum meiri hluta. En hverjir skyldu greiða atkvæði í LÍÚ? Ég vona að hv. þm. viti það. Þegar við sátum þar saman á þingi, við Valdimar Indriðason, vorum það ekki við sem greiddum atkvæði heldur voru það tonnin sem við höfðum yfir að ráða. Þar greiða tonnin atkvæði en ekki persónurnar.

Hverjir eru það sem mynda meiri hlutann hjá LÍÚ?

Vitaskuld er það stóri loðnuflotinn og stór hluti af togaraflotanum. Þannig er orðinn þessi myndarlegi meiri hluti sem kemur út úr fundi LÍÚ. Það vita allir um afstöðu loðnumanna til þessara mála og meginhluti togaraflotans stendur að þessu líka. En mér er sagt að hefðu verið taldir einstaklingarnir á fundi LÍÚ hefði verið ómögulegt að segja hvernig hefði farið. Það liggur ekki fyrir. En það er ómögulegt að segja, ef einstaklingarnir hefðu greitt þar atkvæði, - og það er víst - nema munurinn hefði orðið miklu minni.

Fiskiþing er ágætis umræðuþing. Ég vil ekki kalla það klúbb. Það er langt frá því. Þetta er ágætis umræðuþing og góður vettvangur til skoðanaskipta. En uppbygging þeirra samtaka gefur ekki neina mynd af afstöðu heilla héraða eða svæða. Það er af og frá. Það vita allir sem þekkja uppbyggingu þess og hvernig það er byggt upp. Það er ekki þungt á metunum í sjálfu sér.

En svo koma önnur sambönd. Það samband, sem ætti að taka fyrst og fremst mark á þegar rætt er um þessi mál, er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands þar sem saman eru komnir skipstjórnarmenn flotans, mennirnir sem hafa hina beinu reynslu af því kerfi sem við búum við. Hver var afstaða þeirra manna? Afstaða þeirra var sú að við ættum að leggja þetta kerfi niður og taka upp tegundamark.

Ég tel að afstaða þessa hóps sé miklu þyngri á metunum en bæði afstaða LÍÚ og fiskiþings. Ég efast ekki um að hver og einn hv. þm., sem ætlaði sér að fara í útgerð og vildi leita upplýsinga um hvernig hann ætti að beita skipinu sínu, hvernig hann ætti að hafa skipið sitt og á hvaða veiðar það ætti að fara, mundi fyrst og fremst leita til skipstjóra og skipstjórnarmanns. Hann mundi ekki leita til ýmissa ágætra höfðingja sem skipa fiskiþing eða LÍÚ. Hann mundi leita til skipstjóranna um hvað væri eðlilegt að gera í þeim málum.

Þá er eftir Sjómannasamband Íslands. Samþykkt þess byggðist ekki á samþykkt þings heldur stjórnar sambandsins. Það er öðruvísi vettvangur, eins og hv. þm. skilja, en þing. Ég tel að raunverulega hafi þar átt sér stað endurtekning á því sem þeir fjölluðu um í fyrra og þar hafi ekki verið fjallað mjög mikið um þetta mál. Samþykktir þeirra eru að sumu leyti neikvæðar fyrir þá fiskveiðistjórnun sem við búum við. Þeir mótmæla t.d. alveg sölu kvótans.

Hæstv. sjútvrh. nefndi, eins og ég sagði áðan, að undirbúningur að þessu frv., sem við erum hér að fjalla um, hafi verið opinn. Ég viðurkenni að svo var að mörgu leyti. En þar skorti þó alveg eitt á. Það skorti þann þáttinn sem er bundinn í lögum, þ.e. að haft væri samráð við sjútvn. þingsins. Ekki er alveg hægt að fortaka að það hafi verið lítils háttar. Við vorum kallaðir á einn fjölmennan fund í Borgartúni 6 þar sem rætt var um þessi mál á breiðum grundvelli en alls ekki á samráðsgrundvelli. Það var m.a.s. á þann veg að tilkynnt var í upphafi fundarins að fréttir af þeim fundi yrðu túlkaðar af ráðuneytinu sjálfu en fréttamönnum væri ekki leyft að koma inn. Þar sem sagt var verið að setja á svið fyrstu myndina af frv. Hún var þannig fram lögð að við sjávarútvegsnefndarmenn vorum kallaðir á fjölmennan fund og lesið yfir okkur að hverju var stefnt og tilkynnt að útkoman og umræðan yrði túlkuð af ráðuneytinu sjálfu til fréttamiðla. Þannig fór um það.

Hæstv. sjútvrh. taldi upp í ræðu sinni áðan - og hefur gert það á fundum sínum um landið - sjö liði sem hann telur að þurfi að vera í hverju því stjórnkerfi sem við notum til að stjórna veiðunum. Ég ætla að fara yfir þessa þætti. Hann nefndi þetta líka í ræðu sinni í hv. Nd. og ég tek það hér upp úr ræðu hans þar.

Fyrsti þátturinn er sá að aflinn verði innan ákveðinna marka og stjórnkerfið bjóði upp á það að halda aflanum innan tiltekinna marka. Hvernig skyldi þetta hafa tekist með því kerfi sem við búum við? Það hefur tekist þannig að á árinu 1984 fórum við 41% fram úr því sem fiskifræðingar lögðu til að við skyldum afla og við fórum 10% fram úr því sem ráðuneytið áætlaði að við skyldum afla. Þó er viðurkennt að árið 1984 hafi verið mjög mikið tregfiski og erfitt að ná þeim kvóta sem var þá skammtaður. Meira að segja eru meðal þeirra raka, sem nú eru talin fram því til stuðnings að þetta þurfi að vera til tveggja eða þriggja ára, að á árinu 1984 hefði þurft að vera hægt að flytja milli ára það sem menn gátu ekki veitt af kvótanum þá, m.a. sumir Sunnlendingar sem náðu ekki sínum kvóta.

Hvernig lítur út fyrir að ástandið verði á árinu 1985? Það er þannig að aflinn verði 60% meiri en fiskifræðingar áætluðu og hann verður um 20%, jafnvel 22-24%, meiri en ráðherrann áætlaði eða ráðuneytið. Er hægt að tala um að við séum innan ákveðinna marka í þessum þáttum? Það er af og frá. Þetta kerfi býður ekki upp á stjórnun innan þeirra marka sem æskileg eru á sókn í stofninn.

Hvað blasir þá við á næsta ári ef, sem að líkum lætur, þingið samþykkir þetta frv.? Það blasir við með sömu reynslu og er í ár að aflinn geti farið upp í 400-450 þús. tonn. Það er enginn þáttur í kerfinu sem getur stoppað það um leið og búið er að samþykkja það. Ef sama saga endurtekur sig, að við fáum sæmilega vertíð, ráðherrann mundi gefa eftir 5% með vorinu og það yrði áframhaldandi góður afli út árið er ekkert í kerfinu sem gæti hindrað að við færum upp í 450 þús. tonn vegna þess, eins og hæstv. ráðh. sagði, að kerfið er svo sveigjanlegt. Þetta er einn af þessum miklu og góðu kostum kerfisins. Það er vegna þess að kerfið er byggt upp til að skammta þorsk. En það gefur möguleika til að veiða þorsk, að skipta frá ýsu yfir í þorsk og frá ufsa yfir í þorsk. Það er hægt að breyta öllum fiskitegundum yfir í þorsk. Það er líka svo með hinu nýja kerfi og hinum góða kosti, sem ráðherrann nefnir oft, að nú sé val og meiri sveigjanleiki. Með því að bjóða upp á aukið sóknarmark erum við ekki aðeins að bæta því ofan á að við tökum þorskinn og látum ýsuna eiga sig heldur fáum við líka 20% ofan á aflann. Það er það mikill sveigjanleiki í því að einmitt þessi fyrsti punktur stenst ekki og síst af öllu ef það er góður afli. Það er ekki kostur, sveigjanleikinn í kerfinu, ef fiskurinn gefur sig til, eins og menn hafa verið að benda á að væri erfitt að komast fram hjá eins og á Vestfjarðamiðum og á vertíð, og auðvelt er að ná honum. Þá er ekki hægt að komast fram hjá þessu. Og kerfið býður upp á fleiri möguleika til ofveiði. Allt kerfi, sem byggt er upp eins og þetta býður upp á að menn búi sér til annað kerfi til að komast fram hjá því, leiðir til að komast fram hjá því. Nákvæmlega eins og einstaklingurinn leitar eftir ýmsum ráðum til að komast fram hjá því að borga tekjuskatt, borga söluskatt og annað er leitað að ráðum til að komast fram hjá þessu kerfi. Ég held að næstum hver einasti sem eitthvað kemur nálægt sjó viti að þetta kerfi er komið í sæmilegan gang líka. Og það er ómælanlegt hvað hægt er að koma þar fram hjá. Það skapar náttúrlega óeðlilega og rangláta mismunun nákvæmlega eins og skattsvik. Því lengur sem við búum við slíkt kerfi og ekki síst þegar á að fara að gefa okkur fyrirheit um að það skuli standa yfir í tvö ár eða þrjú ár, eins og ráðherra hefði helst óskað, þeim mun meiri hætta er á að leitað frekari sé ráða til að finna einhverja leið frá þessu.

Hæstv. ráðherra nefndi í umræðu fyrir tveim dögum eða svo að það hefði verið kerfi í gangi sem varð að leggja niður og hann var ánægður með að horfið var frá vegna þess að það hefði verið misnotað. Hann vildi nú samt halda nafninu á því til að minna á það. Aflatryggingasjóður hét það. Það hefur verið misnotað, brotið. Smámunir hafa átt sér stað í sambandi við Aflatryggingasjóð miðað við það sem getur átt sér stað í kringum kvótakerfið. Aflatryggingasjóður er ekki til að tala um miðað við hin ósköpin.

Annar punkturinn er að réttlát skipting sé milli skipa og byggðarlaga. Já, sjálfsagt er það réttlát skipting í dag að miða við aflann árin 1981, 1982 og 1983. Mikið er nú réttlætið. Geta menn sagt aftur og aftur að slíku fylgi eitthvert réttlæti?

Hvað er með skipstjórann sem aflaði þannig á skip sitt á árunum 1981-1983 að hann skilaði skipinu með góðum kvóta? Hver er staða hans og skipshafnarinnar? Hann er í átthagafjötrum. Ef hann ætlar að hafa möguleika til þess að veiða á sama máta og hann gerði á þessum árum situr hann fastur í sama skiprúmi. Og hvað er með þá menn sem keyptu sér skip t.d. á haustmánuðum 1983? Ég þekki nokkra dugnaðarskipstjóra sem gerðu þetta og ætluðu sér að nota kunnáttu sína og dugnað til þess að koma undir sig fótunum í smáútgerð. Þeir eru dæmdir til þess að liggja í landi meginhluta ársins vegna þess að þeir geta hvorki notað kunnáttu sína né dugnað. Þeir keyptu skip sem voru með minni kvóta og lítinn kvóta. Ja, mikið er réttlætið!

Þetta snýr þannig við byggðarlögunum að menn geta enga björg sér veitt ef útgerðarmaður á þessum eða hinum staðnum tekur sig til og selur skipið. Það er enginn kvóti til á svæðinu. Um leið og skipið er selt er kvótinn farinn, atvinna fólksins, skattar sveitarfélagsins. Íbúðirnar falla í verði og eignir fyrirtækjanna. Það er mikið réttlæti í þessu. Um þetta má segja margt og koma með mörg fleiri dæmi, en fyrst og fremst er þessi þáttur ranglátur.

Þriðji þátturinn er svo að reynt sé að skapa eins tryggt atvinnuástand um land allt og nokkur kostur er. Hvernig hefur þetta komið út? Þegar við vorum að ræða kvótann haustið 1983 var ein af aðalkenningunum sú að það væri mjög til hagsbóta fyrir útgerðina að hún gæti valið sér tíma - útgerðin stóð þá höllum fæti eins og núna - og sótt aflann á þeim tíma sem henni væri ódýrast og hagkvæmast að sækja hann. Það voru meginrökin sem voru lögð fyrir menn til þess að fá þá til að samþykkja þetta að það yrði svo mikill sparnaður fyrir útgerðina. Reynslan hefur líka orðið sú að það hefur komið fram.

Núna teljast þeir menn vondir menn vegna þess að þeir hafi ekki áttað sig á því að það sé kvóti í landi, þeir eigi að dreifa aflanum o.s.frv., taka ekki aflann á þeim tíma sem hagkvæmast er fyrir skipið að sækja hann. En því miður hefur reynslan orðið sú að menn hafa, eins og við Breiðafjörð, tekið mikinn fisk í mars og apríl, meginhluta kvóta síns. Þeir eru þó flestir - og allir held ég sem eru með einhvern kvóta að ráði ef hægt er að segja sem svo - svo ábyrgir að þeir geyma alltaf eitthvað til haustsins. En kvótinn var búinn upp úr páskum við Breiðafjörð þrátt fyrir mánaðarverkfall. Óskaplega var mikið atvinnuöryggi í því. Síðan fóru skip þar ekki á sjó fyrr en í október-nóvember. Þetta var atvinnutryggingin í þessu kerfi. Víðar um landið er þetta nákvæmlega á sama máta.

Fjórði punkturinn er að það sé hvati í stjórnkerfinu til bættrar meðferðar og aukinnar verðmætasköpunar. Þetta er það sem hæstv. ráðherra hefur notað sem sitt aðaltromp og jafnvel fengið Þjóðhagsstofnun til að reikna út fyrir sig þennan ofsalega gróða af auknum gæðum í sambandi við fiskveiðistjórnunina. Hver skyldi vera reynslan? Reynslan er alls ekki sú sem hæstv. ráðherra er að segja. Reynslan er sú að í mörgum tilfellum höfum við tapað háum upphæðum á kvótanum. Við höfum tapað ótrúlega miklum upphæðum yfir sumarmánuðina á því hve miklu af fiski hefur verið landað á stuttum tíma og fiskvinnslustöðvarnar ekki haft undan að vinna hann. En meginhluti þess sem fer inn í fiskvinnslustöðvarnar hefur verið metinn sem fyrsta flokks vara. Eyðileggingin hefur ekki átt sér stað í skipunum sjálfum. Það hefur verið hægt að reikna mikinn gróða og góða útkomu af skipunum og Þjóðhagsstofnun og ráðherra hafa fengið fínar tölur út úr því. En fyrir þjóðarbúið hefur þetta komið út á allt, allt annan máta. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm. hvernig þetta hefur verið bæði þessi sumur, hve mikill afli hefur borist að landi næstum hringinn í kringum landið í júlí-ágúst og allan þann skaða sem við höfum orðið fyrir í sambandi við það.

Hins vegar er viðurkennt að gæðaútreikningurinn, sem hefur verið bent á í sambandi við vertíðarfiskinn, hefur því miður verið meira og minna á þann veg að allt of mikið hefur verið um að vondi fiskurinn hefur ekki komið að landi. Það er til viðbótar við þann afla sem ég var að nefna áðan að væri hætta á að væri ofsókn í stofninn. Til viðbótar við það sem ég hef nefnt áður kemur það sem kastað er vegna þess hve það er lélegur fiskur.

Vigtarmenn á höfnunum við Snæfellsnes og víðar sögðu mér að á s.l. vetri hafi það verið nokkurn veginn öruggt mál að á hverjum mánudegi, þ.e. eftir helgarfrí, hafi besti fiskurinn komið að landi. Bátarnir komu ekki með meiri afla eftir helgina en kom daginn eftir, þriðjudag, eða hafði komið að landi á föstudag. Þrátt fyrir að fiskurinn væri tveggja nátta var hann ekki verri og ekki kom meiri fiskur að landi. Það skýrir ekkert betur en þetta hvað hefur verið að ske á miðunum. Það gefur auga leið að það hlýtur að koma betra mat út úr þessu. Þjóðhagsstofnun getur reiknað að þarna hafi átt sér stað gróði. En er ekki vafasamur gróði fyrir þjóðfélagið að vinna þannig og byggja upp kerfi sem kallar raunverulega á slíkt?

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að á netaveiðum mun nokkuð hafa verið um það að menn hafi fækkað netum. Menn gerðu það út af því að þeir voru með ákveðið aflamagn og vissu hvað þeir máttu sækja. Það er hvati í kerfinu til þess. Sjálfsagt hefur verið farið með minna af netum en áður. Ég ætla ekki að bera á móti því að þar hafi einhver gróði verið, en tapið sem skapaðist á hinn veginn er enn þá meira. En það er erfitt að stilla því upp og ég efast um að Þjóðhagsstofnun fengist til þess að gera það, jafnvel þó að ég væri ráðherrann og bæði hana um að reikna þann þáttinn.

Fimmti þátturinn er að hvati sé til lækkunar tilkostnaðar. Það sem ég nefndi um netin er lækkun tilkostnaðar. Mér er aftur á móti sagt að t.d. á togaraflotanum hafi menn ekki orðið varir við að átt hafi sér stað nein breyting á tilkostnaði. Ef við ætlum að fara að gera mikið úr því að átt hafi sér stað stórmerki þótt nokkuð hafi fækkað þorskanetum held ég að það sé aðeins verið að blekkja sig.

Sjötti punkturinn er að það sé stöðug þjónusta við markaði. Það er nú það. Ég held að þetta kerfi verki alveg öfugt við það skrapdaga- og tegundakerfi, sem var í gildi áður og lagt hefur verið til að taki gildi, hvað það snertir að sinna mörkuðum. Aflinn hrúgast upp, eins og hefur skeð á undanförnum árum, fyrst og fremst á fjórum mánuðum ársins, mars og apríl, júlí og ágúst. Það gefur auga leið að það gerir það að verkum að mjög hætt er við því að þessi vara verði ekki eins góð markaðsvara og annars gæti orðið. Það er ekki þjónusta við markaðina að vinna þannig að sú vara sem við bjóðum til kaups sé ekki eins góð og mögulegt er.

Og svo er það að það sé lágmarksskerðing á athafnafrelsi. Hvernig skyldi þetta kerfi hafa komið út gagnvart því? Ég held að varla sé hægt að finna upp flóknara og betur úthugsað kerfi til þess að hafa áhrif á hvert handtak hvers fiskimanns en kerfi eins og þetta. Þannig vaktar það hvert starf. Það er skammtað hvað menn mega fiska mikið. Það finnst með því hvernig þeir sækja fiskinn. Þeir eru raunverulega bundnir því að nýta kosti þess, ef hægt er að kalla það kosti, að sækja fiskinn þegar ódýrast er að sækja hann. Menn eru þannig sumir hverjir þvingaðir inn á ákveðin löng atvinnuleysistímabil. Það er þá athafnafrelsi að vera bundinn slíku skipulagi

Því hefur verið haldið fram að þetta kerfi tryggði að ekki ætti sér stað mismunun, þetta byggðist á ákveðinni reynslu o.s.frv. M.a. hafa menn látið í það skína að þetta væri rétt skipting á milli báta- og togaraflota. Hvernig skyldi reynslan vera þar? Reynslan er sú að á árinu 1984 fer togaraafli í fyrsta skipti yfir helming þorskaflans. Hann fer upp í 53%, en var 49% 1983 og 43% 1982. Þróunin er sú að leitast er við að draga aflann frá bátaflotanum yfir á togaraflotann. Þetta er kannske ekki alvarleg þróun í sjálfu sér. Ég ætla ekki að fara að dæma um hvort betra sé að sækja fisk á bátum eða togurum. En þetta er samt vísbending um að þetta kerfi býður upp á slíka tilfærslu.

Hvernig skyldi hafa tekist til undir þessari fiskveiðistjórn sem allmikið hefur verið talað um að væri gæðahvetjandi? Hvernig skyldi hafa tekist til með að fá aukið og bætt hráefni út úr þeim afla sem að landi hefur borist t.d. á Suðurlandi? Ég er því miður ekki með alveg nákvæmar tölur, en það gildir einu. Saltfiskur á Suðurlandi - þ.e. svæðið frá Þorlákshöfn austur um að Höfn, með Höfn - þar er meginhlutinn af fiskinum stór fiskur, 10-30 sem kallað er, verðmætasti þorskur sem dreginn er að landi á Íslandi. Hvernig skyldi Sunnlendingum hafa tekist að verka sinn saltfisk á síðustu vertíð og skapa úr honum verðmæti? Hvað skyldu þeir hafa fengið mikið í 1. flokk af þessum stóra fiski, verðmætasta fiski sem við sendum á Spánar-, Portúgals- eða Ítalíumarkað? Það fara 16% í 1. flokk.

Svo glæsilegt er það nú. Nokkru meira fer í 2. flokk, u.þ.b. 24%. Í 1. og 2. flokk fara því 40%. Það er glæsileg fiskveiðistjórnun sem sýnir þessa útkomu. Hún er glæsileg á þessu svæði. Þarna voru engir vondir Snæfellingar eða Breiðfirðingar að moka fiski á land. Staðreyndin er sú, sem við getum skotið hér að, að matið er betra á Snæfellsnesi en þetta.

En þannig er fiskveiðistjórnunin á Íslandi. Úr besta hráefninu okkar, stórfiskinum fyrir Suðurlandi, skilum við 40% af aflanum í 1. og 2. flokk. Verðmætisþátturinn er sá að þeir fá á þessu svæði 443 millj. fyrir saltfiskinn sinn. Ef hann færi í 1. flokk fengju þeir 551 millj., 24% meira. Þeir fengju togaraverð ef betur væri haldið utan um þennan afla.

Á hvað kallar fiskveiðistjórnun af þessu tagi? Hún er einskis nýt, alls ekki. Það er meira og minna þannig í íslenskum sjávarútvegi að alls konar reglur eru settar upp og síðan er ekki gert meira. Og menn segja og setja upp sérstakan andlitssvip: Ég trúi því ekki að íslenskur fiskimaður komi með lélegan afla að landi, hvað þá að ég trúi því að hann kasti fiski. Það er ekkert fylgst með þessu, en það er búið til kerfi og það er í notkun kerfi sem kallar á slík vinnubrögð. Í megindráttum er þessu þannig varið að komið er með afla við þær aðstæður að fiskvinnslustöðvarnar hafa ekki möguleika á að skila honum unnum frá sér. Það er engin skipulagning milli veiða og vinnslu. Það er ekki reynt að koma henni á. Það kerfi sem við búum við kallar á öfugþróun hvað skipulag snertir.

Það er greinilegt að ég gæti talað miklu lengur, en ég veit að þeir eru margir sem vilja taka þátt í umræðunni. Ég á alveg eftir að benda á allar þær tillögur sem fluttar hafa verið um þessi mál og eru öðruvísi en þær tillögur sem verið er að ræða um. Ég hefði gjarnan viljað taka mér tíma og ræða um tillögur Vestfirðinga, tala um tillögur Farmanna- og fiskimannasambandsins, tala um tillögur sem ég lét birta og birti í blöðum og lagði fyrir minn þingflokk og fleiri tillögur um ýmsar leiðir sem eru allt öðruvísi og betri en þær sem hér er lagt til að verði samþykktar. Ég sé að ef ég færi út í það mundi tími annarra ræðumanna verða frekar lítill þannig að ég geymi mér það til 2. umr. og mun að einhverju leyti reyna að koma því fyrir í mínu nál. En ég vænti þess að við reynum að nýta þann litla tíma sem við höfum í sjútvn. til að reyna að laga þetta frv., reyna að ná af því einhverjum agnúunum og gera það þannig að stærstu gallar sem á því eru verði numdir burtu.

Áður en ég fer úr ræðustólnum vil ég nefna aðalpuntið sem hæstv. sjútvrh. hefur nefnt í sambandi við þetta frv. Það er sóknarmarkið og það mikla frelsi sem boðið er upp á á íslenskum fiskiskipum að geta valið á milli aflamarks og sóknarmarks. Ja, mikil eru nú ósköpin! Sóknarmarkið er þannig, eins og hæstv. ráðh. hefur bent á, að menn geta valið sér sóknarmark hvort sem þeir vilja velja það út frá sínu fyrra aflamarki eða meðalafla plús 20% af þorski. Þeir mega sem sagt veiða 20% fram yfir þorskkvótann sinn. Svo mega þeir veiða eins og þeir vilja af ýsu og öðrum fisktegundum. Þetta er hægt að bjóða ákveðnum landshlutum upp á en það er ekkert frelsi í þessu. Það er hægt að segja við Snæfellinga: Fáið ykkur sóknarmark. Það er hægt að segja við Vestfirðinga: Takið ykkur sóknarmark. Hvar eiga þeir að taka ýsuna? Hvar eiga þeir að taka ufsann? Þessi svæði og nokkur önnur svæði landsins eru þannig að ef á að gera skipin út frá heimahöfn er ekki um það að ræða að taka sóknarmark og afla annarra fisktegunda en þorsks. Það er algjör blekking að um eitthvert frelsi sé að ræða. Það er verið að gefa ákveðnum landshlutum frelsi. Og það er því miður verið að gefa ákveðnum aðilum möguleika til þess að plata kerfið eins og ég var að tala um áðan. Við höfum heyrt um að stundum sé verið að landa sóknarmarksýsu, en hún sé bara helvíti gul stundum. Það er hægt að veiða upp í þorskkvótann sinn og landa síðan öðru og kalla það ufsa eða ýsu. Það er ósköp auðvelt. Sóknarmarkið verður fyrst og fremst til þess að opna fyrir slíkt. Þetta kalla ég ekki að bjóða upp á frelsi. Það er líka verið að bjóða upp á annað. Það er verið að miða við þau svæði sem höfðu takmarkaðan þorskkvóta vegna þess að þorskurinn hafði haft lítið fyrir því að vera þar á miðum. Það er nú þannig við strendur Íslands að dálítið breytilegt er hvar fiskstofnarnir halda sig. Þorskurinn er mikið fyrir norðan og vestan. Stundum kemur hann suður fyrir, en meginhluta ársins heldur hann sig á hinum slóðunum.

Hvað þýðir það ef ákveðinn hluti fiskiskipaflotans getur byggt sig upp með nýja reynslu og nýjan kvóta? Það þýðir að verið er að taka þorskkvótann frá öðrum. Það er verið að færa á milli. Það er verið að búa til ranglæti. Þetta kerfi er þannig byggt upp að það er ekki hægt að veita neinum betri hlut nema taka hann frá öðrum. Svo er verið að tala um að sóknarmarkið muni gefa einhverjum tækifæri til að byggja sig upp með nýja reynslu. Það er það sama og að taka aflann frá öðrum. Og frá hverjum þegar fyrst og fremst er um þorskinn að ræða? Vitaskuld frá þeim sem fyrst og fremst verða að byggja sína afkomu á þorskveiðum.

Sóknarmarksframboðið er jafnvel svartasti og ljótasti bletturinn á þessu frv. af því að það býður upp á þennan þátt. Að halda því við er ekki til annars en að færa reynsluna frá þeim þremur árum sem miðað er við og möguleika þorskveiðisvæðanna yfir á önnur svæði sem í eðli sínu eiga ekki neinn rétt á því.

Einhver nefndi það í sambandi við síldina að menn væru yfirleitt ánægðir með síldarkvótann. Það skal ég viðurkenna. Það er allt, allt annað að veiða torfufisk og eftir þeim reglum sem beitt er bæði í sambandi við loðnu og síld. En hvað skyldi verða sagt ef tekinn yrði upp kvóti sem byggðist á því að hægt væri að taka þann möguleika Austfirðinga að nýta síldina, sem er þar fyrir utan, með einhverju tilfærslukerfi eins og sóknarmarkinu sem hæstv. ráðherra er að guma af? Ég er hræddur um að það yrði skrýtið og ekkert réttlæti í því heldur. En væri e.t.v. ekki réttlæti í því að lofa Norðlendingum að veiða pínulítið af síld, t.d. í septembermánuði? Hvernig í ósköpunum stendur á því að það er aldrei leyft að veiða síld fyrr en kemur fram í október og síldin er komin austur fyrir Langanes?

Það eru ýmsir þættir sem má nefna á þennan máta. Ég hefði haft áhuga fyrir því að fjalla um ýmsar leiðir sem hægt er að benda á og eru betri en það kerfi sem við erum að ræða um hér, en ég læt það bíða 2. umr. og umfjöllunar í sjútvn.